08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta frv. til l. um Kísilgúrverksmiðjuna og breyt. á l. um hana hefur fært okkur alþm. mjög stórar og óvæntar fréttir.

Að undanförnu höfum við oft séð í blöðum frásagnir af því, að allt gengi undravel við framkvæmdir við Kísilgúrverksmiðjuna. Okkur var sagt frá því, að byggingin hefði gengið samkv. áætlun og raunar betur en áætlað var, og við höfum séð mörg bjartsýnisviðtöl í blöðum.

En nú kemur það í ljós, eins og rakið er í grg. þessa frv. og rakið hefur verið í ræðuhöldum hér á þingi, að þarna hefur verið um að ræða ákaflega stórfelld og margþætt mistök. Ég vil minna á þau meginatriði, sem hér hafa komið fram.

Í fyrsta lagi hefur það komið í ljós, að kostnaðarverð fyrsta áfanga verksmiðjunnar hefur hækkað úr 140–150 millj. kr. upp í 280–290 millj., eða því sem næst 100%. Menn eru ýmsu vanir hér á Íslandi með að framkvæmdir fari fram úr áætlun, en ég minnist þess naumast, að hliðstæður séu við þessa stórfelldu aukningu á kostnaði.

Í annan stað hefur komið í ljós, að hallinn af starfrækslu verksmiðjunnar á síðasta ári var mun stórfelldari en ráðgert hafði verið. Hann varð á fjórða tug milljóna. En upphaflega var talað um, að hallinn fyrstu árin, fyrstu 4 árin, ef ég man rétt, kynni að verða 40 millj. Á einu ári verður hallinn sem sé álíka mikill og talað var um, að hann yrði á ferfalt lengra tímabili. Og þetta gerist, enda þótt framkvæmd hafi verið gengislækkun, sem átti að gera afkomu verksmiðjunnar betri vegna þess að framleiðsla hennar er öll seld erlendis og hækkar í hlutfalli við breytingar á gengi. Auk þess var framleiðslan á síðasta ári miklum mun minni en áætlað hafði verið. Hún varð aðeins 2500 tonn, en það kerfi, sem byggt hafði verið upp, átti að nægja fyrir 12000 tonnum.

Ástæðan fyrir þessu er ákaflega stórfelld mistök í hönnun fyrirtækisins, eins og viðurkennt hefur verið. Meginframkvæmdir við fyrirtækið voru faldar erlendu fyrirtæki, eins og nú er mikill siður hér á landi, fyrirtækinu Kaiser í Kanada. Þegar þetta fyrirtæki var ráðið til starfans, var lögð á það áherzla, að þetta væri margreynt fyrirtæki, þarna væru allar framkvæmdir í góðum höndum, auk þess sem þetta fyrirtæki ábyrgðist, að framkvæmdir yrðu eins og til væri ætlazt. Þetta sagði þáv. framkvæmdastjóri verksmiðjunnar opinberlega. Hann staðhæfði, að hið erlenda fyrirtæki væri ábyrgt fyrir framkvæmdum.

Nú segir hæstv. ríkisstj. í nál. sínu, að ástæðuna fyrir þessum lélegu afköstum megi rekja til þurrkara verksmiðjunnar, sem ekki eru eins öflugir og við var búizt, og einnig hafa að jafnaði orðið í þeim nokkur efnistöp við útgufun. Virðist hönnun þurrkaranna ekki hafa verið í samræmi við þær forsendur, sem áætlanir aðilanna voru byggðar á. Þarna höfum við sem sé samið við erlendan aðila um að láta okkur í té tiltekna vöru. Við höfum verið sviknir á vörunni, en þá kemur það í ljós, að um þá ábyrgð, sem um var talað, er ekki lengur að ræða. Nú er það staðhæft af ráðamönnum, að við eigum engan kröfurétt á hið erlenda fyrirtæki, þótt það hafi gert sig sekt um svo stórfelld mistök. Þarna tel ég vera um mikið alvörumál að ræða. Það er algild regla í viðskiptum, að ef einhver aðili semur um að vinna verk, er hann ábyrgur fyrir því að skila verkinu eins og til er ætlazt. Og standi hann ekki við það, sem hann hefur tekið að sér að gera, er hann skaðabótaskyldur. Þetta er almenn regla, og þessari reglu fylgja menn, sem eru ábyrgir fyrir miklum framkvæmdum. En þessari reglu hefur auðsjáanlega ekki verið fylgt, og það tel ég, að Alþ. eigi að líta mjög alvarlegum augum, því hér er um mjög stórfelldar upphæðir að ræða.

