28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2775)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við flytjum hér fjórir saman þáltill. um vantraust á ríkisstj. og þykir okkur þetta ekki gert að ástæðulausu, og mun ég færa fram nokkur rök fyrir því, en aðrir auka þar við í umr.

Þessar vikurnar hafa umbúðirnar verið að flettast utan af einum hrikalegasta blekkingarvef, sem ofinn hefur verið í íslenzkum stjórnmálum. Það má víst alveg fullyrða, að engir eru jafnundrandi yfir aðförum ríkisstj. nú um þessar mundir og einmitt þeir, sem lögðu trúnað á málflutning stjórnarflokkanna í kosningunum í vor og léðu þeim atkv. sitt í góðri trú. Stjórnarflokkarnir sögðu, að það væri kosið um verðstöðvunarstefnuna, sem væri eins konar viðauki við viðreisnina. Þeir sögðust hafa tekið upp verðstöðvunarstefnu með góðum árangri og væru öll skilyrði þannig, að þeirri verðstöðvun yrði haldið áfram. Þeir bættu því hispurslaust við, að afkoma atvinnuveganna væri traust og grundvöllur atvinnulífsins öruggur og þótt eitthvað bjátaði á þyrfti engar áhyggjur af að hafa, það gerði m.a. gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem hefði verið komið upp. Þeir létu meira að segja fullyrða, að búið væri að leysa þann vanda, sem að hefði steðjað vegna nokkurs verðfalls í íslenzkum afurðum frá því, sem það var hæst.

Þegar þeir sögðu þetta, vissu þeir mætavel, að það var enginn grundvöllur fyrir þeirri verðstöðvun, sem þeir lofuðu eftir kosningarnar. Þeim var ljósara en nokkrum öðrum, að þeir notuðu peninga, sem þeir höfðu ráð á í stuttan tíma, til þess að byggja upp svikastíflu fyrir dýrtíðarflóðið, sem hlaut að bresta eftir kosningar. Þeir vissu líka annað og meira. Þeir vissu sem sé vel, að grunnurinn var svo holgrafinn undan íslenzku atvinnulífi eftir verðbólgustefnu undanfarinna ára, að það gat á engan hátt staðið aðgerðalaust svo að segja stundinni lengur. Þennan sannleika, sem nú er öllum mönnum augljós, sögðu framsóknarmenn þjóðinni blátt áfram fyrir kosningarnar, en málflutningur ríkisstj. og stjórnarflokkanna var byggður á botnlausum ósannindum um þýðingarmestu málefni landsins.

Stjórnarflokkarnir vissu vel, að menn hafa sterka löngun til þess að trúa því, að vel gæti gengið. Þetta notfærðu þeir sér hispurslaust, ef orðið gæti til þess að svíkja sér út meiri hluta áfram, þrátt fyrir það, hvernig komið var. Engum dettur nú í hug, að stjórnarflokkarnir hefðu fengið meiri hluta á s.l. vori, ef þeir hefðu sagt þjóðinni satt. Engum er þetta ljósara en þeim sjálfum, og einmitt þess vegna notuðu þeir þessar aðferðir. Umboð fengið með þvílíkum aðferðum er ógilt eða svo mun a.m.k. þeim finnast, sem leggja venjulegt siðgæðismat á málin. En það er nú öðru nær en ríkisstj. og forráðamönnum stjórnarflokkanna finnist þetta, því að ekki höfðu atkvæðin fyrr verið látin í kassana og talin og hinn naumi meiri hluti, fenginn með þessum hætti, komið í ljós, en þeir fóru að hælast um, að þjóðin hefði veitt þeirra stefnu traust í kosningunum og nú bæri þeim að stjórna áfram. Það væri þjóðarviljinn, vilji meiri hluta þjóðarinnar.

