08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (2808)

26. mál, friðun Þingvalla

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ekki þarf að færa rök að því hér á þessum stað hvers vegna Þingvellir eru í vitund þjóðarinnar helgasti staður landsins. Hins vegar er ástæða til að íhuga, hverju sú helgi er tengd á staðnum sjálfum. Hún er ekki fyrst og fremst bundin við fornminjar, þær eru fáar og ekki tilkomumiklar, nokkrar búðartóftir, sem fornfræðingar telja vera frá 17, og 18. öld. Helgi staðarins er fyrst og fremst bundin við náttúruna sjálfa, fegurð hennar og tign sjálft andrúmsloftið tengsl staðarins við skrifaðar heimildir, sem allir landsmenn kunna einhver skil á, áhrifamikla sögu jafnt í reisn sem niðurlægingu. Á Þingvöllum myndar land, þjóð og tunga órofa einingu nákomnari íslenzkum manni en á nokkrum stað öðrum. Þess vegna hlýtur umhyggja landsmanna fyrir Þingvöllum fyrst og fremst að vera fólgin í náttúruvernd, með henni er ekki aðeins verið að fullnægja náttúruverndarsjónarmiðum í þröngum skilningi heldur og skyldunum við sögu og bókmenntir. Þingvellir munu halda áfram að færa þjóðinni boðskap sinn á meðan náttúran sjálf fær að tala máli sínu á öllu hinu víðlenda svæði, sem umlykur mann þar, á meðan andrúmsloftið helzt óbreytt.

Lög þau sem hið háa Alþ. setti 1928 um friðun Þingvalla, einkennast af stórhug og framsýni, sem ástæða er til að meta og þakka. Engu að síður er nauðsynlegt orðið að endurskoða þá lagasetningu eftir nærri fjögurra áratuga reynslu og hér er lagt til, að það verk verði falið Náttúruverndarráði og þjóðminjaverði, og felast rökin í að leita til þeirra aðila í orðum þeim, sem ég mælti í upphafi. Margt er það sem gerir endurskoðun l. nauðsynlega. Hugmyndir manna um náttúruvernd og þau vandamál, sem henni eru tengd, hafa breytzt mjög og skýrzt að undanförnu, m.a. setti Alþ. sérstaka löggjöf um náttúruvernd 1956. Þegar þau l. voru sett, gerðu alþm. sér ljóst, að náttúruverndarreglurnar yrðu umfram allt að ná til Þingvalla. Í grg. frv. var gert ráð fyrir því, að „mikil samvinna takist á milli Þingvallanefndar og Náttúruverndarráðs“. En á milli þessara stofnana hefur ekki tekizt nein samvinna, eins og nánar mun vikið að síðar, enda skýrði hæstv. menntmrh. frá því í ræðu hér fyrir nokkru, að það væri lögfræðilegt vandamál, hvernig meta bæri valdsvið Þingvallanefndar annars vegar og Náttúruverndarráðs hins vegar. Auðvitað er það fráleitt með öllu að þar sé um eitthvert matsatriði að ræða, um það verða að vera skýr og ótvíræð lagafyrirmæli, að náttúruverndarsjónarmið móti allar framkvæmdir á Þingvöllum.

Einnig er nú orðið tímabært að setja ný ákvæði um víðáttu þjóðgarðsins, svo að ekki geti heldur orðið ágreiningur um þetta atriði. Í l. frá 1928 er Þingvallasvæðinu skipt í tvennt, annars vegar er „hið friðhelga land“, sem skilgreint er í 2. gr. l., hins vegar land jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka. Ástæðan fyrir þessari skiptingu mun annars vegar hafa verið sú, að nokkur ágreiningur var um það á þingi, hvað hið friðlýsta land þyrfti að vera víðáttumikið og hins vegar sú, að land það sem l. náðu til, var þá ekki allt í almenningseign. Hins vegar gekk Alþ. þannig frá l., að þrátt fyrir þessa tvískiptingu náði friðlýsingin í verki til alls þess lands, sem þar er fjallað um. Þar er m a. þetta ákvæði um svæðið utan hins friðhelga lands:

„Ekkert jarðrask, húsbyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki má gera á hinu friðlýsta svæði eða í landi jarðanna Kárastaða. Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka, nema með leyfi Þingvallanefndar“.

