19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Fjmrh. (Magnús Jónason):

Herra forseti. Þegar ég talaði fyrir þessu frv. við 1. umr. málsins skýrði ég frá því, að frá félagi eigenda dráttarbrauta og skipasmíðastöðva hefði komið ósk um það, að veitt yrði aukin fyrirgreiðsla annaðhvort með beinum styrkjum eða með hækkun á ríkisábyrgðarheimild. Ég óskaði þá eftir því, að hv. n. athugaði málið frá þeim sjónarhóli, hvort hún teldi auðið að hækka ríkisábyrgðarheimildina, en lýsti hins vegar yfir, að það væri mín skoðun, að ógerlegt væri að fara út í beinar styrkveitingar til einkaaðila í sambandi við þessar framkvæmdir. Ég er algjörlega ásáttur með 2. málsl. í brtt, þeirri, sem hv. n. flytur, ekki hvað sízt með hliðsjón af þeim skýringum, sem hv. frsm. n. lét fylgja till. um það, hvernig bæri að skilja þessa heimild og að það bæri að beita henni mjög varlega; það samrýmist algjörlega minni skoðun um það efni.

Varðandi 1. málsl. í brtt. n. um að hækka heildarábyrgðarheimildina úr 40 millj. kr. í 50 millj. kr. vil ég taka fram, að ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Það hefur enga efnislega þýðingu, hvort upphæðin er 40 eða 50 millj. kr. En ég vil þó láta koma fram, að ég álít, að fyrst og fremst beri að leggja áherzlu á að nota þessa heimild í sambandi við þær dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar, sem verið er að vinna að í samræmi við þá framkvæmdaáætlun á þessum vettvangi, sem gengið var frá fyrir fáum árum og unnið hefur verið eftir, þetta frv. er fyrst og fremst miðað við að ljúka þeim framkvæmdum. Ég segi þetta vegna þess, að það liggur alveg ljóst fyrir, að skipasmíðar og starfsemi dráttarbrauta er ýmsum erfiðleikum háð. Hér er um dýrar framkvæmdir að ræða, og það veltur á miklu, að ekki sé farið út í meiri framkvæmdir á þessu sviði en svo, að þessar stöðvar hafi nægileg verkefni. Og ég vil því taka það fram í tilefni af þessari hækkun ábyrgðarheimildarinnar, að ég tel, að það þurfi að kanna mjög rækilega — þó að koma kunni fram óskir um það frá einhverjum aðilum til viðbótar þeim, sem nú eru að vinna að þessum framkvæmdum — hvort tiltækilegt sé fyrst og fremst með hliðsjón af hagsmunum þeirra stöðva og dráttarbrauta, sem verið er að koma upp og lagðar hafa verið í miklar fjárhæðir, að fjölga fyrirtækjum á þessu sviði. Vitanlega er ekki með því sagt, að það kunni ekki að vera nauðsynlegt og æskilegt að gera það, en ég álit, að þar þurfi til að koma rækileg skoðun á öllum aðstæðum, áður en sú ákvörðun yrði tekin að veita þá fyrirgreiðslu í því sambandi, sem gert er ráð fyrir í þessum l. að veita þeim aðilum, sem vinna nú að þessum framkvæmdum í sambandi við fyrrnefnda áætlun.

Þetta taldi ég rétt, að kæmi fram, þ.e. að ég mundi skilja þessa heimild — þrátt fyrir hækkun hennar — fyrst og fremst svo, að ætlunin væri, að hún yrði notuð til þess að ljúka þessum framkvæmdum, sem verið er að vinna að, og henni mundi ekki af minni hálfu a.m.k. — verða beitt, þó að fram kæmu óskir um auknar framkvæmdir á þessu sviði, nema það félli saman við það, sem yrði við nánari athugun talið skynsamlegt með hliðsjón af rekstraraðstöðu þessara fyrirtækja í landinu og þeirri nauðsyn, sem á því væri að auka framkvæmdir á því sviði.