14.03.1968
Neðri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

156. mál, lausn verkfalla

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ef við eigum að fara að ræða sjálf efnisatriði þessa máls, eins og hæstv. forsrh. gerði hér áðan, væri ástæða til að mælast til þess, að hæstv. forseti gæfi lengri ræðutíma en þann örstutta, sem hann skammtar okkur þm. Ef það ætti að fara að ræða þau atriði, sem hæstv. forsrh. vék að hér áðan, ýmiss konar stefnuatriði í sambandi við þetta vísitölukerfi, þarf langan tíma til þess að gera grein. fyrir afstöðu sinni, þannig að einhver mynd verði á. Ég hef skilið þessar umr. þannig, að við værum aðeins að ræða þingsköp, þessa furðulegu afstöðu stjórnarflokkanna, að vilja koma í veg fyrir almennar umræður stjórnmálaflokkanna frammi fyrir þjóðinni.

Hæstv. forsrh. sagði, að það sýndi mildi hæstv. forseta, að hann skyldi leyfa umr. eins og þessar hér í dag, og auðvitað var viss broddur í þessu hjá hæstv. forsrh. Hann var að áfellast hæstv. forseta fyrir, að hann skyldi ekki vera búinn að takmarka þessar umr. fyrir löngu. En það er ekki um það að ræða hvort við ræðum málin hér í þessari stofnun, heldur var um það að ræða, að við ræddum málin frammi fyrir þjóðinni allri, Menn verða að minnast þess, hvernig ástatt er núna. Um það bil tveir þriðju allrar verkalýðshreyfingarinnar eru í verkfalli. Þetta er vandamál, sem fólk ræðir og hugsar um um land allt, og þetta fólk á heimtingu á því að fá að vita afstöðu flokkanna til þessa máls. Því ef nokkuð er í kjarna stjórnmálanna um þessar mundir, eru það þessi vandamál.

Ég vil algerlega mótmæla þeirri afstöðu hæstv. forsrh., að þetta séu mál, sem eigi að leysast í einhverju pukri. Það eru yfir 20 þús. manna sem hafa tekið á sig þungar byrðar að undanförnu til þess að knýja fram réttlætismál, og þetta fólk á fulla heimtingu á því að fá að fylgjast með öllum þáttum málsins og fá að taka ákvarðanir sínar sjálft á lýðræðislegan hátt. Ég vil minna hæstv. forsrh. á það, að það er ekki á valdi neinnar samninganefndar að taka ákvarðanir um það, sem samið verður um að lokum. Þessi mál verða lögð fyrir verkalýðsfélögin um land allt, og þau verða þar rædd á almennum fundum, og þar verða ákvarðanirnar teknar. Þetta mál verður aldrei leyst í neinu pukri. Þetta er mál þjóðarinnar allrar, og þjóðin á heimtingu á að fá að vita gjörsamlega hver er afstaða manna til þess.

Það hefur verið ákaflega eftirtakanlegt, að ráðh. Alþfl. hafa ekki tekið þátt í þessum umr. hér í dag. Og það er engin tilviljun. Þeir vita ósköp vel, að sú afstaða, sem var túlkuð í Alþýðumanninum á Akureyri og ég vitnaði hér til áðan, að þeim bæri að segja af sér, ef þeir létu slíkt ástand viðgangast eins og nú er komið upp, er skoðun mikils hluta Alþýðuflokkskjósenda í landinu. En sem sagt: Þessi pukurafstaða er algerlega fráleit. Það fólk, sem stendur í verkföllunum um land allt, á heimtingu á að fá að fylgjast með málavöxtum á öllum stigum málsins.