Lítum svo á framkvæmd verðstöðvunarstefnunnar eftir kosningarnar. Fljótlega urðu þeir að setjast á rökstólana, því að ómjúkur var sá, sem á eftir rak, sem sé vandinn, sem fallinn var kosningamánuðina. Verkefnið var ekki það, hvernig verðstöðvuninni skyldi haldið áfram, því að það var þeim sjálfum ljóst, að kom ekki til greina, heldur hitt, hvernig dýrtíðarflóðinu skyldi beint yfir þjóðina. Yfir þessu sátu ráðh. í sumar, og þegar haustaði, kom árangurinn í ljós af sumarstarfinu. Þeir sögðu þá allt í einu, að ríkissjóð vantaði 750–800 millj. kr. til þess að koma endunum saman. Þetta yrði að fást með því að hætta niðurgreiðslunum, sem þeir innleiddu fyrir kosningar til þess að halda niðri verðlaginu til bráðabirgða, og með því að demba á nýjum álögum til ríkissjóðs í margvíslegustu og ótrúlegustu myndum upp á 350 millj. Mest átti verðhækkunin að verða á matvælunum, og sá böggull fylgdi, að þessar verðhækkanir allar saman yrði almenningur að taka á sig bótalaust. Það yrði að banna með l., að þessar verðhækkanir kæmu inn í kaupgjaldið. Þetta átti að jafngilda 7 1/2% almennri kjararýrnun, þó miklu meiri kjararýrnun hjá stærri heimilum, sem hafa lægri tekjur. Þessar álögur áttu því að vera og eru í öfugu hlutfalli við getu manna til þess að borga.

Þeir, sem trúað höfðu áróðri stjórnarflokkanna í vor, voru agndofa af undrun. Við vissum á hinn bóginn, að þetta var þó aðeins byrjunin. Í þessu sambandi var sem sé ekki hreyft við málefnum atvinnulífsins, sem komin voru í algera sjálfheldu fyrir löngu. Ríkisstj. varð hins vegar ekki klækjafátt, þegar á þetta var bent. Þeir sögðu, að menn skyldu ekki taka þessu illa, því að þó að þetta væri kannske ekki gott, væri það þó bót í máli, að ef farin væri þessi leið, kæmi gengislækkun alls ekki til greina„ Það hefði verið athugað mjög vandlega og var margendurtekið, mjög vandlega, hvaða leiðir kæmu til greina. Gengislækkunarleiðinni og öðrum óheppilegum leiðum hefði verið hafnað, en einmitt þessi leið tekin til þess að forðast hana, til þess að sýna, hve djúpur skilningur væri á þessu í stjórnarherbúðunum, sagði hæstv. forsrh. mjög hátíðlega hér á Alþ. í sambandi við stefnuræðuna í haust, að gengislækkun hefði einmitt einnig verið útilokuð vegna þess, að hún skapaði fleiri vandamál en hún leysti. Þetta átti auðvitað að koma fram til þess að sýna, að gengislækkun væri útilokuð að vandlega yfirveguðu ráði, en ekki í neinu fljótræði. Þessu mættu menn því treysta.

Hagspekingurinn í ríkisstj., hæstv. viðskmrh., sagði: „Hins vegar get ég fullyrt, að gengislækkun er ekki rétta ráðið.“ Og sá ráðh. var óþreytandi að lýsa því, að önnur leið en gengislækkun væri valin að vandlega yfirveguðu ráði. Þegar þrengt var að ráðh. út af ástandi atvinnuveganna, gáfu þeir að vísu í skyn, að eitthvað kynni að þurfa að gera fyrir þá, en allt væri það þó óvíst og yrði tekið til athugunar seinna og raskaði ekki þessum höfuðniðurstöðum. Þegar hæstv. ráðh. sögðu þetta, var þeim auðvitað alveg jafnvel ljóst og nú, að búið var að fara þannig með íslenzkt atvinnulíf, að annaðhvort hlytu þeir að neyðast út í gengislækkun eða hrikalegt uppbótakerfi. Eða halda menn kannske, að það hafi fyrst runnið upp fyrir þessum mönnum nóvemberdaginn, er Bretar felldu pundið, sem svaraði til 5% áhrifa í íslenzku efnahagslífi, að það væri óumflýjanleg nauðsyn að lækka gengi íslenzkrar krónu um 20% vegna ástands íslenzkra atvinnuvega? Halda menn, að þetta hafi fyrst runnið upp fyrir ráðh. fyrir rúmri viku síðan? Nei, auðvitað ekki. Allur þessi málatilbúnaður og allir þessir svardagar gegn gengislækkun var ósannindavefur af sama toga spunninn og málflutningurinn fyrir kosningarnar, liður í þeim klækjum, sem ríkisstj. beitir í viðskiptum sínum við þjóðina. Sýnishorn af því, hvernig hugsað er í þessum herbúðum, kemur svo fram m.a. í því, sem einn af ráðh. sagði, þegar hann sagðist ekki skilja, að menn skyldu vera að gera veður út af því, þó að ríkisstj. hækkaði núna verðlag á vörum, sem hún hafði lækkað verð á fyrir nokkrum mánuðum eða m.ö.o., að menn skyldu vera að gera veður út af því, þó að stjórnin hefði lofað verðstöðvun, en efndirnar orðið verðhækkunarflóð.

