23.11.1967
Efri deild: 19. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2202)

58. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Með flutningi á frv. til l. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, nr. 75 frá 13. maí 1966, vil ég leggja til, að við sjóðinn verði stofnuð tæknideild.

Þetta er nýtt svið, sem fitjað er hér upp á, en margir fiskiskipakaupendur hafa mjög oft lent í vanda með að velja um tæki í skip sín vegna þeirrar öru þróunar, sem verið hefur undanfarin ár í þessum efnum. Íslenzkir útgerðarmenn hafa verið mjög vakandi um að fylgjast með í tækniþróun veiðitækja, en það er ofvaxið flestum eða öllum að geta dæmt réttilega um gildi allra þeirra tegunda, sem í boði eru. Hér er um háþróuð og nákvæm tæki að ræða, sem sannarlega þarf sérþekkingu til að meta vel og ýkjulaust. Á hinn bóginn er það alkunna, að sölumenn og umboðsmenn eru ákafir við sölu vara sinna og nota til þess ýmisleg orð, sem er ekki alltaf víst að séu í fullu samræmi við sannleikann um gæði og reynslu. Notendur hér fá einnig mjög misjafnlega þjónustu, og það er ekki óalgengt, að umboðsmaður tækis þekki sjálfur sáralítið eða jafnvel ekkert til á því sviði, sem tækið á að vinna á.

Það er alkunna, að íslenzkir skipstjórnarmenn hafa verið furðulagnir á að notfæra sér gildi flestra hinna nýju veiðitækja. Engu að síður hafa átt sér stað mjög alvarleg mistök um val tækis eða tækja, sem kostað hafa viðkomandi stórfé og vandræði, sem aftur hafa leitt til vanskila og erfiðleika, sem annars hefðu ekki komið til, ef val og frágangur hefðu verið eins og bezt átti að vera. Ég gæti nefnt um þetta alvarleg dæmi, en tel það ekki rétt á þessu stigi. Hitt á að vera öllum ljóst, að það er mannlegt að skjátlast, en það á að læra af reynslunni og forðast að halda áfram að gera svona mistök ár eftir ár. Þegar það er haft í huga, að í langflestum tilfellum verða kaupendur eða útgerðin að bera tjónið af eigin rammleik, verður það að teljast eðlilegt, að eitthvað sé gert til þess að afstýra slíku.

Nú má segja, að allt slíkt ætti að vera í höndum einkaaðilanna sjálfra, en þegar það er haft í huga, að verðmæti hinna ýmsu tækja í nútímafiskiskipi nálgast 10–12 milljónir, er eðlilegt, að aðallánastofnun skipanna hafi hönd í bagga með ráðleggingu um val, þótt hún ákveði ekki upp á einsdæmi valið til þess að baka sér ekki neina kvöð. Hér yrði sem sagt um aðstoð við val að ræða, byggða á hlutlausum upplýsingum um gildi, verð og reynslu. Margoft hafa útvegsmenn og skipstjórnarmenn látið í ljós von um slíka aðstoð, en ekki fengið áheyrn. Á sínum tíma réð þó Fiskifélag Íslands vélfræðiráðunaut, sem að flestra eða allra dómi gerði mikið gagn við val og útbúnað véla. Þessi starfsemi lá niðri í mörg ár, en hefur verið tekin upp af Fiskifélagi Íslands, en nú í breyttu formi, þ.e.a.s. þeir hafa nú rafmagnsverkfræðing, er gefur upplýsingar og leiðbeiningar um ýmisleg rafeindatæki í skipunum. Enginn vélfræðingur er nú til þjónustu, svo að ég viti.

Fiskveiðasjóður hefur eftir lagabreyt., sem í upphafi var vitnað til, fengið nýja stjórn, og hafa núverandi stjórnarmenn sýnt þessu máli meiri áhuga og fundið í starfi sínu vel fyrir vandræðum þeim, sem af mistökum við val tækja hefur leitt yfir suma útvegsmenn, og þörf fyrir svona tækniþjónustu og leitað til einkaaðila um aðstoð. Það út af fyrir sig er lofsvert, en ég tel það hvergi nærri fullnægjandi. Fiskveiðasjóður hefur ekki skipt sér af tækja- eða vélakaupum í fiskiskipin, en ég tel, að það skipti sjóðinn miklu máli, að vel takist til um allt í skipið, svo að rekstur þess verði sem öruggastur og bilanir verði í lágmarki. Það mun stuðla að betri skilum á öllum skuldbindingum útvegsmanna við sjóðinn, og ekki mun af veita, því að óhemjuskuldir eru nú við Fiskveiðasjóð Íslands. Þeir einkaaðilar sem stjórn fiskveiðasjóðs hefur nú haft samráð við um skipakaupin, hafa farið yfir gerða samninga og bent á, hvað betur mætti fara við útbúnað og frágang í væntanlegu skipi. Ekki veit ég, hvort þeir hafa verulega athugað um verð eða gert sérstaka athugun á kostnaðarliðum hinna ýmsu tækja, en slíkt er einnig nauðsynlegt að mínu áliti til þess að komast að sem beztri niðurstöðu um val og gildi tækjanna.

