08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2810)

26. mál, friðun Þingvalla

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem hér er til um., fer í þá átt, að Náttúruverndarráði og þjóðminjaverði verði falið að endurskoða l. nr. 59 frá 7. maí 1928 um friðun Þingvalla og semja frv. um breyt. á þeim l. Í framsöguræðu flm. kom fram, hvernig hann hugsar sér, að þessi endurskoðun fari fram. Í fyrsta lagi virðist mér, að hún eigi að taka til þess að ákveða á ný víðáttu þjóðgarðsins, að náttúruverndarsjónarmið eigi að ráða meiru heldur en hingað til hefur verið og raunar fleira, þó að þetta séu aðalatriðin eins og fram kemur í tillgr., þó að þar séu líka ákvæði um það að stöðva byggingu allra sumarbústaða, sem veitt hefur verið leyfi til að byggja í landi Gjábakka.

Ég skal nú, af því að mér er málið nokkuð skylt og eins vegna þess, að ég þekki vel bæði sögu málsins og starf Þingvallanefndar s. l. 10 ár, leyfa mér að fara um þetta nokkrum orðum.

Ég get út af fyrir sig fallizt á, að l. um friðun Þingvalla verði endurskoðuð. Þau eru frá 1928, og skortir því ekki nema 1 ár á, að það séu 40 ár síðan þau voru samin. Á þessum 40 ára tíma hefur margt breytzt. Samgöngur hafa gerbreytzt, og gestafjöldi á Þingvöllum hefur margfaldazt, þannig að það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að þessi l. verði skoðuð á ný með hliðsjón haf þeim breyttu þjóðfélagsháttum, sem orðið hafa á þessu tímabili.

Ég skal um fyrra atriðið um víðáttu þjóðgarðsins, fyrst fara nokkrum orðum. Þegar l. voru sett 1928, kemur í ljós, að Alþ. skiptist í tvo hluta um afgreiðslu málsins. Minni hl. vildi láta takmarka þetta svæði við þinghelgina og aðeins tiltölulega lítið svæði til viðbótar, þannig að ef að þeirra ráðum hefði verið farið hefðu takmörk Þingvallasvæðisins til norðurs sennilega verið talsvert fyrir neðan Skógarkot. Þá hefði ekki verið tekinn með nema lítill hluti þess lands, sem niðurstaðan varð þó að taka. Nú hefur það svæði, sem ákveðið var í l., mjög eðlileg takmörk, það takmarkast af Almannagjá að vestan, og það takmarkast af Þingvallavatni að sunnan af Hrafnagjá að austan og Ármannsfelli og svæðinu þar í grennd að norðan. Þetta eru að því er þeim fannst, sem málið fluttu 1928, og mörgum síðar, talin eðlileg takmörk svæðisins frá náttúrunnar hendi.

Ég hef ekki fundið einn einasta staf í umr. frá 1928 um það að það hefði verið meining þeirra manna sem að friðunarl. stóðu að friðlýsa svæði utan þessara takmarka. Það eina, sem hefur verið í þeirra huga og sem greinilega kemur fram í umr. er það, að það verði ekki á þessum býlum 4, sem margnefnd hafa verið Gjábakka Brúsastöðum, Svartagili og Kárastöðum, stofnað til framkvæmda, sem fari illa í landslaginu. Það er hvergi nefnt í þessum umr., að það sé ekki hugsað að leyfa sumarbústaði á svæðinu.

Í grg. fyrir þessari till, hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, er sagt í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Ástæðan til þessarar skiptingar á milli hins friðlýsta svæðis og annars svæðis, sem Þingvallanefnd voru falin umráð með er sú, að ríkið hafði ekki tryggt sér eignarrétt á landinu öllu en tilgangur löggjafans var auðsjáanlega sá, að hið friðhelga svæði yrði smátt og smátt stækkað með kaupum á jörðum eða eignarnámi.“

Ég hef leitað að þessu í öllum umr. frá 1928 og hef ekki fundið einn staf, sem bendir til, að þetta hafi verið meiningin og tel það þess vegna vera algerlega hugaróra hv. flm. Hitt er annað mál, hvað nútímamönnum kann að finnast í þessu efni, en það var ekki hugmynd þeirra manna, sem að friðunarlögunum stóðu fyrir 40 árum. Þetta kemur raunar mjög greinilega fram í bréfi, sem forgöngumaður, get ég sagt, þessarar lagasetningar, Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði þá sem formaður Þingvallanefndar út af sumarbústaðabyggingum í Gjábakkalandi. Þetta bréf hans var skrifað í sept. 1946 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingvallanefnd hefur ákveðið að leyfa byggingu nokkurra sumarbústaða í landi Gjábakka þegar ríkið hefur eignazt þá jörð en þau kaup eru nú að gerast. N. vill, þegar hún hefur fengið umráðarétt yfir Gjábakkalandi, heimila yður (þetta er umburðarbréf, sem hefur verið sent til margra manna) að reisa sumarbústaði í landi þessarar jarðar með þeirri almennu takmörkun, sem n. setur um sumarbústaði á þessum stað. Lóðastærð mun verða svipuð og í landi ríkisins vestan við Þingvallavatn og leigukjör hin sömu.“