Þá er það ekki ómerkur þáttur í þessum ljóta leik, að annað aðalblað ríkisstj., Alþýðublaðið, hefur hreinlega gefizt upp við að gera sig hlægilegt lengur með því að halda því fram, að ráðh. hafi ekki mælt gegn betri vitund, þegar þeir aftóku um gengislækkunina, því að blaðið segir hispurslaust í forystugrein í fyrradag, að Bjarni og Gylfi hafi án efa skilið betur en flestir aðrir, að gengi krónunnar kynni að falla eftir nokkra mánuði. Já, það er áreiðanlegt, að það vissu þeir mætavel í haust og í vor líka, þegar þeir lofuðu verðstöðvuninni. Það er svo einnig lærdómsríkt fyrir launþegasamtökin, að þó að ráðh. vissu þetta, þá átti að kúga samtök launafólksins til þess að ganga inn á vísitölubannið með því að hóta gengislækkun, ef ekki yrði á það fallizt. Stæðu launþegasamtökin fast á rétti sínum í þessu, bæru þau ábyrgð á gengisfellingu, sagði ríkisstj., sem þá hlyti að verða, en annars þyrfti ekki að koma til. Þegar þetta þokkalega vopn var notað, vissu ráðh. mætavel, hvernig komið var og gengislækkunaráætlanirnar lágu í skúffunum, eins og Alþýðublaðið játar og liggur í augum uppi. Og við bætist auðvitað, að allt var þetta gert með samstarfsorð á vörum.

En hver var þá hernaðaráætlun ríkisstj. í sumar og haust? Hvers vegna í ósköpunum var sú aðferð valin að taka málefni ríkissjóðsins fyrst og hella yfir menn matvöruhækkunum í því sambandi, en skilja eftir málefni atvinnuveganna? Því var ekki horfzt í augu við vandann strax sem mest í heild?

Skýringin liggur í augum uppi. Það átti að taka málin í áföngum. Það átti að komast að mönnum í áföngum. Fyrsti áfangi átti að vera fólginn í því að leysa tekjuöflunarvandamál ríkissjóðs, útvega honum peninga og slíta vísitöluna úr sambandi í þeirri lotu. Höfuðskýringin á þessum vinnubrögðum, sem mörgum sýndust undarleg; vera að fara í öfugan enda, eins og margir hafa kallað það, er einmitt þessi: Að ríkisstj. lagði á það ofurkapp að ná því ákvæði burt úr l., að kaupgjald skyldi hækka í samræmi við verðlagsvísitölu, slíta vísitöluna úr sambandi, áður en kæmi að aðaldýrtíðarflóðinu, sem stjórnin vissi, að var í vændum. Það var aðalatriðið.

Þannig stóðu svo málin, þegar Bretar þurftu að lækka pundið, og þá beið ríkisstj. heldur ekki boðanna. Þetta var talinn sannkallaður hvalreki í stjórnarherbúðunum. Var ekki komið hér skálkaskjólið og tilvalið tækifæri til þess að rugla menn mátulega, á meðan kúvent var yfir í plönin, sem biðu framkvæmdanna? Ríkisstj. settist því niður og tók fram plöggin sín um viðreisnina og verðstöðvunina og ástand atvinnuveganna, og nú átti að taka allt með í botn, og útkoman varð vitaskuld eins og vænta mátti, og ríkisstj. vissi sjálf fyrir fram, að ekki dygði að lækka gengi íslenzkrar krónu um minna en 25%, enda þótt gengislækkun Breta gæfi að sjálfsögðu ekki tilefni til meira en 5% lækkunar Þetta var ekki lengi gert, því að ráðh., sem einungis viku áður þóttust ekki vita, hvort nokkuð þyrfti að gera fyrir íslenzkt atvinnulíf og sögðust vita a.m.k. það, að það væri ekki gengislækkun nema þá sú ein, sem yrði þrjózku verkalýðsins að kenna, ef hann vildi ekki beygja sig strax; það kom í ljós, að einmitt þessir ráðh. áttu tilbúna nákvæma útreikninga um það, hversu mikil gengislækkun væmi óumflýjanleg umfram gengisfall pundsins, og það var 20% gengislækkun, sem þeir sögðu lágmark umfram Breta.

