24.01.1968
Sameinað þing: 28. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (2822)

30. mál, áætlun um þjóðvegakerfi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Það munu nú vera liðnar einar 5 eða 6 vikur síðan frestað var fyrri umr. um þetta mál, sem er till. til þál. um, að gerð verði áætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins á tilteknum tíma. En málið var tekið til fyrri umr hinn 13. des. 1967. Ég flutti þá framsöguræðu fyrir hönd okkar flm., sem að þessari till. stöndum, og að því loknu talaði hæstv. samgmrh. Ég mun hafa kvatt mér hljóðs þá og skal hafa um þetta örfá orð.

Í ræðu þeirri, sem hæstv. samgmrh. flutti að lokinni framsöguræðu kom hann með nokkrar aths., sem virtust vera gerðar í tilefni af ræðu minni. Ég held nú, að þessar aths. hæstv. ráðh. hafi komið nokkuð á óvart, sumar þeirra, þeim, sem höfðu heyrt ræðu mína, en mér var reyndar ljóst, hvernig á þeim stóð. Þannig vildi til, að þegar umr. hófst, var hæstv. ráðh. ekki viðstaddur hér í d. og heyrði ekki nema lítinn hluta af ræðu minni í lokin. Þess vegna held ég, að hann hafi í raun og veru verið að gera aths. við það, sem hann gerði sér í hugarlund, að ég kynni að hafa sagt, en ekki það sem ég sagði. Það var t.d. einhver hugarburður hjá hæstv. ráðh., að í ræðu minni hefði verið ámælistónn, mér skilst í garð hans eða hæstv. ríkisstj. Svo var alls ekki. Það var enginn ámælistónn í ræðunni. Ég nefndi hvorki hæstv. ráðh. né hæstv. ríkisstj., ræddi um allt önnur efni, og í því sambandi vil ég aðeins vitna til nokkurra orða, sem ég hafði yfir. Ég sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég ætla ekki að ræða um það hér í sambandi við þetta mál, hvort þjóðin hefði getað verið komin lengra á þessu sviði en nú er eða hverju eða hverjum það sé að kenna, ef talið er, að minna hafi verið aðhafzt en unnt hefði verið á þessu sviði. Það er ekki það sem mestu máli skiptir að deila um slíkt, þótt stundum geti verið ærin ástæða til og jafnvel nauðsynlegt, en það sem mestu skiptir, er að reyna að finna leið til að ganga haganlega að óhjákvæmilegu verki og ljúka því síðan svo fljótt, sem unnt er á viðhlítandi hátt.“

Ég sagði heldur ekki í þessari framsöguræðu að Eyfirðingar og Þingeyingar, sem sóttu fund að Laugum, hefðu átt hugmyndina að því að gera góða vegi á Íslandi og ekkert því líkt. Ég sagði aðeins, að till., sem við flyttum hér, væri gerð með hliðsjón af till., sem þar hefði verið samþ. Ekki deildi ég heldur á hæstv. ríkisstj. í þeirri ræðu fyrir það að hafa tekið lán til vega, enda hefði ég ekki haft góða aðstöðu til þess að gera það, þar sem við erum að flytja till. um að taka lán til vega. Það voru heldur ekki mín orð að ekki hefði verið tekið lán til vegagerðar fyrr en á árinu 1962. Hitt nefndi ég, að á því ári mundi hafa verið byrjað að taka lán á þann hátt, sem nú tíðkaðist, þ.e.a.s. föst lán í stórum stíl til vegagerðar, og ég hafði það eftir vegamálaskrifstofunni, sem ég spurði um þetta, að á því ári hefði verið byrjað að taka lánið til Reykjanesbrautar.

