27.02.1968
Neðri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2237)

48. mál, loðdýrarækt

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Landbn. hefur um nokkurt skeið fjallað um frv. um loðdýrarækt, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n., 4 af 7 þm., sem í henni hafa setið undanfarnar vikur, mæla gegn frv. og leggja til, að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. Minni hl. mælir hins vegar með samþykkt þess.

Frv. um loðdýrarækt var flutt 2 ár í röð fyrir skömmu, á þingunum 1964–1965, en náði þá ekki fram að ganga þrátt fyrir miklar umr, og ýtarlega afgreiðslu.

Nú er málið enn komið fyrir, og gera flm. sér væntanlega vonir um, að nýir þm., sem kjörnir voru við síðustu kosningar, kunni að breyta afstöðu þingsins og málið hafi nú meiri vonir en áður um framgang. Ég vil þó láta í ljós vonir mínar um, að svo reynist ekki vera og hið nýkjörna þing verði eins farsælt í meðferð þessa máls og síðasta þing var og raunar fleiri þing hafa verið undanfarin 17 ár, síðan loðdýrarækt var lögð niður, því að frv. í svipaða átt og till. hafa verið til umr. og meðferðar áður.

Hér er ekki lagt til, að tekin verði upp ný atvinnugrein á Íslandi. Minkaeldi var stundað hér um tveggja áratuga skeið, og er því ekki hægt að segja annað en það hafi verið þrautreynt við íslenzkar aðstæður. Niðurstaðan af þeirri tilraun varð sú, að minkabúin voru mörg oft rekin með tapi. Þá höfðu Íslendingar tekið upp þennan nýja atvinnuveg og flutt inn dýrin frá öðrum löndum í þeirri von, að þeir hefðu fundið gullkistu og mundu hafa af ærnar tekjur. En í raun urðu gjaldeyristekjur af minkabúunum litlar. Þegar Alþ. árið 1951 bannaði minkaeldi og dró þannig sína ályktun af tilrauninni, voru aðeins 7 bú starfandi í landinu.

Í stað hins auðfengna gróða, sem menn höfðu gert sér miklar vonir um þá eins og nú, hlaut þjóðin eina hina verstu landplágu síðari mannsaldra, villiminkinn. Engin þörf ætti að gerast til þess að ræða í löngu máli um það tjón, sem villiminkur hefur valdið í íslenzkri náttúru. Þjóðin þekkir þetta sjálf, og það er ástæðan fyrir því, að svo sterkur almannarómur leggst gegn því, að minkur verði aftur fluttur til landsins, sem raun ber vitni.

Landbn. fékk á sinn fund, þegar hún ræddi frv., Svein Einarsson veiðistjóra. Veitti hann ýmsar upplýsingar um þá baráttu, sem háð er með milljóna tilkostnaði ár eftir ár við villiminkinn. Hann lét í ljós það álit sitt, byggt á víðtækri reynslu, að villiminkur hegðaði sér enn sem fyrr, hann veiði algerlega án tillits til þarfar, ef tækifæri gefst. Hann skýrði svo frá, að árlega væri eytt 2500–3500 dýrum í landinu og útbreiðsla minksins sé enn að aukast. Mun nú raunar vera svo komið, að ekki eru nema tvær eða þrjár sýslur í landinu, sem minkur er ekki kominn í. Eru að því nokkur áraskipti, hversu mikið er gert til að veiða villimink og mun það vera höfuðástæðan fyrir því, að mismunandi mörgum dýrum er eytt frá ári til árs.

Þá fékk n. einnig á sinn fund tvo fulltrúa frá fyrirtæki, sem beitir Loðdýr hf. og stofnað hefur verið til að reka minkabú, ef frv. þetta eða önnur slík verða að lögum. Þessir menn sýndu myndir af fyrirhuguðum minkagarði, sem gert hefur verið mjög haglegt líkan af, útskýrðu það og veittu ýmsar upplýsingar. Þó varð ekki betur séð, þrátt fyrir áhuga þeirra, en hugmyndir þeirra um stofnkostnað og hugsanlegan rekstur af slíku búi væru mjög lausar í reipum.

