07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (2794)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Háttvirtir tilheyrendur. Fornar heimildir greina frá því, að heiðnir menn hafi talið sér leyfilegt, þegar þeir vildu ná sigri, að mæla fagurt, en hyggja flátt. Aldrei mun þó sú aðferð hafa þótt stórmannleg eða þeir vel að sigrinum komnir, sem þeirri aðferð beittu. Með vaxandi menningu og lýðræðishugsjón var slík siðfræði, að mæla fagurt og hyggja flátt, dæmd úr leik. Þó hefur stundum viljað bóla á hinni fornu aðferð hjá ýmsum stjórnmálamönnum, þegar þeir hafa talið málstað sinn standa höllum fæti og ekki þolað að satt væri frá sagt um þeirra verk. Slíkar baráttuaðferðir hafa orðið til þess að veikja trú margra manna á lýðræði, og á síðari árum hefur svo farið, að lýðræðið er víða á undanhaldi í heiminum, einmitt af þeim ástæðum, að baráttuaðferðir ýmissa stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka hafa um of hneigzt til þess að vinna kosningasigra á þeim grundvelli að mæla fagurt til kjósenda og lofa miklu og góðu en leyna ýmsu. Af sömu rót er það einnig runnið þegar ráðandi stjórnmálaflokkar fara að móta löggjöf þannig að draga úr afskiptum og ákvörðunarvaldi löggjafarsamkomunnar, en afhenda embættismönnum og ráðuneytum þetta vald. Slíkar ráðstafanir eru allar gerðar til þess, að viðkomandi ríkisstj. geti sem mest komizt fram hjá löggjafarsamkomunni, svo að stjórnarandstöðuflokkarnir fái ekki tækifæri til afskipta.

Því miður hefur sá þingmeirihluti og sú stjórn, er hann styður og hér hefur ráðið ríkjum s.l. 8 ár, mjög farið inn á þessa hættulegu braut og þar með veikt lýðræðislega og þingræðislega meðferð mála. Eitt af þeim málum, sem núv. stjórnarflokkar hafa tekið úr höndum Alþ. og fært til embættismanna og ríkisstj., er skráning krónunnar, sem Seðlabankinn hefur í orði kveðnu nú, en allir vita, að raunverulega er ákveðið af ríkisstj. Af hinu stafar þó kannske ekki minni hætta, að stjórnarliðið hefur mjög tekið upp fyrir kosningar og tileinkað sér þá siðfræði heiðinna manna í fornöld að mæla fagurt, en hyggja flátt. Er þar skemmst á að minnast viðreisnarsönginn og sögurnar um alla ódáinsakrana, er nú mundu um alla framtíð spretta sjálfsánir, ef núv. stjórn fengi að halda völdum. Þeir sögðu þjóðinni á s.l, vori fyrir kosningar, að hér kæmi ekki til gengisfellingar. Það væru þeir búnir að tryggja með traustum gjaldeyrisvarasjóði, og allir fjármálavitringar úti í öðrum löndum hefðu framúrskarandi traust á fjármálastjórninni hér. Þeir lækkuðu vöruverðið fyrir kosningarnar, svo að ýmsar vörur, eins og mjólk, smjör og kartöflur, voru seldar fyrirhálfvirði,en ríkissjóður látinn borga hinn helminginn. Þetta var sannkölluð kosningaveizla. Dálítill meiri hluti kjósenda varð glaður og áhyggjulaus og veitti stjórninni umboð til að sitja.