Og hver er þá orðin efndin á verðstöðvuninni, sem lofað var í kosningunum? Í stuttu máli sagt, stórfelld verðhækkunaralda á matvörum þeim, sem haldið var niðri með niðurgreiðslum á meðan kosningabaráttan stóð, og gengislækkunin í ofanálag, sem reisa mun háa dýrtíðaröldu á næstunni. Ætli það hafi verið nokkrar ýkjur, þegar framsóknarmenn sögðu í kosningabaráttunni í vor, að stórfelldar verðhækkunarbylgjur ættu eftir að koma upp á yfirborðið, því að stjórnarstefnan hefði grafið undan atvinnulífinu og verðgildi krónunnar?

Í sambandi við gengislækkunina er ríkisstj. svo búin að herja fram hér á Alþ. uppáhaldsmálið sitt, sem hún ætlaði að vera búin að koma í framkvæmd með góðum fyrirvara, áður en aðalflóðið skylli yfir, sem sé að slíta verðlagsvísitöluna úr sambandi við kaupgjaldið. Það er nú búið að afnema það lagaákvæði, sem var undirstaða júní-samkomulagsins, að vísitöluuppbætur skuli greiðast á kaup. Þessar uppbætur höfðu menn tryggðar í l. Nú hefur það ákvæði verið numið á brott. Verða menn því að bera bótalaust þær verðhækkanir, sem nú verða vegna gengislækkunarinnar.

Það má heita, að allir kjarasamningar í landinu séu lausir, og augljóst er, að með þessum vinnubrögðum er stefnt til stórátaka um kjaramálin. Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir segja, að það sé lífsnauðsyn að nema úr l. vísitölutrygginguna, því að kaupið verði nú að lækka sem nemur verðhækkunum vegna gengislækkunarinnar, enda stafi hár framleiðslukostnaður hér af því, að gróði veltuáranna hafi runnið inn í kaupgjaldið. Honum verði menn nú að afsala sér, gengisfallið stafi af því, að kaupið sé of hátt.

Hvert er svo þetta kaupgjald? Skoðum það ofurlítið nánar. Almennt verkamannakaup í hærri flokkunum í Dagsbrún t.d. er 114–118 þús. kr. á ári, ef unnið er fullan dagvinnutíma 300 daga á ári, en Iðjukaup um 108 þús. kr. á ári. Fagmannakaup um 130–140 þús. kr. á ári fyrir fulla dagvinnu. En vísitölufjölskyldan er talin þurfa 236 þús. kr. á ári samkv. nýja vísitölugrundvellinum. Og það er þetta kaup, 108–140 þús. kr., sem engin fjölskylda getur lífað af mannsæmandi lífi, sem býr við viðreisnarhúsaleigu, sem stjórnarflokkarnir segja, að hafi sligað íslenzkt atvinnulíf undanfarin veltiár og í því sé góðærisgróðinn. Og það er þetta kaup og annað hliðstætt ásamt tekjum bændanna, sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa nú gert ráðstafanir til þess að lækki dag frá degi jafnóðum og dýrtíðin vex vegna gengislækkunarinnar. Hefur sú ríkisstj. ekki setið nógu lengi, sem engin úrræði sér önnur en þessi og svona hefur haldið á atvinnu- ag kjaramálunum á veltiárunum? Þetta kallar ríkisstj. síðan ráðstafanir til tryggingar vinnufriði, en allir aðrir vita, að með þessu er innleitt ófriðarástand í atvinnu- og starfslífi landsins. Þessar ráðstafanir ganga sem sé gersamlega í berhögg við yfirlýsingar nálega allra stéttarfélaga landsins sem streymt hafa fram undanfarið ásamt beinum yfirlýsingum um verkfallsátök, ef verðtrygging kaups yrði numin úr lögum.