Í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir, er ástæða til að benda á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi vil ég minna á, að það virðist almennt vera viðurkennt, að alltaf verði að reikna með, að minkar sleppi úr haldi, hversu vel sem reynt er að búa um minkagarða. Þetta er raunar alls staðar viðurkennt, og mun varla vera á móti því mælt, þó að mikið hafi víða verið gert til þess að fyrirbyggja, að kvikindin sleppi. Þegar sérfræðingar fyrirtækisins Loðdýrs hf. höfðu sýnt landbn. þessarar hv. d. myndir af fyrirhuguðum minkagarði og útskýrt, hversu haglega þar yrði öllu fyrir komið, eins og fullkomnustu tæknilegu fangabúðir geta verið, fyrst innri girðing, svo autt svæði og loks kemur ytri girðing, á svæði milli girðinganna á ekkert að vera nema grimmir hundar, þá skaut þeirri hugmynd niður í norðlenzkum bónda, sem sat í n., hvað yrði um allar þessar girðingar, ef snjóaði verulega og skæfi að garðinum. Hann þekkti það af reynslu sinni, að slíkar varúðarráðstafanir geta orðið að litlu haldi við íslenzkt veðurfar. Það er alltaf hætta á, að minkur sleppi við flutning. Og svo má nefna enn eina af mörgum ástæðum til að óttast þetta, en það eru skemmdarverk. Við lesum nú nálega daglega í blöðum okkar um óhugnanleg skemmdarverk, sem eru unnin allt í kringum okkur. Ég hef frá barnæsku ekki vitað rammgerðari girðingu á Reykjavíkursvæðinu heldur en þá, sem er umhverfis safn Einars Jónssonar. Hann var sérvitur, gamli maðurinn, vildi hafa frið og lét sér ekki nægja neitt minna. En þó hafa skemmdarvargar brotizt þarna inn til þess að spilla og eyða algerlega að tilgangslausu. Sömu sögu hafa raunar aðrir listamenn að segja, og fjöldamörg dæmi mætti nefna, sem gefa því miður tilefni til að ætla, að þarna sé enn ein ástæða til þess að hafa í frammi fyllstu tortryggni um það, að slík hús sem minkagarðar geti orðið örugg fyrir dýrin, sem þar á að geyma.

Í öðru lagi vil ég benda á, að undirbúningur undir minkarækt, ef leyfð yrði, er mjög takmarkaður, og liggja ekki fyrir gögn eða ályktanir, sem gefa rökstudda ástæðu til að ætla, að um mikinn gróðaveg eða blómlegan atvinnuveg yrði að ræða. Að vísu má segja, að það sé til mikils ætlazt, að ýtarlegur undirbúningur hafi farið fram, þar sem minkaeldi er ekki leyft. En þar á móti má benda á, að sé hér um að ræða svo arðvænlegan atvinnuveg sem haldið er fram, væri ekki miklu til kostað, ef gerðar væru nákvæmar áætlanir um það, hvernig rekstur á slíku búi mundi verða miðað við mismunandi stærð, hvaða tekjum megi reikna með miðað við verðlag á skinnum, eins og það er í dag, eins og það var fyrir nokkrum árum og við ýmsar aðrar aðstæður. Slíkar áætlanir mundu gera Alþ. og öðrum, sem um þetta hugsa, kleift að gera sér grein fyrir, hvaða þýðingu það mundi hafa, þegar svo gífurlegar verðsveiflur ganga yfir loðdýramarkaðinn sem nú hafa verið.

Í þriðja lagi vil ég benda á, að frv. þetta er styttra, efnisminna og óljósara en gömul lög, sem einu sinni giltu um sama efni. Það væri mikil afturför að leyfa nú minkaeldi með þessu frv. og gera það að lögum, miðað við það, sem Alþ. taldi að vera þyrfti fyrir 30–40 árum. Í þessu frv. er sáralítið af ákvæðum, heldur eru flestar þýðingarmiklar ákvarðanir og allt raunverulegt vald látið í hendur ráðh. og embættismönnum hans. Þm. er ætlað að treysta algerlega á reglugerðir, sem þeir hafa að sjálfsögðu ekki séð, því að mér er ekki kunnugt um, að drög að þeim hafi verið gerð. Ég tel því, að samþykkt á þessu frv. væri hreint ábyrgðarleysi, jafnvel þó að meiri hl. þings væri fylgjandi því að taka upp aftur loðdýrarækt, sem ég treysti, að sé ekki.

