14.04.1969
Efri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um viðauka við l. um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn frá 1966 er flutt í samræmi við óskir og ákvarðanir ríkisstj. og aðalhluthafans í Kísiliðjunni á móti ríkinu, Johns-Manville, að hagkvæmt sé að stækka Kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn upp í þau afköst, sem á sínum tíma var nú gert ráð fyrir, að hún ætti að ná — að vísu á vissu árabili — eða upp í 24 þús. tonna ársafköst. Reynsla sú, sem fengizt hefur af rekstri Kísilgúrverksmiðjunnar, er stutt, eins og mönnum var kunnugt um, en gefur það til kynna, að hér sé um hagkvæma og eðlilega ákvörðun að ræða. En til þess að svo megi verða, hefur verið talið nauðsynlegt, að ríkisstj. fengi heimild til þess að leggja fram allt að 150 millj. kr. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í Kísiliðjunni við Mývatn til viðbótar framlagi, sem heimilað var með ákvæðum í 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga frá 1966 um kísilgúrverksmiðju. Það er að vísu einnig gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán í þessu skyni, ef síðan yrði ákveðið að hafa heldur þann hátt á.

Í grg. með frv. er rakin allýtarlega stutt saga reksturs Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn. Í stórum dráttum má segja, að það hafi gengið vel að koma upp þessari verksmiðju. Áætlanir hafi staðizt og tímaákvarðanir einnig, en hins vegar er á það að líta, að afköst hafa ekki orðið jafnmikil og gert var ráð fyrir og er það aðallega talið stafa af því, að annar þáttur framleiðslunnar, sem kalla mætti votvinnslukerfið, hafi ekki náð þeim framleiðsluafköstum, sem gert var ráð fyrir. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að þurrvinnslukerfið þurfi mjög litlar breytingar til þess að það geti annað afköstum, sem svara til heildarafkasta 24 þús. tonn á ári.

Á árinu 1968 voru aðeins framleiddar um 2500 lestir, en þessi framleiðsla gefur þó til kynna tvennt, sem er veigamikið, að framleiðslugæðin svara fyllstu kröfum og framleiðsla verksmiðjunnar hefur einnig reynzt auðseljanleg og er gert ráð fyrir því, að stækkun verksmiðjunnar eins og nú standa sakir muni ekki hafa í för með sér erfiðleika á sölu aukinnar framleiðslu. Það er talið, að félagið hafi nú, sem betur fer, unnið fullan bug á örðugleikum, sem það átti við að stríða í byrjun og sem að vissu leyti má kannske rekja til þess, að það er einstætt að vinna kísilgúr úr vatni. Annars staðar í heiminum hefur þetta verið unnið úr gömlum, löngu þornuðum vatnsbotnum eða þurrum jarðlögum og af þeim sökum hefur votvinnslukerfið ekki náð þeirri framleiðslugetu, sem gert var ráð fyrir, sennilega vegna ókunnugleika á einhverjum atriðum, sem menn hafa nú áttað sig á og telja sig geta ráðið bót á. Það er talið, að verksmiðjan vinni nú með ársafköstum, sem svara til 8000 lesta á ári, og gert er ráð fyrir, að með lítils háttar endurbótum á votvinnslukerfinu á þessu vori, geti hún náð því marki, að hún anni 10 þús. tonna framleiðslu á ári.

Það, sem hér er um að ræða, er, eins og ég sagði hér áðan, fyrst og fremst að stækka votvinnslukerfið til þess að ná þessari umræddu afkastagetu. Það verður að gera ráð fyrir því, að verksmiðjan muni á næstu árum eiga í örðugleikum, meðan afkastageta hennar er að aukast, og ekki gert ráð fyrir, að verksmiðjan muni bera arð umfram afskriftir, meðan hún er starfrækt með núverandi afkastagetu. Hins vegar er talið, að hún muni geta skilað nokkrum arði með stækkuninni, sem ráðgerð er á árinu 1973, og síðan, þegar stækkunin kemur til framkvæmda, starfað með vaxandi og stöðugt vaxandi arðsemi eftir þann tíma.

