06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi ýmsum fleirum en mér brugðið í brún, þegar þeir lásu þetta frv., eða þegar það var lagt fram, vegna þess að þar skýtur æðimiklu skökku við það, sem búið var að halda fram af ýmsum um þetta mál áður. Það mátti t.d. álykta það af fréttum, sem birtust af þessari framkvæmd í stjórnarblöðunum öðru hvoru, að hún hefði alveg sérstaklega vel tekizt og að þeir menn hefðu gert sig seka um mikil afglöp, sem á sínum tíma voru tregir til þess hér á Alþ. að veita kísilgúrmálinu stuðning í því formi, sem það var afgreitt. Mér finnst í tilefni af þessu rétt að rifja upp nokkur atriði hér strax við 1. umr., eða áður en málið fer til nefndar.

Ég ætla þá fyrst að víkja að þeim kostnaði, sem þegar er orðinn við þetta fyrirtæki. Í allítarlegri grein, sem birtist í ágúst–des. hefti Fjármálatíðinda 1966 eftir einn af stjórnarmönnum Kísilgúrverksmiðjunnar, Pétur Pétursson, er m.a. gefið yfirlit um það, hve mikill stofnkostnaður þessa fyrirtækis eigi að vera, og þar segir, að amerískt fyrirtæki, sem hafi verið fengið til þess að taka þessa framkvæmd að sér, Kaiser að nafni, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að stofnkostnaður mundi ekki verða meiri en 148 millj. kr. Þetta er svo sundurliðað mjög nákvæmlega í greininni, hvernig þessi kostnaður skiptist, og síðan segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú áætlun, sem ég hef hér nefnt, er mjög nákvæm. Hver einasta bygging, hver undirstaða, hvert tæki og uppsetning hvers tækis er áætluð, svo að stendur aðeins á tugum dollara. Allur byggingarkostnaður er brotinn niður í smáupphæðir. Þetta þýðir auðvitað að halda verður mjög nákvæmt bókhald um allan kostnað.“ — Og áfram segir svo á þessa leið: „Þetta var talin ein sönnun þess, hve hagkvæmt það gæti verið fyrir Íslendinga að fela erlendum aðilum að annast slíkar framkvæmdir. Í mörgum tilfellum væri það betra og hagkvæmara heldur en að fela íslenzkum aðilum eða íslenzkum verkfræðingum að annast slík verk.“

Það liggur ekki nákvæmlega fyrir, hver stofnkostnaður þessa fyrirtækis er orðinn, en í ræðu, sem hv. 7. landsk. Sveinn Guðmundsson flutti í Ed. á dögunum, upplýsti hann, að kostnaðarverð þessa fyrirtækis um seinustu áramót hefði verið orðið 288 millj. kr., eða m.ö.o. næstum helmingi hærra heldur en hið ameríska fyrirtæki áætlaði, að stofnkostnaðurinn mundi verða. Verkið hefur samkv. þessu hvorki meira né minna en farið nær 100% fram úr áætlun. Nú ber þess að sjálfsögðu að gæta, að þær gengisfellingar, sem orðið hafa á þessum tíma, hafa haft einhver áhrif á þetta, en þá ber jafnframt að taka tillit til þess, að verkinu var raunverulega lokið, áður en gengisfellingarnar gengu í garð, eins og sést af því, að tilraunavinnsla við Kísiliðjuna hófst í október 1967. Ég hygg, að það væri mjög fróðlegt fyrir Alþ. að fá upplýsingar um það, í hverju þessi mikla hækkun stofnkostnaðar er fólgin. Það er augljóst, að það er um eitthvað annað og meira að ræða heldur en þær gengisfellingar, sem orðið hafa á þessum tíma og ná áreiðanlega ekki nema til nokkurs hluta stofnkostnaðarins. En stofnkostnaðurinn virðist sem sagt vera orðinn nær tvöfalt hærri en áætlað var af hinu ameríska fyrirtæki, sem tók að sér að sjá um framkvæmd verksins.

