16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Um þetta frv. vil ég segja það, að það hefur bæði kost og galla. Ég er fylgjandi þeirri stefnu frv. að takmarka það, hvar embættisbústaðir skuli reistir. Ég álít, að það hafi verið gengið of langt í því að reisa embættisbústaði, og það á ekki að reisa embættisbústaði, þar sem gott er að fá leiguhúsnæði og gott er að selja húsnæði. Og það er enginn vafi á því, að ríkið hefur með embættisbústaðabyggingum á síðari árum gengið of langt um framkvæmd þeirra og það svo, að hefur haft veruleg áhrif í uppbyggingu á húsnæði hér á landi, a.m.k. í mörgum byggðarlögum hefur það einmitt valdið því, að húsnæði hafa verið byggð meiri að gerð heldur en ella hefði verið. Þess vegna álít ég, að það sé nauðsyn að setja löggjöf um embættisbústaði yfirleitt og get líka fallizt á þá stefnu, að það eigi að vera heildarlöggjöf um embættisbústaðina. En þeir annmarkar, sem ég sé á þessu frv., eru þeir sömu sem mér finnst að hafi einkennt löggjöf síðari ára og þó sérstaklega verið áberandi í sambandi við frv., sem hafa verið til meðferðar hér á hv. Alþ. í vetur, sem sé það, að ríkisstj. og hæstv. ráðh. er gefið óeðlilega mikið vald með reglugerðum til þess að framkvæma það, sem löggjafinn er að fást við. Þess vegna finnst mér það galli á þessari löggjöf, að það skuli ekki vera kveðið á um, hver þau svæði eru, þar sem embættisbústaði á ekki að byggja, og í öðru lagi, hver þau svæði eru, þar sem embættisbústaði á að reisa. Það mundi svo standa eftir sem áður, að það mundi hvorki vera hægt að byggja embættisbústað eða kaupa embættisbústað, nema fé sé veitt til á fjárl. Svo hefur það verið og svo yrði það að vera, vegna þess að ríkið er ekki bundið við málið, fyrr en til fjárveitinga kæmi.

En í sambandi við frv., eins og það liggur nú fyrir og horfur eru á, að það muni ganga í gegnum hv. Alþ., er gert ráð fyrir að fella úr lögum þau ákvæði um embættisbústaði, sem nú eru gildandi. Í því sambandi vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig yrði framkvæmd með embættisbústaði, eftir að þessi lög tækju gildi. Nú er það t.d. svo með bústaði fyrir héraðslækna, að þar greiðir ríkið nú að 2/3. Eftir að þetta ákvæði væri úr l., hver yrði þá þátttaka ríkisins í embættisbústað héraðslækna eða greiddi ríkið þá það að öllu leyti? Til skólastjóraíbúða, t.d. við heimavistarskóla, hefur það verið 3/4. Mundi það verða hér eftir að öllu leyti? Hins vegar hefur það verið svo með embættisbústaði presta, sýslumanna og bæjarfógeta og dýralækna, að ríkið hefur greitt þá að öllu leyti. Þess vegna er það mín fsp: Ef þetta frv. verður að l., ber þá að skilja ákvæðið þannig, að ríkið greiði að öllu leyti kostnaðinn við þá embættisbústaði, sem hér eftir yrðu byggðir eða keyptir? Þetta væri nauðsynlegt að fá upplýst. Eg held hins vegar, að það beri mjög lítið á milli t.d. hæstv. fjmrh. og hv. 5. þm. Austf. Það, sem ber á milli, sé ekki annað heldur en það að vilja fá inn í löggjöfina ákvæðið um skiptinguna og framkvæmdina, að framkvæmdin verði bundin í lögum, og eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. tók fram, er málið þannig að það mundi verða auðvelt að ná samstöðu um það hér á hv. Alþ., ef einhver tími væri til að fjalla um það frekar. Þess vegna mundi það ekki skaða málið á neinn hátt, þótt það hefði ekki gengið í gegn á þessu þingi og reynt yrði að vinna sameiginlega af Alþ. að heildarlöggjöf um þennan málaflokk, sem ég tel nauðsyn að setja heildarlöggjöf um, og ég er fylgjandi þeirri stefnu, að aðhald verði af ríkisins hálfu í sambandi við embættisbústaði.