Fyrir atvinnurekendur er þetta einnig mikið áfall, því að þeir þyrftu nú umfram allt starfsfrið, og ofan á bætist það, að ríkisstj., sem hefur þá trú, að fyrir flestu öðru skuli ganga að lækka kaupmátt launanna, því að hann sé of mikill, mun fljótlega lenda út á þá braut að leita leiða til þess að gera atvinnurekendum sem örðugast fyrir að verða við óskum launþeganna.

Með þessu verður því öllu stefnt niður á við í stað þess að snúa blaðinu við og taka upp jákvæða stefnu í atvinnu- og kjaramálum, sem tryggt gæti viðunandi kaup fyrir eðlilegan vinnudag. Til þess þyrfti auðvitað að breyta stefnunni í mörgum efnum m.a. lánamálum og miða hana við þarfir atvinnulífsins, og margt fleira þarf að koma til. En ríkisstj. segir, að það þurfi engu að breyta nema því að hætta að verðtryggja kaupgjaldið og tekjur bændanna um leið og gengið er fellt, því að hér þurfi ekkert að endurskoða stjórnarstefnuna. Það hafi verið farið rétt að í öllu. Einungis þetta kaup, sem ég nefndi, sé of hátt og annað kaupgjald. Ráðh. hafa verið þrábeðnir um það hér á Alb. undanfarnar vikur að sýna fram á hvernig fólk geti tekið á sig lækkun á þessu kaupgjaldi, en þeir hafa reynzt ófáanlegir til þess að gera slíka tilraun.

Í ríkisbúskapnum á að vera sama ráðleysið áfram og eyðslan sem fyrr og reiðuleysið í fjárfestingunni og öðru því, sem mestu skiptir og veldur því, að við Íslendingar búum við gengishrun og ömurlegt kaupgjald, þegar nágrannaþjóðirnar búa við farsæla þróun í atvinnu- og kjaramálum og stöðugt verðgildi peninga. En ríkisstj. segir, að ástæðan sé verðhrun á útflutningsvörum og aflabrestur. Svo langt ganga þeir í áróðri sínum í þessu tilliti, að þeir svífast þess ekki að bera þróunina í þessum málum nú saman við verstu áföll, sem íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir á þessari öld, þ.e.a.s. verðhrun og markaðshrunið fyrir stríð. En hverjar eru staðreyndirnar? Þær segja nokkuð annað. Meðalverðlag helztu útflutningsvara þessa árs verður álíka hátt og meðalverð síðustu 5 ára, en á þeim 5 árum hefur meðalverð á útfluttum vörum verið óvenjulega hátt og tvö þessara ára toppverð, sem við höfum naumast áður þekkt dæmi til. Þar með er þessi blekking úr sögunni. Aflabrestur hefur ekki orðið, þótt aflinn hafi orðið minni en sl. ár, sem var algert metaflaár í allri sögu íslenzku þjóðarinnar.

En hverju eru mennirnir að reyna að leyna með þessum fráleita málflutningi? Það hlýtað vera eitthvað meira en lítið, sem þarf að breiða yfir, þegar gripið er til áróðurs af þessu tagi og það af valdamönnum landsins. Það er ósköp auðveit að skilja, hvað það er, sem leyna þarf. Hér hefur orðið að fella gengi íslenzku krónunnar þrisvar sinnum á 7 árum síðan þessi stjórn tók við völdum. Þessi ár hafa þó verið einhver þau beztu, bæði af náttúrunnar hendi og eins að því, er varðar viðskiptakjör, sem þjóðin hefur nokkru sinni lifað, þegar litið er á meðaltölin. Ástæðan hlýtur því að vera röng stjórnarstefna og stórfelld mistök í stjórnarframkvæmdum, en hvorki verðhrun né aflabrestur, enda þarf ekki lengi að leita orsakanna.