Einnig gera l. frá 1928 ráð fyrir því, að allt það land, sem þar er fjallað um, komist smátt og smátt í almenningseign Um það segir svo í 3. gr. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú takast eigi samningar milli Þingvallanefndar og ábúenda jarða þeirra, sem að nokkru eða öllu falla undir hið friðlýsta land, og skal þá Þingvallanefnd taka afnotarétt larðanna eða jarðahlutanna eignarnámi samkv. l. og ábúendum greitt fyrir afnotaréttinn samkv. óvilhallra dómkvaddra manna mati. Svo skulu og metnar bætur til Þingvallahrepps fyrir íþynging fjallskila og rýrnun útsvara, enda náist ekki samningar. Heimilt skal Þingvallanefnd að kaupa jörðina Gjábakka eða ef ekki nást viðunandi samningar um verð að taka jörðina eignarnámi samkv. l.

Þessi lagagr. sýnir ljóslega, að ætlun löggjafans var sú, að allt það land, sem l. náðu til, yrði þjóðareign jafnframt því, sem sett voru ströng ákvæði um að því landi mætti á engan hátt raska. Þannig var eftirkomendunum gert kleift að sameina Þingvallasvæðið allt í einn samfelldan þjóðgarð og ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan að þessi lagasetning bar vott um framsýni og stórhug.

Ég álít, að nú sé tímabært að láta ein og sömu ákvæðin ná til Þingvallasvæðisins alls. Það verði í heild friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Síðan l. voru sett fyrir nærri fjórum áratugum hafa orðið miklar breytingar á högum Íslendinga. Þá voru Þingvellir næsta afskekktur staður fyrir allan þorra landsmanna. Það þótti minnisverður og frásagnarverður atburður að ferðast þangað. Nú er svo komið að meiri hluti þjóðarinnar er búsettur í næsta nágrenni Þingvalla, og sú gerbreyting hefur orðið á samgöngum, að það þykir ekki mikið ferðalag lengur að skreppa þangað. Íbúarnir á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa þurfa á miklu upplandi að halda, ef þeir eiga að komast í snertingu við land sitt, og Þingvallasvæðið er öðrum stöðum betur til þess fallið að verða mönnum slíkur þjóðgarður. En sá hluti Þingvallasvæðisins, sem kallaður er „hið friðhelga land“ í l., er þegar orðinn of lítill til þess að nægja sem slíkur þjóðgarður, ef menn eiga að geta notið þeirrar friðsældar og einmanalegu tignar, sem er aðall íslenzkrar náttúru. Af þessum ástæðum einum er orðið tímabært að gera allt Þingvallasvæðið að samfelldum þjóðgarði, og engin ráðstöfun önnur mun tryggja það að Þingvellir verði til frambúðar sá „friðlýsti helgistaður allra Íslendinga“, sem l. mæla fyrir um.

Í sambandi við endurskoðun l. þarf jafnframt að huga að fjáröflun. Fjárveitingar til Þingvalla hafa alltaf verið af mjög skornum skammti og torvelda mjög störf Þingvallanefndar. Verði nú unnið markvisst að því að gera allt Þingvallasvæðið að samfelldum þjóðgarði, mun þurfa á verulegum fjárupphæðum að halda. Náttúruvernd er ekki einvörðungu í því fólgin að forða náttúru frá spjöllum. Tilgangur hennar er einnig sá, að tryggja almenningi sem bezt not af þeim svæðum, sem sérstaklega eru vernduð og er þörf á margs konar þjónustustarfsemi í því sambandi. Endurskoðun l. mun ekki ná tilgangi sínum nema nauðsynlegar tekjur séu jafnframt tryggðar.

