15.02.1968
Neðri deild: 63. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2597)

111. mál, rekstur fiskibáta

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 242 flyt ég svohljóðandi þáltill.:

„Neðri deild Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta framkvæma nú þegar sérstaka athugun á því, hversu margir fiskibátar í landinu munu ekki verða gerðir út á vetrarvertíðinni vegna fjárhagsörðugleika viðkomandi fyrirtækja og hversu mikils fjár er þörf, til þess að unnt sé að hefja útgerð þeirra Að loknum þessum athugunum beiti ríkisstj. sér fyrir útvegun nauðsynlegs lánsfjár og geri aðrar tiltækar ráðstafanir til þess að tryggja, að allir þeir rekstrarhæfir bátar í landinu, sem henta til veiða á vetrarvertíð, verði gerðir út.“

Þessi þáltill. gæti að sjálfsögðu orðið tilefni til þess að ræða almennt um þau vandamál, sem við er að etja í atvinnu- og útgerðarmálum, þar sem sitt sýnist hverjum um orsakir og leiðir til úrbóta. Hér er þó aðeins gripið á afmörkuðu atriði þessara mála, og þar sem till. skýrir sig svo til sjálf, þarf ég ekki að fara um hana ýkja mörgum orðum. Hvað sem líður skiptum skoðunum hv. þdm. á, atvinnu- og útvegsmálum, vænti ég þess, að þeir geti verið sammála um nauðsyn þess að taka á því sérstaka atriði, sem hér er um að ræða, og geti samþ., að hæstv. ríkisstj. yrði falið að fjalla sérstaklega. um þau vandamál, sem í þessari þáltill. er vakin athygli á.

Lagt er til, að gerð verði á því sérstök könnun, í hve ríkum mæli muni vera um það að ræða, að einstakir vélbátar verði ekki gerðir út á vetrarvertíð og gerðar verði síðan ráðstafanir til þess með útvegun lánsfjár og öðrum tiltækum hætti að tryggja, að á þeirri vetrarvertíð, sem nú er hafin, verði gerð út hver einasta sjófær fleyta, sem hentar til sjóróðra á vetrarvertíð.

Á undanförnum árum hefur það jafnan verið svo, að einstakir fiskibátar hafa legið í höfn á vetrarvertíðum af ýmsum ástæðum. T.d. má geta þess, að greint er frá því í skýrslu, sem birtist í síðasta almanaki Fiskifélags Íslands og miðuð er við 16. des. s.l., að alls 57 fiskiskip minni en 100 tonn og 20 skip stærri en 100 tonn hafi aldrei komið fram á aflaskýrslum á árinu 1967. Hér er að vísu um að ræða verulegan fjölda báta undir 30 tonnum að stærð og svo togara, en þó munu það vera ríflega 20 vélbátar stærri en 30 tonn, sem aldrei hafa komið með afla að landi á síðasta ári, en að sjálfsögðu enn fleiri, sem verið hafa óvirkir hluta af árinu og ekki róið einstakar vertíðir. Á undanförnum árum, þegar atvinna hefur verið næg og gjaldeyristekjur hafa farið síhækkandi, brann það að sjálfsögðu ekki svo mjög á mönnum, þótt þessi atvinnutæki væru óvirk, og jafnvel hafa orsakirnar stundum verið þær, að ekki reyndist unnt að manna þessa báta vegna mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli á öðrum sviðum. Eins og nú er komið, þegar atvinnuleysið hefur hafið innreið sína og ógnað alþýðuheimilum í landinu, hlýtur það að vera litið miklu alvarlegri augum, að nothæfir bátar eða bátar, sem gera má nothæfa, eru ekki gerðir út á vertíðinni. Þá vegur það einnig þungt, að það er eitt aðalvandamál fiskvinnslustöðvanna, að hráefni er af allt of skornum skammti og nýting framleiðslutækjanna af þeim sökum óhagkvæm. Einnig af þeim ástæðum er þjóðarnauðsyn, að á hávertíðinni, sem nú er framundan og þegar byrjuð, komi hver sjófær bátur að fullum notum. Ekki mun heldur af veita, að öllu sé tjaldað, sem til er, við öflun gjaldeyris í þjóðarbúið, því að nú gengur stöðugt á gjaldeyrisvarasjóðinn. Það er því ekkert einkamál viðskiptabanka eða annarra lánadrottna þeirra útgerðarfyrirtækja, sem teljast eigendur þeirra báta, sem nú eru líkur á, að verði bundnir í höfn í vetur, hvort þeir verða gerðir út eða ekki. Það er brýnt hagsmunamál allrar þjóðarinnar, að hver einasti rekstrarhæfur bátur verði gerður út og veiti atvinnu, styrki rekstrargrundvöll fiskvinnslustöðvanna og afli þjóðinni gjaldeyris.

