19.12.1967
Efri deild: 39. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

76. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessu frv., sem nú er hér til umr., um það að fella niður þá undanþágu, sem póstur og sími hafa haft frá því að greiða söluskatt.

Eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., varð ekki samstaða í fjhn. þessarar hv. d., og við þrír, sem skipum minni hl., höfum gefið út sérstakt nál. á þskj. 191, þar sem við leggjum til, að frv. verði fellt.

Það er rétt, sem fram kom hér áðan hjá hv. frsm., að hæstv. fjmrh. kom á fund okkar í fjhn. í gær, þegar við vorum að fjalla um þetta frv., og gaf þar þær skýringar, að það væri atvikum háð, hvort söluskattur af póst- og símagjöldum yrði innheimtur nú eða ekki. En það mundi, eftir því sem hann upplýsti n., fara eftir því, hvort póstur og sími mundi þurfa að hækka gjaldskrá sína af öðrum ástæðum eða ekki. Ef póstur og sími þyrfti að hækka gjaldskrá, teldi ríkisstj. rétt að nota í leiðinni tækifærið til þess að bæta þar á ofan 71/2% söluskatti. (Gripið fram í.) Teldi ef til vill rétt, já. Það eru margir fyrirvarar í þessu máli, og ég gleymdi einum og bið afsökunar. Við, sem skipuðum minni hl. n., teljum, að þessi röksemdafærsla sé ekki geðfelld og ekki rétt heldur, og ég segi það hér sem mína skoðun, að ég tel það alveg fráleitt, ef nú á að fara að hækka þjónustugjöld pósts og síma og auka þar með útgjöld, bæði almennings og fyrirtækja, eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, að nýlega er búið að leggja á þessa aðila byrðar mikillar gengislækkunar, án þess að enn þá a.m.k. hafi séð dagsins ljós nokkrar teljandi ráðstafanir til þess að draga úr þeim byrðum. Og ég sé ekki, að neitt liggi á þessari heimild til hæstv. ríkisstj. til að leggja söluskatt á þessi þjónustufyrirtæki og þess vegna, eins og ég áðan sagði, er ég því andvígur að veita hana nú.

Það eru margir fyrirvarar um það, hvort þessi skattur verði innheimtur eða ekki, það er alveg rétt. Og það má vel vera, að svo kunni að fara að þessu sinni, að hæstv. fjmrh. noti ekki það vald, sem honum er hér veitt, en ég hef ekki trú á því, að það fyrirkomulag standi lengi, að í l. séu til fjáröflunarheimildir handa ríkissjóði, sem ekki eru notaðar. Mér finnst, að þróunin og reynslan hafi sýnt það þvert á móti, að allar slíkar heimildir séu fullnotaðar og sífellt verið að leita nýrra, svo að enda þótt ég efist ekkert um það, að hæstv. ráðh. meini það fyllilega, sem hann gefur í skyn, að hann muni e.t.v. ekki nota þessa heimild að þessu sinni, þá muni það aðeins gilda skamma hríð, og þess verður e.t.v. ekki langt að bíða, að póstur og sími til notenda verði hækkaður vegna þeirrar lagaheimildar, sem þessi hv. d. ætlar nú að fara að veita.

Það getur vel verið rétt, að það sé sanngjarnt, í víssum tilfellum a.m.k., að taka hluta af gróða slíkra ríkisstofnana og verja þeim t.d. í þeim tilgangi, sem hæstv. fjmrh. hefur upplýst, að hér sé fyrir hendi, að draga úr byrðum og óþægindum gengislækkunarinnar. Þessi ráðagerð var uppi í sambandi við fjárlagafrv. 1968, þegar það var fyrst lagt fram hér á Alþ. Þá var ráðgert, að mig minnir, að taka talsverðan hluta af rekstrarafgangi þessarar stofnunar og verja til annarra ríkisþarfa.

Ég get vel fallizt á, að þegar sérstaklega stendur á, geti verið sanngjarnt og eðlilegt, að póstur og sími — enda þótt það séu þýðingarmiklar stofnanir, þjónustustofnanir — verði að sæta þeim niðurskurði, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt eða viðhaft við fjárfestingar- og opinberar framkvæmdir á undanförnum árum og það sé óeðlilegt, að póstur og sími sé þar ávallt í sérflokki. En þessu takmarki er auðveldlega hægt að ná með þeirri leið, sem ráðgerð var í fjárlagafrv., og án þess að hækka gjöldin til almennings um þá fjárhæð, sem söluskattinum nemur.

Ég vil mjög eindregið mælast til þess við hv. þm. í þessari d., að þeir athugi vel, hvort þeim finnst það rétt að leggja nú í kjölfar gengislækkunarinnar þær byrðar á að hækka póst- og símagjöld um 71/2%. Þessi þjónusta þykir dýr og er sannarlega talsvert dýr, og dýrtíðin er alveg nægileg í landinu, þó ekki sé verið að auka hana að ástæðulausu.