En það voru ekki margir mánuðir liðnir frá kosningunum, þegar hið sanna, sem stjórnarandstaðan hafði haldið fram í kosningabaráttunni, fór að koma í ljós. Fyrsta áþreifanlega sönnunin var lækkun á niðurgreiðslu vöruverðsins. Sú hækkun niðurgreiðslnanna, sem sett var á fyrir kosningar, var aftur tekin. Kosningaveizlunni var lokið. Annað kom og í ljós, verzlunarhallinn við útlönd jókst ískyggilega, og gjaldeyrissjóðurinn frægi eyddist því miður fljótt. Það hefði ekki verið talin viturleg spá eða af góðgirni mælt, ef einhver hefði farið að tala um það á s.l. vori á kjósendafundum að ríkisstj. yrði búin að taka gjaldeyrislán fyrir jól, svo að kaupmenn gætu flutt inn jólavarninginn. En það er nú samt svo komið að fyrir einni eða tveimur vikum var slíkt lán tekið að upphæð 160 millj. kr. Stjórnin svarar því til, að þetta stafi af aflabresti og verðfalli á íslenzkum framleiðsluvörum erlendis. Ekki skal ég neita því, að vöruverð hafi lækkað erlendis á afurðum okkar síðustu mánuði og dregið hafi úr aflamagni. Þó má vel geta þess, að verð á saltfiski hefur aldrei verið eins hátt og á þessu ári. Það hefur að vísu tregazt mjög afli til verkunar í salt, en það má vel spyrja ríkisstj., af hverju hún hafi á síðustu árum horft á það aðgerðalaus, að togurum hefur stórfækkað og fiskibátar hafa verið látnir í tuga- eða hundraðatali hætta að veiða fisk til verkunar í salt. Þessi dýru framleiðslutæki liggja víða ónotuð og grotna niður á meðan eftirspurn eftir saltfiski eykst og verðið fer hækkandi.

Það hefur oft verið minnzt á það við ríkisstj. hér á hinu háa Alþ. og á öðrum vettvangi, að nauðsyn bæri til að hafa meiri skipulagningu og yfirstjórn á atvinnuvegunum og hinum stóru og dýru tækjum þeirra og að hvaða framleiðslugreinum ætti á hverjum tíma að beina vinnuafli og vélum. Þetta hefur hæstv. stjórn ekki mátt heyra. Hún kveðst trúa á einhver lögmál í efnahags- og atvinnumálum. þar sem samkeppni framboðs og eftirspurnar eigi að ráða. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki tileinkað sér hið forna og merka heilræði: Verið ekki lögmáls þrælar, — því að hún hefur viljað gera það að undirstöðuatriði viðreisnarspekinnar, að allt skuli stjórnast af lögmáli framboðs og eftirspurnar. Sú kenning fær ekki staðizt og allra sízt hjá svo fámennri þjóð sem við Íslendingar erum. Efnahagsvanda þjóðarinnar verðum við að leysa með skipulegri yfirsýn og samráði allra þeirra aðila, sem það mál láta sig varða, og það gera auðvitað allir stjórnmálaflokkar landsins. Það verður aldrei hægt að ráða fram úr hinum erfiðu efnahagsvandamálum, sem íslenzka þjóðin er nú komin í, nema um þau verði samið af þeim öllum og það látið ganga fyrir öðru að leysa það mikla vandamál.

Það er á engu sviði eins hættulegt fyrir litinn meiri hluta að ætla sér allt valdið og á efnahagsmálasviðinu, þegar í mikinn vanda er komið. Ég lít svo á, að ekki sé hægt að leysa efnahagsvandann til frambúðar nema þar komi til samkomulag og ábyrgð allra stjórnmálaflokkanna. Þeir eru fulltrúar fólks, sem allt vill þjóð sinni vel og þráir það eitt að ná góðum árangri í lífsbaráttu sinni eftir því, sem landið getur veitt. Ég er viss um, að þjóðin vill ekki, að lítill meiri hluti, jafnvel þótt hann hefði ekki sagt þjóðinni ósatt fyrir kosningar um raunverulegar efnahagsástæður sínar, hangi hér við völd og heimti hlýðni þegnanna við hvers konar fyrirmælum, sem eru eitt í ár og annað á næsta ári, eins og reynslan hefur verið að undanförnu. Það eina, sem í haust var sæmandi fyrir hæstv. ríkisstj., var að segja af sér og taka svo þátt í að koma hér á stjórn allra flokka, sem hefði sett sér það mark og samið um það að skiljast ekki fyrr við en búið væri að tryggja atvinnuvegum landsmanna það öryggi, sem veitt gæti þeim vaxtar- og þroskaskilyrði og þjóðinni allri góða framtíð og velgengni, því að velgengni atvinnuveganna eru allir þegnar landsins einnig háðir um sína eigin afkomu.

