14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (2952)

156. mál, lausn verkfalla

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég vil einungis lýsa því yfir, að það var ekki af mínum hvötum, að ég var beðinn um viðtal við sjónvarp og útvarp s.l. mánudag. Það var leitað mjög fast á mig af þessum stofnunum báðum, og mér var hægt um að tala við þær, en lét undan þrábeiðni sérstaklega sjónvarpsins að gera það þó. Hitt er annað mál, að aðilar hafa átt þess fyllilega kost að koma sínum skoðunum að í þessum fréttastofnunum, og þess vegna var út af fyrir sig ekki óeðlilegt, að það væri einnig leitað til fulltrúa ríkisstj. um hennar skoðun, en sízt hef ég á móti því, að hv. stjórnarandstæðingar eigi þar sambærilegan rétt og aðrir, og hef ég aldrei beitt mér á móti því.

Varðandi það, að það sé frá mér komið að standa á móti útvarpi þessara umræðna, þá ítreka ég það, sem ég hef sagt og er óhaggað og óhagganlegt, að af hálfu forustumanna, annars vegar vinnuveitenda og hins vegar 18 manna n., hefur sú ósk og sú skoðun verið látin uppi bæði við forseta Sþ. og ríkisstj., að þessar útvarpsumr. væru ekki látnar fara fram, eins og sakir standa, meðan verið væri að kanna þá sáttamöguleika, sem menn þóttust eygja með till. sáttasemjara s.l. þriðjudag. Þetta er staðreynd málsins, og á þessu er byggð sú afstaða sem stjórnarflokkarnir hafa tekið, og eins og hæstv. forseti sagði, þá hefur hann miðað sína ákvörðun í málinu við þær skoðanir, sem þarna hafa komið fram. Hvort þessir aðilar, sem í samningunum standa, og sáttasemjari hafi hins vegar meiri og betri hugmynd um það, hvað leiða kunni til skjótrar lausnar deilunnar, eða þeir pólitísku, hörðu baráttumenn, sem hafa haldið uppi umr. hér í dag, um það getur hver gert upp sinn huga og þá hvað fyrir hverjum vakir.

Hv. 1. þm. Austf. sagði hvað eftir annað, að hann væri með getsakir í garð sinna andstæðinga. Ég skal ekki vera með neinar getsakir í garð minna andstæðinga. Verkin tala um þeirra hugarfar.