07.12.1967
Sameinað þing: 17. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

63. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur Það hefur mikið gengið á í efnahagsmálunum undanfarnar vikur hér á Alþ. Fyrsta lotan var sú, að ríkisstj. lagði fram till. sínar um nýjar efnahagsaðgerðir í byrjun þings. Samkv. þeim till. átti að afla ríkissjóði nýrra tekna, sem næmu 750 millj. kr. á ári, með nýjum sköttum í ýmsu formi og stórhækkuðu verðlagi á öllum helztu nauðsynjavörum almennings eða nokkrum helztu nauðsynjavörum almennings. Með þessum till. fylgdu þær yfirlýsingar stjórnarinnar, að hún væri á móti gengislækkun og teldi þá leið skapa fleiri og meiri vandamál en hún leysti.

Önnur lotan varð samt sem áður stórfelld gengislækkun sem nýlega hefur verið ákveðin og þegar er farin að hafa sín víðtæku áhrif í verðlags- og kjaramálum. Og hvað er það þá, sem á að gerast í efnahagsmálunum samkv. öllum þessum till.? Í aðalatriðum er það þetta: Álögurnar, sem till. voru gerðar um í fyrstu lotu eiga allar að standa, nema farmiðaskatturinn. Það á sem sagt að afla ríkissjóði nýrra tekna samkv. þessari fyrri leið sem nemur um 700 millj. kr. á ári. Verðhækkanirnar á kjöti, mjólk og kartöflum, sem ákveðnar voru í októbermánuði, eiga að standa áfram. Hækkunin á áfengi og tóbaki á að standa, og hækkun á pósti og síma á að koma. Útvarpsgjöld skulu hækka, sjónvarpsgjald hækkar, iðgjald til almannatrygginga hækkar, sjúkrasamlagsgjöld eiga að hækka, lagður verður á nýr fasteignaskattur, sem ná mun til alls íbúðarhúsnæðis í landinu Og hitaveitugjöld eiga að hækka um 18%. Allar skulu þessar álögur standa samkv. því, sem nú er upplýst. En ofan á allt þetta kemur svo hin mikla gengislækkun gengislækkunin sem ríkisstj. sagðist ætla að forða þjóðinni frá með þessum fyrri till. sínum. Fyrir ríkissjóð munu þessar ráðstafanir hafa þau áhrif, að tekjur hans hækka um 700 millj. kr. vegna fyrri ráðstafamanna og um 300 millj. með því, að niður eiga að falla greiðslur til sjávarútvegsins, sem áður hafði verið aflað tekna til að greiða. Þannig munu tekjur ríkissjóðs raunverulega aukast um 1000 millj. kr., en til viðbótar því koma svo stórauknar tolltekjur vegna gengislækkunarinnar og mikil hækkun á söluskatti, einnig vegna gengislækkunarinnar. Augljóst er því, að ríkissjóður mun skófla til sín nýjum tekjum í skjóli efnahagsaðgerðanna, auðvitað með þeim afleiðingum, að verðlag í landinu fer stórhækkandi. Það lætur því heldur einkennilega í eyrum að heyra hér í þessum umr hæstv. fjmrh. skora á almenning í landinu að stilla nú kröfum sínum í hóf og tala um prófraun, sem menn gangi nú undir í sambandi við framkvæmd gengislækkunarinnar. Mér sýnist, að hann stilli ekki sínum kröfum í hóf fyrir hönd ríkisjóðs og hann hafi með þessum kröfum öllum, greinilega fallið á sínu gengislækkunarprófi.