Ég hygg, að það megi mjög af þessu læra að það er ekki eins öruggt að treysta á erlenda forsjón í þessum efnum og margir vilja vera láta. Og þó að menn hafi vantrú á íslenzkum verkfræðingum og íslenzkum verktökum, þá sýnir það sig oft, að áætlanir þeirra og útreikningar standast ekki verr en þær, sem útlendingar gera. Ég held, að þessi reynsla ætti að verða til þess að draga úr þeirri oftrú, sem margir virðast hafa á erlendri verkþekkingu og gera miklu meira úr henni en okkar eigin.

Það væri e.t.v. ekki svo mikið um þetta að segja, ef sú framkvæmd, sem hér hefur verið gjörð, hefði í alla staði reynzt vel. En því er síður en svo að heilsa. Ef allt hefði farið eins og ætlað var og eins og lofað var og eins og trúað var á, þá hefði Kísilgúrverksmiðjan átt að geta tekið til starfa strax haustið 1967 og a.m.k. starfað með fullum afköstum á s.l. ári, en eins og hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan, þá var gert ráð fyrir að afköstin yrðu til að byrja með 12 þús. smálestir á ári, og við það var verkið miðað og átti að vera við það miðað, eins og hinn erlendi verktaki skilaði því af hendi. En í stað þess, að verkið reyndist þannig, þá má segja að allt s.l. ár hafi farið í það að gera eins konar tilraunir, og í stað þess að framleiðslan yrði 12 þús. smálestir, þá varð hún ekki nema 2500 smálestir. Nú er hún hins vegar komin í það horf, að reiknað er með, að á þessu ári geti framleiðslan orðið 8 þús. smálestir. Með því að fullkomna þau tæki, sem nú eru fyrir, með talsverðum viðbótarkostnaði er talið mögulegt að koma framleiðslunni upp í 10 þús. smálestir. Það vantar þannig stórkostlega á það, að verksmiðjan reynist á þann hátt, sem lofað var af hinum erlenda verktaka, svo mikið, að á s.l. ári munaði nærri 10 þús. smálesta af kísilgúr, en eftir að hún er komin í full afköst, eftir að búið er að gera allar þær tilraunir, sem talið er að mögulegt sé að gera, þá vantar um það bil 1/3 upp á það, að hún fullnægi þeim afköstum, sem lofað var.

Það hefði kannske ekki verið svo mikið við þetta að athuga, því að hér er um nýjung að ræða, ef hinn erlendi verktaki hefði borið fulla ábyrgð á þeim mistökum, sem hér hafa átt sér stað, ef þannig hefði verið gengið frá samningi við hann, að ef einhver sérstök mistök kæmu í ljós, þá bæri hann hallann af því. Þeir, sem lásu grein Péturs Péturssonar á sínum tíma í Fjármálatíðindum, hafa vafalaust trúað því, að þannig væri frá samningum gengið, því að þar segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í marz n.k. kemur verkfræðingur frá Kaiser hingað, og verður hann hér, þar til verksmiðjan hefur verið tekin út, enda bera Kaiser-menn ábyrgð á því, að öll verksmiðjan starfi eðlilega.“

Hér er það sem sagt fullyrt, að hið ameríska fyrirtæki beri fulla ábyrgð á því, að verksmiðjan starfi eðlilega, en þegar á reynir, þá hefur verið þannig frá þessum samningum gengið, að allur hallinn af þeim mistökum, sem hér hafa átt sér stað, lendir á Kísilgúrverksmiðjunni, en ekki á erlenda verktakanum. Hér hlýtur meira en lítið að vera athugavert við þá samninga, sem hafa verið gerðir við hinn erlenda verktaka. Við Íslendingar, samkvæmt grein Péturs Péturssonar, virðumst hafa staðið í þeirri góðu trú, að yrðu einhver mistök í sambandi við framkvæmd verksins, þá væri það hinn erlendi aðili, sem ætti að bera ábyrgð á þeim, en hinn erlendi aðili hefur auðsjáanlega verið slungnari en íslenzku samningamennirnir, því að þegar til kastanna kemur, þá lendir allur hallinn á hinum innlenda aðila. Það er Kísilgúrverksmiðjan sem verður að borga hann, en Kaiser sleppur alveg.