Í fjórða lagi vil ég benda á, að engar kröfur eru í þessu frv. gerðar til sérþekkingar þeirra, sem ættu að fá leyfi til þess að annast og reka loðdýrarækt, en það skiptir þó augljóslega mjög miklu máli. Þeir fulltrúar frá fyrirtækinu Loðdýr hf. sem mættu á fundi landbn., skýrðu frá því, að vestur í Kanada væri einn öndvegismaður af íslenzku bergi brotinn, sem nyti svo mikils álits meðal loðdýraræktarmanna þar, að hann væri formaður í þeirra samtökum. Þeir skýrðu frá því, að þessi maður hefði komið hingað til lands og hefði mikinn áhuga á að flytja atvinnuveg sinn hingað. Þeir skýrðu einnig frá því, þessir ágætu menn, að þeir hefðu farið með hinn vestur-íslenzka sérfræðing austur að Þingvöllum og þar hefðu kapparnir þrír veitt eina hagamús, síðan hafi sérfræðingurinn þreifað á músinni, skoðað feldinn og komizt að þeirri niðurstöðu, að íslenzkur minkur yrði allra minka beztur. Ekki get ég greint það nánar, hvernig hann dró þessa ályktun. Sjálfsagt taldi hann sig sjá, hvaða áhrif íslenzkt veðurfar hafi á loðfeldi dýra. En mér fannst þetta ekki vera sannfærandi rök. Mér finnst það ekki viðhlítandi tæknilegur undirbúningur hvað sérþekkingu snertir, jafnvel þótt áhugamenn um loðdýrarækt eigi von í að fá aðstoð frá þessum ágæta manni, sem sjálfsagt vill okkur ekki nema gott eitt. Ég hef því talið, að ef ætti að samþykkja slíkt frv., yrðu að vera í því nákvæmar kröfur um sérþekkingu, sem þyrfti að vera fyrir hendi, ef snerta ætti á þessum atvinnuvegi á nýjan leik.

Í fimmta lagi vil ég benda á, að það er mjög óljóst samkv. þessu frv., hvaða ákvæði eiga að gilda um sjálfan innflutning loðdýra. Um það er ekki eitt orð í frv. sjálfu, — ekki eitt orð, og mætti þó ætla, að innflutningurinn, hversu mikill hann eigi að vera, hvaðan bann eigi að vera, hvaða eftirliti hann eigi að lúta og allt, sem því viðkemur, væri ekki þýðingarlítið atriði í þessu máli. Og augljóst er af reynslu þjóðarinnar, að það er hæpið að láta almenn ákvæði í öðrum lögum ná til þessara dýra og óhjákvæmilegt, að um þau séu settar alveg sérstakar reglur, ef farið verður inn á þá ógæfubraut að flytja þau inn á nýjan leik.

Í sjötta lagi vil ég benda á, að flm. frv. forðast eins og heitan eldinn að nefna mink á nafn, þótt innflutningur hans sé aðaltilgangur frv. Hann kemur ekki við þessa sögu þeirra fyrr en í viðbótarákvæði, aðalpersónan sem sagt ekki nefnd fyrr en í lokakaflanum. E. t. v. hefur þetta enga efnisþýðingu, en mér finnst það bera vott um, að samvizkan kunni að vera í ólagi, að þeir óttist, að það muni ekki bæta fyrir málstað þeirra að tala um minkinn í hverri eða annarri hverri gr. eins og eðlilegt væri í lögum, sem eiga fyrst og fremst að fjalla um minkarækt í landinu.

