29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég skal taka á mig minn þátt í þessu. Þegar fundur var settur, lá fyrir, að Sveinn Guðmundsson hafði boðað forföll vegna veikinda, en mér bárust ekki til eyrna neinar aðrar tilkynningar. Það gat auðvitað legið ljóst fyrir, að aðrir nm. gætu ekki komið vegna einhverra anna eða veikinda, en segja má, að svona orðalag sé kannske klaufalegt og verði þá að skrifast á minn reikning sem viðvanings í þessum stíl á þskj., en forföll boðaði Sveinn vegna veikinda, og það á ekkert skylt við það, að verið sé að sneiða að hinum á niðrandi hátt, þó að þeir hafi verið fjarstaddir. Ég held, að hv. þm. hafi ekki þurft að skilja þetta þannig. Það var ekki ætlun, held ég, neins okkar nm. að sneiða að þeim á einn eða annan hátt.