28.11.1967
Sameinað þing: 16. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2777)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar stjórnarandstaða í lýðræðisþjóðfélagi ber fram vantraust á ríkisstj., eru í flestum tilfellum ákveðnar forsendur fyrir hendi, svo sem umdeilanlegar efnahagsaðgerðir eða aðrar stórpólitískar ráðstafanir. Vissulega verður að telja ærna ástæðu til slíkrar tillögugerðar og umræðna, þegar grípa þarf til aðgerða eins og nú hefur verið gert, og á ég þá að sjálfsögðu við gengislækkunina. En ef sú staðreynd er höfð í huga, að þeir hv. þm., sem vantraustið bera fram, eru um leið að votta sjálfum sér traust, hljótum við stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. og þjóðin öll að spyrja þessa hv. þm., hvaða úrræði þeir hafi upp á að bjóða til lausnar miklum vanda, úrræði, sem þeir telja í sinni gagnrýni, að eigi að tryggja óbreytt kjör allra launþega, stórbæta hag alls atvinnurekstrar og standa undir hinum margháttuðu kvöðum, sem lagðar eru á ríkissjóð.

Þegar við spyrjum þessara spurninga, fást engin svör, aðeins þokukennt rugl um hina leiðina, sem allt bendir til, að aldrei hafi verið til nema í huga meistara Eysteins og nokkurra lærisveina hans. Það er hins vegar rétt, að ekki vantar gagnrýnina, enda er allt gagnrýnt, sem gert er, og þá aukaatriði, hvort svart er talið hvítt eða hvítt svart.

Ef sú vá skapast fyrir dyrum þeirrar þjóðar, sem býr við einhæfa útflutningsframleiðslu, að meginhluti útflutningsafurðanna fellur stórlega í verði á erlendum mörkuðum, segir stjórnarandstaðan á Íslandi, að það sé ríkisstj. að kenna, ef það hafi þá nokkuð að segja fyrir okkar þjóðarbúskap. Ef sjómenn okkar og útgerð fá yfir sig erfiðustu vetrarvertíð, sem komið hefur í hálfa öld, segir stjórnarandstaðan, að það sé ríkisstj. að kenna, og þegar Englendingar lækka gengi pundsins, sem óumflýjanlega markar þá braut, sem fara verður til þess að Ieysa vanda atvinnuveganna, segir stjórnarandstaðan á Íslandi, að þetta sé ráðabrugg ríkisstj. Það kemur því ekki á óvart, þótt framhaldið verði fullyrðingar framsóknarmanna um, að stuðningsflokkar ríkisstj. hafi blekkt kjósendur sína fyrir síðustu kosningar, og haldið því fram, að allur vandi væri leystur með verðstöðvunarlögunum og auknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Með slíkum málflutningi er vísvitandi verið að fara rangt með staðreyndir, eins og hæstv. forsrh. benti á hér á undan.

Í sambandi við auknar niðurgreiðslur á s.l. ári var skýrt tekið fram, að til þeirra væri notaður tekjuafgangur ríkissjóðs, sem ekkert lá fyrir um, að yrði fyrir hendi á næsta hausti. Við setningu verðstöðvunarlaganna var aldrei sagt, að grundvallarvandi útflutningsatvinnuveganna vegna verðfalls og aflabrests væri leystur með þeim. Hins vegar var sú von látin í Ijós, að á þessu tímabili gæti orðið um verðhækkanir á afurðum að ræða sem þó síðar brást. Og síðast en ekki sízt var því lýst yfir, að með þessu gæfist þeirri ríkisstj., sem mynduð yrði að loknum síðustu alþingiskosningum, tóm til að kynna sér vandamálin og leggja sínar till. fram á næsta Alþingi. Ef þjóðin hefði vottað hv. stjórnarandstæðingum traust sitt í þessum kosningum og hv. þm. Eysteinn Jónsson og Magnús Kjartansson sezt í ráðherrastóla, hefðu þeir notið þessara aðgerða ekki síður en núv. hæstv. ríkisstj. Þegar á þetta er horft, bið ég hlustendur að rifja upp, hvernig viðskilnaður þessara sömu gagnrýnenda var fyrir 9 árum, þegar þeir hlupu frá stjórn Iandsins í miðri messu, og engin samstaða var innan vinstri stjórnarinnar um nein úrræði gegn þeim vanda, sem þá blasti við. Nei, okkar kjósendur voru ekki blekktir s.l. vor. Hins vegar sýndu úrslit kosninganna, að hvorki kommúnistum né Framsfl. tókst að blekkja kjósendur.

Þær byrjunarráðstafanir, sem boðaðar voru í efnahagsfrv. ríkisstj. í haust, voru að meginefni til ráðstafanir til að tryggja hallalaus fjárlög. Að sjálfsögðu er það frv. ekki nú til umr. vegna gerbreyttra viðhorfa, sem sköpuðust við fall pundsins. En alþjóð er nú kunnugt um tilboð hæstv. ríkisstj. til ASÍ um viðræður og till. frá stjórnendum þess um, hvernig óumflýjanlegar álögur á þjóðina í heild yrðu sem léttbærastar þeim, sem úr minnstu hafa að spila í okkar þjóðfélagi. Ég tel, að nú sé rík ástæða til að óska eftir frekari og ýtarlegri till. frá samtökum launþega um leið og þær, sem þegar hafa verið bornar fram, verði kannaðar til hlítar, enda var vel í þær allar tekið, nema að afgreiða fjárlög með halla. Framkvæmd sumra þeirra getur orðið til stuðnings þeim vilja stjórnarfiokkanna að gera allt, sem hægt er, til að fyrirbyggja atvinnuleysi.