Í sjöunda lagi vil ég benda á, að frv. mundi, ef að lögum yrði, opna leið fyrir ræktun nýrra loðdýrategunda, sem ekki eru til í landinu. Uppi eru hugmyndir um vissar dýrategundir, sem ræktaðar eru í öðrum löndum og minna er vitað um hér, af því að þær hafa ekki verið hér og eru ekki. En það vil ég segja, að ef einhverjar aðrar dýrategundir kæmu til greina og hefðu enga af þeim ókostum, sem minkurinn vissulega hefur sýnt, finnst mér óvarlegt, að ekki sé meira sagt, að hafa ekki um slíkt mál ýtarlegri og nákvæmari lög en þetta frv. Ef það er vilji Alþingis Íslendinga að gera tilraunir með innflutning á aðskiljanlegum tegundum loðdýra, sem drepin hafa verið til þess að fá af þeim skinnin um víða veröld, og sjá hvort eitthvað af þeim gæti orðið gróðavegur hér uppi á Íslandi, er óverjandi með öllu að láta slíkar tilraunir fljóta með í almennu og loðnu frv., þannig að það sé tilviljunum háð að heita má, hvernig með yrði farið. Þar mundi ekki duga neitt annað en að Alþ. gengi hreinlega til verks, fengi að vita, hvað um er að ræða, og fjallaði um það, leitaði sér sérstakra og ýtarlegra upplýsinga og tæki þar á eftir sína afstöðu.

Í áttunda og síðasta lagi vil ég benda á, að andstaða náttúruverndaraðila gegn þessu frv. er nú enn sterkari en fyrir tveimur árum. Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að með þjóðinni er að vakna nýr áhugi á náttúruvernd. Það er að vakna nýr skilningur á því, hversu dýrmætt landið sjálft er okkur, nýr skilningur á því, hversu sérstætt þetta land er, hvers vegna íslenzk náttúra er sérstaklega viðkvæm fyrir aðfluttum dýrategundum. Ég tel því, að það væri að ganga gegn þessum nýja straumi, gegn þessari nýju hugsjón, ef Alþ. tæki nú upp á því að leyfa minkainnflutning til landsins og minkarækt á nýjan leik.

Herra forseti. Það eru fá mál, sem Alþ. hefur á undanförnum 30 árum rætt eins oft og eins mikið og þetta, að undanteknum venjulegum dægurmálum, sem koma ár eftir ár. Niðurstaða Alþ. var upphaflega sú, að það vildi gera tilraunir með innflutning minks og minkarækt í landinu. Sú tilraun var gerð í tvo áratugi. Alþ. dró ályktanir af þeirri tilraun og bannaði minkaeldi og minkainnflutning með öllu á árinu 1951. Fyrir þessu voru ærnar röksemdir, því að ekki hafði gullpotturinn reynzt finnanlegur við regnbogann. Það hafði ekki orðið sá gróðavegur að þessari atvinnugrein, sem menn höfðu gert sér vonir um, og það, sem ég hygg, að hafi haft meiri áhrif á niðurstöðu alþm., — þjóðin hafði í staðinn fyrir gullið fengið eina verstu landplágu síðari mannsaldra inn í landið, fengið nýtt villidýr, sem hefur gert gífurlegt tjón við veiðivötn, í fugli og á fleiri stöðum. Það er alveg öruggt, að innflutningur minks á nýjan leik mundi valda því, að minkur tæki aftur að sleppa úr búrum og þetta mundi reynast blóðgjöf fyrir þann minkastofn, sem er í landinu. Það er alveg öruggt, að það mundi skapa nýja og algerlega óþarfa áhættu að gera nú nýja tilraun, og þess vegna leggjum við í meiri hl. landbn. til, að þessi tilraun verði ekki gerð og við vísum þessu frv. frá okkur.

Með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, og margs annars, er það till. meiri hl. landbn., að frv. verði vísað til ríkisstj. Við höfum reynt að vera hóflegir í málflutningi okkar, þó að margir hafi sterkar tilfinningar um þetta mál, og við höfum ekki langt til annað en málinu verði vísað til ríkisstj., þar sem það getur legið. Ef ráðh. þessara mála og sérfræðingum þeirra sýnist á komandi árum, að eitthvað nýtt komi fram, sem gefi ástæðu til þess að taka málið upp á nýjan leik, hafa þeir að sjálfsögðu fullt frelsi og sérstaka ástæðu til að gera það. En mér segir svo hugur, að þeim muni ekki þykja ástæða til þess, þegar þar að kemur.