Það er bent á það, að í samningum, sem ríkisstj. gerði við Johns-Manville Corporation árið 1966, var svo fyrir mælt, að aðilar skyldu sjálfir leggja fram eða ábyrgjast útvegun á því fjármagni, sem þurfa mundi til stækkunar verksmiðjunnar að 24 þús. lesta ársafköstum, en sú stækkun, sem hér er um að ræða, er innan þeirra marka. Nú er það svo, að bæði Johns-Manville Corporation og íslenzku aðilarnir, fulltrúar ríkisstj. í verksmiðjustjórninni og ríkisstj. sjálf, telja heppilegast, að fyrri kosturinn verði tekinn að þessu sinni, að fé til stækkunarinnar verði lagt fram í formi aukins hlutafjár. Það er á það bent í grg., að með þessu sé ætlað, að fjárhagur félagsins yrði tryggður til frambúðar, þannig að aðilarnir þyrftu ekki að hlaupa þar frekar undir bagga, segja hluthafarnir eða þeir, sem eiga hlutinn í því nú. Einnig er á það bent, að arðgreiðslur félagsins til hluthafa eru ekki frádráttarbærar við ákvörðun skattskyldra tekna, því að það voru gerðir sérstakir samningar um skattgreiðslu fyrirtækisins en gagnstætt því sem nú er um önnur íslenzk hlutafélög, þar sem arðgreiðslurnar eru skattfrjálsar allt að 10% marki. Með því að leggja féð fram, en taka það ekki að láni, liggur þess vegna fyrir, að skattgreiðslur félagsins hérlendis yrðu hærri með þeirri aðferð, þar sem vextir af lánum til stækkunarinnar yrðu að sjálfsögðu frádráttarbærir.

Í sambandi við 2. mgr. 1. gr. er það að segja, að í samþykktum Kísiliðjunnar h.f. er svo fyrir mælt, að hluthafar skulu eiga forgangsrétt að aukningarhlutum í félaginu í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Og þá mundi hlutafjáraukningin vegna stækkunarframkvæmdanna verða boðin út í samræmi við eða gerð í samræmi við þetta ákvæði, þannig að hver aðili haldi sínu að öllu forfallalausu og virðist þess vegna ekki unnt eða skylt að bjóða sveitarfélögunum á Norðurlandi frekari þátttöku í hlutafjáraukningunni en eignarhlutur þeirra segir nú til um, og er þessi mgr., sem ég vitnaði til, sett í frv. til þess að taka af öll tvímæli í því efni. Hins vegar er á það að líta, að það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu, að aukin þátttaka þessara sveitarfélaga gæti staðið þeim til boða. Það yrði þá væntanlega með þeim hætti, að ríkið léti af höndum eða seldi einhvern hluta af sínu hlutafé. Ég sé heldur ekki, að það geti neitt verið því til fyrirstöðu, sérstaklega þegar hér væri kominn upp eðlilegur verðbréfamarkaður, að einstaklingum og félögum öðrum en sveitarfélögum gæti á síðari stigum þessa máls verið boðin til kaups hlutabréf í Kísilgúrverksmiðjunni, a.m.k. ef samkomulag yrði um það milli aðilanna, sem ég geri ekki ráð fyrir, að þyrfti að standa á.

Það er gerð grein fyrir því í aths., að útgjöld félagsins, sem aðilarnir hyggjast mæta með þessari aukningu hlutafjárins, séu sumpart tilkomin vegna rekstrarhalla félagsins á árinu 1968 og sumpart vegna afborgana og vaxta af stofnlánum þess á árunum 1968 og 1969, svo og viðbótarframkvæmdum við verksmiðjuna á sama tíma. Þar er gert ráð fyrir því, að hluti ríkissjóðs í hlutafjárframlögum til þessara þarfa verði allt að 36 millj. kr.

Þá vil ég að lokum vekja athygli á niðurlagi greinargerðarinnar, þar sem það kemur fram, að ef svo heldur fram sem nú horfir um framleiðslu verksmiðjunnar árið 1969, er gert ráð fyrir, að sölutekjur félagsins standi undir öllum rekstrarútgjöldum þess á árinu og mun félagið ekki þurfa á aðstoð að halda til annars en afborgunar af stofnlánum að nokkrum hluta. En aðgerðir þær, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, munu að sjálfsögðu stórbæta fjárhagsaðstöðu félagsins og áætlanir, sem í sambandi við það hafa verið gerðar, stefna að því, að félagið muni geta mjög aukið arðsemi sína eftir því sem framleiðslugetan eykst og eftir að hún er komin í full afköst.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. taki þessu frv. vel. Það þótti eðlilegast að hafa þetta form á, að frv. væri frv. til l. um viðauka við lög um Kísilgúrverksmiðjuna og er það eingöngu formsatriði. Hinu ber að sjálfsögðu sérstaklega að fagna á þessu stigi málsins, að sú litla reynsla, sem fengizt hefur af rekstri þessa fyrirtækis, enda þó að við byrjunarörðugleika hafi verið að stríða, bendir til þess, að hér hafi komizt upp og geti komizt upp mjög hagkvæmt fyrirtæki, sem er eitt af merkari fyrirtækjum, sem við Íslendingar höfum ráðizt í að koma upp á síðari árum, þar sem botnleðjan í Mývatni er gerð að verðmætri útflutningsframleiðslu. Það er þjóðarheildinni til hagsbóta og ekki sízt þeim sveitarfélögum, sem hér eiga nánast hlut að máli og er þá bæði átt við Mývatnssveit, Húsavík og önnur sveitarfélög fyrst og fremst í Þingeyjarsýslu.

Ég vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.