01.02.1968
Efri deild: 48. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

92. mál, heimild til að veita Hans Samúelssyni stýrimannsskírteini

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég get verið ákaflega stuttorður um þetta frv. N. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir hv. þd.

Ég vil aðeins í þessu sambandi árétta það, sem mig minnir, að hæstv. ráðh. hafi nefnt í framsögu við 1. umr. frv., að e.t.v. kynni að vera ástæða til að breyta löggjöfinni um þetta efni þannig, að ekki þurfi að koma til kasta Alþingis í hvert skipti, sem erlendum manni með fullnægjandi próf eru veitt slík réttindi, og vil ég láta í ljós, að ég er því sammála fyrir mitt leyti, að eðlilegast væri, að ráðh. hefði heimild til, að fengnum umsögnum þar til hæfra aðila, svo sem skólastjóra Stýrimannaskólans, að afgreiða mál eins og þetta, án þess að sérstaka löggjöf þurfi til hverju sinni.