Þegar l. um friðun Þingvalla voru sett, var ein ástæðan sú, að einstaklingar höfðu sótzt mjög eftir því að tryggja sjálfum sér einkaafnot af landi á þessum helgistað þjóðarinnar. Þegar árið 1919 hafði Alþ. raunar samþ. áskorun á ríkisstj. um að koma í veg fyrir, „að einstakir menn eða félög reisi sumarbústaði eða nokkur önnur skýli á svæðinu“, sem í 1. lið getur, en þar er átt við „svæðið frá Þingvallavatni milli Almannagjár og Hrafnagjár norður á móts við Ármannsfell og Hrafnabjörg.“ N., sem undirbjó friðunarl. 1928, lýsti sérstakri andstöðu sinni við sumarbústaðabyggingar einstaklinga á Þingvallasvæðinu öllu og það kom ákaflega skýrt fram í umr. á þingi, að ástæðan til þeirra þröngu ákvæða, sem sett voru um lönd jarðanna Kárastaða, Brúsastaða; Svartagils og Gjábakka, var einmitt sú, að Alþ. vildi koma í veg fyrir, að þar risu sumarbústaðir einstaklinga. Mig langar í þessu sambandi að tilfæra með leyfi hæstv. forseta ummæli nokkurra þeirra manna, sem einkum beittu sér fyrir setningu laganna.

Þáv. dómsmrh., Jónas Jónsson, komst svo að orði í umr.:

„En þetta friðlýsta svæði er ekki stærra en svo, að utan við það gæti risið upp eins konar Grímsstaðaholt í skjóli skipulagsleysis og stundarhagnaðar einstakra listsnauðra manna. Bændur gætu óátalið leyft að byggja út um allt hraun, svo að þar risu upp lélegir sumarbústaðir.“

Annar hvatamaður málsins, Bernharð Stefánsson komst svo að orði:

„En frv. gerir auk þess ráð fyrir, að friða eigi allstórt svæði utan þinghelginnar gömlu, og um það er ágreiningurinn hvort aðeins skuli friða þingstaðinn sjálfan eða allt það svæði, sem frv. gerir ráð fyrir“

Og Bernharð heldur áfram um ástæðurnar fyrir því, að ákveðið er að friða svæðið allt: „Annað er það líka, að hugsa, mætti sér þau

mannvirki gerð í nágrenni Þingvalla, sem ekki ættu heina á þeim stað. Þess konar mannvirki, þó að góð kunni að vera í sjálfu sér, eiga ekki við á þessum fornhelga stað. Sama er, þó að þau séu ekki í sjálfri þinghelginni, ef þau eru í þeirri nálægð að þau blasa við frá Þingvöllum, því að þá eru þau til helgispjalla. Ef nokkur staður er hér á landi, þar sem náttúran á að vera í fullum friði og án þess, að henni sé raskað af mönnum, eru það Þingvellir.“

Jón Baldvinsson sagði:

„Frv. er borið fram með fortíðina fyrir augum, svo að komandi kynslóðum gefist kostur á að skoða hinar fornu menjar sögualdarinnar á Þingvöllum og hin stórfellda náttúrufegurð Þingvalla verði ekki skemmd með framkvæmdum, svo sem byggingum og jarðraski, sem hæglega getur orðið ef ekki er fyrir það girt í tíma.“

Þannig var það einn megintilgangur l. að koma í veg fyrir, að einstaklingar helguðu sér land á Þingvöllum og reistu þar einkabústaði. Í samræmi við það sjónarmið hljóðaði 1. gr. l. svo:

„Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga“.

Og 4. gr. hljóðar svo:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþ, og ævinlega eign íslenzku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

M.ö.o.: helgistaður allra Íslendinga, en ekkert óskipulagt eða skipulagt sumarbústaðasvæði.