Síðan hið svonefnda júní-samkomulag var gert 1964 og kaupgreiðslu vísitala tók gildi að nýju hefur verið sæmilegur friður um kjaramálin. Varla þarf að efa, hvað af því hlýzt, ef vísitölunni er kippt úr sambandi. Það verður endurtekning á fyrri reynslu frá árunum 19so-1964, deilur og verkföll, sem þjóðin öll líður við. Gengisfellingin mun leiða af sér mikla verðhækkunaröldu eins og alltaf verður við slíkar ráðstafanir, ekki sízt þegar svo stórfelld gengislækkun er gerð. Ég trúi því illa, að fólk eins og allur fjöldi verkamanna og iðnaðarmanna, sem ekki hefur með 8 stunda vinnudegi nema 110—120 þús. kr. í árslaun geti þolað verðhækkun án þess að fá slíkt bætt. Ég er viss um, að þessar stéttir finna leiðir til að knýja fram leiðréttingar á sínum kjörum.

En það eru hins vegar til í þjóðfélaginu aðrir aðilar, sem ekki hafa slíka aðstöðu og á ég þar við gamla fólkið sem er að mestu eða öllu leyti hætt að vinna og verður að lifa af ellilífeyri, sem ekki á að hækka til samræmis við þá verðhækkun er nú kemur í kjölfar gengislækkunarinnar. Sumt aldraða fólkið hefur dregið saman nokkrar krónur á langri lífsleið sem það ætlar sér til styrktar í ellinni. Gengislækkunin sér fyrir því að minnka þessar krónur og gera þær lítils virði. Margt eldra fólk á íbúð sem það býr í. Nú hefur hæstv. ríkisstj. í hyggju að tólffalda þessar eignir í verði til skattlagningar. Allir geta séð hvernig slíkar ráðstafanir munu koma við hina öldruðu. Gamla fólkið getur ekki farið í verkfall til að rétta hlut sinn eða fá hann bættan. Það mun því verða að taka til þess eina ráðs, sem fyrir hendi er, að spara við sig þá litlu neyzlu, sem það flest hefur veitt sér.

Gengislækkanir og verðhækkanir hitta flesta illa, en fáir verða þó varnarlausari fyrir slíku en hinir öldruðu. Frá því er sagt í Gautrekssögu að á Gautlandi var á einum stað þverhníptur hamar, sem hét Gyllingshamar, og stapi einn á hamrinum, sem hét Ætternisstapi. En svo hét hann af því, að þar fækkaði það fólk ætt sinni, er þar bjó, þegar þrengdist í búi, og þá var gamla fólkið leitt fram af stapanum. Kosningaloforðum ríkisstj. má líkja við Gyllingshamarinn, því að ekki vantaði fyrir kosningarnar á s.l. vori gyllingar og fögur fyrirheit. Upp á það háa fjall leiddi ríkisstj. eða stjórnarflokkarnir kjósendurna í vor, enda leyndist þar hinn fjárhagslegi ætternisstapi, gengisfellingin, á bak við loforðin. Ofan fyrir

þann ætternisstapa hrapar nú margur sjóðurinn sem aldraða fólkið ætlaði sér til framfærslu í ellinni, og er það hörmuleg frammistaða af ríkisstj. að láta á þann hátt verða efndirnar fögrum fyrirheitum, þegar hún var að biðja um atkv. á síðasta vori.