Ég get ekki annað séð en að hér hafi meir en lítil mistök átt sér stað í sambandi við þá samninga, sem hafa verið gerðir við hinn erlenda aðila. Þetta sýnir jafnframt, að það er nauðsynlegt að hafa fullkomna aðgát, þegar verið er að semja við erlendan verktaka, það sé ekki eins eftirsóknarvert og ýmsir hér í hv. d., sérstaklega talsmenn stjórnarinnar hafa viljað vera láta. Mér virðist, því miður, að þegar útlendingar eiga í hlut í sambandi við slík mál sem þessi, þá sé ríkjandi full oftrú, — að menn haldi helzt, að það megi öllu því treysta, sem útlendingar halda fram, og eiginlega ganga að öllu því, sem þeir bjóða, það sé í þessu sambandi miklu auðveldara og betra að semja við þá heldur en íslenzka aðila, íslenzka verkfræðinga og íslenzka verktaka.

Það er rétt að geta þess, að það var reiknað með því á sínum tíma, að það mundi verða nokkur halli á Kísilgúrverksmiðjunni fyrstu 3–4 árin. Samkv. þeim áætlunum, sem þá voru gerðar, var reiknað með, að þessi halli yrði 3–4 fyrstu árin samanlagt um 1/2 millj. dollara, eða miðað við núverandi gengi eitthvað í kringum 40 millj. kr. Nú hefur hallinn á seinasta ári næstum orðið sem svarar þessari upphæð og fyrirsjáanlegt að hann verður verulegur á næstu árum. Miðað við það, að ráðizt verði í þá framkvæmd, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þá sýnist mér samkvæmt grg., að það sé reiknað með því, að hallinn fyrstu 3–4 árin verði allt að 100 millj. kr., og að sjálfsögðu ber að geta þess, að þar er aðeins um áætlun að ræða, og ef sú áætlun reynist ekki betur en fyrri áætlanir, þá verður hallinn að sjálfsögðu miklu meiri.

Eftir að það frv. hefur verið samþykkt, sem hér liggur fyrir, þá mun ríkið vera búið að leggja samanlagt til þessara framkvæmda sennilega í kringum 250 millj. kr. Samkv. þessu frv. á ríkið að leggja fram 150 millj. kr., það mun þegar vera búið að leggja fram áður í hlutafé 40 millj. kr. Auk þess er svo sá undirbúningskostnaður, sem ríkið tók að sér í sambandi við þessa framkvæmd, sem skiptir sennilega nokkrum tugum millj. kr., og svo vegagerðir, sem ríkið hefur tekið að sér í sambandi við þessa framkvæmd, en kostnaður við þær mun nema 40–50 millj. kr. Ég hygg þess vegna, að það sé ekki ofsagt, að þegar búið er að samþykkja þetta frv., sem hér liggur fyrir, og framfylgja því, þá verður ríkið búið að verja til Kísilgúrverksmiðjunnar í kringum 250 millj. kr. samanlagt.

Hvað er það svo, sem fæst í aðra hönd í staðinn fyrir þetta framlag? Jú, það fæst þarna atvinna handa nokkrum mönnum. Það munu starfa nú við Kísilgúrverksmiðjuna um 30 manns, og það er reiknað með, að eftir að búið er að stækka hana, eins og ráðgert er í þessu frv., þá muni bætast 12 við, þannig að þarna vinni kringum 40–50 manns á komandi árum, og það ber vissulega ekki að vanmeta það. En ég hygg samt, að ef menn hefðu litið betur í kringum sig, þá hefðu þeir komizt að raun um það, að með því að verja þessum fjármunum til einhverra annarra framkvæmda, þá hefði verið mögulegt að skapa miklu fleiri mönnum atvinnu heldur en þeim, sem hér fá vinnu, og einnig líka miklu meiri framleiðslu, þó ég geri ekki lítið úr þeirri framleiðslu, sem hér kunni að eiga sér stað í framtíðinni. Það má nefna það í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki fengizt til að fallast á það, að það væri varið árlega meira en 10 millj. kr. til Iðnlánasjóðs. Ég hygg, að ef Iðnlánasjóður fengi á einu bretti þá upphæð, sem hér er um að ræða, 250 millj. kr., þá væri hægt að gera meira en lítið átak til að efla iðnaðinn í landinu fyrir þá upphæð, stækka mörg fyrirtæki og auka þau og bæta við nýjum fyrirtækjum, þannig að auðvelt ætti að vera á þann hátt að veita miklu fleiri, mörgum sinnum fleiri mönnum atvinnu heldur en þeim, sem starfa við þetta fyrirtæki, svo að frá því sjónarmiði er ekki hægt að segja, að þessum fjármunum hafi verið sérstaklega vel varið. Það hefur sýnt sig hér, eins og svo oft áður í sambandi við önnur mál, að hæstv. núv. ríkisstj. er í ýmsum tilfellum tregari til þess að leggja fram fjármagn, þegar hinir eldri eða rótgrónari atvinnuvegir landsmanna eru annars vegar, heldur en þegar um fyrirtæki er að ræða, sem útlendingar eru að einhverju leyti aðilar að.

