14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (2944)

156. mál, lausn verkfalla

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti: Ég vildi ræða hér nokkuð þingskapareglur utan dagskrár og fá að beina orðum mínum sérstaklega til hæstv. forseta Sþ.

Eins og kunnugt er, fluttum við hér s.l. mánudag, 4 alþm., till. til þál. um lausn verkfallanna. Við stóðum að þessari till., 2 þm. Alþb. fyrir þess hönd og 2 þm. Framsfl. fyrir hönd þess flokks. Sama dag og við lögðum fram þessa till. og henni var útbýtt hér á Alþ. snerum við okkur til hæstv. forseta Sþ. og óskuðum eftir því, að útvarpsumr. færi fram um þessa till. og hún gæti farið fram sem allra fyrst vegna eðli málsins. Hæstv. forseti brá fljótt við og í fullu samræmi við þingsköp, og strax sama dag hafði hann samband við hina flokkana hér á þingi um þessa beiðni þessara tveggja flokka og þennan sama dag ræddu þeir þessa beiðni, og hæstv. forseti tilkynnti okkur svo þá um kvöldið, að þeir gætu ekki fallizt á beiðni okkar um það að hafa útvarpsumr. strax kvöldið eftir, á þriðjudagskvöld, eins og við höfðum óskað sérstaklega eftir, en þeir gætu fallizt á það, að umr. yrði á fimmtudagskvöld.

Daginn eftir, á þriðjudag, var svo forsvarsmönnum allra flokka stefnt saman með forseta Sþ. og skrifstofustjóra Alþ., eins og venja er til, til þess að ganga frá umr., ýmsum formsatriðum þeirra og þegar á þann fund kom, setti ég fram þá ósk, að umr. gæti farið fram einum degi fyrr eða á miðvikudag, en þá brá svo einkennilega við, að hæstv. forsrh. sagði þá allhvatskeytlega, að þessi umr. skyldi ekki fara fram fyrr en eftir viku. Og þegar hann var að því spurður, hvort það stæði þá ekki lengur það samþykki, sem þeir höfðu gefið, stjórnarflokkarnir, fyrir því, að þessi umr. færi fram á fimmtudag, fékkst ekkert ákveðið svar um það, en hins vegar heimtaði hann skýrslu af skrifstofustjóra um það, hvernig yfirleitt hefði verið staðið að útvarpsumr. að undanförnu. Sú skýrsla var tekin saman, og forsvarsmenn flokkanna fengu þessa skýrslu, og aftur var málið rætt í gærdag, og enn var ítrekuð okkar krafa um útvarpsumr., eins og við teIjum, að við eigum samkv. þingsköpum alveg ótvíræðan rétt til, en engin málalok hafa enn fengizt.

Nú er alveg augljóst samkv. þingsköpum, að til þess er ætlazt, að þegar slík beiðni sem þessi kemur fram, sé hafður allur hraði á um það, að útvarpað sé umr. Í 55. gr. þingskapa segir um þessi efni m.a. þetta:

„Nú óskar þingflokkur, að umr. verði útvarpað, og snýr þá formaður flokksins tilmælum sínum til forseta. Skal forseti þegar tilkynna það formönnum annarra þingflokka, en þeir leita samþykkis flokks síns svo fljótt sem auðið er“, — ég vek athygli á þessu orðalagi: „svo fljótt sem auðið er. Útvarpa skal umr., þegar samþykki allra flokka kemur til.“

Og enn segir í 57. gr. þingskapa um þessi atriði:

„Dag og stund útvarpsumr. skal tilkynna í útvarpi og á þingfundi svo fljótt sem unnt er.“

