02.05.1969
Efri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. og varðaði þau atriði, sem við í minni hl. vildum benda á.

Ég hef aldrei gagnrýnt það og mun ekki gera, að sú leið er farin, sem hér er lagt til, að aukið fjármagn verði lagt fram sem hlutafé. Ég gerði það ekki áðan, og ég ætla ekki að gera það núna. Ég bara benti á það, eins og hæstv. ráðh. réttilega kom inn á, að það verður að taka tillit til þess, að þetta fjármagn kostar eitthvað, þótt það sé lagt fram sem hlutafé, og það mundi verða að taka tillit til vaxtagreiðslnanna, ef hin leiðin væri farin í þessu efni, sem ég að þessu sinni mæli ekki með.

Hæstv. ráðh. sagði, að íslenzkir sérfræðingar hefðu mjög verið hafðir með í ráðum um þessa byggingu. Það er vissulega rétt, og við vitum það allir, að Baldur Líndal er upphafsmaður að þessu og hann hefur fylgzt með þessu alla tíð. En ég átti nú ekki við hann, heldur við þá byggingaraðila, sem hér eru í landinu og ég tel búa yfir nægilegri þekkingu til þess að leysa margt af þessum verkum af hendi, sem á að fela öðrum.

Ég get ekki annað en dáðst að þeirri ræðu, sem hv. 7. landsk. hélt hér síðast til varnar íslenzkum iðnaði og iðnaðarmönnum. Það má segja það auðvitað, að það væri ekki á öðru von úr hans átt, en það var sannarlega orð í tíma talað og mjög skeleggt. Ég vil aðeins bæta við það, sem hann sagði um það sjónarmið, að það þurfi að láta vinna verkin þar sem hægt er að fá lán með þeim. Það getur vel átt við í ýmsum tilvikum, en það getur tæplega átt við hér og alls ekki átt við hér, vegna þess að allt fjármagnið, sem þarf til að smíða þessi tæki, verður lagt fram sem hlutafé af ríkissjóði og af Johns-Manville. Hvað sem segja má um það, að í sumum tilvikum verði að skipta við þá, sem geta lánað, þá á það alls ekki við í þessu tilviki, alls ekki, vegna þess að fjármagnið er fyrir hendi, það er verið að útvega það. Eða vill e.t.v. hæstv. fjmrh. lækka hlutafjárheimildina með hliðsjón af því, að þurrkararnir verði smíðaðir erlendis og fyrir lánsfé? Ég held ekki, ég hef ekki heyrt það, svoleiðis að mér finnst þetta ekki geta átt við núna, alveg burtséð frá því, sem hv. 7. landsk. þm. sagði. Ég tek alveg undir, að það er ófært sjónarmið að láta það í öllum tilfellum ráða, þó að í sumum tilfellum verði kannske ekki hjá því komizt. (Fjmrh.: Má ég skjóta hér inn í hjá hv. þm.? Við getum að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að féð verði tekið að láni hjá verktakanum.) já, já, vissulega, ef það er þannig hugsað, þá getur það sjálfsagt átt rétt á sér, en ég hélt satt að segja, að þetta fjármagn yrði tekið að láni í einu lagi, en ekki út um allan heim hjá þeim, sem bjóða í verkin þá og þá, en ég hef þá kannske misskilið það.

Hæstv. ráðh. vildi gagnrýna það, að það væri á misskilningi byggt, sem ég sagði um það, að áætlanir verksmiðjunnar hefðu ekki staðizt. Ég náttúrlega læt mér það alveg í léttu rúmi liggja, þó að einhverjir menn geti bent á það, að einhverjar áætlanir hafi staðizt. Það, sem mér finnst skipta máli í þessu sambandi, er það, að verkið var áætlað á 148 millj. kr., en það kostaði 288 millj. kr., og þetta var það, sem ég átti við, þegar ég sagði, að kostnaðaráætlun verksmiðjunnar hefði ekki staðizt. Og hvort menn svo segja, að það sé af öðrum utanaðkomandi ástæðum, sem ekki hafa verið séðar fyrir, það getur vel verið. En þá er bara alveg tilgangslaust að vera að áætla, algjörlega tilgangslaust, svo að ég tali nú ekki um svo nákvæmlega, að það er varla hægt að fá menn til að vinna eftir því. Auðvitað hafa menn orðið að reikna með því, að þessi þró héldi vatni eða héldi leðjunni, og það hlýtur að hafa verið miðað við helda þró í áætlununum, og hún kostaði þetta eins og reikningarnir sýna, en hún kostaði ekki það, sem hún var áætluð. Þetta var það, sem ég átti við, þegar ég sagði áðan að áætlunin hefði ekki staðizt, og ég sé ekki að það hafi verið hrakið.