Ég held, að það sé líka ástæða til að athuga það í sambandi við þetta mál, hvaða ávinningur hlýzt af því, þegar fyrirtækið er stækkað og framleiðslan vex. Það mundu flestir álíta, að það yrði til þess að auka þann hagnað eða þann gróða, sem íslenzka fyrirtækið fær af þessari framleiðslu. Samkvæmt venjulegum kapítalískum lögmálum hefði verið samið þannig við hinn erlenda aðila, sem sér um sölu á framleiðslu fyrirtækisins, að prósenta hans lækkaði í samræmi við það, sem magnið eykst, því að yfirleitt gildir það viðskiptalögmál í sambandi við slíka sölu, að eftir því sem menn geta selt meira magn, þurfa þeir ekki að taka eins mikla heildarálagningu af hverri einingu. Þessu er hins vegar ólíkt varið í þeim samningum, sem Kísiliðjan hefur gert við hinn erlenda aðila, sem sér um sölu á framleiðslu fyrirtækisins. Samningurinn er þannig gerður, að eftir því sem magnið eykst, sem framleitt er og selt er, hækkar prósentan eða umboðslaunin, sem Johns-Manville má taka af sölunni, þannig að ef fyrirtækið selur ekki nema 6 þús. smálestir, eru umboðslaunin 12%. Ef hins vegar sölumagnið fer upp í 9 þús. smálestir, verða umboðslaunin 15%. Ef sölumagnið fer upp í 12 þús. smálestir, verða sölulaunin 18%. Ef framleiðslumagnið og sölumagnið fer upp í 20 þús. smálestir, verða umboðslaunin 21%. Og ef framleiðslumagnið fer upp í 24 þús., sem er áætláð hámark í framtíðinni, verða sölulaunin 24%. Gróðinn, sem hlýzt af aukinni framleiðslu hjá fyrirtækinu, lendir þannig að mjög miklu leyti eða jafnvel að mestu leyti hjá hinum erlenda aðila, þannig að hlutur hans er vel tryggður, ef niðurstaðan verður sú, að okkur tekst að auka þá framleiðslu, sem hér um ræðir.

Ég get ekki annað sagt en að þessi sölusamningur hljóti að teljast nokkuð einkennilegur og hann sé okkur vísbending um það, hvernig það er að semja við erlenda aðila um þessi mál. Þeir vilja sannarlega tryggja sitt í slíkum samningum og fá sinn hluta af gróðanum og fullkomlega það.

Það hefði verið ástæða til þess að ræða frekar um þetta atriði. En vegna þess að ég veit, að hæstv. forseti þarf að koma fleiri málum að en þessu, skal ég reyna að stytta mál mitt.