Fyrir nokkru var talað um það með eðlilegri fordæmingu, að fram hefði komið vitneskja um fjárhagslegt stjórnleysi í einu fyrirtæki hér í landi, hjá húsameistara ríkisins, og þær upphæðir, sem menn hneyksluðust á, námu tugum þúsunda króna. En hér er um að ræða upphæðir, sem nema tugum milljóna kr. Og hæstv. ráðh. láta sér nægja að koma hingað og segja Alþ. frá þessu, án þess að ætlast til þess, að þetta mál sé athugað nánar.

Mér virðist þetta mál þannig vaxið, að full ástæða væri til þess að framkvæma gagngera rannsókn á þessari sögu allri. Ef þetta mál hefði komið fyrir fyrr á þessu þingi, hefði ég flutt till. um slíka rannsókn á vegum Alþ. Það er tómt mál að gera það nú, þegar nokkrir dagar eru eftir af þinghaldi. En ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. fjmrh., sem lýsti yfir því nýlega, að hann vildi gera gangskör að því að uppræta fjárhagsmisferli, að hann beitti sér sjálfur fyrir því, að þessi rannsókn verði framkvæmd og allir flokkar eigi aðild að henni. Ef ekkert er ámælisvert í þessu máli, ætti hæstv. ráðh. að fagna slíkri rannsókn, en hér er um það stórfelldar upphæðir að ræða, að ég sé ekki að undan þessari rannsókn verði komizt, ef menn vilja standa að málinu á heiðarlegan hátt. Raunar þætti mér forvitnilegt að vita, hverjir það eru, sem bera ábyrgð á þessum mistökum. Er það hæstv. fjmrh., sem er formaður stjórnar þessarar verksmiðju, eða er það hv. varaþm. Pétur Pétursson, sem seinustu árin hefur hlotið það sérkennilega verkefni á vegum hæstv. ríkisstj. að taka að sér að stjórna um skeið alls konar vanhirðufyrirtækjum. Mér finnst við eiga heimtingu á að vita, hverjir það eru, sem hafa haldið á málum á þennan hátt.

Mér þætti einnig fróðlegt að frétta hjá hæstv. ráðh., hvort öll kurl eru hér komin til grafar. Í sambandi við Kísilgúrverksmiðjuna hefur verið komið upp við Mývatn sérstöku raforkuveri, varmaorkuveri, og mér skildist, að það væri ætlunin, að framleiðsla þess orkuvers yrði hagnýtt í þessari verksmiðju. Nú hygg ég, að það muni vera rétt, að þetta orkuver hafi ekki gengið eins vel og áætlað var, að tilkostnaður við raforkuna þaðan sé meiri en nokkur dæmi eru um hér á Íslandi. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Eru ráðagerðir um áframhald kísilgúrverksmiðjunnar miðaðar við það, að hún hagnýti raforku frá þessari dýru virkjun, eða er ætlunin að velta raforkukostnaðinum yfir á þjóðina og taka hann ekki með í þessa útreikninga? Ef það er gert, er málið ekki heldur lagt fyrir á heiðarlegan hátt.