Verðbólgan hefur vaxið margfalt hraðar hér en í viðskiptalöndum okkar árum saman, og það er þetta, sem hefur grafið grunninn undan afkomu íslenzkra atvinnuvega. En er það ekki kaupgjaldið, segir stjórnin. Er það ekki kaupgjaldið, sem valdið hefur verðbólgunni? Kaupmáttur tímakaups hefur ekki aðeins vaxið miklu minna hér en í nágrannalöndunum, heldur er ástandið svo ömurlegt, að kaupmáttur þess hefur nálega ekkert vaxið hér í 8 góðærisár, en framleiðslukostnaður atvinnuveganna. samt aukizt svo gífurlega, að útflutningsverð, sem áður tryggði góða afkomu, hrekkur nú hvergi nærri og neyðir út í gengisfall. Verðbólgustefna ríkisstj. er undirrót þess. hvernig komið er, en ekki hitt, að kaupgjaldið hafi hækkað um of. Þeir, sem ekki skilja þetta, geta enga bót á vandanum ráðið, og einmitt þess vegna á ríkisstj. að fara frá. Undir því yfirskini, að hafa ætti hemil á verðbólgunni, hefur hér verið framkvæmd röng peningamálastefna, sem hefur bætt gráu ofan á svart og orðið þess valdandi, að vegna rekstrarfjárskorts hefur tæpast verið hægt að reka nokkurt íslenzkt atvinnufyrirtæki árum saman af fullri ráðdeild og hagsýni. Stefna í stofnlánaveitingum hefur verið þannig allan þennan tíma, að segja má, að ókleift hafi verið að búa nokkurn rekstur þannig, að hann gæti fyllilega notið sín. Hér hefur ríkt algert stjórnleysi í fjárfestingarmálum, sem leitt hefur til sorglegrar sóunar á dýrmætu vinnu- og vélaafli og til óhagkvæmari fjárfestingar, þegar á heildina er litið, en orð fá lýst. Hér hefur verið fylgt algerlega neikvæðri stefnu í atvinnumálum, sem bezt sést á því, að togaraútgerðin hefur verið látin drabbast niður aðgerðarlaust af hálfu ríkisvaldsins, þorskveiðiflotinn látinn dragast saman og þar með grafið undan sjálfum frystiiðnaðinum, sem er ein lífæð þjóðarbúsins, iðnaðurinn settur á kaldan klaka í mörgum greinum með margvíslegum ráðstöfunum og landbúnaðurinn hafður að hornreku. Um þetta mætti leiða fjölda vitnisburða, ef tími væri til, og það úr sjálfum stjórnarherbúðunum. Þessi stefna hefur lamað atvinnuvegina og lækkað verðgildi íslenzku krónunnar. En þessi stefna á að halda áfram.

Þjóðin verður á hinn bóginn að gera sér grein fyrir því, að ekki er von á góðu, þegar stjórnarflokkarnir hér eru a.m.k. 20 árum á eftir íhaldsflokkum í öðrum löndum að hugsunarhætti og framkvæmd. Þeir telja öll ríkisafskipti og ríkisforystu í atvinnumálum og fjárfestingarmálum óalandi og óferjandi og stjórnleysi í þeim málum æðstu dyggð, en sanna stjórnlist í því einu fólgna að beita lánsfjárhöftum og skattaflóði í sem margvíslegustum myndum til þess að draga úr fjárráðum fólks og fyrirtækja. Þessi stefna stjórnarflokkanna er byggð á þeirri meginskoðun, að allt komi af sjálfu sér, ef yfirvöldin gæti þess, að ekki sé of mikið fjármagn í umferð. Þess vegna sé hægt að lækna allar meinsemdir með lánsfjárhöftum, háum sköttum og álögum og svo gengisfalli við og við, ef í nauðir reki.

Þetta eru á hinn bóginn alveg úreltar aðferðir, sem hafa illa gefizt, og það er engin tilviljun, að sú ríkisstjórn, sem þessum aðferðum hefur beitt, hefur neyðzt til þess að fella krónuna í verði þrisvar sinnum á 7 árum. Hagfræðingar í æðstu trúnaðarstöðum í þýðingarmiklum alþjóðastofnunum vara alvarlega við þessum aðferðum, segja reynsluna sums staðar undanfarið ólygnasta í því, hversu þær hafi illa gefizt, enda er þeim nú hafnað alls staðar þar sem farsællega er stjórnað. Sú ákvörðun ríkisstj. að fella gengi íslenzku krónunnar án þess að breyta þeirri stefnu, sem þrívegis hefur þannig leitt til gengishruns á 7 árum, þýðir í raun og veru, að ríkisstj. byrjar strax að safna í fjórða gengisfallið. Við höfum sagt þjóðinni undanfarið, að ríkisstj. væri búin að grafa undan verðgildi krónunnar, og það höfum við sagt satt. En það, sem mest á reið, var þá einmitt, að leiðrétting á sjálfri gengisskráningunni yrði samferða stefnubreytingu í grundvallaratriðum í atvinnu- og efnahags- og kjaramálum.