Hæstv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, hefði verið nær, þegar hann talaði hér í gærkvöld, að skýra frá því hvernig hann hugsaði sér, að gamla fólkið fái notið sómasamlegra lífskjara eftir, það, sem nú hefur yfir það dunið heldur en að nota sínar góðu gáfur til þess að ryðja úr sér öllum þeim svívirðingum og ósannindum, um Framsfl. og forustumenn hans, sem hann, viðhafði hér. Sannleikurinn er sá, að pólitískt gengi Alþfl. stóð þá hæst og hann naut sín bezt, þegar hann hafði samstarf við Framsfl. En nú stendur hið pólitíska gengi Alþfl. ekki hátt. Og muna mætti hann eftir því, þegar hann fór í liðsbón til Framsfl. 1956 og bað um kosningabandalag til að bjarga Alþfl. frá dauða, en þá var talin hætta á, að Alþfl. kæmi hvergi að manni. Það er sagt, að ýmsir menn sem bjargað hefur verið frá drukknun, hafi upp frá því hatað lífgjafa sína. Það virðist vera einnig svo með Alþfl., a.m.k. Gylfa Þ. Gíslason. Sennilega er slíkt ósjálfrátt, og skal ekki gert veður út af því, þó að hinn þreytti maður sé með ergelsi út af þessu um leið og hann rígheldur sér í ráðherrastólinn

Hæstv. landbrh. Ingólfur Jónsson talaði hér í gærkvöldi og minnist með fáum orðum á bændur. Taldi hann, að ræktun ykist mjög. Hvað segja jarðræktarskýrslur um þessa fullyrðingu ráðh.? Þær segja það að nýrækt var hér árið 1965 5045 ha og var rúmum 1000 ha minni en árið áður. Og enn gerðist það sama árið 1966. Þá var nýrækt ekki nema 4057 ha og þá enn það ár 1000 ha minni en árið áður. Á sama tíma mun talsvert af ræktuðu landi hafa farið í órækt með jörðum, sem fóru í eyði. Enn fremur er talsvert af ræktuðu landi, sem fer undir götur, byggingar og önnur mannvirki , í kaupstöðum og þorpum landsins. Þessar staðreyndir eru ekki fagur vitnisburður um viðreisnarstefnuna og áhrif hennar á framkvæmdagetu og hag bænda.

Hæstv. landbrh., taldi í ræðu sinni í gær hag bænda stórbatnandi og sagði, að þeir mundu hafa brosað í kampinn þegar þeir hefðu heyrt Eystein Jónsson segja, að staða bænda væri ótraust fjárhagslega og efnahag þeirra væri að hraka. Til hvers er nú hæstv. landbrh. að tala svona borginmannlega og kaldhæðnislega um ástæður bænda? Hann hlýtur þó að vita, að bændur landsins horfa ekki með bjartsýni fram á veginn nú. Ég skal upplýsa nokkrar staðreyndir um efnahagsástandið hjá bændastéttinni. Samkv. úrtaki, sem Hagstofa Íslands gerði á framtölum bænda á árinu 1966 og gert var þannig, að framtöl 734 búa voru tekin sérstaklega úr öllum framtölunum, og síðan voru valin úr þeim 86 bú af þeirri stærð sem notuð eru við ákvörðun verðlagsgrundvallar, — niðurstaðan varð sú, að þegar búið var að draga frá tekjum þessara 86 manna fyrningargjöld af útihúsum og vaxtagjöld, voru eftir 98 þús. kr. tekjur. Þetta sama ár voru meðaltekjur viðmiðunarstéttanna, sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna, 244 þús. kr. Þetta sýnir, hvernig staða bændastéttarinnar sem heildar er á hinum svokölluðu viðreisnartímum, þó að hægt muni vera að benda á nokkra bændur til og frá um landið sem eru betur settir, enda hefur það alltaf verið jafnvel á hinum verstu hallærisárum í sögu þjóðarinnar, að til voru einstakir bændur, sem voru vegna ýmislegrar sérstöðu betur settir en heildin. Er svo ævinlega í öllum stéttum, en slíkt segir ekkert um almennan hag heildarinnar.

