14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

156. mál, lausn verkfalla

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það má nú öllum ljóst vera sem hlýtt hafa á þessar umr., að það, sem einkum er nú borið fyrir af hálfu ríkisstj. í sambandi við það, að ekki er hægt að fá fram umr. um þetta mál á þann hátt, sem þingsköp gera ráð fyrir, er það, að aðilar þeir, eins og sagt er, sem standa nú í samningum, hafi óskað eftir því, að þessar umr. færu ekki fram og þeir teldu það óheppilegt, að almennar útvarpsumr. um málið færu fram. Þetta er rangt. Ég hef talað við formann stærsta verkalýðsfélagsins í landinu og forseta stærsta verkamannasambandsins í landinu og aðra þá, sem mest hafa um þessi samningamál að gera, og þeir hafa algerlega þverneitað þessu sem tilhæfulausu, og þeir hafa sagt, að þeim væri það fyllilega ljóst, að einmitt framkoma þessarar till. á Alþ. og það, sem hefði gerzt í sambandi við hana hefði einmitt ýtt nokkuð á eftir því, að eitthvað hreyfðist í þessum málum, m.a. frá hæstv. ríkisstj., svo að það er algerlega rangt, enda er þessi till. flutt í fullu samráði við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, að það séu þessir aðilar, sem séu að óska eftir því, að þessar umr. fari ekki fram. (Gripið fram í.) Já, í samráði við þá.

Það er skoðun, að ég hygg, langflestra forustumanna í íslenzkri verkalýðshreyfingu, að þær deilur, sem nú hafa komið upp, stafi fyrst og fremst af því, að ríkisstj. skarst í þessi mál á þann hátt, sem allir vita að hún gerði. Hún breytti lagaákvæðum þannig, að hún raskaði þeim kjarasamningum, sem áður höfðu verið gerðir. Kippt var í burtu einu mikilvægu ákvæði samninganna með lögum. En það leiddi síðan til þeirra átaka, sem við stöndum frammi fyrir nú. Þetta kom skýrt fram í umsögn Alþýðusambandsins og Alþýðusambandsþings varðandi þetta ákvæði, sem samþ. var hér um breytingar á l. um vísitölu.

Auðvitað er það líka hrein fjarstæða að halda því fram, að Alþ. megi ekki ræða slíkt stórmál sem það er, sem hér er um að ræða, og það þurfi að spilla þessu máli, þó að umr. fari fram af hálfu Alþ. um þetta stóra vandamál. Sannleikurinn er sá, að það eru fleiri en verkfallsmenn, sem finna það. Það kom m.a. fram í einu blaði Sjálfstfl., því eina blaði, sem hér er gefið út nú í verkfallinu, að það væri furðulegt, að Alþ. skyldi sitja auðum höndum meðan slíkt ástand væri ríkjandi í landinu sem hér er ríkjandi nú, það væri alveg furðulegt. Og það er ekki ríkisstj. til sóma að standa frammi fyrir því að koma í veg fyrir það, að Alþ. taki á þessu máli á þann hátt, sem eðlilegt er.

Hæstv. forsrh. ræddi mikið um það hér, að óþinglega væri staðið að flutningi málsins af hálfu okkar, sem að þessari þáltill. stöndum, og hann ráðleggur það í sífellu, að við ættum að flytja frv. til laga um vísitölugreiðslur á laun. Við höfðum valið þá leiðina að fá fram viljayfirlýsingu Alþ. um það, að ríkisstj. beitti sér fyrir lagasetningu í þessa átt, en vildum ekki binda það beinlínis, hvernig fyrirkomulagið ætti að vera í sambandi við þessa lagasetningu, því að það væri miklu heppilegra að reyna að leita nokkuð eftir samkomulagi við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. Við höfum þá reynslu, að þegar við leggjum hér fram frv., þá fást þau ekki afgreidd. Í mesta lagi fara þau til n., og þaðan koma þau aldrei aftur. Það er auðvitað það, sem hæstv. forsrh. hefði viljað í þessu efni. Við vitum, að frv. frá okkar hálfu um það, hvernig reglur skyldu verða hér eftir um greiðslu á vísitölu, hefði ekki verið samþykkt. En það var ekki ólíklegt, eins og málin standa, að meiri hl. Alþ. fengist til að lýsa því yfir, að hann teldi rétt, að það yrðu í gildi lög um greiðslu verðlagsuppbótar á laun, og óskaði eftir því við ríkisstj., að hún beitti sér fyrir lagasetningu um þetta efni. Til þess stóðu vonir, og á þennan hátt var auðvitað fullkomlega þinglega að farið, eins og við fórum að, að leggja þetta fram í þál.-formi.