Annars er öll saga þessa máls dæmi um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gengið til samvinnu við erlenda aðila af furðulegu og barnalegu trúnaðartrausti. Svo er að sjá, að hæstv. ráðh. ímyndi sér, að erlend auðfélög séu einhverjar góðgerðarstofnanir og vilji taka upp samvinnu við okkur Íslendinga til þess að gera okkur greiða. En reynsla ríkisstj. í þessu efni hefur orðið allt önnur. Ég vil minna á það, að þegar þetta mál bar fyrst á góma hér á Alþ. 1964, var það lagt fyrir á allt annan hátt en raunin varð síðar. Hæstv. ríkisstj. hafði þá gert samkomulag við fyrirtæki í Hollandi, AIME, sem stundaði sölumennsku á ýmsum efnaiðnaðarvörum. Ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. hélt þá ræðu hér á Alþ., þar sem hann lagði á það mikla áherzlu, að samvinnan við þetta hollenzka fyrirtæki ætti aðeins að greiða fyrir því, að framleiðslan yrði seljanleg á markaði í Evrópu, sem væri flókinn viðfangs og erfiður, en með þessu væru Íslendingar sjálfir að hefja sjálfstæða framleiðslu á sínum eigin vegum og þeir ætluðu að keppa við erlenda aðila um þessa vöru. Sá erlendi aðili, sem fyrst og fremst þurfti að keppa við, var bandaríski auðhringurinn Johns-Manville, því hann réð þá yfir 80–90% af markaðnum í Evrópu. En næst kemur það upp, að hollenzka fyrirtækið hafi gefizt upp og að bandaríski auðhringurinn Johns-Manville sé kominn í félagsskap við okkur í staðinn. Á því er auðvitað enginn vafi, að bandaríska auðfélagið hefur beitt samböndum sínum, hvernig sem það hefur gengið fyrir sig, til þess að fá Hollendinga til þess að segja upp samvinnu við okkur. Síðan tryggði það sér í staðinn aðstöðu hér á Íslandi, og samningurinn við bandaríska auðhringinn var sá, að hann skyldi einn sjá um söluna á þessari vöru. Hann átti að eiga sölufélagið einn, og um sölulaun eru ákvæði, sem ég hygg algerlega einstæð, þó að leitað væri um allan heim. Sölulaun þessa bandaríska félags eiga að hækka eftir því sem magnið hækkar og komast upp í hvorki meira né minna en 31%.

