29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur komið saman og fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva. Eins og fram kemur á þskj. 445, var n. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 397, þ.e. að standi sérstaklega á, sé unnt að dómi ráðh. að auka ríkisábyrgðina allt að 80%, enda séu fyrir hendi fullnægjandi tryggingar. Hin almenna regla er, að lánsupphæð sé miðuð við 60% af kostnaðarverði framkvæmda á hverjum stað. Ég vil rétt drepa á, að í dráttarbrautum eru nú bundnar fast að 200 millj. kr., og talið er, að nauðsynlegar viðbætur hjá þremur dráttarbrautum og tveimur skipasmíðastöðvum muni kosta fast að 100 millj. kr. Í dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum verður því, þegar þessum áfanga er náð, bundið fjármagn fast að 300 millj. kr. Það er engum vafa undirorpið, að mikil nauðsyn er á, að lánsfjárfyrirgreiðsla verði eins mikil og mögulegt er. Ef miðað er við 12 ára lánsfjártíma og 9% vexti, er árlegur fjármagnskostnaður við 300 millj. kr. fjármagnsbindingu um 41 millj. kr. á ári. Til þess að dráttarbrautir hér og skipasmíðastöðvar geti búið við góðan rekstur og verið samkeppnishæfar við nágranna okkar, sem hafa tvímælalaust meiri möguleika til að fjármagna sínar framkvæmdir en við, er nauðsynlegt, að þeim sé gefinn kostur á sem hagkvæmustum lánum, og ber að þakka þann vilja, sem hæstv. ríkisstj. sýnir í þessu efni með því að gefa kost á því, að unnt sé að lána allt að 80% heildarkostnaðarverðs.