En hver verða áhrif þessara ráðstafana fyrir launafólk í landinu? Samkv. fyrri efnahagsmálatill, ríkisstj. gerði hún ráð fyrir, að afleiðingar þeirra yrði hækkun á vöruverði, sem næmi 7 1/2% miðað við eldri vísitölu. Nú hefur verið ákveðið að launafólk fái bætur á laun 1. des., sem nema tæplega 3 1/2% og standa þá eftir um 4%, sem ekki á að bæta af þessum verðhækkunum miðað við gömlu vísitöluna. Fulltrúar ríkisstj. gera ráð fyrir, að verðhækkanir vegna gengislækkunarinnar muni nema a.m.k. 8%, og er ekki ætlað að bæta þá verðhækkun að neinu í kaupgjaldi. Ljóst er því, að ríkisstj. áætlar sjálf, að launamenn í landinu eigi að taka á sig beina kjaraskerðingu á næstu mánuðum. sem nemur a.m.k. 12%, en sennilegra er, að þessi kjaraskerðing muni nema 15—16%. Sams konar kjaraskerðing á að ganga yfir sjómenn, því að upplýst er, að gengislækkunin sé reiknuð út á þeim grundvelli, að kaup sjómanna eigi ekki að hækka í krónum og það verði því að breyta hlutaskiptakjörum þeirra, ef fiskverð verði látið hækka. Hér er um ótrúlega ósvífnar ráðagerðir að ræða, ráðagerðir, sem útilokað er með öllu að ríkisstj. geti komið fram. Það er svo dæmi um óskammfeilni hæstv. ráðh. að tala hér í þessum umr. um frið og sættir og samvinnu um leiðir til þess að framkvæma, gengislækkunina, þegar málatilbúnaður þeirra er á þessa lund.

En hvernig ætlar svo ríkisstj. að standa að framkvæmd gengislækkunarinnar gagnvart milliliðum? Jú, hún hefur þegar ákveðið að heildsalar og aðrir innflytjendur fái leyfi til þess að hækka þegar í stað verð á öllum vörubirgðum, sem í landinu voru, þegar gengislækkunin var ákveðin enda skuldi þeir erlendis vegna þessara vörubirgða, og það gera þeir allir. Samkv. þessari heimild er þegar þúið að hækka verð á olíum, benzíni, smjörlíki, kaffi og fleiri vörutegundum, og næstu daga munu berast tilkynningar um allt verðhækkunarflóðið. Á sama hátt á nú að leyfa skipafélögum að hækka flutningsgjöld á öllum vörum, sem liggja í afgreiðslum þeirra. jafnvel þó að þær vörur hafi verið fluttar til landsins fyrir mörgum mánuðum, enda geti skipafélögin sýnt, að þau skuldi erlendis vegna starfsemi sinnar. Þannig ætlar ríkisstj. að standa að því, sem Jón Þorsteinsson þm. Alþfl. talaði hér um fyrr í kvöld, að jafna byrðunum niður á alla landsmenn. Launþegar eiga strax að taka á sig stórfellda kjaraskerðingu en það á að vægja til fyrir milliliðum.

Það væri kannske ástæða einnig til þess að spyrja um það hvernig ríkisstj, ætli að láta ýmsa aðra aðila standa undir útgjöldum vegna gengislækkunarinnar. Hvað ætlar ríkissjóður t.d. sjálfur að taka á sig í þeim efnum? Og hvað á verzlunarstéttin almennt að taka á sig í þeim efnum? Um það hefur ekkert komið fram. En verðhækkanir, sem til falla af þessu tagi og öðru, hafa ekki áhrif á stjórnarvöld

landsins vegna þess, að þær á ekki að mæla inn í neina kaupgjaldsvísitölu. Hún á engin að reiknast út þrátt fyrir allar verðbreytingar eftir 1. des. n.k. Og hverjar verða svo afleiðingar þessara efnahagsaðgerða fyrir útflutningsatvinnuvegina, sem allt þetta á þó að vera gert fyrir? Samkv. till. ríkisstj. á að gera upptækan allan þann gengishagnað sem til fellur af þeim útflutningsvörubirgðum, sem til eru í landinu og ekki aðeins af þeim birgðum, sem til voru, þegar gengislækkunin skall á, heldur einnig af þeim vörum sem framleiddar verða í næsta mánuði eða til áramóta.

Ljóst er því, að þær vörur, sem framleiddar verða hér eftir til áramóta til útflutnings, verða framleiddar við óhagstæðari kjör en verið hefur, þar sem framleiðslukostnaður hækkar, sbr. olíuhækkunina, sem þegar er orðin, hækkun á umbúðum, stórfelld hækkun á frögtum og hækkun á veiðarfærum og fleira í tilkostnaði framleiðslunnar. Þennan gengishagnað á að leggja á sérstakan reikning í Seðlabankanum, og honum ætlar ríkisstj. að ráðstafa síðar í einhverja sjóði eða einhverjar vanskilaskuldir. Mjög er vafasamt, hvernig hagur hinna einstöku greina útflutningsframleiðslunnar verður eftir þessar ráðstafanir. Þó er ljóst, að sumar greinarnar a.m.k. munu ekki fá verulega bætta rekstraraðstöðu eftir að ríkissjóður hefur dregið til sín 300 millj., sem áður runnu tiI sjávarútvegsins, og eftir að allar rekstrarvörur hafa stórhækkað frá því, sem áður var.

