22.01.1968
Efri deild: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

92. mál, heimild til að veita Hans Samúelssyni stýrimannsskírteini

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er um heimild til handa siglingamálaráðherra til að veita Hans Samúelssyni stýrimannsskírteini á íslenzkum skipum skv. ákvæðum l. nr. 66 frá 17. júlí 1946 og að hann fullnægi siglingatíma einnig skv. þeim sömu lögum.

Erindi þetta var sent, áður en frv. var flutt, skólastjóra Stýrimannaskólans til umsagnar og fylgir jákvæð umsögn hans sem fskj. með frv.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Efni þess er mjög einfalt og liggur ljóst fyrir, en hitt þykir mér ástæða til að biðja hv. þdm. að hugleiða, hvort sem það verður gert í sambandi við þetta mál eða síðar, að ástæða væri til að endurskoða þessi gömlu lagaákvæði, sem munu hafa gilt frá því nokkuð fyrir 1920, um að sérstaka lagaheimild þurfi til handa hverjum þeim aðila, sem vill komast hjá því að taka próf við íslenzka stýrimannaskólann, jafnvel þótt hann hafi jafngild próf annars staðar frá, svo sem eins og er um þann aðila, sem hér um ræðir. Þetta er ákaflega þungt í meðförum, svo ekki sé sterkara að orði kveðið, og fullkomin ástæða til þess að íhuga, hvort ekki ætti að endurskoða þetta lagaákvæði og binda það þá einhverjum skilyrðum, t.d. að leita yrði umsagnar tiltekinna aðila og jákvæð svör frá þeim að berast, til þess að slík réttindaveiting gæti farið fram. Ég minni á þetta hér, því að ég tel, að það komi mörgum þm. spánskt fyrir sjónir, þegar flytja þarf sérstök frv. um efni sem þetta, en skv. gildandi lagaákvæðum ber að gera það, og það hefur verið gert í þeim tilfellum, sem á hefur þurft að halda. Ég minni aðeins á þetta hér hv. þdm. til umhugsunar, en tel, að það sé fyllilega tímabært að endurskoða þessi lög eða þau ákvæði þeirra, sem gera ráð fyrir sérstakri lagasetningu vegna aðila, sem getur staðizt slíka rannsókn sem þá, sem hér hefur farið fram og ávallt er látin fara fram, því frv. eru yfirleitt ekki flutt, nema jákvæð svör hafi borizt frá hlutaðeigandi aðila, þ.e.a.s. Stýrimannaskóla Íslands.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.