Þetta bandaríska auðfélag hefur fylgt þessari aðstöðu sinni eftir á margvíslegan annan hátt. Í sambandi við byggingu verksmiðjunnar hefur það beitt sér fyrir því, að allur útbúnaður til hennar væri keyptur vestan hafs, það er ekki nokkur vafi á því, að þar er um að ræða sérstaka hagsmuni Johns-Manville, vegna þess að auðhringar í Bandaríkjunum eru fléttaðir saman. Þ. á m. var keyptur vestan hafs þessi útbúnaður, sem ég var að lýsa hér áðan, en hann var ekki merkari en svo, að reynslan er sú, sem ég lýsti: Hv. 7. landsk. þm., Sveinn Guðmundsson, sagði við umræður í Ed. Alþ., að þetta væru þurrkarar eins og íslenzkar smiðjur hefðu hætt að framleiða fyrir 15 árum. Hann lýsti yfir því, að smiðjurnar hér hefðu getað framleitt miklu betri útbúnað, en þær fengu það ekki, vegna þess að hinn erlendi aðili taldi, að erlend fyrirtæki ættu einnig að sitja fyrir smíðinni. Þessi erlendu fyrirtæki fengu raunar að njóta aðstöðu, sem íslenzk iðnfyrirtæki hafa ekki notið. Þau fengu alls konar ívilnanir í tollum og sköttum. Meðalgjald þessara aðila til ríkisins var 9%, en þar er innifalinn 71/2% söluskattur, en íslenzkar smiðjur verða að greiða milli 30 og 40% af efni sínu og vélum í ríkissjóð. Þarna er sama sagan og við höfum kynnzt á fjölmörgum öðrum sviðum, við Búrfell og í Straumi, að erlendir aðilar hafi verið látnir sitja fyrir verkefnum hér á landi með miklu betri aðstöðu en íslenzkir atvinnuvegir. Og þetta hefur haldið áfram síðan. Mér er fullkunnugt um það, að fluttur hefur verið til fyrirtækisins ýmis útbúnaður frá Bandaríkjunum, enda þótt sannanlega væri hægt að kaupa þær vörur á mun lægra verði frá Evrópu. Í þeirri stækkun, sem hér er rætt um, þá liggur það einnig fyrir, að áætlað er að hún verði að miklum meiri hluta til unnin af útlendingum, erlendum verktökum, þ. á m. tæki, sem íslenzku smiðjurnar lýsa yfir, að þær geti mjög auðveldlega unnið. En erlendi aðilinn heimtar þetta, og erlendi aðilinn býður ríkisstjórn Íslands lán til þess að tryggja þetta. Hæstv. ráðh. hristir höfuðið. Ég hef þetta eftir flokksbróður hans, hv. 7. landsk., Sveini Guðmundssyni, sem lýsti þessu sama yfir í umræðum í Ed. Alþ., án þess að hæstv. ráðh. mótmælti því. Hv. þm. Sveinn Guðmundsson sagði, að ástæðan fyrir því, að leitað hefði verið til erlendra aðila um slíka hluti, væri sú, að þar væru fáanleg lán í sambandi við það, þetta væri nákvæmlega sama fyrirbærið og þegar íslenzkir útvegsmenn kaupa báta í Noregi í stað þess að láta smíða þá hér, vegna þess að norskar stöðvar geta tryggt lán, sem íslenzkar stöðvar geta ekki, og að sjálf ríkisstjórn Íslands væri farin að hagnýta sér þessa niðurlægjandi aðstöðu. (Gripið fram í.) Er það rangt, að íslenzkir útvegsmenn hafi fengið lán í Noregi, sem þeir hafa ekki getað fengið hér á Íslandi? (Gripið fram í.) Þetta hélt áfram löngu eftir það, að hægt var að smíða hliðstæða báta hér á Íslandi, eins og hæstv. ráðh. veit.

Reynslan af Johns-Manville hefur ekki verið góð, en ég held, að full ástæða sé til að óttast, að hún eigi eftir að verða enn verri. Við skulum minnast þess, að það fyrirtæki mun ævinlega hafa undirtökin í þessari samvinnu, vegna þess að fyrirtækið ræður yfir markaðnum að mjög verulegu leyti, vegna þess að fyrirtækið á námur og vegna þess að fyrirtækið er í þeirri aðstöðu að ákveða annars vegar framleiðsluverð og hins vegar söluverð og ýmsa þá þætti, sem við getum ekki haft áhrif á. Þetta fyrirtæki getur sett okkur stólinn fyrir dyrnar, og ég er alveg sannfærður um það, að þetta fyrirtæki mun setja okkur stólinn fyrir dyrnar, hvenær sem því hentar, því að erlendir auðhringar koma ekki hingað í góðgerðarskyni, eins og ég sagði áðan. Þeir koma hingað til að hagnast, og þeir eru ákaflega harðdrægir. Þeir, sem taka upp samvinnu við slíka auðhringi, verða að átta sig á þessari staðreynd og búa þannig um hnútana sjálfir, að þeir geti staðið fyrir sínu.

Í þessu frv. felst till. um stækkun þessarar verksmiðju, og þarna er lagður fyrir okkur alþm. talsverður vandi. Þarna er um að ræða fyrirtæki, sem er rekið með tapi. Því er lýst yfir, að eins og það er á sig komið nú, muni tapið halda áfram og eina leiðin til þess að fyrirtækið hætti að tapa sé að stækka það. Og mönnum er sagt, að í því skyni verði að leggja fram 150 millj. kr. Ég skil það ákaflega vel, að mönnum finnist erfitt að koma auga á aðrar leiðir út úr þessum vanda en að fallast á þetta sjónarmið. En engu að síður er þetta einnig atriði, sem vert er að velta mjög gaumgæfilega fyrir sér.

