23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (2232)

48. mál, loðdýrarækt

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að mótmæla harðlega þessu frv. nú þegar við 1. umr. Ég vil minna á, að þetta mál hefur verið fyrir Alþ. af og til í tæplega 40 ár. Fyrst í stað féllu alþm. fyrir röksemdum svipuðum þeim, sem við heyrðum áðan, gengu inn á, að e.t.v. væri minkaeldi atvinnuvegur; sem gæti fært þjóðinni miklar tekjur og mikinn auð þeim, sem hann stunduðu. Það var ákveðið að reyna þetta.

20 ár liðu, tilraunin var gerð, en hinar glæstu vonir rættust ekki. Þegar minkaeldi var bannað 1951, var það deyjandi atvinnuvegur í landinu. Það munu aðeins hafa verið 7 búr eftir. Fjárhagur þeirra var slæmur, tap hafði verið á mörgum þeirra, og var lítil andstaða gegn því að hætta við tilraunina.

Í staðinn fyrir gullið, í staðinn fyrir nýjan, blómlegan atvinnuveg höfðum við fengið inn í landið eina verstu landplágu, sem hefur herjað á íslenzka náttúru. Minkurinn slapp að sjálfsögðu út. Hann jók kyn sitt í náttúrunni og olli þar gífurlegu tjóni. Þá kom fljótlega fram sá mikli munur, sem er á aðstöðu okkar á eylandi úti í hafi og aðstöðu þeirra þjóða, sem búa á meginlöndunum, þar sem minkur og svipuð dýr hafa um aldir lifað villt. Okkar náttúra var viðkvæm fyrir þessum nýja skaðvaldi, og hann olli hér gífurlegu tjóni. Hlunnindi, sem við höfum haft af mikið gagn um aldir, eins og veiðiskapur í ám og vötnum, eins og fuglalíf, urðu fyrir stórfelldum skakkaföllum, sem í rauninni er ekki fullkomlega séð fyrir endann á ennþá.

Ég vil vænta þess, að hið nýkjörna Alþingi, sem nú situr og hefur fengið þetta mál til meðferðar, verði jafnfarsælt og þau þing, sem hafa setið undanfarin 15–17 ár að því leyti, að það afgreiði ekki þetta frv. og setji ekki ný lög um minkaeldi.

Ég vil minna sérstaklega á, að nú síðustu árin er að rísa ný alda í landinu, alda áhuga og skilnings á náttúruvernd. Þúsundir manna eru að átta sig á því, hvílíkt verðmæti náttúra landsins er og hver hætta steðjar einmitt nú að henni. Ég er sannfærður um, að þær þúsundir manna, sem hafa tekið undir umr. um mál eins og Mývatnsmálið og Þingvallamálið, munu skilja, að þetta frv., sem gerir ráð fyrir að flytja minka inn á nýjan leik, er hættulegt íslenzkri náttúruvernd og mundi verða mjög varhugavert skref í ranga átt. Það er að skapast skilningur í landinu og grundvöllur fyrir því, að við gerum á komandi árum stórfellt átak til náttúruverndar á margvíslegan hátt. Þess vegna megum við ekki stíga skref, sem gæti orðið til þess að endurvekja þær hættur, sem hafa steðjað að íslenzkri náttúru undanfarið, því að sérfræðingar eru allir sammála um, að minkurinn sleppi alltaf út úr búrum og sé því óhjákvæmilegt, að ef þessi atvinnuvegur, sem svo er kallaður, yrði byggður upp á nýjan leik, mundi ný alda af mink sleppa út í náttúruna og vafalaust hafa slæm áhrif á þann minkastofn, sem fyrir er, og gera hann hættulegri en hann er nú, eftir að hann hefur örlítið byrjað að laga sig eftir íslenzkum aðstæðum.

Ég vil minna á, að allir þeir aðilar, sem bera náttúruna fyrir brjósti eða bera skyldur varðandi náttúruvernd, hafa mótmælt þessu frv. þegar það hefur komið hér fyrir undanfarin ár. Ég er sannfærður um, að þau mótmæli verði nú mörgum sinnum sterkari en þau hafa áður verið.

