16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara út í neinar bollaleggingar um það, hvort biskupinn yfir Íslandi eigi fremur að sitja í Skálholti eða hér í Reykjavík. Ég viðurkenni það, að ég mundi telja það mikinn vegsauka fyrir hinn fornhelga stað, ef aftur kæmi biskup í Skálholti. En það telja líka margir mikinn vegsauka fyrir Þingvöll, ef Alþ. yrði flutt þangað. Það hafa verið bornar fram till. hér á Alþ., sem ganga í þá átt að flytja þingið aftur til Þingvalla. En ég efast alveg um, að úr þessu verði, bæði því að biskupinum verði ætlað að sitja í Skálholti, sem og hinu, að Alþingi okkar Íslendinga verði flutt til Þingvalla. Það eru allt aðrar aðstæður í okkar þjóðfélagi í dag heldur en voru, þegar þing var sett hér á landi og þegar biskupsstólar voru settir. Það var gjörsamlega allt annað þjóðfélag, sem við bjuggum við þá. Og ég efa það mjög, að það sé meirihlutafylgi fyrir því meðal íslenzku þjóðarinnar, að biskupinn yfir Íslandi verði fluttur héðan úr Reykjavík til Skálholts, sem og það, að ég efast um, að það sé nokkur meiri hl. fyrir því meðal þjóðarinnar, að Alþingi verði flutt til Þingvalla. Hitt er svo annað mál, sem um hefur verið talað, að það sé ekki ástæðulaust, að biskupum verði fjölgað á Íslandi. Þeir voru tveir um aldaskeið, meðan þessi þjóð var miklu fámennari en hún er í dag, og þá finnst mér, að það gæti vel komið til mála, að biskupsstólar yrðu endurreistir bæði í Skálholti og á Hólum í Hjaltadal.

Ég tek undir það með hæstv. fjmrh.,að mér sýnist þessi till. hv. 6. þm. Reykv. vera út í hött, ástæðulaus, því að þó svo fari, að biskup verði fluttur að Skálholti, og það verði ákvarðað af Alþingi Íslendinga, að biskupssetur skuli vera þar, þá kemur það ekki til samkv. þessum lögum eða þessu frv., sem hér er verið um að ræða, að embættisbústaður hans verði seldur. Þess vegna sé ég ekki neina ástæðu til þess fyrir hv. d. að ljá þessari till. fylgi.