06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um viðauka við lög nr. 80 frá 1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, hefur hlotið afgreiðslu hjá Ed., en meginefni þess er að heimila ríkisstj. að leggja fram allt að 150 millj. kr. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í Kísiliðjuna h/f við Mývatn til viðbótar því framlagi, sem heimilað var með ákvæðum í I. nr. 80 frá 1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, og jafnframt er ríkisstj. einnig í þessum lögum heimilt að taka lán í þessu skyni, ef svo vill verkast.

Í aths. við lagafrv. þetta er gefið nokkurt yfirlit yfir gang mála í sambandi við byggingu og byrjunarrekstur Kísilgúrverksmiðjunnar við Mývatn. Þar eru nokkur meginatriði, sem ég vil aðeins staldra við.

Í fyrsta lagi er það, að þegar verksmiðjan var hönnuð í upphafi, var þurrvinnslukerfið við það miðað, að það gæti annað 24 þús. lesta ársafköstum, en votvinnslukerfið fyrir 12 þús. lesta ársafköst. Það var m.ö.o. frá upphafi gert ráð fyrir því, að verksmiðjan gæti í byrjun skilað 12 þús. tonna ársafköstum, en hún yrði smátt og smátt stækkuð upp í 24 þús. tonna afköst.

Byggingarframkvæmdir má segja, að hafi gengið vel og tilraunavinnsla hófst, eins og kunnugt er, í nóvembermánuði 1967. En hins vegar kom það í ljós strax í byrjun, að við örðugleika var að stríða í upphafi og tilraunavinnslan var einnig framkvæmd við erfiðustu ytri aðstæður á þeim tíma árs, sem þær voru framkvæmdar. Þetta hefur allt leitt til þess, að á árinu 1968 hafa ekki verið framleiddar til sölu nema 2500 lestir. Þrátt fyrir þessa miklu byrjunarerfiðleika stendur þó hins vegar það fast, sem skiptir kannske hvað mestu máli, að gæði framleiðslunnar hafa reynzt með ágætum og það hefur reynzt auðvelt að selja framleiðsluna á Evrópumarkað.

Þá er einnig á það að líta, að það er talið, að fyrirtækið hafi nú unnið fullan bug á byrjunarörðugleikunum og á liðnum mánuðum þessa vetrar hefur verksmiðjan starfað með eðlilegum hætti. Hún hefur þó ekki náð nema sem svarar 8000 tonna ársafköstum, en hins vegar er gert ráð fyrir því með lítils háttar breytingum á þessu vori, að hún muni ná það miklum afköstum, að þau svöruðu til 10 þús. tonna ársafkasta. Og það er stækkun að þessu marki, sem nú er fyrirhuguð, og þá er gert ráð fyrir um leið að setja undir þann leka, sem í byrjun kom fram í sambandi við votvinnsluna eða votvinnslukerfið og vonir standa því til þess, að þegar þeirri stækkun, sem hér er ráðgerð, er lokið, geti verksmiðjan í heild skilað þeim 24 þús. tonna ársafköstum, sem um er rætt.

Það er gert ráð fyrir því, að verksmiðjan muni ekki bera arð umfram afskriftir, meðan hún er starfrækt með núverandi afkastagetu, en hins vegar er talið, að það sé líklegt, að hún muni geta skilað nokkrum arði á árinu 1973, ef stækkun fer fram, og geti starfað með vaxandi arðsemi eftir þann tíma. Þetta hefur leitt til þess, að gagnaðilinn, Johns-Manville, sem er annar aðaleigandi verksmiðjunnar á móti ríkinu, hefur talið, að hagkvæmt væri að stækka verksmiðjuna, og tjáð sig reiðubúinn að leggja fram fé af sinni hálfu til þeirrar stækkunar. Þetta er auðvitað mikils virði, að þessi aðili, sem er mjög reynt fyrirtæki á þessu sviði og hefur víðtæka reynslu bæði í framleiðslu og sölu kísilgúrs í heiminum, skuli nú vera á þessari skoðun, því að sannast bezt að segja voru fulltrúar þessa fyrirtækis í öndverðu við byrjunarframleiðsluna mjög svartsýnir og á einu stigi málsins lá við, að þeir vildu hlaupa frá öllu saman og afskrifa það fé, sem þeir höfðu lagt í verksmiðjuna.

