07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2789)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Undanfarna mánuði hef ég eindregið verið þeirrar skoðunar, að gengisfelling íslenzku krónunnar væri eina úrræðið sem dygði til þess að rétta við hag útflutningsatvinnuveganna, auka atvinnu í landinu og örva gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á ný. Ég hef ekki verið ásáttur með tregðu ríkisstj. og efnahagsráðunauta hennar til þess að gera sér þessar staðreyndir ljósar í tæka tíð. En gengisfelling pundsins opnaði augu manna. Þá var strax ljóst, að lækka þurfti krónuna til að bægja frá skakkaföllum vegna lækkunar sterlingspundsins. En úr því að fara þurfti út á þessa braut á annað borð var það auðvitað rétt stefna að stíga skrefið til fulls, að skrá gengi, er gæti staðið til frambúðar, er gerði okkur jafnframt fært að hverfa frá uppbótarkerfi sjávarútveginum til handa, sem skapazt hefur á undanförnum árum.

Þótt ég telji gengisfellingu bezta úrræðið til að mæta þeim stórfelldu efnahagslegu áföllum. sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir á þessu ári, verða allir að gera sér ljóst, að gengisfellingin krefst fórna af launþegum og neytendum og tvímælalaust af öllum landsmönnum í einhverri mynd. Nú þarf að deila byrðunum á bak allra Íslendinga, sagði Hannibal Valdimarsson í tímariti Alþýðusambandsins haustið 1958. En þá áttu útflutningsatvinnuvegirnir mjög í vök að verjast vegna óðaverðbólgu innanlands. Þessi orð eiga vel við í dag, þótt örðugleikar útflutningsatvinnuveganna séu nú af öðrum rótum runnir en haustið 1958. En gengisfellingin ber því aðeins ríkulegan ávöxt, begar fram liða stundir, að menn skilji hann einfalda sannleika, að við höfum nú sem stendur minna til skiptanna en áður. Deilur og átök stétta og hagsmunasamtaka. sem grundvallast á því. að hver og einn vill velta byrðunum af sér og yfir á náungann fá engu áorkað þjóðinni til heilla, en lama þrek okkar til baráttu gegn örðugleikunum, sem að höndum hefur borið. Við skulum hafa það hugfast, að það er ekki aðeins gengislækkun sem hefur í för með sér fórnir og kjaraskerðingu, heldur einnig sérhver önnur leið sem valin hefði verið til að mæta þeim vanda, sem nú steðjar að.

Það sem gengislækkun hefur til að bara umfram önnur úrræði, er einkum tvennt. Hún er sterk hvatning til meiri framleiðslu og aukinnar gjaldeyrisöflunar, og hún er hagkvæmasta ráðið til að auka eftirspurn eftir vinnuafli og bæta úr atvinnuskorti, sem víða hefur komið fram að undanförnu. Örugg atvinna og blómlegt atvinnulíf er langþýðingarmesta hagsmunamál launþega og verkalýðssamtaka og skiptir miklu meira máli en það hvort unnt reynist að greiða fulla vísitöluppbót á kaup um stundarsakir, meðan við erum að komast yfir örðugasta hjallann. Sannarlega erum við á hættulegri þraut, þegar svo er komið, að það er ódýrara að sækja til útlanda flest allt, sem við getum framleitt sjálfir, en að skipta við innlenda framleiðendur. Má í þessum greinum minna á skipasmíðar og skipaviðgerðir, veiðarfæragerð, prentun bóka, smíði innréttinga í hús og framleiðslu ýmiss konar iðnvarnings. Þegar svona er ástatt, er gengisskráningin orðin röng og því leiðréttinga þörf. Gengisleiðréttingin verður þá innlendum framleiðendum styrkur til að auka samkeppnishæfni og framleiðni fyrirtækja sinna og rennir þannig nýjum stoðum undir innlenda atvinnuvegi. Það skal að vísu játað, að gengisfellingin leiðir væntanlega til meiri verðbólgu en önnur úrræði, sem til álita komu. Er því nauðsynlegt að reyna að forðast kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. En sé ekki nema um tvennt að velja, verðbólgu eða atvinnuleysi, vel ég hiklaust fyrri kostinn.

Hinni nýju gengisskráningu hljóta að fylgja ýmiss konar viðaukaráðstafanir, sem einkum hafa þann tilgang að jafna byrðunum réttlátlega niður, að koma í veg fyrir óeðlilegan gróða og draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar, þar sem hún kemur verst við. Skal ég hér á eftir nefna nokkur atriði, sem borið hefur á góma í þessum efnum.

