14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

156. mál, lausn verkfalla

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins, hæstv. forseti, til þess að bera af mér eina sök. Hv. þm. Vestf., Birgir Finnsson, sagði, að ég hefði sagt rangt frá efni þáltill., því að hún væri um það að fela ríkisstj. að beita sér fyrir löggjöf, sem fæli í sér upphaflegu kröfur verkalýðsfélaganna í deilunni. En ég hefði sagt, að efni þáltill. væri annað. Ég sagði rétt frá efni þáltill., því að efni hennar er að fela hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir löggjöf, sem byggi á því, sam verkalýðsfélögin hafa sett fram, og þegar þáltill. kom fram og var undirbúin, höfðu fulltrúar verkalýðsfélaganna sett fram þá afstöðu, sem ég lýsti. Þá höfðu þeir ekki upphaflegu kröfurnar á oddinum, heldur þá afstöðu, sem ég lýsti, og það höfðum við kynnt okkur mjög vel, eins og kom fram í sjónvarpsviðtali, sem haft var við formann Framsfl., sem er annar flm. till., sem sé þetta, að það væri skert vísitala, sem barizt væri fyrir, og hún gæti orðið innleidd í áföngum á þann hátt, sem ég greindi frá. Þess vegna er ekki í þáltill. gert ráð fyrir því að lögfesta fyrstu kröfur annars aðilans.