Það er ætlun mín með flutningi þessa frv., að tæknideild verði sett á stofn við Fiskveiðasjóð Íslands. Tilgangurinn á að vera margvíslegur, en fyrst og fremst skal hann safna gögnum um reynslu tækja, er keypt eru í fiskiskipin og togarana, og halda verðskrá um þau efni. Hér þarf að koma á fót föstu kerfi með upplýsingum í þessu skyni og hafa þær jafnan tiltækar, er væntanlegur kaupandi skips kemur til viðræðna við forstjóra fiskveiðasjóðs um lán og möguleika um kaup á nýju skipi. Þetta er alger stefnubreyting um undirbúning á kaupum á fiskiskipi. Venjulega hafa kaupendur farið beint í einhvern umboðsmann og óskað eftir því, að hann útvegaði skip af einhverri vissri stærð og með svo og svo miklum útbúnaði. Þetta hefur umboðsmaður tekið að sér að gera og raðað í skipin, stundum í samkomulagi við væntanlegan kaupanda, stundum jafnvel ekki. Verðið hefur verið samkomulagsatriði og það sýnir sig mjög alvarlega, að verð á tonn í fiskiskipunum er afar misjafnt og undarlega hátt í sumum tilfeilum. Einnig hefur það þráfaldlega komið fyrir, að mjög háir aukareikningar hafa komið fram við lokauppgjör í skipasmíðastöðinni, og þá er ekki annað að gera fyrir fiskveiðasjóð en að samþykkja aukalán, því að ella væri skipið ekki leyst út. Alla aukareikninga þarf að afnema, því að það er staðreynd, að margar skipasmíðastöðvar bjóða mjög hagstæða samninga í upphafi, en ekki nægilega vel útfærða fyrir okkar kröfur, en bæta síðan aukareikningum við eftir beiðni kaupanda, sem sér, að í samning hefur vantað hitt og þetta, er hann ætlaði með í upphafi. En einmitt á þessum aukareikningum græða stöðvarnar mest, og kaupandi hefur ekki mikla möguleika á að malda í móinn, ef hann vill fá breytingu frá gerðum samningi. Fyrir svona nokkuð þarf að taka og það sem fyrst. Við Íslendingar höfum verið nógu mikil tilraunadýr fyrir erlenda aðila í skipasmíði og meðferð ýmiss konar tækja. Þeim tíma verður að vera lokið, og með stofnun tæknideildar, eins og flm. hugsar sér hana, er stigið verulegt skref, til þess að íslenzkir hagsmunir sitji í fyrirrúmi við útbúnað í veiðiskip okkar, en ekki sölumennska og gróðahyggja erlendra aðila.

Það er alkunna, að ekki mun tækniþróun á sviði rafeindatækja eða annars veiðiútbúnaðar stanza, heldur eru allar líkur á því, að verulegt átak sé framundan einmitt í þessum efnum. Þær fregnir berast nú hingað að Rússar setji óhemjufjármagn í sinn veiðiflota, og eins eru Bandaríkjamenn og Kanadamenn að hefjast handa um stórfelldar endurbætur hjá sér á sínum veiðiflota. Þetta mun hafa í för með sér, að geysilegu fjármagni verður varið til rannsókna og framleiðslu á nýjum tækjum og vélum til fiskveiða af þessum stórþjóðum, og það er lífsspursmál fyrir okkur Íslendinga að geta fylgzt með þeirri þróun, sem er að gerast á þessu sviði hjá öðrum þjóðum, og að við hagnýtum hana eftir beztu getu, að fengnum réttum og hlutlausum upplýsingum um gildi nýjunga á þessu sviði. Hér er óþrjótandi verkefni fyrir tæknimenntaða menn hjá okkur. Þetta starf, þótt kosti nokkur hundruð þús. á ári, mun áreiðanlega gefa margfalt af sér, sé það vel af hendi leyst.