1. Ströng verðlagsákvæði og aukið verðlagseftirlit. 2. Lækkun tolla. 3. Hækkun ellilífeyris og fjölskyldubóta. 4. Ný fjárframlög til húsnæðismála. 5. Hækkun eignarskatts. 6. Uppbætur á sparifé.

Það er mjög mikilvægt, hversu til tekst um þessar hliðarráðstafanir, þótt við megum að hinu leytinu ekki gleyma því, að fjárhagsgeta ríkissjóðs er takmörkuð brátt fyrir það, að nokkurt fé liggur nú á lausu, vegna þess að uppbætur til sjávarútvegsins falla væntanlega niður. Ríkisstj. mun hafa samráð við verkalýðshreyfinguna á næstu vikum um þessar ráðstafanir. og er góðs af því að vænta. Aðalatriðið er það, að þjóðin mun sætta sig við að taka á sig byrðar, ef hún finnur, að þeim er réttlátlega skipt.

Framsóknarmenn telja fólki trú um, að meginorsakir erfiðleikanna séu ekki verðfall. markaðsörðugleikar og minnkandi sjávarafli, heldur kenna þeir um rangri stjórnarstefnu. Halda þessir menn að borgarastyrjöldin í Nígeríu, sem valdið hefur lokun mikilvægs skreiðarmarkaðar sé að kenna rangri stjórnarstefnu á Íslandi? Á ríkisstj. sök á því, að páfinn hefur leyft kaþólskum mönnum að éta kjöt á föstudögum, en vegna þess hefur dregið úr eftirspurn eftir fiskmeti? Er það ríkisstj. að kenna, að aukin og endurbætt framleiðsla ýmiss konar gerviefna úti í heimi hefur orsakað stórfellda verðlækkun á ull og gærum? Ber ríkisstj. ábyrgð á því, að aðrar þjóðir hafa aukið fiskiskipaflota sinn svo, að offramleiðsla á sér nú stað í heiminum á lýsi og mjöli með tilheyrandi verðfalli? Er hægt að bæta úr þessu með nýrri stjórnarstefnu? Hefðu síldveiðarnar í ár gengið betur eða kalið 3 túnum bænda orðið minna, ef Framsókn hefði setið í ríkisstj.?

Á síðustu árum hafa framsóknarmenn haldið því óspart fram, að góðærið væri ekki ríkisstj. að þakka. En þegar harðnar í ári, er ríkisstj. sökudólgurinn. Svona barnalegur áróður mun ekki finna hljómgrunn meðal íslenzku þjóðarinnar.

Stjórnarandstæðingar klifa mjög á því þessa dagana, að nú hafi ríkisstj. fellt gengi krónunnar í þriðja sinn á tæpum 8 árum og sýni þetta glögglega, að lækkun á gengi íslenzku krónunnar sé engin varanleg lausn. Þetta er vert að athuga betur. Ríkisstj. felldi gengið í upphafi stjórnarferils síns í febrúarmánuði 1960 um 34%. Þessi gengisfelling var afleiðing þess, sem gerzt hafði í efnahagsmálum okkar næstu árin á undan áður en núv. ríkisstj. tók við. Raunar féll gengið á vinstristjórnarárunum. En sú gengisfelling var falin fyrir þjóðinni á bak við yfirfærslugjöld og stórfelldar útflutningsuppbætur. Tilgangur gengisbreytingarinnar 1960 var tvíþættur. Annars vegar að leiða staðreyndirnar í ljós og hins vegar að skapa þjóðinni heilbrigðara efnahagskerfi. Árið 1961 var svo framkvæmd minni háttar gengisfelling til að tryggja vöxt gjaldeyrisvarasjóðsins. Þessar gengisbreytingar urðu grundvöllur undir öflun nýrra og stórvirkari framleiðslutækja, sem gerðu þjóðinni fært að nýta vel hin hagstæðu ár, sem á eftir komu með hækkandi verðlagi á útflutningsafurðum okkar og góðum aflabrögðum og meiri velmegun þjóðarinnar en áður hafði þekkzt, Það er því alrangt, sem stjórnarandstæðingar halda nú fram, að gengisbreytingarnar 1960 og 1961 hafi brugðizt sem úrræði í efnahagsmálum.

