14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

156. mál, lausn verkfalla

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er þegar ljóst af reynslunni, að sú kenning hæstv. forsrh., að umr. stjórnmálamanna um þetta stórfellda vandamál. sem nú er við að etja í íslenzku þjóðfélagi, séu til skaða fyrir lausn deilunnar, á að hans mati ekki við sjálfan hann, því að þegar sú þáltill. var lögð hér fram á þingi, sem við erum að ræða hér, þá gerðust þau tíðindi um kvöldið, að hæstv. forsrh. tryggði sér rúm bæði í útvarpi og sjónvarpi með ýmsar staðhæfingar, sem bæði voru rangar að minni hyggju og sumar a.m.k. orkuðu tvímælis. Hann kom fram með þær á báðum stöðunum, auðsjáanlega í tilefni af þessari till. Hæstv. forsrh. virtist vilja tryggja sér einkarétt til þess að tala frammi fyrir þjóðinni um þetta vandamál, en neita öðrum um sama rétt. Og þetta er náttúrlega meginástæðan til þess, að þannig er tekið á þessu máli, að hæstv. ríkisstj. vill ekki þurfa að ræða við aðra um þetta mál, hún vili tryggja sér einkarétt til þess.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri óeðlileg aðferð að flytja hér þáltill. og ætlast til þess, að hæstv. ríkisstj. byggi til frv. um þetta mál, því að hún hefði lýst því yfir aftur og aftur, að hún væri andvig þessari tilhögun. En hér er aðeins verið að fylgja gömlu fordæmi Þegar viðreisnarstjórnin var stofnuð, lagði hún einnig niður vísitölugreiðslur á kaup. Og hún gerði meira. Hún bannaði með lögum, að um slíkt yrði samið milli verkalýðsfélaganna og atvinnurekenda. Samt gerðust þau tíðindi síðar í samningum við verkalýðsfélögin, að þessi sama ríkisstj. bjó til frv. og lagði fyrir Alþ. og fékk það samþykkt, einmitt um þetta atriði, vegna þess að hún hafði lært af reynslunni vegna andstöðu og baráttu almennings, að það væri ekki stætt á þeirri stefnu, sem hún hafði reynt að framkvæma í landinu. Og þá sömu ályktun ber hæstv, ríkisstj. að draga af þeim átökum, sem nú eru, langsamlega viðtækustu og breiðustu verkföllum, sem nokkurn tíma hafa verið háð hér á landi, þar sem menn standa hlið við hlið algjörlega án tillits til flokkaágreinings. Af svona staðreyndum eiga ríkisstj. að læra.

Ég vil mjög taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að þessi till. okkar var flutt til þess að sannreyna það, hvort afstaða meiri hl. Alþ. væri ekki breytt. Hann vitnaði hér í Skutul, sem gefinn er út á ábyrgð hæstv. forseta Sþ., en það má vitna i margt fleira. Nokkru áður en verkföll hófust samþykkti verkalýðsmálanefnd Alþfl. einróma stuðning við kröfu verkalýðssamtakanna um fullar vísitölubætur á kaup og skoraði á ráðh. Alþfl. að beita sér fyrir því, að sú stefna næði fram að ganga. Alþýðublaðið birti tvívegis forustugreinar þessu máli til stuðnings. Og þann 1. marz s.l. kom út eintak af Alþýðumanninum á Akureyri, sem er í mjög nánum tengslum við einn af þm. Alþfl. hér á þingi, hv. 9. landsk. þm., og þar var greint frá því á forsíðu, hver væri afstaða verkalýðsmálanefndar Alþfl., og tekið undir það með þeim orðum, að ef ráðh. Alþfl. tækist ekki að leysa þetta mál innan ríkisstj., þá bæri þeim að segja af sér, vegna þess að Alþfl. yrði að líta á sig sem flokk alþýðunnar. Allt þetta gefur til kynna að afstaða þm. Alþfl. hljóti að vera breytt, og mig grunar, að andstaða hæstv. forsrh., sem vill ekki, að þetta mál fái hér skjóta afgreiðslu, stafi ekki endilega fyrst og fremst af umr. sjálfum, heldur af þeirri atkvgr., sem átti að fara fram á eftir. Ég býst við, að hæstv. forsrh, hafi óttazt, að það væri ekki öldungis víst, að þessi till. yrði felld og að það sé það, sem veldur, frekar en sjálfar umr.