Sú ávísun ríkisstj. til atvinnuveganna, að kaup sjómanna skuli standa óbreytt og aflahlutur þeirra minnka og kaup verkafólksins skuli rýrna að verðgildi um a.m.k. 12%, mun ekki standast. Sú ávísun mun reynast ógild, þegar á reynir. Efnahagstill. ríkisstj. munu ekki koma að gagni fyrir atvinnuvegina, vegna þess að efnahagsstefna hennar er röng í grundvallaratriðum. Ríkisstj, ætlar áfram að halda uppi verðbólgustefnu sinni. Hún leiðir áfram hverja verðhækkunina af annarri, sem hægt hefði verið að komast hjá. Hún knýr fram þannig fjármálaaðgerðir fyrir ríkissjóð að af mun hljótast verðhækkunaralda. Ríkisstj. trúir því enn að framboð og eftirspurn geti ráðið eðlilegri verðlagsþróun í landinu. Hún heldur áfram í okurvaxtapólitík sína, einnig gagnvart útflutningsatvinnuvegunum, og hún ætlar sér þá dul, að hún geti með verðhækkunarpólitík sinni rænt verkamenn sjómenn, bændur og annað verkafólk, sem nemur a.m.k. 12% í launakjörum. Þessa fáránlegu stefnu reyndu núv. stjórnarflokkar með gengislækkuninni 1960. Þá voru vísitöluuppbætur á laun bannaðar með lögum. Afleiðingarnar urðu gífurleg átök á vinnumarkaði. Fyrst skullu yfir verðhækkanir, svo verkföll og kauphækkanir, svo aftur verðhækkanir og enn aftur verkföll, þangað til í júní 1964, að ríkisstj. gafst upp og leiddi aftur í lög vísitölubætur á laun.

Það verður að telja alveg furðulegt, að líklega verðandi formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason ráðh., skuli enn skilja svo lítið starfshætti verkalýðsfélaganna í landinu að telja það til misbeitingar á samtökunum að þau skyldu lýsa yfir vinnustöðvunum, ef verðlagsuppbætur yrðu ekki greiddar á laun 1. des. Verkalýðsfélögin höfðu gilda samninga staðfesta í landslögum um það, að laun skyldu breytast í samræmi við verðlag, og þau áttu að fá hækkun á kaupi samkv. þeim samningum nú 1. des. Þennan rétt ætlaði ríkisstj. að ógilda með l., og af því reis verkalýðshreyfingin upp sem einn maður til varnar sínum rétti. Þetta virðist ráðh. ekki skilja og kastar því fram þeirri fullyrðingu að stjórnarandstaðan á Alþ. hafi misnotað verkalýðshreyfinguna og staðið að verkfallsboðunum. Með þessum fullyrðingum vill Gylfi Þ. Gíslason halda því fram að við stjórnarandstæðingar á Alþ. höfum ráðið yfir Jóni Sigurðssyni formanni Sjómannasambandsins, Óskari Hallgrímssyni formanni rafvirkjafélagsins, Guðjóni í Iðju og mörgum öðrum forustumönnum í verkalýðsfélögunum, sem þó eru stuðningsmenn ríkisstj. kallaðir. Sú stefna, sem leiðir til látlausra verðlagshækkana, til sívaxandi milliliðagróða, til skipulagsleysis og ringulreiðar í fjárfestingu, til sóunar á gjaldeyri, grefur undan verðgildi sparifjár almennings og leiðir til óhjákvæmilegra átaka á vinnumarkaði og til rekstrar- og framleiðslustöðvana, fær ekki staðizt. Hún á ekki rétt á sér. Sú stjórnarstefna, sem mörkuð er skilningsleysi á þörfum íslenzkra atvinnuvega, en dekri við erlenda auðhringa, er efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar hættuleg. Þeirri stefnu verður að breyta. Stefna núv. ríkisstj. á því að hljóta vantraust, og ríkisstj. á að fara frá völdum, og það sem fyrst. Það er bezt fyrir þjóðina. — Góða nótt.