Ég vil svo að síðustu víkja að því, hvernig hefur verið undirbúin sú framkvæmd verksins, sem er fyrirhuguð samkvæmt þessu frv. Ég tel, að það hefði verið eðlilegt, að þetta frv. hefði verið lagt fram á Alþ. og leitað eftir þeirri heimild Alþ., sem hér um ræðir, áður en búið væri að taka nokkrar ákvarðanir um það, hvernig ætti að framkvæma verkið, svo að Alþ. gæti haft hönd í bagga um það, hvernig því yrði háttað. Við vitum allir mjög vel, að nú er mjög verulegt atvinnuleysi í landinu og þess vegna er það mikilvægt, að þau verk, sem við ráðum yfir, séu unnin af Íslendingum og íslenzkum fyrirtækjum, ef það er mögulegt. Og þess vegna finnst mér, að það hefði átt að ganga þannig frá af hálfu kísiliðjustjórnarinnar og ríkisstj., að það væri ekki neitt búið að fastbinda það, hverjir sæju um þessar framkvæmdir, fyrr en Alþ. hefði fjallað um málið og látið í ljós vilja sinn um það, hvaða aðilar það væru, sem sæju um framkvæmdirnar. Nú er það hins vegar upplýst, að áður en þetta mál er lagt fyrir Alþ., er búið að ráðstafa því að mjög verulegu leyti, hvaða verktakar það eru, sem eiga að annast framkvæmd þessa verks. Mér skilst, að það sé þegar búið að fastsetja það af hálfu stjórnar kísiliðjufyrirtækisins, að svo og svo stór hluti af verkinu, — hluti, sem þó er hægt að vinna hér innanlands, — skuli vera unninn af erlendum aðila. Þetta tel ég mjög ámælisvert og þó sérstaklega þegar þess er gætt, hvernig nú er ástatt í landinu. Og það mun einnig vera búið að ákveða það, að erlendir verkfræðingar eigi að annast svo og svo mikið af eftirliti með framkvæmd þessa verks, sem íslenzkir verktakar gætu þó vel annazt.

Ég vil halda því fram, að af hálfu stjórnar fyrirtækisins hefði ekki verið þannig frá þessu gengið, ef svo hagaði ekki til, að það væri fjmrh., sem er formaður í stjórn þess fyrirtækis, sem hér er um að ræða. Fjmrh. getur að sjálfsögðu tekið sér meira vald en venjulegur stjórnarformaður. Hann veit það, að ef hann er búinn að taka einhverja ákvörðun í máli eins og þessu og leggur heiður sinn að veði, fær hann flokksbræður sína á Alþ. til að standa með þeirri ákvörðun, sem hann er búinn að taka í stjórn þessa fyrirtækis. Ég tel þess vegna, að hann beri meginábyrgð á því, að þannig er að undirbúningi þessa máls unnið, að áður en Alþ. fjallar um það, er búið að ráðstafa svo og svo miklu af því til erlendra verktaka og erlendra verkfræðinga. Ég verð að segja það í sambandi við þetta, að ég tel það mjög misráðið og illa farið, að ráðherrar og þá ekki sízt fjmrh. séu að taka að sér stjórnarformennsku í fyrirtækjum eins og þessu, stórum og umsvifamiklum fyrirtækjum, þar sem er verið að leggja inn á nýjar brautir og þarf mikla vinnu í sambandi við stjórn fyrirtækjanna. Fjármálaráðherrastarfið er það yfirgripsmikið, að það er alveg augljóst, að maður, sem vill rækja það samvizkusamlega, — og það efast ég ekki um, að núv. ráðherra muni vilja gera, — hann hefur ákaflega takmarkaðan tíma til þess að sinna jafnhliða stjórnarformennsku í fyrirtæki eins og þessu. Og mér finnst það ekki ólíklegt, að sumt af þeim mistökum, sem hér hafa átt sér stað, hefði ekki orðið, ef stjórnarformaðurinn hefði haft aðstöðu til þess að vinna þetta verk — ekki sem aukastarf við hliðina á ráðherraembætti, heldur hefði getað sinnt því alveg fullkomlega. En að sjálfsögðu reynir langsamlega mest á stjórnarformanninn í sambandi við verk eins og þessi. Ég get vel látið mér detta þáð í hug, að ef stjórnarformaðurinn hefði getað fullkomlega sinnt þessu verki, hefði verið hægt að halda þannig á málum, að stofnkostnaður hefði ekki farið eins mikið fram úr áætlun og raun ber hér vitni um. Ég get líka látið mér detta það í hug, að ef stjórnarformaðurinn hefði fullkomlega getað sinnt þessu verki, hefði verið þannig samið við hinn erlenda verktaka, að hann hefði orðið að taka á sig ábyrgðina af þeim mistökum, sem urðu við fyrstu framkvæmd verksins, en sá kostnaður ekki að öllu leyti lent á hinum íslenzka aðila. Og ég er nærri viss um það, að ef fjmrh. hefði ekki haft forustu í stjórn fyrirtækisins, mundi ekki núna fyrir fram vera búið að semja um það að framselja svo og svo mikið af þeirri framkvæmd, sem er fyrirhuguð, í hendur erlendra verktaka algerlega að þarflausu.

