16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég er efnislega algjörlega sammála þeirri stefnu, sem felst í þessu frv., að ríkið leggi ekki starfsmönnum sínum til íbúðarhúsnæði, nema því aðeins, að þeir gegni störfum í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera slíkt nauðsynlegt. Það er alkunna, að lögin um embættisbústaði hafa lengi verið úrelt með öllu; það embættismannabústaðakerfi, sem í lögunum felst, er ekki í neinu samræmi lengur við sjálfan embættismannahópinn í þjóðfélaginu, og auk þess hafa þessi lagaákvæði stuðlað að ýmiss konar misnotkun, eins og allir þekkja. Ýmsir gæðingar í hópi embættismanna hafa getað notað þessi lög til þess ýmist að selja ríkinu fasteignir eða kaupa fasteignir af ríkinu út frá einkahagsmunum sínum, og ég held, að eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, eigi það að vera hin almenna regla, að embættismenn ríkisins sjái sér fyrir húsnæði eins og aðrir þegnar. Hins vegar gegnir öðru máli um staði í þeim landshlutum, þar sem sérstakir staðhættir gera það nauðsynlegt, að ríkið greiði fyrir embættismönnum. Hins vegar er á þessu frv. mjög einkennilegur smíðagalli, sem ég hef flutt till. um, að sniðinn verði af. Í 10. gr. frv. er einn einasti embættismaður ríkisins undanþeginn þessum lögum og það er biskupinn yfir Íslandi. Samkv. þessu frv. á hann einn að njóta þess að hafa embættisbústað í Reykjavík á kostnað ríkissjóðs, og ég fæ ekki með nokkru móti skilið, hvers vegna þessi háttur er á hafður. Þegar þetta frv. var afgreitt í Ed., voru dm. þar m.a. s. svo strangir, hvað þetta atriði snertir, að þeir gerðu breytingu á frv. til þess að koma í veg fyrir, að æðsti embættismaður þjóðarinnar, forseti Íslands, gæti haft nokkra aðstöðu í Reykjavík. Í frv., eins og það var lagt fram, var það tekið fram, að embættissetur forseta Íslands væri undanþegið, en Ed.-mönnum þótti ekki nóg að gert, heldur vildu að það væri tekið fram, að þarna væri átt við embættissetur forseta Íslands á Bessastöðum. Ástæðan var, sem kunnugt er, sú, að forseti Íslands lét þess getið í síðustu áramótaræðu sinni, að hann teldi, að það gæti verið þægilegt fyrir forseta Íslands að hafa eitthvert afdrep í Reykjavík, en Ed.-menn voru sem sagt svo strangir á ákvæðum þessa frv., að þeir töldu nauðsynlegt, að orðalagið á lögunum væri slíkt að það væri tryggilega frá því gengið, að forseti Íslands gæti ekki fengið slíka aðstöðu í Reykjavík. Engu að síður stendur það enn þarna, að biskupinn skuli hafa þessa aðstöðu, og ég segi enn, mér er þetta gjörsamlega óskiljanlegt.

Í Ed. var borin fram brtt. um, að þessi undanþága fyrir biskupsembættið yrði felld niður; hún var flutt af þm. úr þrem flokkum, en samt vildi svo undarlega til, að hún var felld með miklum meiri hl. atkv. Ég geri ráð fyrir, að ástæðan sé sú, að þm. hafi þótt óþægilegt að fella þetta ákvæði niður, fyrst það af einhverjum undarlegum ástæðum villtist inn í frv. sjálft, að þeir hafi talið, að með því væri eitthvað verið að vanrækja tilhlýðilega virðingu við biskupsembættið, en auðvitað er slíkt algjör misskilningur. Samt urðu málalok þessarar till. í Ed. til þess, að ég hef ekki tekið hana upp hér, vegna þess að ég taldi litlar vonir til þess, að hún yrði samþykkt. Ég legg hins vegar til að þessi undarlegi smíðagalli verði leiðréttur með öðru móti. Ég legg til, að í stað „biskupsbústaðar í Reykjavík“, sem stendur í 10. gr., komi: biskupsbústaðar í Skálholti. Í því felst, að ef þjóðkirkjan ákveður að hafa biskup sinn í Skálholti, skuli bústaður hans undanþeginn almennum ákvæðum þessara laga og njóta sömu sérstöðu og forsetabústaðurinn á Bessastöðum og bústaðir íslenzkra sendiherra erlendis. Þar með væri það orðið eðlilegt embættisbústaðakerfi, sem felst í þessum lögum, og þessi undarlegi smíðagalli væri sniðinn af.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þjóðkirkjan beitti sér um skeið mjög fyrir því, að Skálholt yrði endurreist, og þá var notað sem aðalröksemd, að þar ætti að vera biskupsbústaður. Sá maður, sem færði öflugust rök fyrir því og hóf fyrir því mjög harða baráttu, var séra Sigurbjörn Einarsson, sem nú gegnir biskupsembætti á Íslandi. Hann beitti sér fyrir samtökum til þess að berjast fyrir endurreisn biskupsstóls í Skálholti, og hann átti mjög ríkan þátt í því, að Alþingi lagði fram verulega fjármuni til þess að endurreisa Skálholt, koma þar upp mikilli kirkju og íbúðarhúsnæði, sem hver biskup væri fullsæmdur af. Hins vegar hefur þetta farið svo einkennilega,að biskupinn hefur ekki flutt í þetta íbúðarhúsnæði í Skálholti, og eins og allir vita, eru menn í miklum vandræðum með það, hvað gera skuli við hin ágætu mannvirki á staðnum. Ég tel því, að með tilhögun, eins og ég hef lagt til í þessari brtt., væri þjóðkirkjunni og biskupsembættinu sýndur fullur sómi. Hins vegar mundi það að sjálfsögðu ekki felast í því, þó þessi brtt. yrði samþ., að biskupinn yrði að flytjast í Skálholt; það er ekki verið að leggja hér til neins konar sveitarflutninga; ef þjóðkirkjan vill hafa biskup sinn í Reykjavík áfram, þá er henni það að sjálfsögðu heimilt, en þá yrði sá embættismaður, á sama hátt og aðrir embættismenn, að sjá sér sjálfur fyrir húsnæði.