Hér verður ekki komizt langt í því að lýsa þeirri stefnu, en ég nefni örfá höfuðatriði, sem ég hef þráfaldlega undanfarið skýrt nánar. Tekin verði upp stjórn á fjárfestingunni og verkefnum raðað eftir þýðingu þeirra fyrir atvinnulífið og þjóðarbúskapinn. Skynsamlegur áætlunarbúskapur verði innleiddur. Peningapólitík verði miðuð við þarfir atvinnulífsins og heilbrigða fullnýtingu vinnuafls og véla. Enn fremur komi til forysta ríkisvalds í atvinnumálum, sem byggist á nánu samstarfi við einstaklingsframtak, félagsframtak og samstarf við stéttasamtökin með fullum heilindum. Öflugur stuðningur við íslenzkt framtak, þar með talið að hefja íslenzkan iðnað til vegs og velmegunar. Byggðajafnvægis­- stefna, sem framkvæmd væri af öflugri stofnun með veruleg fjárráð.

En því er ekki að heilsa, að þessi stefna hafi verið tekin upp, heldur á allt að svamla áfram í sama ráðleysinu. En hvað ætli verði lengi að sækja í sama horfið fyrir íslenzkum fyrirtækjum og íslenzkum atvinnurekstri, ef hann verður rekstrarfjársveltur eins og undanfarið eða jafnvel því verr, sem nemur hækkunum á öllum nauðsynjum til rekstrarins vegna gengislækkunarinnar? Hvað verður um uppbyggingu atvinnulífsins og stórfellda sókn í tækni og vélvæðingu, ef áfram á að gilda sama tómlætið og ráðleysið og verið hefur í öllum afskiptum eða réttara sagt afskiptaleysi ríkisvaldsins af málefnum atvinnuveg­ anna og þeirri stefnu verður framfylgt, sem yfirlýst er af forsrh., að vaxtarbroddurinn í atvinnulífi á Íslandi þurfi að vera atvinnurekstur erlendra manna byggður upp á alls konar sérréttindum umfram atvinnurekstur landsmanna sjálfra?

Eins og í einkarekstri og einkalífi manna, skiptir þó mestu, þegar til Iengdar lætur, hvernig til tekst um fjárfestinguna, í hvað þjóðin leggur, á því veltur mest um afkomuna framvegis. Haldi sama óreiðan áfram og verið hefur í fjárfestingarmálunum, sem fyllilega er ætlun stjórnarinnar, verður ekki komizt út úr kviksyndinu.

Ofan á ranga meginstefnu í atvinnu- og efnahagsmálum, sem þrautreynt er, að leiði til algerrar sjálfheldu í málefnum landsins við hagstæð skilyrði, hefur ríkisstj. nú gert ráðstafanir til þess að slíta vinnufriðnum og sagt launþegasamtökunum stríð á hendur, eftir að hafa gert allt, sem hún gat, til þess að kenna þeim um gengislækkunina, en atvikin haga því svo, að af þeim tilburðum hefur ríkisstj. haft lítinn sóma, en vinnuaðferðir hennar skýrzt fyrir mörgum.

Það er álit okkar, að ríkisstj. hefði átt að segja af sér áður en hún lagði út í þá fásinnu að fella gengi íslenzkrar krónu í þriðja sinni að óbreyttri þeirri stefnu, sem þrívegis hefur leitt til gengisfalls. Það er skoðun okkar, að ríkisstj. geti ekki stjórnað, þótt hún vilji halda völdunum, og það sé siðferðileg og lýðræðisleg skylda hennar að fara frá þegar það hefur áþreifanlega sannazt, að henni hefur mistekizt í öllum höfuðatriðum. Við teljum það liggja í augum uppi, að ríkisstj. nýtur ekki lengur trausts meiri hluta þjóðarinnar, og fáum mun til hugar koma, að hún fengi nú umboð þjóðarinnar til þess að stjórna áfram, ef eftir væri leitað. Við teljum ríkisstj. því umboðslausa og á rangri og hættulegri leið, og henni beri því að fara frá og á þetta viljum við leggja ríka áherzlu með flutningi þessarar vantrauststill. – Góða nótt.