16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. meiri bl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. N. hefur haldið

tvo fundi með fulltrúum Kísiliðjunnar og var annar þeirra sameiginlegur fundur með iðnn. beggja deilda. hefur n. með þessum hætti fengið ýmsar upplýsingar um þau atriði, sem deilt var hér um við 1. umr. málsins, og mun ég víkja aðeins að þeim atriðum.

Eins og fram hefur komið hefur kísilgúr ekki áður verið unninn úr botnleðju vatns. Olli þetta nokkurri óvissu um hönnun verksmiðjunnar, þar sem bein reynsla um nokkur tæknileg atriði var hvergi fyrir hendi. Ýmsar rannsóknir höfðu þó farið fram og kísilgúr m.a. verið framleiddur í litlum tilraunatækjum. Slíkar tilraunir gefa að sjálfsögðu margar mikilvægar tæknilegar vísbendingar, en öllum er ljóst, sem til þekkja, að við tæknilega framleiðslu í stórum stíl geta komið fram erfiðleikar, sem slík tilraunavinnsla gefur ekki til kynna, enda var beinlínis gert ráð fyrir nokkru tilraunavinnslutímabili og taprekstri til þess að byrja með, bæði vegna þessa og eins vegna hins, að markað fyrir vöruna yrði að vinna upp smátt og smátt.

Við tilraunavinnsluna komu í ljós tæknilegir erfiðleikar. T.d. var gert ráð fyrir, að leðjan mundi smátt og smátt þétta botn þeirra safngryfja, sem ætlaðar voru fyrir hráefnið, eða a.m.k. mundi fljótlega síga niður hlutfallslega meira vatn en þurrefni og vatnsinnihaldið yrði þannig nokkru minna, þegar hráefnið kæmi inn í þurrkkerfi verksmiðjunnar. Þessu var nú raunar öfugt farið. Jarðvegslekinn jókst, þegar vatn lék að staðaldri um botnlagið, og varð að klæða gryfjurnar að innan með plasti. Álagið á þurrkofnana var meira en reiknað hafði verið með, bæði vegna þess að vatnsinnihald hráefnisins var meira og vegna hins, að almennt er talið, að ekki þurfi að þurrka kísilgúr meira en niður í 6% raka, en með því rakainnihaldi reyndist þessi kísilgúr klumpóttur og varð að þurrka hann allt niður í 2% vatnsinnihald til þess að klumparnir molnuðu. En með svo þurru og rykgjörnu efni reyndust efnistöpin í ofninum allmikil og olli þetta líka nokkrum erfiðleikum á síðari vinnslustigum í verksmiðjunni. Framkvæma varð ýmsar endurbætur. Framleiðslan er nú komin í um 8000 tonn í stað 12 þús. tonna og mun mega auka nýtinguna mjög verulega með nokkrum tilkostnaði.

Þessir tímabundnu tæknilegu erfiðleikar eru nú ýmist yfirunnir eða yfirvinnanlegir, og er það nokkurt gleðiefni. Hitt er þó enn meira gleðiefni, að framleiðslan hefur fyllilega reynzt sú gæðavara, sem upphaflegar rannsóknir bentu til. og markaður fyrir þessa gæðavöru er meiri og vex örar heldur en búizt hafði verið við, svo að þegar af þeirri ástæðu er nú tímabært að stækka verksmiðjuna í 24 þús. tonn. Er nú reiknað með, að verksmiðjan verði orðin gott og arðbært fyrirtæki þegar á árinu 1972 og útflutningsverðmæti verði um 240 millj. kr., þegar hún er fullnýtt, og verður það að sjálfsögðu efnahagslífi þjóðarinnar veruleg lyftistöng.

Deilt hefur verið um það, hvort sjálfur byggingarkostnaður verksmiðjunnar hafi farið fram úr áætlun. Eins og hún var hönnuð á sínum tíma, var byggingarkostnaðurinn áætlaður 148 millj. kr. En sá byggingarkostnaður, sem þar var hannaður, reyndist aðeins 140 millj. kr. eða nokkuð undir áætluðum kostnaði. Hitt er svo annað mál, að bókfærður stofnkostnaður í árslok 1968 var orðinn 288 millj. kr. Mismunurinn er gengistap, 84 millj. .kr., endurbætur og tilraunavinnsla 32 millj. kr., bygging íbúðarhúsa, sem alls ekki var með í áætluninni, 12,5 millj. kr. og undirbúningsrannsóknarkostnaður, sem Íslendingar höfðu framkvæmt sjálfir á frumstigi málsins, 20 millj. kr., og fengum við að sjálfsögðu þennan kostnað viðurkenndan sem hlutafjárframlag af okkar hálfu, þegar samningar voru gerðir við Johns-Manville á sínum tíma. Langstærsti liðurinn í þessum mismun, sem um hefur verið deilt, gengistapið, 84 millj. kr., á byggingarkostnaðinum, fæst að sjálfsögðu borgað aftur með gengisgróða á útflutningsframleiðslunni, og hinir liðir mismunarins voru eðli sínu samkvæmt alls ekki inni í þeim áætlaða byggingarkostnaði, sem um var deilt hér við 1. umr. Það virðist því algerlega óþarfi eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið á nefndarfundum, að deila lengur um þetta atriði. Þessi umdeildi byggingarkostnaður miðað við hönnun verksmiðjunnar var 8 millj. kr. undir áætlun.