Þetta bréf sýnist mér ekki benda til þess, að forgöngumaður friðunarlaganna hafi haft í huga að leggja þetta svæði undir hið almenna friðlýsta svæði eða tengja þau saman heldur þvert á móti, eins og ég hef sagt. Það var hjá þeim, sem gengust fyrir þessu máli í upphafi, ekki talað um að alfriða nema þann hluta sem talinn er í l., þ.e.a.s. milli Almannagjár og Hrafnagjár, milli Ármannsfells og Þingvallavatns. Og meira að segja, eins og ég einnig gat um, var stór hópur í Alþ., þegar þessi l. voru sett, á því, að friðunin ætti ekki að ná nema til svæðis, sem rétt náði út fyrir þinghelgina. Góðu heilli vildi ég segja var þó þetta svæði ákveðið eins og það er nú í l., og ég tel, að það sé allvel fyrir málum séð með þessu svæði. Þetta friðlýsta svæði á milli gjánna og Þingvallavatns og Ármannsfells mun vera að stærð milli 3 og 4 þús. hektarar, þannig að það geta komið æðimargir menn og gengið um þetta svæði, notið útsýnis, veðurs og fornminja og alls þessa, þó að það sé ekki stækkað fram yfir þessa 3—4 þús. ha Ég hef verið á Þingvöllum margoft á dögum, þegar ferðamannastraumurinn þangað hefur verið hvað mestur, og ég fullyrði, að það sé mjög lítill hluti þeirra manna, sem til Þingvalla koma, sem fer út fyrir mjög þröngt svæði, sem er ekki nema brot af því landrými, sem friðlýst er Það heldur sig á svæðinu í kringum Valhöll, suður með vatninu og lítið annars staðar En þetta land er ekki nema brot af landi þjóðgarðsins.

Nú er aftur á móti farið að tala um Þingvallasvæði mjög óljóst orðað, sem enginn veit nákvæmlega hvað er, hvort það eru allar jarðirnar fjórar, Kárastaðir, Brúsastaðir, Svartagil og Gjábakki eða hvort það er einhver hluti þeirra. Ef allar jarðirnar verða teknar undir, er það geysistórt svæði. Það er t.d. mjög kostmaðarsamt. Ég vildi segja, að það mundi kosta mörg hundruð þúsunda að girða það ef ætti að passa það. En ein aðalhugmyndin að friðuninni 1928 var sú, að sauðfjárbeit á friðlýsta svæðinu yrði útilokuð. Og meira að segja kemur það fram í umr., að forgöngumenn þessarar stærri lausnar, sem varð að lögum, hafa getað hugsað sér það að hvorki Skógarkot né Hrauntún yrðu lögð í eyði, heldur yrði búskap haldið þar áfram, að undanskildum sauðfjárbúskap. Sem betur fer hefur þetta nú ekki verið gert, þannig að báðir þessir bæir hafa nú verið jafnaðir við jörðu, ef svo má segja, og Vatnskot, sem er þriðja og síðasta bújörðin á þessu friðlýsta svæði, er nú um það bil að komast í eigu ríkisins og Þingvallanefndar, þ.e.a.s. húsin á jörðinni, því að jörðin sjálf er í eigu ríkissjóðs. Ábúandinn hafði lífstíðarábúð á jörðinni, og þegar hann féll frá, ákvað Þingvallanefnd að leggja þetta býli niður, og verður unnið að því nú á næstunni að gera það.

Ég held þess vegna að með niðurlagningu þessara þriggja býla á Þingvöllum sé mjög vel fyrir landrými staðarins séð þó að það verði ekki aukið. En ég vildi segja í því sambandi, að Þingvallanefnd hefur oft rætt um það að gera gangstíga um þetta svæði, til þess að gefa fólki kost á að njóta þess betur, sem það venjulega kemur sjaldan á, og það hefur aðeins staðið á því hjá n., að hafa fjármuni til þeirra verka. Bílvegi um þetta svæði vill hún ekki leggja og skoðar það sem skemmd á svæðinu ef til þess verður gripið heldur eingöngu að góðir gangstígar verði gerðir til þess að reyna að beina fólki inn á þá staði, sem hafa margir hverjir yfir mjög mikilli fegurð ég vil segja töfrandi fegurð að búa, til þess að beina því þangað og gera því mögulegt að komast þangað. Ég vona að til þess fáist fjárveiting innan ekki allt of langs tíma.

Þingvallanefnd hefur nú upp á síðkastið unnið að því og ákveðið það að Almannagjá skyldi verða friðuð og ég vænti þess, að þegar búið er að friða hana, geta margir, sem Þingvöll sækja, átt þar griðland, sem þeir ekki hafa átt áður vegna moldroks og umferðar, sem um gjána hefur farið Ég vænti þess, að sú ráðstöfun geti orðið til bóta og til þess að hjálpa fólki, sem heimsækir Þingvelli til þess að njóta friðhelgi og fegurðar staðarins.

