05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (2472)

122. mál, áburðarverksmiðja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. talaði um, að það væri nauðsynlegt að fá úr því skorið, hver afstaða mín væri til eignarréttarins í verksmiðjunni. Sjálfur var hann ekki í nokkrum vafa um þetta, sagði, að verksmiðjan væri áreiðanlega ríkisins eign. Það væri alveg öruggt, að hluthafarnir væru engir eigendur að verksmiðjunni, þeir væru bara rekstraraðilinn. En um leið sagði hann orðrétt:

„Það verður erfitt að fá úr þessu skorið. Lögfræðingar eru ekki sammála, vegna þess að lögin eru ekki ótvíræð.“

Það skyldi þó ekki vera rétt, að l. séu ekki ótvíræð og lögfræðingar séu þess vegna ekki sammála, og er þá ekki óeðlilegt, að hv. þm. fullyrði það eftir að hafa þessa skoðun á l., að ríkið sé eignaraðili að verksmiðjunni? Ég held, að einmitt vegna þess, að l. eru ekki ótvíræð og margir fullyrða það, að hluthafarnir eigi verksmiðjuna, að það sé hyggilegt að gera það, sem hefur reyndar verið gert undanfarið, þ.e. að athuga það með hvaða skilyrðum hluthafarnir vilja láta bréfin af hendi. Hv. 4. þm. Austf. var að reikna það hér út áðan, hvað þessar 4 millj. gætu hækkað mikið, ef hlutabréfin væru nú tekin eignarnámi. Hann reiknaði út, að það gætu orðið 280 millj. kr. Og ég segi það, að ef hann trúir nú því, að þessar 4 millj. gætu orðið að 280 millj., sem ríkið þyrfti að borga út, er kannske eðlilegt að honum dytti í hug, að það væri nauðsynlegt að sniðganga l. En fyrir tveimur árum var það athugað hjá stærstu hluthöfunum, Sambandinu og öðrum stærri hluthöfum, á hvaða verði þeir vildu selja bréfin. Og það liggja fyrir bréf hér í hv. landbn. frá þessum aðilum, þar sem þeir stærstu hluthafarnir, telja, að þeir vilji láta bréfin af hendi, séu þau borguð á fimmföldu verði, þannig að 4 millj. verði að 20 millj. Þetta liggur hér fyrir. Hvort hluthafarnir vilja standa við þetta nú. hefur ekki verið kannað, en þannig var þetta fyrir tveimur árum. Og í munnlegu samtali var látið í það skína, að það væri hægt að semja um greiðslutilhögunina til þess að gera nú ríkissjóði þetta ekki of erfitt. Og ég held nú, að ef það tækist að ná viðhlítandi samkomulagi við hluthafana, gætum við alveg sleppt öllum stóryrðum og fullyrðingum út í bláinn.

Í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að þn. gæti ekki tekið að sér að semja við hluthafana, finnst mér það alveg eðlilegt, en þn. hefur þessi bréf í sínum fórum, og hún getur þó a.m.k. tekið afstöðu til þeirra, og það er það, sem ég hef ætlazt til, að gert væri, um leið og ég sendi frv. frá mér til þnm. En þótt þn. hafi haft frv. hjá sér nokkuð lengi, álít ég, að það sé enginn skaði skeður. Ég heil, að það sé enn nægilegur tími til þess að undirbúa þetta mál og koma því í þá höfn, sem æskilegust er. Ég held, að hluthafarnir séu enn svipaðs sinnis og þeir voru fyrir 2 árum, að þeir séu tilbúnir til þess að láta bréfin af hendi á fimmföldu verði. Menn gætu deilt um það, hvort það væri verið að kaupa eignarhluta þeirra í verksmiðjunni eða hvort það væri verið að borga þeim bréfin á nafnverði plús vexti og eitthvað upp í þá rýrnun, sem hefur orðið á hlutafénu. Menn geta alveg deilt um það, hvað þeir væru í rauninni að kaupa. En ég get nú ekki annað en látið þá skoðun mína í ljós, að þótt þeir væru leystir út á þennan hátt, og kannske með greiðslufresti, væri nú ekki um neina sérstaka ósanngirni að ræða af hálfu hluthafa, sem hafa átt þetta fé í verksmiðjunni vaxtalaust flest árin og aldrei fengið yfir 6% arð. Og ég held, að ef þetta lægi nú fyrir endurnýjað, yrði hætt að tala um akurtilhneigingu af hendi hluthafanna. Ég er alveg samþykkur því, að það sé tími til kominn að kanna þetta ítarlega. Það hefur verið meiningin að breyta löggjöfinni. Það er á allan hátt nauðsynlegt nú vegna stækkunar hennar að gera það, og ég mun ekki láta á mér standa að aðstoða hv. þn. í þessu máli eftir því, sem ástæður þykja til. Svo að ég nefni enn þn., þá fær hv. landbn. þetta frv. til athugunar og enn fremur hitt frv., sem er á dagskránni í dag, sem hv. framsóknarmenn hafa flutt. Hún hefur og í fórum sínum frv., sem ég lét semja, og þegar hv. landbn. hefur þannig þrjú frv. til meðferðar, hef ég ástæðu til þess að ætla, að eitthvað fari að koma fram í þessu máli, og vilji hv. landbn. við mig tala, af því að hún telji, að það muni greiða fyrir framgangi málsins, er ég alltaf reiðubúinn að koma á hennar fund.