Það hafa orðið mönnum að sjálfsögðu veruleg vonbrigði, að ekki skuli hafa náðst arðsemi þegar í stað af þessari framleiðslu, þessari nýju iðnaðarframleiðslu hér á landi. En á það er að líta, að þetta mun vera eini staðurinn í heiminum, þar sem kísilgúr er unninn úr vatni, en alls staðar annars staðar er hann unninn á þurru landi eða löngu uppþornuðum vatnsbotnum, svo að frá því sjónarmiði má segja, að vænta hefði mátt nokkurra byrjunarörðugleika, eins og raunin einnig hefur orðið á. Það er að mínum dómi hins vegar gert of mikið úr því tapi, er orðið hefur á verksmiðjunni, eftir því sem ég hef lauslega litið til í blöðum að undanförnu. Það kemur að vísu fram í aths. við frv., að reikningslegur halli ársins 1968 nemi 33.6 millj. kr., en eins og ég sagði áðan, voru aðeins framleidd 2500 tonn á þessu ári til sölu, en af þessum 33.6 millj. teljast 10 millj. kr. til afskrifta og 9.7 millj. kr. til gengistaps, auk þess sem um var að ræða ýmsa aðra gjaldaliði, sem ekki koma til greiðslu á árinu. Þess vegna er raunverulegur greiðsluhalli verulega miklu lægri en þessar tölur gefa til kynna, og það er álitið, að hann hefði orðið hverfandi, ef framleiðsla ársins hefði náð áætluðu magni. Það er gert ráð fyrir í þessari upphæð, sem frv. fer fram á að heimilað verði að leggja fram til stækkunar verksmiðjunnar, að nokkur hluti hennar verði notaður til þess að greiða áfallin töp og aukinn kostnað, sem orðið hafa fram yfir það, sem ráðgert var. En það skiptist í þrennt, eins og greint er í aths., að útgjöld félagsins, sem aðilarnir hyggjast mæta með þessum nýju framlögum, eru sumpart komin til vegna rekstrarhalla á árinu 1968, í öðru lagi vegna afborgana og vaxta af stofnlánum á árunum 1968 og 1969 og svo viðbótarframkvæmda við verksmiðjuna á sama tíma, og verður að hafa þetta allt í huga.

Megináherzluna vil ég leggja á það, sem segir í niðurlagi aths., með leyfi hæstv. forseta:

„Ef svo heldur fram sem nú horfir um árið 1969, munu sölutekjur félagsins standa undir öllum rekstrarútgjöldum þess á árinu, og mun félagið ekki þurfa á aðstoð að halda til annars en afborgunar af stofnlánum að nokkrum hluta. Aðgerðir þær, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, munu að sjálfsögðu stórbæta fjárhagsaðstöðu félagsins. Er það eindregin skoðun aðalhluthafanna, að framlögum þeirra í þá átt megi teljast vel varið.“

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Ég legg áherzlu á það, að hér er um alveg nýja iðnaðarframleiðslu að ræða hér á landi, þar sem verið er að breyta botnleðju Mývatns í arðgæfa útflutningsframleiðslu, og sú reynsla, sem nú þegar liggur fyrir, segir til um það, að það megi ganga út frá því sem nokkurn veginn vísu, að sú arðgjöf, sem áætluð er við stækkunina, eftir því sem árin líða, verði raunhæf og þjóðarbúinu í heild að gagni og verði til þess að breiða áður en langt um líður algjörlega yfir þau skakkaföll, sem orðið hafa í byrjun við rekstur þessa fyrirtækis.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.