Ég hef minnzt á það nokkrum sinnum áður í vetur, einmitt í umræðum við hæstv. fjmrh., að staða okkar, að því er varðar skuldabyrði, er orðin mjög erfið. Við erum orðin einhver sú þjóð heims, sem mest skuldar, skuldabyrðin hærri hér en í nokkru öðru landi, ef til vill. Og því er okkur sá vandi á höndum, að við höfum ekki nægilegt fjármagn til allra verkefna, við verðum að velja og hafna. Ef við ákveðum að leggja 150 millj. í þetta verkefni, erum við að hafna einhverjum verkefnum öðrum. Þetta tel ég, að við þurfum að fá að vita. Hverju erum við að hafna með því að leggja 150 millj. í þessa verksmiðju, í voninni um það að hún kunni að skila arði einhvern tíma síðar, þrátt fyrir þá hörmulegu reynslu, sem hingað til hefur fengizt? Ég minni hv. alþm. á það, að sjávarútvegurinn hefur um langt skeið verið undirstaða alls efnahagskerfis á Íslandi, og ástæðan fyrir því, að þjóðartekjur hér hafa komizt upp í eitthvað það bezta í heimi á mann, er hin mikla framleiðni í sjávarútvegi á Íslandi. Við höfum ekki hliðstæða framleiðni í nokkurri annarri grein. Það er sjávarútvegurinn, sem hefur skilað þessum fjármunum í þjóðarbúið, og þegar menn tala um, að sjávarútvegurinn sé rekinn með styrkjum og uppbótum, þá er það auðvitað vitlaust bókhald og annað ekki. Hins vegar hefur hæstv. ríkisstj. ekki komið auga á þessa staðreynd. Hún hefur afrækt vissa þætti í sjávarútvegi á mjög háskalegan hátt. Henni er ef til vill að vitrast það núna, að þetta hefur verið gert. En mér þætti fróðlegt að vita, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að bæta ráð sitt á þessu sviði. Er þess ef til vill að vænta, að hæstv. ríkisstj. taki nú ef til vill til við að endurnýja togaraflotann, sem hún hefur lofað síðan fyrir síðustu kosningar, en hún hafði áður svikið um 7 ára skeið? Þessar 150 millj., sem talað er um að leggja til Kísilgúrverksmiðjunnar, jafngilda andvirði tveggja skuttogara. Og mér er spurn: Erum við að hafna tveimur skuttogurum með því að leggja fjármagnið í þetta, eða hefur hæstv. fjmrh. fjármagn til að gera hvort tveggja? Þegar við ráðstöfum svona hárri upphæð eins og þessari, þá þurfum við að gera okkur grein fyrir framkvæmdaáætlun okkar sjálfra nokkur ár fram í tímann. Við verðum að vita, hvaða valkosti við höfum, í hvað við getum lagt peningana og hvar þeir skila mestum arði. Það er ekkert einangrað fyrirbæri að leggja 150 millj. í fyrirtæki við Mývatn, það hefur áhrif á aðra þætti í efnahagslífi okkar. Við erum að hafna öðrum framkvæmdum um leið, og ég vil mælast til þess, að hæstv. ríkisstj. leggi fyrir Alþ. fullan samanburðargrundvöll hvað þetta snertir. Ef við erum að hafna arðbærari framkvæmdum fyrir vonarpening, þá er það röng stefna. En þetta eru því miður starfshættirnir hér á Alþ., að málin eru lögð fyrir eitt og eitt og ekki skeytt um efnahagslegt samhengi þeirra. Hér skortir algjörlega áætlunarbúskap og áætlunarhugsun hjá hæstv. ráðh., þeir láta hverjum degi nægja sína þjáningu. En ef þannig er að farið, getur þjáningin að vísu orðið nokkuð sár að lokum.