Enda þótt svona tryggilega væri frá þessum málum gengið jafnt við meðferð málsins sem orðun l., hefur svo illa til tekizt, að Þingvallanefndir hafa æ ofan í æ látið undan ásókn einstakra manna í sumarbústaði og sumarbústaðalönd á Þingvöllum. Umhverfis Þingvallavatn eru nú um 300 sumarbústaðir, og a.m.k. 21 þeirra er innan þess svæðis, sem í l. er kallað hið friðhelga land, frá Valhöll suður með Þingvallavatni vestanverðu. Á þessu svæði, hinu friðhelga landi, er nú verið að reisa tvo bústaði í viðbót, að vísu á lóð sem veitt hafði verið leyfi fyrir löngu áður. Ég held, að það geti naumast verið álitamál, að þessir bústaðir eru algert brot ekki aðeins á anda l. um friðun Þingvalla, heldur og á orðun þeirra. Því gerum við flm. þessarar till. ráð fyrir því, að í hinum endurskoðuðu l. um friðun Þingvalla skuli sett ákvæði, sem mæla svo fyrir, að sumarbústaðir einstaklinga skuli fjarlægðir af því svæði, sem l. ná til. innan ákveðins tíma og samkv. tilteknum reglum. Mér þætti eðlilegt, að þeir einstaklingar, sem þarna eiga hlut að máli, fengju rúman frest til að breyta högum sínum. Nokkur ár til eða frá skipta að sjálfsögðu ekki máli, heldur hitt, að settar séu skýrar og undantekningarlausar reglur. Ég kann ekki skil á samningum þeim, sem Þingvallanefndir hafa gert við þessa einstaklinga, en ég trúi ekki öðru en það fólk, sem nú nýtur mjög óeðlilegra forréttinda á helgistað allra Íslendinga, muni fúslega fallast á að afsala sér þeim, ef eftir verður leitað.

Ég geri ekki ráð fyrir, að ágreiningur verði um þetta atriði í till. okkar, a.m.k. ekki frá hv. Þingvallanefnd. Formaður Þingvallanefndar, hæstv. utanrrh. Emil Jónsson, sagði í viðtali við Alþýðublaðið 9. júlí í fyrra:

„Þeir bústaðir, sem eru innan þjóðgarðsins, voru reistir áður en l. um friðun Þingvalla voru sett, og við í Þingvallanefndinni lítum þá illu auga.“

Nú er það að vísu ekki rétt hermt, að bústaðir þessir hafi allir verið reistir áður en l. voru sett, en það kann að vera missögn blaðamanns. Ég tilfæri þessi ummæli aðeins vegna þess, að hæstv. utanrrh. segir Þingvallanefnd líta þessa bústaði illu auga, þótt það augnaráð hafi að vísu komið fyrir lítið 30. júlí í fyrra, endurtók hæstv. utanrrh. þessa skoðun sína í grein í Alþýðublaðinu og sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„,Ég tel persónulega líka, að æskilegt væri að fjarlægja þá sumarbústaði, sem nú eru innan þjóðgarðs, en til þess hefur skort fé. Fjárveitingar til þjóðgarðsins hafa ávallt verið af skornum skammti, þó að nokkuð hafi þokazt í áttina hin síðustu ár, en margt er ógert af því, sem þurft hefur að gera, vegalagning, gangstígar, hreinlætisútbúnaður o.fl., sem n telur, að sitja eigi í fyrirrúmi, en vonandi kemur hitt síðar, þegar fjárveitingar verða fyrir hendi.“

Hér er tekið mjög eindregið undir þá stefnu,

sem felst í till. okkar að því er þessa bústaði varðar. Hitt er mjög dularfullt, að einmitt nú á sama tíma og hæstv. ráðh. lýsir þessu yfir, skuli tveimur aðilum heimilað að reisa nýja sumarbústaði einmitt á þessu svæði. Þær nýbyggingar munu raunar þannig tilkomnar, að Þingvallanefnd vakti athygli sumarbústaðar manna á því, að þeir mundu missa lóð sína, ef þeir reistu ekki hús á henni. Frumkvæðið er þannig komið frá hv. Þingvallanefnd sjálfri á sama tíma og hún ástundar hið illa augnaráð sem hæstv. ráðh. gat um í Alþýðublaðinu í fyrra.

