16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á þessa aths. hæstv. ráðh. Í 10. gr. stendur að l. í heild taki ekki til þeirra bústaða, sem þar eru taldir upp. Þar er ekki aðeins átt við þau ákvæði, sem eru í 2. gr., heldur öll ákvæði l., og þarna eru taldir upp embættissetur forseta Íslands, biskupsbústaður í Reykjavík og bústaðir sendiherra Íslands erlendis. Þarna eru tekin út úr nokkur embætti, sem ætlunin er að gera sérstaklega við, og ég fæ ekki betur séð en að till. mín sé í fullu samræmi við uppbyggingu laganna. En ástæðuna til þess, að ég hafði þennan hátt á, skýrði ég út áðan. Það virtist vera einhver undarleg viðkvæmni hjá hv. þm. fyrir því að leiðrétta málið á þann hátt, sem gert var ráð fyrir í Ed., en ég vænti þess, að þannig sé gengið frá þeirri till., sem ég flyt hér, að menn geti samþ. hana, án þess að þeir telji, að þeir séu að sýna biskupsembættinu einhverja óvirðingu með því.