Stjórnarandstæðingar, og þó einkum Eysteinn Jónsson, segja, að verðstöðvunarstefnan hafi verið haldreipi stjórnarflokkanna í kosningunum í vor. Þeir hafi lofað þjóðinni áframhaldandi verðstöðvun, ef þeir héldu velli, en í reynd hafi þeir vitað betur og nú séu svikin komin fram. Aðvaranir framsóknarmanna hafi reynzt réttar, en þjóðin hafi látið blekkjast. Þessi túlkun er ekkert einsdæmi. S. l. 8 ár hefur Eysteinn Jónsson haldið því fram á hverju einasta ári, að ríkisstj. hafi svikið öll sín loforð frá síðustu kosningum og blekkt þjóðina. En í þessum ummælum Eysteins felst sú skoðun hans, að meiri hluti þjóðarinnar sé í raun réttri grunnhyggið og trúgjarnt fólk, sem stjórnarflokkarnir geti logið fullt fyrir hverjar kosningar, sér og sínum skuggalegu fyrirætlunum til framdráttar. Í þessu er einmitt fólginn veikleiki Eysteins sem stjórnmálaforingja. Hann gerir sér ekki nægilega vel ljóst, að meiri hluti þjóðarinnar er fólk, sem vill kryfja hlutina til mergjar og hafa það, sem sannara reynist. Þetta fólk hlustar fúslega á gagnrýni á ríkisstj. og gerðir hennar. En því finnst þessi gagnrýni fara út í öfgar, þegar allt, sem stjórnin gerir, er álitið rangt eða ófullnægjandi, hvort sem það er verðstöðvun gengisbreyting, breytingar á skatta- og tollalöggjöf, svo að eitthvað sé nefnt.

Þetta fólk fellst ekki á það að aldrei hefði

þurft að leggja byrðar á þjóðina, ef aðrir menn hefðu stjórnað og þetta fólk er líka minnugt. Það man vel, hvernig þeim tókst til á sínum tíma, sem nú bera fram vantraust á ríkisstj. Umfram allt lætur þetta fólk sér ekki nægja innantóm slagorð um gerbreytta stjórnarstefnu. Það vill eitthvað meira.

Það var vissulega sjónarmið Alþfl. að viðhalda verðstöðvuninni svo lengi, sem þess væri kostur. En það var skýrt fram tekið af hálfu flokksins fyrir kosningarnar í vor, að hann lofaði þjóðinni ekki gulli og grænum skógum, en á hinn bóginn mundi flokkurinn reyna að hlaupast ekki brott frá þeim skyldum, sem honum væru lagðar á herðar. Ef afkoma ríkissjóðs og atvinnuveganna hefði orðið jafngóð í ár og í fyrra, væri auðvelt að halda verðstöðvuninni áfram. En hér hefur gerbreyting orðið á til hins verra, eins og allir vita, vegna utanaðkomandi atvika, sem ekki var á valdi neinnar ríkisstj. að fyrirbyggja. Kjarni málsins er, að nýjum aðstæðum verður að mæta með nýjum úrræðum. Þótt ekki yrði hjá því komizt að hverfa frá verðstöðvuninni, hefur hún samt gegnt mikilvægu hlutverki fyrir atvinnuvegina og þjóðina í heild og dregið úr afleiðingum þeirra geysilegu erfiðleika, sem nú eru fram komnir. Það var eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnarinnar að koma á fjögurra mánaða verðstöðvun og það var talinn mikill ávinningur fyrir útflutningsatvinnuvegina og atvinnuöryggið í landinu. Samt sem áður hvarf vinstri stjórnin frá þessari stefnu, án þess að verðfall eða aflabrestur ætti þar hlut að máli og án þess að minnzt væri á svik við kjósendur. En úr því að fjögurra mánaða verðstöðvun var álitin hafa mjög heillavænleg áhrif á vinstristjórnarárunum, sem ég er alls ekki að véfengja, hlýtur þá ekki 14 mánaða verðstöðvun nú að undanförnu að hafa miklu meira gildi?