Ég vil í sambandi við það alveg sérstaklega minna á þau ummæli, sem hv. 7. landsk. þm., Sveinn Guðmundsson, lét falla um þetta efni í Ed. fyrir nokkrum dögum. Hann lýsti yfir því, að íslenzkir aðilar væru fullkomlega færir um að vinna öll þau verk, sem hér væri um að ræða, og íslenzkir verkfræðingar væru færir um að annast það eftirlit, sem hér væri um að ræða. Það er því engin ástæða til þess að óreyndu að sniðganga þessa aðila og fela útlendingum að annast verkin. Sérstaklega er þetta óverjandi undir þeim kringumstæðum, sem nú eru í landinu, þar sem hér er ríkjandi mikið atvinnuleysi og einmitt þau fyrirtæki, sem mundu geta unnið verk eins og þessi, járnsmiðjurnar, hafa búið við verkefnaskort á undanförnum mánuðum og gera það enn í dag. Af þeim ástæðum mundi ég líka leggja sérstaka áherzlu á það í sambandi við framhald þessa máls hér á Alþ., að það yrði reynt að koma því í það horf, að það yrðu afturkallaðir samningarnir við hina erlendu aðila um framhald verksins og það boðið út með eðlilegum hætti og íslenzkum aðilum gefinn kostur á því að vinna þetta verk. Því er að vísu borið við, að innlendir aðilar hafi ekki það fjármagn, sem erlendir aðilar ráða yfir, til þess að taka verkið að sér, en þá er það hlutverk ríkisvaldsins að sjá um það, að íslenzkir verktakar fái sömu aðstöðu og erlendir verktakar, hvað fjármagnið snertir.

Ég hefði séð ástæðu til þess að hafa þetta mál mitt miklu ítarlegra og gera hverju atriði, sem ég hef hér nefnt, nánari skil, en vegna samkomulags við hæstv. forseta hef ég reynt að stytta mál mitt. Ég vil aðeins að lokum segja það, að ég tel, að hér sé um hreint vandræðamál að ræða. Framkvæmd þessa máls hefur stórkostlega misheppnazt, en hins vegar má vel vera svo, að úr því sem komið er, og eftir öll þau mistök, sem hafa átt sér stað, sé ekki um annað að ræða en að bjarga því, sem bjargað verður, þrátt fyrir þann kostnað, sem af því hlýzt, og það má vel vera, að sú verði endanleg afstaða mín til þessa máls. Ég legg eigi að síður áherzlu á það, að af þessu máli má margt læra og ekki sízt það, að við þurfum að sýna meiri varkárni og aðgætni í skiptum við erlenda aðila en hæstv. ríkisstj. hefur tamið sér að undanförnu og m.a. hefur komið fram í sambandi við þetta mál, því hér hafa orðið af því veruleg slys, eins og ég hef rakið, í mörgum efnum. Og mér finnst, að af þessu máli megi líka draga þann lærdóm, að það eigi að vera okkur aukin hvatning til þess að treysta meira á innlenda verktaka og íslenzka verkfræðinga en við höfum gert hingað til og að það megi læra það af þessu, að þeir séu ekki aðeins samkeppnisfærir við þá erlendu, heldur reynist á margan hátt og muni á margan hátt reynast betur en þeir. Þess vegna gæti þetta mál, á vissan hátt, orðið til góðs, ef við lærðum það af því að meta meira okkar eigin menn og jafnhliða því að búa þannig í haginn, að innlendir verktakar og íslenzkir verkfræðingar fái betri aðstöðu til starfa en þeim er búin undir núv. ríkisstj.