Stjórnarandstaðan hefur mjög viljað leita eftir sökudólgum vegna hinna tæknilegu erfiðleika, sem fram komu, eða tæknilegu mistaka, ef menn vilja kalla það því nafni. Upplýst er, að hráefnið hefur hagað sér nokkuð öðruvísi, með nokkrum öðrum hætti en vænzt hafði verið, bæði í safngryfju og í þurrkkerfi, og valdið keðju af samverkandi tæknilegum erfiðleikum. Vafasamt er talið, að hægt sé að koma fram ábyrgð á hendur þeim aðila, sem hannaði verksmiðjuna, þrátt fyrir alla venjulega fyrirvara um skaðabótaskyldu. Mundi þó varla standa á Íslendingum eða hinum hlutafjáreigandanum, Johns-Manville, að hefja slíka málssókn, ef hún væri talin svara kostnaði.

Meiri hl. n. telur hins vegar rétt og gagnlegt og vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. iðnmrh., að stjórn verksmiðjunnar láti semja tæknilega og lögfræðilega greinargerð um málavexti. Það gæti allt eftir atvikum orðið til þess í fyrsta lagi, að kannað yrði nánar, hvort um málshöfðunarmöguleika er að ræða, í öðru lagi að eyða tortryggni og þá kannske stela þessum glæp frá stjórnarandstöðunni, og í þriðja lagi getur það verið lærdómsríkt fyrir seinni samningagerðir, bæði við innlenda og erlenda verktaka.

Þriðja deiluefnið í þessu máli er, hvort söluþóknun Johns-Manville sé ekki of há. Í þessu sambandi vil ég sumpart upplýsa og sumpart undirstrika það, sem áður hefur komið fram, í fyrsta lagi, að kaupendur kísilgúrs eru margir, dreifðir og smáir aðilar. Efnið er notað sem hreinsunar- og síunarefni í margvíslegum efnaiðnaði og einnig sem fyllingarefni í ýmiss konar framleiðslu, en þó sennilega er þessi gæðaflokkur, sem hér er um að ræða, lítið notaður í því sambandi. Þrjú bandarísk fyrirtæki eru nærri einráð um framleiðslu og dreifingu þessarar vöru. Hráefnið til framleiðslunnar er til í stórum stíl í flestum löndum og væri því hægt að framleiða það hvar sem er þess vegna. Að vísu er það nokkuð með misgóðum eiginleikum. Johns-Manville stendur fremst þessara fyrirtækja, en almennt er viðurkennt, að forysta þeirra liggi ekki aðeins í gæðum framleiðslunnar, heldur fyrst og fremst — og það er mjög mikilvægt í þessu sambandi — fyrst og fremst í tæknilegri þjónustu og leiðbeiningastarfsemi við hina mörgu smáu og dreifðu kaupendur. Og í þessu sambandi er einnig rétt að geta þess, að á markaðinum eru í samkeppni við kísilgúr önnur efni, sem einnig koma til greina sem hreinsiefni. Ég fullyrði, að enda þótt við hefðum fjármagnað þetta fyrirtæki af eigin mætti eða með öðrum hætti en gert var og enda þótt við hefðum leyst það tæknilega með ærnum kostnaði af eigin mætti eða með aðkeyptri tæknilegri reynslu með öðrum hætti, þá hefðum við aldrei komizt inn á þessa markaði að neinu verulegu gagni án þessarar samvinnu. Margir dreifðir kaupendur hefðu áreiðanlega ekki orðið ginnkeyptir fyrir tæknilegri aðstoð Íslendinga um notkun efnis, sem skiptir sáralitlu máli í framleiðslukostnaði þeirra, en höfuðmáli um gæði þeirrar framleiðslu sem þeir sjálfir framleiða. Það er ágætt að vera Íslendingur og berja sér á brjóst og það er gott að spila vel úr spilunum, en við spilum aldrei að gagni betur úr spilunum en við höfum spil til.

Fjórði málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar er sá, að hætta sé á, að íslenzkir aðilar noti meira útlent vinnuafl til þessara byggingarframkvæmda en ástæða er til. Ég tel ekki ástæðu til þess að ætla það, og er meiri hl. n. því andvígur þeirri brtt., sem minni hl. leggur til á þskj, nr. 720. Meiri hl. n. telur, að það geti bundið hendur verksmiðjustjórnarinnar með þeim hætti, að stækkunin yrði ekki framkvæmanleg í tæka tíð. Ég vil taka það fram, að fjármögnun þessa fyrirtækis er annars vegar hið erlenda hlutafé og hins vegar að töluverðu leyti a.m.k. erlent lánsfé, sem til þessa sérstaka fyrirtækis er fengið og kemur því ekki í veg fyrir eða í staðinn fyrir neinar aðrar íslenzkar framkvæmdir eða fjárfestingar, en skapar hins vegar Íslendingum atvinnumöguleika við byggingarframkvæmdir og framleiðslu útflutningsverðmæta upp á 240 millj. kr.

Meiri hl. n. leggur til, herra forseti, að frv. verði samþ. óbreytt og vísað til 3. umr.