18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af orðum hæstv. fjmrh. í sambandi við ákvæðin til bráðabirgða, þar sem við gerum ráð fyrir, að þau falli niður. Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, eins og kom fram, að þetta verði ákveðið með reglugerð, og mín skoðun var sú, að þegar sú reglugerð yrði samin, yrði að sjálfsögðu tekið tillit til þess, sem gert er ráð fyrir í þessu ákvæði, þeir embættismenn nytu áfram sömu fríðinda á meðan þeir væru í húsnæðinu. Það kom fram, svo að ég vitni nú aftur í viðræðurnar við stjórn Prestafélagsins, það kom fram hjá þeim, að þeir höfðu þennan skilning á þessu, og þeir töldu, að þau hlunnindi hefðu verið metin þeim til launa samkv. úrskurði kjaradóms, og þeir töldu sig, ef þessu yrði breytt, verða fyrir launaskerðingu. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta. Við töldum aðeins eðlilegt, að þessi ákvæði til bráðabirgða féllu niður og þeir nytu áfram þessara fríðinda, á meðan þeir sætu í embættinu.