18.03.1968
Neðri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2600)

111. mál, rekstur fiskibáta

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Sunnl. að flytja brtt. við brtt. sjútvn., brtt. á þskj. 385. Eins og síðasti ræðumaður tók fram, er hér um tiltölulega mjög litlar breytingar að ræða. Hins vegar lá það ekki fyrir á fundi hjá sjútvn., hvort aðrar upplýsingar, sem um var talað í n., að æskilegt væri, að lægju fyrir, mundu kannske eyðileggja fyrir meginefni till., ef óskað væri eftir þeim jafnframt. Hins vegar hefur samkv. upplýsingum, sem ég hef síðar fengið frá Fiskifélagi Íslands, verið upplýst, að það, sem ég og hv. 3. þm. Sunnl. sérstakloga óskum eftir, liggur jafnt fyrir og hitt, þannig að þetta mun ekki tefja fyrir upprunalegu till., sem n. öll er sammála um, að æskilegt sé, að liggi fyrir Alþ. og öðrum, sem áhuga hafa á, en það, sem við vildum fá fram auk þessa, sem þáltill. getur um, er m.a. hvort og af hvaða ástæðum slík skip liggi á vetrarvertíðinni af öðrum ástæðum heldur en fjárhagsástæðum. Það er t.d. rökstuddur grunur um það, að það sé nokkuð stór fjöldi slíkra skipa, sem ekki verði mannaður, bæði vegna þess, að þau séu orðin úrelt og jafnvel vegna útgerðarstaða líka. Það má líka vera, að það komi fleira í ljós, eins og að vélar þeirra séu úreltar, þótt skipin sjálf séu ekki úrelt, og eins og ég tók fram, hefur fiskimálastjóri tjáð mér, að það muni ekki kosta mikla aukavinnu, þótt slíkar upplýsingar verði látnar fylgja með í þeirri sérstöku athugun, sem við höfum farið fram á, að fari fram, og þess vegna höfum við leyft okkur að bera fram þessa brtt., töldum samt ekki eðlilegt að leita til annarra nm., vegna þess að við vorum aðeins tveir með þennan fyrirvara, en eins og frsm. tók hér fram á undan mér, held ég, að það ætti ekki að verða neinn ágreiningur um það að samþykkja till. með því orðalagi, sem við leggjum til.