Það er hörmulegt, hvað við setjum lítið fjármagn í tilraunir og athugun á bættri meðferð fisks og tækja til þess að afla hans. Það ætti að vera okkur nokkurt metnaðarmál að leggja fram sæmandi upphæð í því skyni. Nú mun eigið fé fiskveiðasjóðs vera yfir 800 milljónir og næstum allt komið frá útveginum sjálfum. Ekki væri goðgá að hugsa sér, að sjóðsstjórnin fórnaði nú 10/00 — aðeins 10/00 á ári í umrædda starfsemi, eða um 800 þús. kr. af eigin fé sjóðsins Ég er viss um, að sú upphæð, þótt sáralítil sé, mundi skila sér vel til hans aftur í betri afkomu bátaflotans og greiðari greiðslum af lánum. Það er rétt að fara af stað rólega, en markvisst með svona nýbreytni. Ef tæknideildin verður stofnuð, sem ég vænti að hv. þm. taki undir, mun hún einnig geta verið íslenzkum skipasmíðastöðvum til mikillar hjálpar, og ekki mun af veita að rétta þeim margvíslega aðstoð í einni eða annarri mynd. Þær eiga í harðri samkeppni við erlendar stöðvar, sem eru miklu betur búnar að tækni og hafa auk þess aðgang að upplýsingum, sem nauðsynlegar eru til þess að geta tekið sem réttastar ákvarðanir við val efnis og tækja. Hér mundi vera mjög þýðingarmikið verkefni fyrir tæknideild Fiskveiðasjóðs Íslands að vinna fyrir hinn unga iðnað í stálskipasmíði á Íslandi, — verkefni, er ég treysti á, að allir hv. þm. telji nauðsynlegt að framkvæmt verði. Mér er þó ljóst, að með þessu er ekki fengin endanleg lausn á því mikla vandamáli við val og gerð veiðiskipa. En hér er stigið spor fram á við, sem mun örugglega stuðla að betri og hentugri ákvörðunum við val vélbúnaðar og tækja og þá um leið tryggja betri rekstrarútkomu hjá útgerð, en í dag er það einmitt höfuðverkur hæstv. ríkisstj. að leysa úr þeim vanda og jafnframt að tryggja verkefni fyrir skipasmíðastöðvar.

Ég sagði áðan, að rétt væri að fara rólega af stað og gera sér grein fyrir, hvernig bezt er að standa að svona nýbreytni. En eitt af fyrstu verkefnum tæknideildar yrði vafalaust að safna saman yfirliti um vélbúnað og tæki hins íslenzka veiðiflota, en það er hvergi til í dag, einnig að safna saman reynslu um notkun tækjanna, og þegar þetta er komið, á að veita mönnum upplýsingar um, hvernig til hafi tekizt. Mikil endurnýjun tækja á sér stað á hverju ári, og mega allir sjá, að það skiptir máli, að vel takist til einnig þá. Hér gæti tæknideildin komið mönnum vel að liði. Svo er vandamál með útvegun á varahlutum. Í hverju skipi eru hlutir, sem enginn umboðsmaður er fyrir hér á landi, og eins þótt umboðsmaður sé hér fyrir viðkomandi tæki, hefur hann oft og tíðum ekki liggjandi varahluti og tekur mjög oft langan tíma að komast í samband við seljanda varahluta erlendis. Væru fyrir hendi upplýsingar um framleiðanda tækisins frá tæknideildinni, má vænta þess, að allur tími í varahlutaútvegun styttist verulega, ef umboðsmaður er ekki til hér á landi.

Ég vil nú í örstuttu máli skýra frá, hvernig innflutningur á fiskiskipum hefur verið frá 1961.

Árið 1961 komu 7 stálskip, samtals 859 tonn brúttó, á 44 millj. 670 þús. kr. og sama ár 4 eikarskip, samtals 345 t. br., á 19 millj. 308 þús., fiskiskipin 1961 samtals 63 millj. 978 þús. og 1204 rúmlestir. Árið 1962 komu 7 stálskip 1171 t. br. á 53 millj. 764 þús. kr. og 2 eikarskip 285 t. br. á 14 millj. 599 þús., fiskiskipin samtals 1962 á 68 millj. 363 þús. og 1456 rúmlestir. Árið 1963 komu 23 stálskip, samtals 4699 t. br., á 221 millj. 906 þús. og 8 eikarskip, samtals 725 t. br., á 55 milljónir 385 þús., fiskiskipin 1963 á 277 millj. 291 þús. og 5424 rúmlestir. 1964 komu 29 stálskip, samtals 7536 t. br., á 355 millj. 57 þús. kr. og 3 eikarskip 392 t. br., á 25 millj. og 900 þús., fiskiskip samtals 7228 rúmlestir fyrir samtals 381 millj. 475 þús. 1965 komu aðeins 10 stálskip, samtals 2525 tonn, á 116 millj. og ekkert eikarskip. Árið 1966 komu 11 stálskip á 180 millj. 361 þús., samtals 3245 t. br. Og til þessa dags í dag hafa 1967 komið 20 stálskip á 5850 t. br., að verðmæti um 340 milljónir.

Á þessu yfirliti sést, að margir tugir fiskiskipa hafa verið keyptir, án þess að nokkur sérstök aðstoð við kaupin væri fyrir hendi varðandi vélbúnað og tækjaval. Verðmæti skipanna er um 1 milljarður og 430 milljónir. Verður það ekki að teljast eðlilegt að aðstoða menn við val tækja, er nema svo stórum upphæðum?

Ég hef nú drepið á það helzta í sambandi við þýðingu tæknideildar, eins og ég hef hugsað mér, að hún geti orðið. Vafalaust er margt fleira, sem slík deild gæti gert fyrir íslenzka veiðiflotann og íslenzkar skipasmíðastöðvar, en það mun tíminn leiða í ljós. Það er sannfæring mín, að hér sé stigið jákvætt spor til eflingar íslenzku atvinnulífi og það á að vera létt val að velta slíku liðsinni. Ég vænti þess, að hv. þd. samþykki frv. til 2. umr. að lokinni þeirri 1., og legg til, herra forseti, að vísa málinu til sjútvn.