01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

58. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil nú í upphafi þakka frsm. raunverulega jákvæðan stuðning, eins og kom fram á nefndarfundum hjá okkur líka. Því er ekki að leyna, að n. varð sammála um að veita þessu jákvæða umsögn, þó að niðurstaðan yrði, að réttara væri, eins og á stæði, að leggja til, að frv. yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en það þýddi ekki það, að nm. sæju ekki nauðsyn á því, að aukin tækniþjónusta og upplýsingar lægju fyrir til þess að fyrirbyggja, að mistök ættu sér stað æ ofan í æ. Og það var einmitt megintilgangur þessa frv. að vinna að því, að skipulegt eftirlit með göllum og mistökum, sérstaklega í frágangi og vinnslu tækja, yrði skráð. Því er ekki að leyna, að þótt Skipaskoðun ríkisins hafi gert mjög mikið fyrir útvegsmenn við kaup á nýjum skipum, þá hafa þar ekki verið skráð og fylgzt með þeim mistökum, sem fram hafa komið, nema að mjög takmörkuðu leyti. Og ég get ekki stillt mig um á þessu stigi að benda á það, að ein afleiðing þessara mistaka, afleiðing þessa klaufaskapar eða yfirsjónar ýmissa manna bæði í skipasmíðastöðvunum og útvegsmanna við val tækja, er sú, að vátryggingargjöld skipanna hafa hækkað, því að öll þessi stóru skip eru í kaskótryggingu, og þegar tjón t.d. upp á 300 þús. kr. kemur fram á bát vegna mistaka eða klaufaskapar, hækkar það iðgjöld, og það segir minn hugur svo, að geti ekki verið langt í það, að við fáum vandamál vátryggingasjóðsins til meðferðar hér á þingi, og eitt af stóru vandamálunum í kringum allan sjóðinn er einmitt það, hversu oft eiga sér stað ýmiss konar bilanir, sem mætti koma fyrir, ef vel hefði verið unnið að og skipulag hefði verið á því að fylgjast með frágangi og göllum á ýmsum tækjum. En því miður hefur þetta skipulag ekki verið sett á stofn enn þá. Hins vegar ber að fagna því, að Fiskifélag Íslands hefur núna og núv. fiskimálastjóri hefur áhuga á þessu máli og Fiskifélagið hefur komið upp vísi að þjónustudeild eða tæknideild hjá sér, og ég hef rætt við fiskimálastjóra um þessa deild, og hann hefur áhuga á því að efla hana. Hins vegar er með Fiskifélagið eins og aðrar stofnanir, að þær eru févana, og væri vonandi, að þessar umr. og þetta frv., þó að það fái þennan endi, yrði til þess, að aukin fjárveiting yrði veitt til Fiskifélags Íslands, svo að það gæti þjónað þessum tilgangi, því að í lögum þess stendur skýrt og skorinort, að eitt af meginatriðum hjá Fiskifélaginu sé leiðbeinandi eftirlit í þágu útvegsmanna. Þeir geta ekki sinnt þessu verkefni sínu nema fá aukið fjármagn, hvort sem það næst á komandi árum eða ekki, verður að vinna að því, að Fiskifélagið fái svo aukið fjármagn, að það geti veitt þessa þjónustu sem fyrst, því að það er ekki um það að deila, að það er óhugsandi að halda svo áfram, að sama yfirsjónin endurtaki sig æ ofan í æ, vegna þess að það er ekki fylgzt með þeim göllum eða klaufaskap í frágangi, sem á sér stað, bæði hér á Íslandi og erlendis, varðandi nýsmíði á bátum og breytingar.

Því miður náðist ekki samstaða um að leggja það til, að frv. yrði samþ. En ég tel þrátt fyrir allt, að nokkur ávinningur verði að flutningi þess, vegna þess að menn hafa tekið vinsamlega í tilgang frv. og þessar umr. hafa orðið til þess að vekja athygli á því, að Fiskifélag Íslands þarf meira fjármagn til sín til þess að geta sinnt því verkefni, sem frv. gekk út á, og ég veit, að forstöðumenn Fiskifélagsins vilja efla sína tæknideild, og ég vænti þess, að Fiskifélagið fái mjög aukinn stuðning frá ríkisvaldinu á komandi árum til þess að veita þá þjónustu, sem frv. gerði ráð fyrir, að veitt verði í þágu útvegsins og þágu þjóðarheildarinnar.