Hæstv. ráðh. sagði, að það þýddi ekki að vera að tala um skaðabótaábyrgð á Kaiser-firmað og að það væri ekki hægt að flokka þetta undir mistök, þar sem hér hefði verið tilraunastarfsemi á ferðinni. Þetta er sjálfsagt rétt hjá hæstv. ráðh., lagalega athugað. En þá er bara alveg þýðingarlaust að vera að tala um það hér áður fyrr, að Kaiser-menn beri ábyrgð á því, að öll verksmiðjan starfi eðlilega. Þeir bera enga ábyrgð, þeir voru bara að gera tilraun og voru algjörlega ábyrgðarlausir. Þetta er úr lausu lofti gripið í þessari grein Péturs Péturssonar, algjörlega. Kaiser ber enga ábyrgð, það hefur komið í ljós núna.

Ég skal nú ekki fara að lengja þessar umræður neitt að ráði frá því, sem hér er. Hæstv. ráðh. tók sanngjarnlega á þessu máli eins og hans var von og vísa, og ég ætla ekki að stofna til neinna deilna hérna við hann um þetta mál, því að við erum sammála um það, að það sé búið að segja a og það þurfi þá að segja b. Þó að það b kosti í þessu tilviki 300 millj. kr., þá verður að hafa það.

Um þessi viðbótarákvæði við sölulaunin, að það komi svo mikið til baka í sköttum, þá er það náttúrlega mjög gott, a.m.k. á meðan Johns-Manville heldur þeim upptekna hætti sínum að reikna ekki neinn verulegan kostnað hér. (Gripið fram í: Það er samningsatriði). Nú, er það samningsatriði? Þá er það náttúrlega snöggtum betri samningur heldur en annars mundi verið hafa.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég er ekki eins sannfærður um það og hæstv. ráðh., að reynsla okkar af fyrri byggingum þarna sé þess eðlis, að íslenzkir aðilar komi þar ekki til mála til að vinna verkin, a.m.k. er reynslan af Kaiser ekki það góð, að ástæða sé til að halda sig áfram við það fyrirtæki. Það má vona, að Johns-Manville takist betur. Þeir eru búnir að rannsaka þetta og leggja í það mikla vinnu, eins og hæstv. ráðh. sagði, það efast ég ekki um, en mér þykir líklegt, að íslenzkir framkvæmdastjórar og tæknifróðir menn, sem við fyrirtækið hafa starfað, hafi a.m.k. fylgzt með þeim rannsóknum og því starfi, þannig að ég er nú ekki sannfærður um það enn, að íslenzkir aðilar geti ekki gert þetta fullt eins vel.

Ég veit ekki hvað veldur því, að Johns-Manville var ekki ráðið strax til að hanna þessi verk. Það hefði þó verið miklu heppilegra, ef þeir eru svona snjallir og miklu snjallari en Kaiser-fyrirtækið, sem gerði tilraunina. (Fjmrh.: Má ég aðeins skjóta inn í?) Já, takk. (Fjmrh.: Það stafar af því, að það var annað fyrirtæki, sem upphaflega var ráðið til þess.) Já, það var hollenzka fyrirtækið. Já, það eru sjálfsagt einhverjar ástæður fyrir því.

Ég sem sagt læt þessu spjalli lokið um Kísilgúrverksmiðjuna að þessu sinni. Ég ítreka það að lokum, að við í minni hl. mælum með því að þetta frv. nái fram að ganga. Ég hef gert grein fyrir nokkrum atriðum, sem ég vonast til, að hæstv. ríkisstj. og þá hæstv. fjmrh. sem stjórnarformaður Kísilgúrverksmiðjunnar taki til greina. Sumu af því heyrist mér hann taka vel, öðru miður, það harma ég.