Það fer ekkert á milli mála. að þetta orðalag er ekki haft í þingsköpum, nema til þess sé ætlazt, að þegar svona stendur á, þá sé allur hinn mesti hraði hafður á um það að ganga í gegnum formsatriði varðandi svona umr., til þess að umr. geti raunverulega farið fram. Nú er auk þess svo ástatt í þessu efni, að hér er flutt till. um stórfelld vandamál. sem segja má að öll þjóðin standi nú frammi fyrir, þar sem meginhlutinn af atvinnulífi landsmanna hefur stöðvazt, og hér er flutt till. um það, hvernig lagt sé til, að Alþ. taki á þessu máli til þess að reyna að fá lausn á þessu stórvandamáli og síðan farið fram á það samkv. þingsköpum, að umr. um þetta mál verði útvarpað. En þá bregður svo við, að það er reynt að koma í veg fyrir það, að þingflokkar fái notið síns réttar, reynt að tefja það á allan hugsanlegan hátt, að umr. fari fram, en við slíkt verður vitanlega ekki unað.

Það er ekkert um það að villast, bæði þekkja hv. þm. það af reynslu, og eins kemur það líka glöggt fram í þeirri skýrslu, sem skrifstofustjóri þingsins tók saman um útvarpsumr., að sá háttur hefur verið á um útvarpsumr., þegar þeirra hefur verið krafizt, að þær hafa jafnan farið fram mjög fljótlega. Það er auðvitað svo, að í sumum tilfellum er ekki óskað eftir útvarpsumr. fyrr en alllöngu eftir að máli hefur verið útbýtt. Það kann að koma upp við meðferð málsins síðar, að óskað sé eftir útvarpsumr., en frá því að ósk kemur fram er auðvitað alveg greinilegt, að það er í fyrsta, lagi skylda að taka málið til afgreiðslu og að vinna að því svo fljótt sem auðið er að ákveða umr. Það sýnir sig líka við athugun, að yfirleitt hefur verið um það að ræða, að dráttur hefur verið í 2, 3, 4 og upp í 5 daga og þá alla jafna í fullu samkomulagi, milli flokka. Æði oft hefur verið um helgi að ræða, þegar 3, 4 eða 5 dagar hafa liðið frá því að krafa kom fram, helgin hefur þá fallið inn í tímann og lengt hann. En að staðið sé gegn því að útvarpað sé umr. og mál tekið á dagskrá, efins og í þessu tilfelli, þess þekki ég engin dæmi. Og ég get ekki gengið inn á það, að þó að hæstv. ríkisstj. vilji víkja sér undan því að ræða það alvarlega mál, sem hér er um að ræða og þoli sízt af öllu, að það sé rætt í áheyrn alþjóðar, sé réttur tekinn af þm. eða þingflokkum samkv. þingsköpum, og af endurnýja ég hér enn einu sinni kröfu okkar um það, að hæstv. forseti úrskurði um það, hvenær þessi umr. fari fram, og að hún verði látin fara fram ekki seinna en annað kvöld, föstudagskvöld. Það er augljóst mál, að með því að draga þessa umr. er í rauninni verið að víkja sér undan því, að hægt sé að taka á því vandamáli, sem fyrir liggur, á þann hátt, sem lagt er til af þeim, sem að þessari till. standa.

Ég vænti þess, að það dragist nú ekki lengur, að ákvörðun verði tekin í þessu máli. Allur fyrirsláttur um það að umr. um málið af hálfu Alþ. geti spillt fyrir lausn þess, er vitanlega út í bláinn. Það er þvert á móti að okkar dómi, sem að þessari till. stöndum, skylda Alþ. að láta sig skipta þetta stóra og mikla vandamál. sem hér er um að ræða en víkja sér ekki undan því eða sitja auðnum höndum, eins og þingið hefur gert að verulegu leyti að undanförnu. Ég tel því, að það sé sjálfsagt að taka afstöðu til þess, hvort þannig eigi að snúast við vandanum, sem lagt er til í okkar till., og á þann hátt, sem þingsköp mæla fyrir um, og vænti þess, að hæstv. forseti verði við þessari beiðni, sem ég ítrek a enn einu sinni.