15.12.1967
Neðri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

27. mál, siglingalög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frumvarp þetta er komið frá hv. Ed. og hlaut þar einróma samþykki. Dagskrárliður nr. 3 á dagskránni í dag er einnig um sama málið, þ.e. um staðfestingu á alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, en nauðsynlegt er að gera í því tilefni breytingar á siglingalögunum.

Siglingalögin, sem eru nr. 56 frá 30. nóv. 1914 og giltu til ársins 1963; eru þýðing á dönskum siglingalögum frá 1892 um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, og voru lögin í samræmi við siglingalög Norðurlandaríkjanna, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, er sett höfðu verið á árunum 1891–1893. Aðalreglan var sú, að á tilteknum kröfum, sem urðu til vegna útgerðar skipa, báru útgerðarmenn aðeins ábyrgð með skipi og farmgjaldi, en ekki öðrum eignum. Hinn 25. ágúst 1924 var í Brüssel sett alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna, og var þar ákveðið, að hinar takmörkuðu sjókröfur skyldu útgerðarmenn ábyrgjast með verði skips að viðbættum 10%, sem kæmi í stað farmgjalds. Ábyrgð skyldi þó ekki fara fram úr 8 sterlingspundum fyrir hverja rúmlest skips, þegar eingöngu væri um eignatjón að ræða, og ekki fram úr 16 sterlingspundum fyrir rúmlest, þegar jafnframt eða eingöngu kæmu til bætur fyrir lífs- eða líkamstjón.

Enn ný alþjóðasamþykkt um takmörkun á ábyrgð útgerðarmanna var svo gerð í Brüssel 10. okt. 1957. Þar er í tveimur mikilsverðum atriðum vikið frá reglum alþjóðasamþykktarinnar 1924: 1) að kröfum þeim, sem útgerðarmenn bera takmarkaða ábyrgð á, er fækkað að miklum mun, sbr. umsögn um 3. gr. í frv. hér, og 2) að felld er algerlega niður reglan um, að útgerðarmenn ábyrgist sjókröfur takmarkað við verð skips að viðbættum 10%. Í stað þess er haldið reglunni um ábyrgð með tiltekinni fjárhæð fyrir hverja rúmlest skips, en þó þannig breyttri, að í stað 8 og 16 sterlingspunda komi 1000 frankar fyrir rúmlest, þegar eingöngu er um að ræða eignatjón, en til viðbótar 2100 frankar fyrir rúmlest, þegar jafnframt eða eingöngu er um að ræða bætur fyrir lífs- eða líkamstjón.

Herra forseti. Ég tel óþarft — á þessu stigi málsins a.m.k. — að fara frekari orðum um efni þessa frv., enda fylgir því mjög glögg og greinargóð grg. ásamt aths. við einstakar gr. Ég legg til, herra forseti, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til hv. sjútvn.