02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. frsm. minni hl. um smíði tækjanna hér heima, svo og nú ummælum fjmrh., en hann sagði, að sjálfsagt væri að smíða sem mest og vinna sem mest að þessu verki fyrir Kísiliðjuna hér á Íslandi, og það getur vel verið, að hægt væri að smíða hér margnefnda þurrkara, en hann bætti við: Við þurfum að fá peninga til þess að leggja út í þetta fyrirtæki, erlend lán og þar kemur skýringin, þess vegna á að flytja tækin inn. Ég minnist þess, þegar tækin til Kísiliðjunnar voru flutt til landsins, að þá urðu um þau blaðaskrif og m.a. birtist heilsíðumynd af þurrkara í einu dagblaði borgarinnar og þá töldu innlendir málmiðnaðarmenn, bæði sveinar og meistarar, að þeim óaði ekki við slíkri smíði. Nú hafa spádómar þeirra því miður rætzt um það, að hér var ekki um þá völundarsmíði að ræða, sem ætlað var. Kunnáttumönnum hér var ljóst, að hönnun þurrkaranna eða gerð þeirra var hin sama sem lögð var niður hér á landi við svipaðar aðstæður fyrir 10–15 árum. Þótt slík tæki eða völundarsmíð, sem ég nefni nú svo, kannske í gamni, sé flutt til landsins, þá er ekkert við því að segja, en hér verður að koma til samkeppnishæfni bæði um verð og gæði, að verkið sé boðið út bæði hér og erlendis, samanburður gerður á gæðum og verði og Íslendingar látnir njóta í verki þeirra skattfríðinda, sem þessu fyrirtæki hafa verið búin með innflutning. Upplýst hefur verið, að Kísiliðjan hefur greitt 9% meðaltoll af öllum sínum innflutningi og þar með talinn 7.5% söluskatt, eftir því sem talsmaður verksmiðjunnar hefur tjáð iðnn. Það, sem innlendir framleiðendur eru knúðir til að greiða í tolla og söluskatt og aðra 17–20 skattliði, er ekki undir 25–35%, og er það dálítill munur, sem taka verður með í reikninginn, eða hvað finnst hv. þdm.? Ég tel, að okkur Íslendingum beri að fylgja fast fram frjálsu hagkerfi og þar með frjálsri samkeppni, en það segir að sjálfsögðu, að við verðum að keppa á hinum frjálsa markaði, m.a. með því að sá, sem býður bezt verð og bezta tæknilega útfærslu á samkeppnishæfum grundvelli, skuli metinn hæfastur til verka. Ég mótmæli því hins vegar algjörlega, að hér eigi að koma bein peningasjónarmið inn í dæmið, lánasjónarmið, sem ég þekki mætavel, að samið skuli við þann, sem getur lánað. Ef svo ætti að vera, þá yrðu Íslendingar ætíð undir, litlar undirlægjur þeirra ríku þjóða, sem hafa peningaráð. Slík sjónarmið má ekki viðurkenna á Íslandi í dag, þar sem atvinnu vantar. Ef það væri gert, þá væri atvinna þúsunda í veði, enda er það yfirlýst stefna gjaldeyrisbankanna og langlánanefndar, sem mér skilst að sé ráðgefandi nefnd hæstv. ríkisstj. eða jafnvel allsráðandi, að innflutningur sé alls ekki leyfður til landsins með löngum gjaldfresti á vélum og tækjum, sé hægt að framleiða slíkar vélar jafngóðar á samkeppnishæfu verði hérlendis. Þetta er yfirlýst stefna langlánanefndar, viðskmrh. og bankanna, sem hafa gjaldeyrisréttindi. Þannig kemur ekki til greina innflutningur á vélum og tækjum, sem Kísilgúrverksmiðjan þarf nú til að firra taprekstri, nema að Íslendingar geti ekki boðið þessi tæki jafngóð eða á samkeppnisgrundvelli. Það er skoðun mín, að frá þessu verði ekki hvikað.