Gengisbreyting sú, sem nú hefur verið gerð er allmiklu minni en gengislækkanirnar 1950 og 1960. Þótt gengisfelling sé sú lausn sem bezt á við um þessar mundir, hljótum við samt að hafa áhyggjur af því, hve oft hefur þurft að skerða krónuna bæði beint og óbeint á undangengnum áratugum, og leiða hugann að því, hvaða veilur séu í efnahagskerfi okkar, sem valdi þessu Þar eru ofarlega á blaði einhæfni útflutningsatvinnuveganna, rótgróið víxlhækkanakerfi og forsjárlítil fjárfesting. Í fjárfestingarmálum höfum við reynt bæði höft og frelsi, en hvorugt gefizt vel. Hér er mikill vandi óleystur, en lausnin verður að byggjast á annars vegar dug og frumkvæði einstaklinganna, en hins vegar á skipulagningu og áætlanagerð sem ekki sé hvikað frá, þegar á reynir. Vel rekin atvinnufyrirtæki eru einn af hornsteinum að velferð þjóðarinnar. Þau atvinnufyrirtæki, sem eru illa rekin til langframa. eiga að fara á hausinn og það má ekki gefa þeim undir fótinn með að þeim verði bjargað með opinberum ráðstöfunum.

Sú hugmynd hefur oft komið fram á undangengnum árum, að rétt væri að taka núll aftan af krónunni, eins og það er kallað eða m.ö.o. gera 10 kr. seðilinn að krónu. Þetta hefur að vísu engin bein hagsmunaleg áhrif, og sumir kalla þetta bara talnaleik. Þó hafa aðrar þjóðir, sem hafa orðið gengisfellingunni að bráð gert þetta, eins og t.d. Frakkar og Finnar. Það væri rétt að íhuga þetta mál vel á næstunni. Menn bera meiri virðingu fyrir stærri krónu og sálræn áhrif í peningamálum hafa líka sitt gildi. En hvað sem þessu líður, þurfum við öll að hugsa það mál vandlega, hvernig framtíðargildi íslenzku krónunnar verði bezt borgið

Höfundar till. um vantraust á ríkisstj., sem hér er fram borin eru þeir Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson. Væntanlega gera þeir sér ekki miklar vonir um, að till. verði samþ., enda eru þeir ekki reiðubúnir til að taka við landsstjórninni. Eysteinn Jónsson og Lúðvík Jósefsson hafa enga nýja lausn á takteinum og reyndar óvíst, hvort þeir kæmu sér saman um nokkuð annað en að vera á móti núv. ríkisstj. Vantrauststill. er flutt á örlagaríkum tímum, þegar þjóðinni ríður á því að standa saman. Tilgangurinn með flutningi till. er fyrst og fremst sá, að skapa deilur og spilla fyrir árangri af þeim þýðingarmiklu viðræðum milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar, sem fram hafa farið síðustu vikurnar og er hvergi nærri lokið. Eysteinn og Lúðvík gleyma því ekki, að það var í raun réttri verkalýðshreyfingin sem svipti þá ráðherrastólunum 1958. Verkalýðshreyfingin gerir sér hins vegar grein fyrir því, að ef núv. ríkisstj. félli, gæti orðið bið á því, að ný ríkisstj. væri mynduð sem væri jafnfús til góðs og árangursríks samstarfs við verkalýðshreyfinguna og núv. ríkisstj.

Viðræðurnar milli ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu hafa leitt til þess. að nýja vísitalan er viðurkennd. að verðlagsuppbót verður greidd á laun 1. des. n k. og að yfirvofandi verkföllum hefur verið bægt frá. Í ræðu sinni í gærkvöld taldi forseti Alþýðusambandsins þetta fullan sigur. En Tíminn segir, að verkalýðshreyfingin hafi hopað á hæl fyrir ríkisstj. Vita allir, hvað undir þeim ummælum býr.

Alþýðusamband Íslands hefur nú fengið sterka aðild að verðlagsnefndinni. en n þessi er mjög valdamikil, og hafa ákvarðanir hennar mikil áhrif á þróun verðlagsmálanna. N. þessi ætti að taka upp þá nýbreytni að gera almenningi grein fyrir niðurstöðum sínum og skýra frá því, á hvaða forsendum verðhækkanir eru leyfðar. Með þessu má eyða tortryggni og misskilningi og skapa n aðhald. T.d. mætti hugsa sér það fyrirkomulag á þessu, að formaður verðlagsnefndarinnar kæmi við og við fram í útvarpi og sjónvarpi, þar sem hann yrði þaulspurður um þessi mál.

Í dag verðum við að horfast í augu við staðreyndirnar. Það dugir ekki að tala til þjóðarinnar með lokuð augu eins og stjórnarandstæðingar hafa gert að undanförnu Við viljum öll tryggja velfarnað þjóðarinnar, en það verður ekki gert nema leggja raunsætt mat á hlutina. Sú þjóð sem trúir á hagsæld án fórna, er á villigötum. Ég trúi því, að íslenzka þjóðin hafi til að bera áræði og giftu til að marka sér rétta braut.