Ég tel rétt að minna á, að 20 ára reynslutími endaði á því, að Alþingi bannaði minkaeldi. Tuttugu ára reynsla sýndi, að vonirnar um gull fyrir feldinn reyndust vera tálvonir, ekki af því, að ekki sé hægt að fá mikla peninga fyrir góðan feld í tízkuheiminum, heldur af því, að af einhverjum ástæðum tókst okkur Íslendingum ekki að gera þennan atvinnuveg arðvænlegan við þær aðstæður, sem hér eru. Skal ég láta ósagt, hvað því olli.

Hv. síðasti ræðumaður fór mörgum fögrum orðum um þær skyldur okkar að gera atvinnulífið fjölbreyttara og minnti á þá erfiðleika, sem nú steðja að, því til sönnunar. Hverjir eru þessir erfiðleikar? Þeir eru verðhrun á afurðum okkar. Og í sömu ræðu útmálar hann það, að þessi nýi, glæsilegi atvinnuvegur, sem hann vill flytja inn, taka upp til að bæta úr þessu erfiða efnahagsástandi, sé nákvæmlega sama marki brenndur, því að verðhrun á minkaskinnum hefur verið gífurlegt undanfarin ár. Höfum við ekki nóg af atvinnugreinum, sem eru jafnótryggar og þessi? Höfum við ekki nóg af atvinnugreinum, þar sem tekjurnar eru háðar þvílíkum sveiflum, sem við höfum nú lifað? Ég held, að tækifæri okkar til að gera atvinnuvegina fjölbreytta séu mörg. Möguleikarnir til að koma hér upp traustum atvinnuvegum, sem eru ekki háðir slíkum sveiflum, eru miklir. En þetta er ekki eitt af þeim ráðum, sem við eigum að grípa til. Við eigum að læra af reynslunni í þessum efnum og láta þetta frv. ekki ná fram að ganga.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um frv. sjálft á þessu stigi. Það gefst tækifæri til þess síðar. En ég vil aðeins benda á, að frv. er óljóst og loðið frá upphafi til enda. Það er allt vald í þessum efnum fengið ráðh. og embættismönnum, sem eiga að gefa út reglugerðir. Málið er allt of viðkvæmt til þess að fara jafnóvarlega um það höndum og þar er gert. Ég vil líka benda á, að þar eru engar kröfur gerðar til þeirra manna, sem eiga að byggja upp þennan atvinnuveg, ekki minnzt á það, að þeir þurfi að kunna til verka eða hafa undirbúið sig undir störfin á nokkurn hátt. Ég vil enn fremur benda á, að flm. virðast enn einu sinni hafa verið feimnir við að nefna minkinn, sem er aðaltilgangur með flutningi málsins. Hann kemur ekki fyrir fyrr en einu sinni í viðbótarákvæði í lokin. Öll hin ákvæðin eru um loðdýr almennt, og er ástæða til að benda á, að slík ákvæði geta opnað dyr fyrir nýjum hættum. Það eru mörg loðdýr úti í heimi, sem menn telja að hægt sé að hafa af gróða, og það hefur mátt sjá á prenti undanfarin misseri, að hér hefur skotið upp áhuga á því að gera nýjar tilraunir á þessu sviði. Einhvers staðar sá ég minnzt á svokallaða Chinchilla-rottu sunnan úr Suður-Ameríku, sem á að vera nýjasta undradýrið, er malar gull, og voru færð rök fyrir því, að það mundi líklega vera tilvalið fyrir Íslendinga að finna sér þar nýja búgrein. Og ég efast ekkert um, að það gæti margt fleira komið til greina, ef þessar dyr yrðu opnaðar.

Herra forseti. Ég mun ekki fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en vil ítreka, að ég vara hv. Alþingi við þessu máli, en hvet það til að fylgja fordæmi undanfarinna þinga og lögleiða ekki minkaeldi á nýjan leik á Íslandi. Við höfum fengið nóg af þeirri landplágu.