Um sumarbústaði þá, sem heimilaðir hafa verið í landi Gjábakka, 24 nýja bústaði í viðbót við tvo, sem fyrir voru, er allt aðra sögu að segja. Þar er um að ræða opinberan og harðvítugan ágreining milli hv. Þingvallanefndar annars vegar og hins vegar Náttúruverndarráðs, þeirra manna, sem sérfróðastir eru um náttúruvernd hér á landi og mestan áhuga hafa á því efni, þeirra stofnana, sem láta sér annt um ferðamál og raunar að ég hygg yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar. Þingvallanefnd réttlætir hina nýju úthlutun sína með þeirri tvískiptingu Þingvallasvæðisins, sem ég ræddi um áðan. Hún heldur því fram, að hinn eiginlegi þjóðgarður sé aðeins svæði það, sem kallað er ,hið friðhelga land“ í l., en um það svæði, sem þar er fyrir utan, gegni allt öðru máli. Þar geti Þingvallanefnd ákveðið að eigin geðþótta, hvað leyft skuli og hvað bannað. Þingvallanefnd vitnar í þessu sambandi til niðurlags 2. gr. l, um friðun Þingvalla, sem hljóðar, eins og ég sagði áðan á þessa leið:

„Ekkert jarðrask, húsbyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki má gera á hinu friðlýsta svæði eða í landi jarðanna Kárastaða, Brúsastaða, Svartagils og Gjábakka, nema með leyfi Þingvallanefndar.“

Þingvallanefnd virðist túlka þetta ákvæði svo, að það veiti henni heimild til að leyfa hvers konar jarðrask, húsbyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki á því svæði, sem hún telur ekki heyra til hinum eiginlega þjóðgarði. En þessi lögskýring er fráleit með öllu. Þingvallanefnd er kosin í ákveðnum tilgangi, þeim, sem um getur í 1. gr. l., að gera Þingvelli við Öxará og grenndina þar að friðlýstum helgistað allra Íslendinga. Aðeins innan þess ramma getur hún bannað eða leyft mannvirkjagerð á svæðinu, en fari hún út fyrir þetta verksvið er hún farin að brjóta þau l., sem hún á að vernda. Það gefur raunar auga leið að Alþ. setti ekki l. um að meina bænd­ um að úthluta sumarbústaðalóðum á jörðum sínum í því skyni einu að þn. gæti síðar tekið að sér úthlutunarréttinn, enda hef ég áður rakið hver var tilgangur þeirra manna, sem beittu sér fyrir l. um friðun Þingvalla 1928.

Mér finnst Þingvallanefnd hafa sýnt furðulega stífni í þessu máli. Hún hefur ekkert skeytt um röksemdir og mótmæli þeirra manna hérlendra, sem mestan áhuga hafa á náttúruvernd og mesta kunnáttu á því sviði. Mér er kunnugt um það að formaður Náttúruverndarráðs, hv. 7. þm. Reykv., Birgir Kjaran, sneri sér tvívegis í fyrrahaust til framkvæmdastjóra Þingvallanefndar, Harðar Bjarnasonar, og fór fram á það að sumarbústöðum yrði ekki úthlutað án þess að leitað væri álits ráðsins. En Þingvallanefnd hafði þau hógværu tilmæli að engu. Hlýtur það raunar að vera álitamál, eins og ég gat um fyrr, hvort Náttúruverndarráð hefur ekki haft heimild til að taka fram fyrir hendur Þingvallanefndar í þessu máli, enda komst hæstv. forsrh. svo að orði í sumar í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið að ef til vill sé það hæpnast í þessu deilumáli, að Þingvallanefnd skuli hafa úrskurðarvaldið. Ég hefði skilið þrályndi Þingvallanefndar í þessu máli, ef n. hefði talið sig vera að framkvæma skylduverk sín samkv. ákvæðum l., en mér er það hulin ráðgáta, hvers vegna n. er það slíkt kappsmál að úthluta sumarbústaðalóðum á Þingvallasvæðinu. Ég hef enga skýringu séð á því, hvers vegna nefndarmenn telja þvílíka forréttindaaðstöðu nokkurra manna samrýmast því skylduverki að gera Þingvelli við Öxará og grenndina þar að „friðlýstum helgistað allra Íslendinga“.