En það eru tvö atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vil gjarnan vekja athygli á hér, af því að þau varða það mál, sem hér er til umr. Hið fyrra er það, að hæstv. ráðh. staðfesti það sem ég hafði vikið að í ræðu minni, að það mundi vera unnt að fá lán erlendis til vegagerðar, enda var það í raun og veru eftir honum haft, og hann gaf þær nánari upplýsingar, að það mundi vera hægt að fá 40% af vegagerðarkostnaði lánaðann, og hann sagði, að Finnar hefðu fengið slík lán 40% af kostnaði, til vegagerðar. Þetta tel ég nú þó nokkuð, ef það er svo, sem ég dreg ekki í efa, að hæstv. ráðh. hafi kynnt sér, að hér sé hægt að fá erlendis 40% til vegagerðar, og ég býst ekki við því, að mér eða öðrum hafi komið það til hugar, að við gætum lagt hér vegi eingöngu fyrir erlent lánsfé, heldur yrði þess lánsfjár, sem gert er ráð fyrir, einnig aflað innanlands.

Annað var það sem hæstv. ráðh. drap á í ræðu sinni, og það var það að hann sagði, að þegar mundi liggja fyrir á vegamálaskrifstofunni allmikið af áætlunum og tölum í sambandi við kostnað við einstaka vegi Og ég hafði nú búizt við því, að svo mundi vera, það mundi liggja allmikið fyrir af slíkum áætlunum og vék einmitt að því í ræðu minni. Vegamálaskrifstofan hefur unnið að því árum saman að gera slíkar áætlanir, og í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að skjóta því til hv. n., sem kann að fá þessa till. til meðferðar, að það kynni að vera athugandi að ætla skemmri tíma en till. gerir ráð fyrir til þeirrar áætlunargerðar, sem þar er um að ræða. En það er gert ráð fyrir því í till., að 10 ára áætluninni verði lokið ekki síðar en fyrir árslok 1968. Ef það er svo, sem hæstv. ráðh. segir, og hann ætti að vera því kunnugur, að mikið liggi fyrir af einstökum áætlunum og tölum í því samþandi, mætti e.t.v. ætla þeim, sem að þessu vinna með vegamálastjóra að ljúka þeirri áætlun sem hér er um að ræða, á eitthvað skemmri tíma en hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. fyrr en um árslok 1968. Og um þetta mundi n. væntanlega hafa samráð við vegamálastjóra og hæstv. ráðh.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta, en eins og hv. þm. sjá, er það meginatriði till. okkar áttmenninganna, að gerð verði heildaráætlun um uppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegalögum. Eins og ég sagði í ræðu minni, er Ísland í vegamálum vanþróað land. Og það er skoðun okkar, að við svo búið megi ekki standa og á þessu þurfi að verða gerbreyting og hún megi ekki taka mjög langan tíma. Okkur hefur sýnzt, að það sem fyrst þyrfti að snúa sér að í því sambandi, væri þá að gera sér grein fyrir verkefninu í heild, þ.e.a.s. gera heildaráætlun um uppbyggingu veganna, hvað hún kostaði og hvernig haganlegast væri að framkvæma hana á tilteknum tíma, t. d. á 10 árum, sem við höfum nefnt í till.

Þar sem nú liggja fyrir einstakar áætlanir, eins og hæstv, ráðh. sagði í sinni ræðu um þessi efni, um margar einstakar vegaframkvæmdir, er auðvitað það, sem hér er um að ræða, að safna þessum áætlunum saman í eina heild, gera þær einstöku áætlanir, sem vantar til að slík heildaráætlun geti verið gerð og áætla síðan á hvaða tíma hver einstök framkvæmd yrði, hvenær hvert einstakt verk yrði framkvæmt. Í till. er svo jafnframt bent á þær leiðir, að tekin yrðu lán til sérstakra vegaframkvæmda, þ.e.a.s. hraðbrautanna og þjóðbrautanna. Það er alveg auðsætt mál, að verk eins og það að byggja upp þjóðvegakerfið á 10 árum verður ekki framkvæmt nema á tvennan hátt. Það er um tvær leiðir að velja að því er fjármagnið varðar. Annars vegar að sjá vegasjóði fyrir svo miklum tekjum, að hann geti innt þetta verkefni af hendi, hins vegar að taka að verulegu leyti lán til þessara hluta. Og ef vegasjóði verður ekki séð fyrir þessum tekjum, sem þarna er um að ræða, verður þetta ekki framkvæmt öðru visi en með mjög verulegum lántökum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð.