08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (2811)

26. mál, friðun Þingvalla

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Mér er það að sjálfsögðu ánægjuefni, að hæstv. utanrrh., form. Þingvallanefndar, skuli fallast á það meginsjónarmið í till. okkar, að ástæða sé til að endurskoða l. um friðun Þingvalla. Og ég vil í því sambandi mjög eindregið fara þess á leit við hæstv. ráðh. og þá hv. þm., sem kunna að vera á annarri skoðun um tilhögun endurskoðunar en við flm. þessarar till., að þeir komi fram með brtt. um þau atriði og Alb. ákveði að endurskoða þessa löggjöf. Ég tel ekki, að það sé neitt úrslitaatriði í hverra höndum endurskoðunin verður, heldur að þegar verði tekið að vinna að þessu verkefni, þannig að ég vil vænta þess, að þessi till. verði ekki látin sofna í n., eins og stundum vill verða heldur að hún fái afgreiðslu.

Hæstv. ráðh. var andvígur því, að Náttúruverndarráð yrði aðili að þessari endurskoðun, og sagðist heldur vilja fá hlutlausan aðila til þeirra starfa. Náttúruverndarráð er stofnun, sem Alþ. hefur sett á laggirnar til þess að vinna að tilteknum verkefnum, þ. e. náttúruvernd. Þetta er starfsnefnd, sem Alþ. hefur stofnað til, og mér virðist, að Náttúruverndarráð sé eðlilegasti aðilinn til þess að vinna að þessu verki. Þar eru þeir menn sem mest hafa leitt hugann að náttúruvernd, bezt vita, hvernig þeim málum ber að haga og þekkja bezt þau vandamál, sem þeim eru tengd, svo að ég held, að við eigum að hagnýta okkur þá sérþekkingu, sem Náttúruverndarráð hefur. Ég tel raunar, að Þingvallanefndir hefðu mátt gera miklu meira að því að hagnýta sér aðstoð sérfróðra manna. Í þessar nefndir hafa verið kjörnir forustumenn úr þremur stjórnmálaflokkum, menn sem allir hafa verið ákaflega störfum hlaðnir, eins og við vitum, og hafa eflaust oft haft nauman tíma til þess að sinna því sérstaka verkefni, sem tengt er friðun Þingvalla. Framkvæmdastjóri n., Hörður Bjarnason er einnig ákaflega störfum hlaðinn embættismaður, svo að ég held, að ýmislegt hefði getað farið betur í störfum n., ef hún hefði einmitt haft það samráð seinustu 10 árin við Náttúruverndarráð sem gert var ráð fyrir í grg. l. um Náttúruverndarráð þegar það frv, var lagt fram hér á þingi 1956.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki kæmi fram í umr. frá 1928, að alþm. hefðu hugsað sér að stækka sjálft hið friðlýsta svæði. Ekki skal ég vefengja það að ráðh. fari þarna með rétt mál. Hitt er staðreynd, að eins og l. eru, gera þau ráð fyrir alveg sambærilegri friðun á svæðinu öllu bæði hinu friðlýsta landi og landi þeirra fjögurra jarða sem þar eru taldar upp. Ábúendur þeirra jarða hafa ekki heimild til nokkurra mannvirkja nema með leyfi þingkjörinnar nefndar, og eins og ég vitnaði í hér í framsöguræðu minni, gerðu margir ræðumenn einmitt þá grein fyrir nauðsyn þessa fyrirkomu lags, að það yrði að koma í veg fyrir, að bændur leyfðu sumarbústaðabyggingar á þessum jörðum. Það skiptir í sjálfu sér auðvitað ekki máli, hvort alþm. 1928 hafi gert sér grein fyrir þeirri nauðsyn að stækka þetta svæði. Það, sem máli skiptir nú, er, hver okkar niðurstaða er, þegar við reynum að meta það viðfangsefni, og ég tel alveg vafalaust, að eftirkomendur okkar eigi eftir að verða okkur þakklátir, ef við stækkum þjóðgarðinn og látum hann ná til þess svæðis, sem l. í heild taka til.

Hæstv. ráðh. vék að sjálfsögðu að úthlutun sumarbústaða í Gjábakkalandi, og ég átti ekki von á því, að hann yrði mér sammála um það atriði. Hann sagði, að settir hefðu verið sérstakir skilmálar um, hvernig haga ætti byggingum á þessu svæði, húsin ættu að vera í hraunbollum, svo að þau sæjust ekki. Mér virðist þetta sjónarmið hv. Þingvallanefndar sýna einkar ljóslega, að hún hefur komizt að þeirri niðurstöðu sjálf, að hún hafi verið að taka rangar ákvarðanir. Það væri ekki ástæða til að fela þessa bústaði, ef n. teldi að þeir væru með felldu. Það er gersamlega ástæðu­ laust, að þetta séu einhverjir útilegumannabústaðir, ef mönnum finnst, að þarna eigi að vera sumarbústaðir. Með því að tala um að fela þá niðri í hraunbollum er verið að viðurkenna, að þetta séu mjög óeðlilegar framkvæmdir.

Ég vil minna á það í sambandi við Gjábakka, að jörðin þar var tekin eignarnámi af bóndanum, og honum hafði fram að þeim tíma verið bannað að heimila sumarbústaði á landi sínu. Á því voru aðeins gerðar tvær undantekningar. Einn þáv. Þingvallanefndarmanna tryggði sér land á þessu svæði, stórt land, 11 hektara að ég hygg, og lét byggja þar rammbyggilegan bústað og girða og setja veg, þar sem stendur skiltið „Einkavegur“. Enn fremur var annar bústaður heimilaður um líkt leyti og Þingvallanefnd tók við landinu. En bóndanum hafði sem sé verið bannað að leyfa almennar sumarbústaðabyggingar. Og ég tel það ákaflega annarlegt, að þetta bann á sumarbústaðabyggingum á þessu svæði hafi aðeins átt að hafa þann tilgang að halda svæðinu lausu handa Þingvallanefnd til þess að setja upp sumarbústaði. Þetta er alveg fráleitt sjónarmið og ég vil ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að Þingvallanefnd hafi ekki raunverulaga lagalega heimild til að gera þetta. Eins og ég vitnaði til áðan, er sagt, að þarna séu óheimil mannvirki nema með leyfi Þingvallanefndar, en í því felst það ekki, að Þingvallanefnd hafi heimild til þess að leyfa hvað sem henni sýnist. Við skulum taka dæmi. Fyrir skömmu auglýsti verðlagsnefnd, að allar verðhækkanir í landinu væru óheimilar án leyfis n. Þessi auglýsing n. var að sjálfsögðu í samræmi við lög. Hins vegar held ég, að það væri algert lagabrot, ef verðlagsnefnd færi að leyfa einstökum mönnum, vildarvinum sínum, að hækka verð. Það fengi ekki staðizt. Engu að síður er það hliðstæð lagatúlkun og mér virðist hv. Þingvallanefnd gera sig seka um.

Ég vil svo að lokum aðeins ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég tel það mestu máli skipta, að ráðizt verði í endurskoðun þessara laga, og ég vil ítreka það sem ég sagði áðan við hæstv. utanrrh., að ég mundi fagna því mjög, ef hann flytti þær brtt., sem eru í samræmi við hans skoðanir á till. okkar, þannig að hún fengi fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.