30.11.1967
Efri deild: 27. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

19. mál, lögræði

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar og mælir n. með því, að frv. sé samþ. óbreytt, eins og fram kemur í nál. á þskj. 96. Þetta frv. er í rauninni fylgifrv. með frv. um breytingu á stjórnarskránni, þar sem ætlunin er að færa kosningaraldurinn úr 21 ári niður í 20 ár, og n. sú, sem hafði það mál til athugunar á sínum tíma, athugaði einnig, hvort ekki væri rétt að breyta öðrum aldursmörkum, sem réttindi unga fólksins hafa miðazt við, og hefur sú stefna, eins og kunnugt er, verið upp tekin að færa öll slík aldursmörk, sem voru miðuð við 21 ár, niður í 20, og verður það að teljast eðlilegt. En í þessu frv. er fjallað um lögræðisaldurinn eða að menn verði fjárráða tvítugir í staðinn fyrir 21 árs og aðrar breytingar felast ekki í þessu frv., sem hér liggur fyrir.