Af því, sem ég hef hér sagt og upplýst um hag bændastéttarinnar, verður það skiljanlegt, að hvort tveggja gerist í senn, framkvæmdir dragast saman eins og skýrslur um nýræktina gefa til kynna, og lausaskuldir virðast fara vaxandi í stórum stíl. Við síðustu áramót voru lausaskuldir bænda 500–600 millj., og vitað er, að þær hafa mikið vaxið á þessu ári. Þá er veðskuldabyrði bænda ekkert smáræði, því að þær voru í Búnaðarbankanum 830 millj. um síðustu áramót, og eru þá meðtalin ógreidd árgjöld af lánum, en á síðustu árum hefur það færzt í vöxt, að bændur hafa ekki getað staðið í skilum. Vaxtagjöld bænda eru síhækkandi, bæði vegna þess að skuldafjárhæðin vex og vaxtaprósentan einnig. Í Búnaðarbankanum, þar sem veðskuldir bænda eru aðallega, er meðalvaxtaprósentan þessi: Af íbúðarlánum 6%, af ræktunarlánum 61/2% og af veðdeildarlánum 8%. Þar við bætist svo hinn illræmdi stofnlánadeildarskattur. Það er ekki að furða, þótt hæstv. landbrh. telji, að bændur brosi, þegar skýrt er frá, hvernig fjárhagsleg staða þeirra er nú, eins og hún er góð eða hitt þó heldur eftir 8 ára samfellda yfirstjórn hans á landbúnaðarmálum. Sannleikurinn er sá, að bændur geta því miður ekki verið bjartsýnir nú. Allar rekstrarvörur munu stórhækka í verði vegna gengislækkunarinnar, en allt er enn í óvissu um verðlag á framleiðslu þeirra. Nú er talið víst, að fóðurbætir hækki í verði um 28% eða meira. Bændur á kalsvæðunum voru til þess hvattir í haust af ábyrgum aðilum að setja búfé sitt að nokkru á fóðurbæti, svo að ekki þyrfti í haust að fella það svo, að bændur yrðu að hætta búskap. Ég spyr: Hvað ætlar landbrh. að leggja til þessum bændum til hjálpar? Ef þeir fá ekki sérstaka aðstoð í tilefni af verðhækkuninni, má gera ráð fyrir, að þeir verði gjaldþrota í hópum. Ætli þessir bændur séu strax farnir að brosa af ánægju yfir gengislækkuninni og trausti á hæstv. landbrh. og félögum hans?

Nú er komið fast að jólaföstu og þrír mánuðir liðnir frá því, að samkv. l. átti að ákveða verðlag landbúnaðarvara. Yfirdómur er enn með það mál í sínum höndum. Auðvitað vona bændur og treysta því, að komið verði til móts við þeirra sanngjörnu kröfur og brýnu þarfir. Eitt af því, sem viðreisnarstjórnin ákvað á sínum tíma, var það, að ekki mætti lána úr Búnaðarbankanum til mjólkurbúa, sláturhúsa og ræktunarsambanda nema gengistryggð lán. Auk þess hafa þessar stofnanir tekið eitthvað af lánum erlendis í sambandi við vélakaup. Gengislækkunin verður þessum stofnunum þung í skauti, og mun það auðvitað lenda á bændum ofan á annað, ef ekkert verður að gert. Nú vil ég spyrja: Hvað verður gert til þess að bæta þessum nauðsynlegu fyrirtækjum bænda það tap, sem þau verða fyrir af gengislækkuninni, eða ætlar ríkisstj. að láta það lenda á bændum?

Tími minn mun vera á þrotum. En ég vil í lokin minna á hina alkunnu sögu um það þegar Haraldur harðráði greiddi Halldóri Snorrasyni, sem var konungi trúr og traustur liðsmaður, málann með koparblandaðri mynt í stað silfurs. Þessu reiddist Halldór og kvaðst ekki lengur ætla að þjóna konungi nema hann í stað hinnar verðlausu myntar fengi kaup sitt ófalsað. Meiri hluti íslenzku þjóðarinnar hefur í þrennum kosningum veitt stjórnarflokkunum vald út á fögur fyrirheit þeirra. Þetta hefur hin harðráða ríkisstj. launað með því að skammta þjóðinni nýja Haraldssláttu í þriðja sinn nú á 7 árum. Ætlar þjóðin og þingheimur að verða minni fyrir sér en Halldór Snorrason þegar hann kvaðst ekki mundu þjóna Haraldi harðráða lengur nema hann fengi skíra mynt að launum? Ég vil ekki trúa því. - Góða nótt.