05.03.1968
Neðri deild: 69. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

122. mál, áburðarverksmiðja

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austf. sagði áðan, að Áburðarverksmiðjan mundi vera um það bil 700 millj. kr. virði nú, og ég held, að hv. frsm., 6. þm. Reykv., hafi einnig tekið þannig til orða. Mér datt í hug í sambandi við þetta mat þeirra, að nú fyrir nokkrum dögum flutti einn úr þeirra hópi framsöguræðu hér á hv. Alþ. fyrir þáltill. um áburðarverksmiðju og áburðarsölu, og sú ræða var allsköruleg og stóryrt nokkuð að vísu, en hann endaði sína ræðu á því að segja, að líklega mundi vera eitthvert bezta framlagið í Bjargráðasjóð Íslands að leggja Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi niður. Ég fæ það nú ekki, — og fékk það ekki, — út úr hans ummælum, að í því fælist, að hann mundi meta verksmiðjuna á 700 millj., eins og nú væri.

En annars var ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, aðeins ummæli, sem komu fram f ræðu hv. frsm., 1. flm. þessa máls, 6. þm. Reykv. Hann sagði á þá leið, að Vilhjálmur Þór hefði komið því til leiðar, að framleiðsla Áburðarverksmiðjunnar væri eins og hún nú er, svo gölluð sem hún nú er, skulum við segja, enda mundi engin sams konar verksmiðja nú vera til í veröldinni. Það hefði kannske verið ein önnur byggð, en nú væri búið að breyta þeirri verksmiðju. Mér þykir rétt út af þessum ummælum að segja frá því, að ég hef heyrt allt aðra ástæðu fyrir því, hvers vegna sú framleiðsluaðferð var valin, sem notuð hefur verið við framleiðsluna á köfnunarefnisáburðinum í Gufunesi.

Eins og margir bændur muna, var kominn hér á markað, nokkru fyrir stofnun þessarar áburðarverksmiðju, áburður, sem er í raun og veru alveg sams konar, þ.e. ammóniumnitrat, og var hann fluttur inn, ég held hann hafi að mestu verið framleiddur þá vestanhafs. Þessi áburður gekk á sínum tíma undir nafninu sprengipétur. Það var hvítkornóttur áburður, ákaflega vinsæll, ákaflega þægilegur og góður í meðförum og sterkur áburður, eins og kjarninn er. Og ég held, að það hafi verið í flestra huga, þegar verið var að ræða um undirbúning þessarar verksmiðju, að framleiðsla þessarar verksmiðju í Gufunesi yrði einmitt í þessu formi. Og það kom þess vegna bændum almennt allmikið á óvart, þegar í ljós kom, hvernig kjarninn var útlits, hversu fínkornóttur hann var. Og það er óhætt að segja það hér, að þær miklu óvinsældir, sem kjarninn hefur hlotið, eru áreiðanlega, ég þori að fullyrða það, fyrst og fremst vegna formsins, sem áburðurinn er í. En mér var sagt — ég vil, að það komi bara hér fram, það getur vel verið, að aumir kalli það slúðursögur, og það eigi ekki að vera að fara með það hér í hv. Alþ. — að ástæðan til þess, að það var ekki farið inn á þá leið að framleiða áburðinn eins og sá ammóníumnitratáburður var, sem hér var orðinn þekktur, hafi verið áhrif frá flokksbræðrum þessara tveggja hv. flm., sem nú standa hér að flutningi þessa frv. Og ástæðan var sú, að það var talið, að bygging þeirrar verksmiðju, ef hún hefði framleitt áburðinn, eins og ammóníumnitratáburðurinn var, sem hér var þekktur áður, væri með þeim hætti, að það væri mjög auðvelt óg fljótlegt að breyta henni í sprengiefnaverksmiðju. Hins vegar með því formi, sem er á þessari verksmiðju, væri það miklu örðugra. Þar sem það er verið að tala hér um ástæðurnar til þess, að þessi mistök — skulum við segja — hafa orðið, þykir mér alveg sjálfsagt að láta þetta koma hér fram. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. Ef aðrir vita betur, er líka rétt, að það komi hér fram við þessar umræður.

Það er nú að vísu fullkomin ástæða til þess að tala ítarlega um þetta mál. En ég hafði hugsað mér að gera það frekar í sambandi við næsta mál á dagskránni og ætla því ekki að orðlengja meira að þessu sinni.