Í þessu sambandi er rétt að víkja að öðrum þætti þessa máls, sem einnig hefur valdið almennri gagnrýni. Það er leyndin og pukrið sem fylgt hefur þessari annarlegu sumarbústaðaúthlutun. Ekkert var auglýst um það, að til stæði að úthluta sumarbústaðalóðum, svo allir Íslendingar ættu þess þá jafnan kost að sækja um bletti á hinum friðlýsta helgistað sínum. Þeir einir komu til greina, sem voru svo blygðunarlausir að fara fram á slík forréttindi. Öll vinnubrögð hafa verið hulin einnig úthlutunin sjálf. Slíkar starfsaðferðir hljóta að vekja tortryggni og getsakir, einnig þó tilefni væru margfalt minni en í þessu dæmi. Mér virðist þetta atferli sígilt dæmi um það hvernig opinberir trúnaðarmenn eiga ekki að hegða sér.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að Þingvallanefnd verði nú falið að banna, allar frekari byggingaframkvæmdir og jarðrask á vegum einstaklinga á landi því, sem l. um friðun Þingvalla ná yfir, meðan endurskoðun l. fer fram. Er það auðvitað sjálfsögð tilhögun til þess að hendur þeirra manna, sem framkvæma eiga endurskoðunina verði ekki bundnar frekar en orðið er. Og það því fremur, sem tilgangur endurskoðunarinnar á að vera sá að tryggja aukna náttúruvernd, stækka þjóðgarðinn og gera hann að raunverulegri sameign allra Íslendinga.

Ég hef hér að framan gagnrýnt nokkuð einn þátt í störfum Þingvallanefndar. Sitt hvað fleira mætti gagnrýna, svo sem það að einstaklingum og félagasamtökum hefur verið heimilað að ástunda mjög hæpnar gróðurtilraunir á hinu friðlýsta landi. Hitt er mér ljúft að taka fram, að ég tel, að Þingvallanefndum hafi margt tekizt vel, ekki sízt þegar þess er gætt, hve takmörkuð fjárráð þær hafa haft í samanburði við verkefnið. Og þótt sumarbústaðaúthlutun sé gagnrýnd af ærnu tilefni, er ástæða til að leggja áherzlu á það, að á því sviði hefur ekkert það gerzt enn þá, sem ekki er unnt að bæta, án þess að umtalsverðir erfiðleikar hljótist af. Hitt gæti orðið afdrifaríkt, ef úthlutun sumarbústaðalóða héldi áfram. Þingvallanefnd hefur aðeins lýst yfir, að úthlutun sé lokið að sinni, og í slíkri yfirlýsingu felst engin trygging. Einnig það er veigamikil röksemd fyrir því, að nú verði sett- ar fastar og endanlegar reglur um framtíðarstefnuna, á Þingvallasvæðinu öllu.

Ég vil að lokum taka fram, þótt þess ætti ekki að gerast þörf, að till. þessi er að sjálfsögðu ekkert flokksmál. Umræður um Þingvelli hafa að undanförnu verið miklar í ýmsum félögum og öllum blöðum, og ég vil vænta þess, að hliðstæður áhugi sé hér innan þingsalanna. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði frestað að loknum umr. hér og því vísað til hv. allshn. Vil ég mega vænta þess, að hv, n. taki skjótar ákvarðanir um afstöðu sína. Hér er einvörðungu um það að ræða hvort l. um friðun Þingvalla skuli endurskoðuð og hvernig þeirri endurskoðun skuli háttað.