Það er svo auðvitað augljós fyrirsláttur hjá hæstv. forsrh., að það hefði breytt einhverju í þessu máli, þó að við hefðum flutt frv. í staðinn fyrir þál. Ætli hann hefði ekki getað lagzt á málið, eins og hann hefur gert, reynt að koma í veg fyrir, að eðlilegar umr. færu fram um málið og að það kæmi hér á dagskrá, ef hann hefði viljað leggja sig fram, þó þetta hefði verið flutt í frv.-formi. Það hygg ég, að enginn efist um. Nei, sannleikur málsins er sá, að ríkisstj. vill ekki standa frammi fyrir þjóðinni og ræða þetta mál. Hún vill það ekki. Hún vill skjóta sér undan því. Og hún vill ógjarnan, að það sé dregið fram, sem er hið rétta í þessu máli. Hið rétta er það, að ekki hefðu verið nein verkföll hér í dag og við hefðum ekki tapað þeim hundruðum millj. kr., sem við erum að tapa nú á þessari vinnustöðvun, ef ríkisstj. hefði ekki knúið fram gegn yfirlýsingum verkalýðssamtakanna í landinu og mótmælum þeirra þá lagasetningu að fella niður ákveðinn hluta af hinum raunverulegu kaupgjaldssamningum, sem giltu í landinu, þ.e. ákvæðin um vísitölugreiðslur á laun. Hefði ríkisstj. þá farið eftir aðvörunum okkar í minni hl. hér á Alþ., og hefði hún þá hlýtt á verkalýðssamtökin í landinu og metið þau einhvers, þá hefði aldrei komið til þessara deilna. Það vita allir og viðurkenna nú orðið, — og ég ætla, að hæstv. ríkisstj. viðurkenni það í dag, þó hún þrauki enn gegn því, að tekið sé á málinu á eðlilegan hátt, — að það verða að vera í gildi einhver lagafyrirmæli um vísitölugreiðslu á laun. Það er engin von til þess, að það verði vinnufriður í landinu, ef slík lagaákvæði eru ekki til.

Ég vil svo alveg sérstaklega mótmæla því, að það sé réttmætt að víkja hér frá beinum og skýrum akvæðum þingskapa í sambandi við að ákveða útvarpsumr. um þessa. till., vegna þess að fram hafi komið tilmæli af hálfu þeirra aðila sem í þessari deilu standa, þannig að þeir telji, að það sé óheppilegt, að þessar umr. fari fram. Slíkt er úr lausu lofti gripið Engin slík tilmæli hafa komið fram, ekki frá aðilunum sjálfum. Vitanlega geta verið einstakir menn, sem telja, að það sé bezt að vinna að þessu öllu í pukri, en það er ekki beiðni frá þeim samtökum, sem hér eiga hlut að málí. Það er ekki beiðni frá þeim samtökum og ekki frá aðalforustumönnum þeirra, sem mestu ráða um það, hvort þessar vinnudeilur standa lengur eða skemur eða hvort samið verður eða ekki. Þeir hafa ekki sett fram nein slík tilmæli.

Ég endurtek svo enn einu sinni tilmæli mín til forseta, því að það er hann, sem ræður í þessum efnum um framkvæmd alla á þessu máli. Ég endurtek tilmæli mín til hans um það, að hann ákveði það nú, eins og þingsköp gera ráð fyrir, að umr. fari fram um þessa till. og ekki seinna en annað kvöld. Það er vitanlega alveg tómt mál að tala um það, að það sé vilji til þess, að útvarpsumr. fari fram um þessa till., og halda því svo jafnframt fram, að menn séu að koma í veg fyrir það, að umr. fari fram, af því að það muni spilla fyrir samningum í deilunni. Forseti á að ráða þessu máli, en ekki ríkisstj., og því geri ég þá kröfu til hæstv. forseta, að hann ákveði nú í samræmi við þingsköp, að þessar umr. fari fram.