08.11.1967
Sameinað þing: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (2812)

26. mál, friðun Þingvalla

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég þarf að minnast á og leiðrétta. Mér fannst koma fram hjá hv. flm. misskilningur í sambandi við sumarbústaðina í Gjábakkalandi. Hann sagði, að Þingvallanefnd hefði bannað sumarbústaðabyggingu á meðan landið var í einkaeign en svo hafi hún sjálf tekið sig fram um að leyfa þessa byggingu þegar ríkið var orðið eigandi. Honum fannst þetta, hv. flm., mjög óviðfelldin aðferð og taldi, að þetta væri jafnvel ekki sæmandi.

Þessi fullyrðing hv. þm. um, að sumarbústaðir hefðu verið bannaðir í Gjáþakkalandi á meðan þeir voru í einkaeign segir ekki allan sannleikann því að það, sem vakti fyrir Þingvallanefnd, var það að það yrðu engir bústaðir byggðir þar nema þeir, sem væru í samræmi við þær hugmyndir, sem Þingvallanefnd hafði. Það lá ekki fyrir þá skipulagsuppdráttur af þessu svæði, en Þingvallanefnd taldi nauðsynlegt, að gerður yrði skipulagsuppdráttur af svæðinu, og þess vegna var takmörkun á réttinum til byggingar þá ekki bundin við annað en það að reyna að halda heildarsvipnum á landinu í því horfi, sem hún vildi hafa það og það hefur hún reynt að gera með þeirri úthlutun sem hún er nú að gera. Hv. þm. taldi líka, að það væri nokkurs konar feluleikur, sem væri verið að leika þarna að koma sumarbústöðunum niður í hraunbollum í staðinn fyrir að hafa þá svona á bersvæði, og taldi, að með þessu væri óróleg samvizka að gera vart við sig hjá Þingvallanefnd. En þetta er hreint ekki tilfellið því að við höfum ákveðið í Þingvallanefnd, að þess um framkvæmdum skyldi haga svona, vegna þess, að við teljum, að þessir sumarbústaðir, sem eru litlir, allir ákveðnir af sömu stærð og með sama útliti, fari bezt með því að hafa þá í þessum hraunbollum. Heildarsvipur landsins verði betri þannig. Það eru tveir gamlir bústaðir þarna rétt hjá því svæði, sem við höfum verið að skipuleggja þar sem sumarbústaðirnir standa uppi á hólum, og það teljum við að sé ekki gott og spilli frekar heildarsvip landsins. Þessi skipulagsákvörðun er raunar tekin af færustu mönnum í skipulagningu sem til eru á þessu landi. Að vísu hef ég það nú einhvern veginn á tilfinningunni, að Náttúruverndarráð geri ekki mjög mikið úr skipulagningarmönnum eða skipulagsnefndum. Hún hefur átt í útistöðum við þá líka núna fyrir stuttu, og yfirleitt eru það nú ýmsir menn sem mér virðist, að Náttúruverndarráði hafi tekizt að eiga í útistöðum við. En þessir menn, sem um þetta hafa fjallað, eru mjög færir á sínu sviði, og ég tel, að það sé ekki líklegt, að við getum fengið aðra menn færari til þessara starfa. Auk þess höfum við haft sem okkar framkvæmdastjóra húsameistara ríkisins, sem hefur áreiðanlega ekki minni smekk í þessum málum en a. m. k. sumir í Náttúruverndarráði.

Hv. þm. var að bera saman verðhækkun varnings, eftir að bann hefði verið sett við hækkunum. Ég skildi nú ekki almennilega samhengið í þessu en hann vildi víta það, ef einum manni eða nokkrum mönnum mundi vera leyft að gera hlut, sem öðrum væri bannað Þetta er alls ekki sambærilegt við það sem gerzt hefur í Gjábakkalandi. Þar er öllum mönnunum, sem sóttu gefin heimild til þess að byggja. Það er ekki verið að taka einn fram yfir annan Það er nákvæmlega það sama sem gengur yfir allan hópinn

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að beina því til hv. allshn., sem fær væntanlega málið til athugunar, að hún athugi möguleikana á því, sem ég nefndi hér áðan að sama n. athugi bæði frv., á þskj. 6, sem er till. hv. 1. þm. Austf. um endurskoðun á náttúruverndarl., og þessi lög. Ég tel það vera vinnusparnað að ræða skyld mál saman og ég tel, að það fari vel á því, að það væri sama n., sem gerði það hvort sem hún yrði nú akkúrat skipuð eins og till. á þskj. 6 gerir ráð fyrir, með 5 kosnum þm. á Alþ. og tveimur mönnum öðrum nánar tilgreindum þar, eða á annan hátt. Það getur vel verið að það fáist önnur og skynsamlegri skipun mála í þessari n., og það sem fyrir mér er aðalatriðið er, að ég teldi, að það væri praktískt að saman ynni að hvoru tveggja málunum. Ég vil að lokum undirstrika að ég tel ekki rétt, að Náttúruverndarráðið eitt eða að mestu leyti eitt taki að sér endurskoðun l. um friðun Þingvalla.