Eins og ég sagði í upphafi, er með þessari þáltill. bent á það sérstaka verkefni, sem er ríkisvaldsins að leysa, að tryggja, að enginn rekstrarhæfur vélbátur verði bundinn í höfn alla vertíðina, en ég hef ekki talið ástæðu til þess að fjalla almennt um vandamál útgerðarinnar eða orsakirnar til þess, að fjárhag ýmissa útgerðarfyrirtækja er nú svo komið, að þau hafa ekki bolmagn til þess að koma öllum sínum skipum á veiðar. Ýmsar orsakir liggja til þess, að útgerðarfyrirtækjum eða einstaklingum, sem teljast eiga þessa báta, er um megn að koma þeim af stað. Ég vildi þó aðeins benda á eitt atriði í sambandi við aðstöðu útgerðarinnar, þegar um er að ræða viðgerðir á bátunum. Fiskveiðasjóður lánar 2/3 hluta vegna vélakaupa, en fari fram aðrar endurbætur á bátunum, er aðeins lánaður helmingur af þeirri hækkun, sem verður á matsverði bátsins vegna endurbótanna. Sé um viðgerðir að ræða, sem vátryggingafélög greiða, hefur aðstaðan til að framkvæma þær stórIega versnað að undanförnu. Vátryggingafélögin fá iðgjöld vegna bátanna greidd úr útflutningssjóði í ákveðnum skömmtum. Greiðslur vátryggingafélaganna til skipasmíðastöðvanna fara svo fram á sama hátt, í skömmtum og á löngun tíma, svo löngum, að skipasmíðastöðvarnar, sem ekki njóta nægilegrar fyrirgreiðslu í lánastofnunum, geta ekki vegna greiðsluvandræða unnið verkið á svo skömmum tíma, sem tæknilega væri unnt að gera og langsamlega hagkvæmast væri fyrir alla aðila heldur er bátunum haldið í slippunum langtum lengur en þörf er á, stundum svo að mánuðum skiptir fram yfir þann tíma, sem dygði til að ljúka verkinu, ef greiðslur fyrir það væru inntar af hendi á greiðari hátt. Við þetta hleðst margs kyns kostnaður á verkið og bátarnir eru úr Ieik langtímum saman, en starfsemi skipasmíðastöðvanna lamast. Í þetta horf hefur sótt s.l. tvö ár, og hefur af því hlotizt ómælt tjón, og ef ekki er að gert, er ekki annað sjáanlegt en skipasmíðastöðvunum verði gert ókleift að starfa. Úr þessu ætti að vera unnt að bæta og er óhjákvæmilegt að bæta. Þegar slík verk sem nauðsynlegar viðgerðir á fiskibátum taka miklu lengri tíma en þörf er á einungis vegna tregðu á greiðslum, sem verða þó að lokum inntar af hendi, hlýzt ekki einungis af því tjón og óhagræði fyrir útgerðarfyrirtækin og skipasmíðastöðvarnar, heldur er um beina þjóðhagslega sóun að ræða. Á sama tíma og þetta ástand ríkir varðandi viðgerðarþjónustu fyrir útflutningsframleiðsluna geta innflytjendur þeir, sem koma gjaldeyrinum í lóg, svo sem sjónvarpssalar og þeir, sem selja útlenzk gólfteppi, boðið viðskiptavinum sínum vörurnar án nokkurrar útborgunar eða þá með sem svarar útborgun á 1/4 hluta söluverðs hjá þeim. sem minnst fríðindi geta boðið. Ein slík auglýsing var lesin upp í útvarpinu nú um hádegið, þar sem boðin voru erlend gólfteppi án nokkurrar útborgunar. En það er réttast að fara, ekki lengra út í þessa sálma, að þessu sinni. En varðandi fiskibátana er það ljóst, að úr þeirra vandamálum ætti að vera unnt að bæta og er orðið alveg óhjákvæmilegt að bæta varðandi viðgerðarþjónustuna. Það er ýmislegt, sem þarf að taka á til þess að stuðla að því, að bátum, sem gætu veitt atvinnu og aflað gjaldeyris en liggja nú ónotaðir, verði komið í gagnið. Kanna verður, hverju þarf að kosta til í hverju tilfelli til þess að tryggja rekstur vélbáta, sem eru sjófærir eða gætu orðið það fljótlega. en líkur eru samt á nú, að verði ekki gerðir út á vetrarvertíð, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar. Það er því lagt til með þessari þáltill., að hæstv. ríkisstj. verði falið að kanna sérstaklega, í hve ríkum mæli er um það að ræða, að rekstrarhæfir bátar verði ekki gerðir út í vetur, hversu mikið fjármagn muni þurfa til þess að koma þessum bátum á veiðar og hverjar ráðstafanir sé unnt að gera til úrbóta. Ég hef valið þann kostinn að flytja þessa þáltill. hér í hv. d., en ekki í Sþ., vegna þess að með þeim hætti er meiri von til þess, að hún fáist afgreidd á, skömmum tíma, en eðli málsins samkv. krefst það bráðrar lausnar, ef koma á þeim vélbátum, sem hér er um að ræða, í notkun á vetrarvertíðinni, sem nú er hafin.

Ég leyfi mér að lokum, herra forseti, að leggja til, að umr. verði nú frestað, en till. vísað til hæstv. sjútvn., sem ég vænti, að afgreiði málið svo fljótt sem hún telur framast tök á.