Með aðgerðum ríkisstj. er verið að tryggja atvinnuvegunum þann rekstrargrundvöll, sem nauðsynlegur er, svo að hægt sé að halda uppi fullri atvinnu um allt land. Persónulega tel ég, að tímabundin lífskjaraskerðing allrar þjóðarinnar eigi ekki að vera of stór fórn til að svo geti orðið. Að sjálfsögðu eru enn ókomin mörg þeirra frv., sem boðuð hafa verið vegna nauðsynlegra hliðarráðstafana, sem fylgja í kjölfar gengisbreytingarinnar.

Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir sem stefnu sinni, að hún vilji hafa samráð við verkalýðshreyfinguna í því skyni, að gengislækkun sú á krónunni, sem ákveðin hefur verið, rýri ekki hlut launþega meira en óhjákvæmilegt reynist. ASÍ bar fram þá ósk við ríkisstj., að fulltrúar þess fengju aðild að verðlagsákvörðunum. Ríkisstj. varð við þessari ósk, og í gær og í dag hefur frv. þess efnis, að 4 fulltrúar ASÍ taki sæti í verðlagsnefnd meðan áhrif gengislækkunarinnar eru að koma fram í verðlagi innanlands, verið rætt. Þegar mál þetta var til umr. í Nd. s.l. nótt, var furðulegt sjónarspil sett á svið. Þegar ríkisstj. hefur orðið við ósk ASÍ og málið er tekið fyrir á næturfundi til að flýta því, bera framsóknarmenn fram till. þess efnis, að fulltrúum ASÍ verði fækkað, en í staðinn komi fulltrúi frá BSRB. Þetta var gert, þrátt fyrir vitneskjuna um það, að önnur launþega­ samtök eigi kröfu á slíku alveg til jafns við samtök opinberra starfsmanna, að ekki sé minnzt á neytendasamtökin, og einnig, að slíkar kröfur hljóta að koma upp síðar hjá þessum samtökum. Á fundinum í nótt var m.a. vitnað í samþykki forseta og varaforseta ASÍ, sem báðir eiga sæti hér á Alþ., eins og þeir tveir hafi einhvern rétt til að afsala ASÍ rétti, sem því er færður með löggjöf. Í dag í Ed. og síðar í Nd. var svo orðið við þessari ósk, einfaldlega vegna þess að þarna var um formsatriði ein að ræða því að það vita allir menn, að ráðamönnum ASÍ var Ieyfilegt skv. till. ríkisstj. að skipa hvern sem var sem fulltrúa sinn í verðlagsnefnd og þeir hefðu getað skipað Kristján Thorlacius í þá stöðu ekki síður en þeir gátu skipað uppflosnaðan bónda af Barðaströnd í kjararannsóknanefnd á sínum tíma. Þetta litla sjónarspil ber þess glöggan vott, að hv. stjórnarandstæðingar eru ekki allir ánægðir með viðræður hæstv. ríkisstj. og fulltrúa launþegasamtakanna, og virðast sumir mikið á sig leggja til þess að halda þessu ósamstæða og sundurþykka liði saman.

Það hefur ekkert leyndarmál verið, að framsóknarmenn og sumir kommúnistar í Alþb. hafa gengið berserksgang til að skapa sem mestan vanda fyrir ríkisstj., og reyndu hvað þeir gátu til að koma á allsherjarverkfalli 1. des., áður en ríkisstj. gæfist ráðrúm til að mæta þeim vanda, sem svo skyndilega blasti við, þegar gengi pundsins var fellt. Þáttur Framsfl. í sambandi við verkfallið á verzlunarflotanum og lausn þeirrar viðkvæmu deilu er enn eitt dæmi um það, hvaða aðferðir eru notaðar.

Góðir hlustendur. Á undanförnum árum hafa auknar þjóðartekjur dreifzt jafnóðum og þær urðu til til allrar þjóðarinnar, til launþega, til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar, til uppbyggingar atvinnuveganna. Vissulega hafa mörg víxlspor verið stigin, og af mistökunum ber að læra. Óarðbær fjárfesting í flestum greinum atvinnulífsins er ekki nýlunda hér á landi, og sjálfsagt eigum við stuðningsmenn ríkisstj. eftir að deila innbyrðis og við aðra um nauðsynlegar ráðstafanir til að mæta afleiðingum slíkra gerða. En vaxandi skilningur þjóðarinnar á nauðsyn aukinnar framleiðni í öllum greinum atvinnulífsins, sem markvisst er unnið að, auk nýrra atvinnugreina, betri nýtingar fiskimiða og sjávarafla, auk sparnaðar í opinberum rekstri gefur vonir um, að áhrif þeirra áfalla, sem við höfum orðið fyrir, verði skammvinn og þjóðin geti þá í enn ríkara mæli notið framfara og velmegunar, eins og á undanförnum árum. Góða nótt.