Náttúruverndarráð hefur séð ástæðu til þess að fetta fingur út í sumarbústaðabygginguna í Gjábakkalandi. Og alþm. hafa verið inni á því, að það væri ekki rétt, að þessi sumarbústaðabygging yrði leyfð. Þingvallanefnd hefur á hinn bóginn hugsað sér að fara eftir því, sem hún telur vera í anda friðunarlaganna að það verði einungis séð um, að með sumarbústaðabyggingunni eða mannvirkjum á þessu fjögurra býla svæði utan friðlýsta svæðisins verði ekki unnin spjöll á landslaginu, þ.e.a.s. bústaðirnir verði þannig byggðir, að þeir skemmi ekki landslagið neitt. Það hafa verið settar reglur um þessa sumarbústaðabyggingu hvernig þeir skuli gerðir, mjög nákvæmlega og það hafa verið valdir sérstakir hraunbollar uppi í Lyngdalsheiði fyrir sunnan og austan Gjábakkabýlið til þess að setja þessa sumarbústaði niður, en n. telur, alveg eins og hún taldi 1946 undir forsæti Jónasar Jónssonar, að þessir bústaðir þurfi ekki að vera til neinna, lýta og hefur þess vegna ákveðið að þeir, sem sótt hefur verið um leyfi fyrir, verði þarna leyfðir og byggðir. N. hefur aldrei auglýst eftir umsóknum um þessa bústaði. Hún hefur eingöngu tekið þær, sem borizt hafa og með þessari síðustu sumarbústaðaveitingu, þessum 24 bústöðum í Gjábakkalandi, hefur hún veitt eða samþ. allar þær umsóknir, sem fyrir hendi voru, þegar n. hélt síðast fund. Þá lýsti hún því einnig yfir, til þess að sýna ekki neina þvermóðsku þó að hv. flm. hafi talið að hún væri einstrengingsleg í sjónarmiðum sínum, þá vildi hún ekki sýna þann einstrengingsskap að halda þessu áfram fyrr en búið væri að athuga málið frekar. En hún telur sig bundna af þeim samþykktum, sem þegar hafa verið gerðar, og að umsækjendum skuli verða gert kleift að byggja samkv. þeim.

Ég skal svo ekki ræða þetta mikið meira. Ég tel, að það sé ekki óeðlilegt, að l. um friðun Þingvalla verði endurskoðuð Ég tel þó ekki ástæðu til, að þessi endurskoðun verði gerð með hliðsjón af því, að hið friðlýsta svæði, hið algerlega friðaða svæði, verði mikið stækkað. Ég tel enga þörf á því, enda eru sérkenni landsins, sérkenni Þingvalla eingöngu bundin við þetta svæði á milli gjánna annars vegar og milli vatnsins og Ármannsfells hins vegar. Fari maður út fyrir þetta svæði, er maður kominn burt af Þingvöllum.

Um það hverjir eigi svo að framkvæma þessa endurskoðun, hef ég þá skoðun að það sé ekki ástæða til að láta Náttúruverndarráð endilega gera það. Náttúruverndarráð hefur átt í nokkrum útistöðum við Þingvallanefnd, og ég tel, að það væri langbezt, að það væri bara einhver hlutlaus aðili, sem þessa endurskoðun annaðist. Nú vill svo til, að hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson hefur borið fram till. hér á þskj. 6, þar sem hann leggur til, að Alþ. skuli koma á fót 7 manna mþn. til þess að endurskoða l. um náttúruvernd og gera till. um aukna náttúruvernd og ráðstafanir, sem stuðla að því, að almenningur eigi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar. Ég gæti vel hugsað mér, að þessi endurskoðun á náttúruverndarlögunum gæti orðið samferða endurskoðun á friðunarlögum um Þingvelli, þannig að sama n. athugaði hvort tveggja. Það er hér stungið upp á. að 5 menn skuli kosnir í þessa n. af Sþ., 1 tilnefndur af Hinu íslenzka náttúrufræðifélagi og 1 af Ferðfélagi Íslands. Ég teldi a.m.k. fulla ástæðu til þess að ætla það að þessi n. gæti á hlutlausan hátt kynnt sér þessi mál bæði, bæði náttúruverndarlög og l. um friðun Þingvalla, og gæti vonandi komið með einhverjar skynsamlegar till. um breytingar.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég vil aðeins endurtaka það, að það er alger misskilningur hjá hv. flm. till., að það komi nokkurs staðar fram hjá flm. þessa máls á Alþ. 1928, að það hafi verið meiningin að bæta þessum fjórum jörðum eða hluta þeirra við hið friðlýsta svæði á Þingvöllum, aðeins hitt að tryggja það, að á þessum jörðum yrðu ekki gerð mannvirki, húsbyggingar eða annað sem skemmdi útsýnið frá staðnum.