16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef hug á því, fyrst hæstv. ráðh. er til okkar kominn, að beina til hans nokkrum atriðum, sem ég vék að í ræðu minni áðan, því að mig langaði til að heyra skoðun hans á þeim. En áður en að því kemur, langar mig til þess að víkja að því, sem hann sagði áðan, að við gætum ekki gefið fyrirmæli eins og þessi, vegna þess að hér væri ekki um að ræða ríkisfyrirtæki, heldur hlutafélag og þetta mál yrði að ræðast af hluthafafundi og ákveðast af honum. Þetta er auðvitað algjör fjarstæða hjá hæstv. ráðh. Við getum sem Alþ. Íslendinga tekið ákvörðun um það fyrir öll fyrirtæki á Íslandi, að þau verði að bjóða verk sín út og taka íslenzkum tilboðum, ef þau eru sambærileg að verði og gæðum. Þessa einföldu ákvörðun getum við tekið og þessa einföldu ákvörðun eigum við raunar að taka. Mér er kunnugt um það, að slík ákvæði eru í gildi í fjölmörgum öðrum löndum. Þau eru í gildi t.d. í sambandi við allar opinberar framkvæmdir í Bandaríkjunum, sem ég veit að hæstv. ráðh. hefur talsvert mikið álit á. Þar er meira að segja ákveðið að taka verður innlendum tilboðum, þótt þau séu hærri en erlend, ef það fer ekki uppyfir visst mark, vegna þess að opinberar framkvæmdir eru taldar þess eðlis, að þær eigi að stuðla að annarri atvinnuþróun í landinu. Auðvitað er þetta regla, sem ætti að vera alveg sjálfsögð í öllum framkvæmdum á Íslandi, hvaða fyrirtæki, sem um er að ræða. Íslenzkir aðilar eiga að hafa jafnrétti til verka og tilboðum þeirra á að taka, ef þau eru jafngóð og annarra. Um þetta væri hægt að setja alveg sjálfstæða löggjöf. Það sem hæstv. ráðh. segir um þetta í sambandi við fyrirtæki, sem er eign ríkisins að meirihluta, er auðvitað alger fyrirsláttur.

En ég vék að því áðan, að það væru aðrar ástæður, sem valda því, að hæstv. ríkisstj. snýst gegn þessari till. Það upplýsti Pétur Pétursson á fundi í iðnn. Hann skýrði frá því að stjórn Kísiliðjunnar, þar á meðal hæstv. fjmrh., form. hennar, væri búinn að gera. samning við erlendan aðila um meginatriði þessa verks. Ég vítti þetta mjög harðlega áðan, hæstv. ráðh., að embættismenn skyldu leyfa sér að taka slíkar ákvarðanir áður en Alþ. er búið að samþykkja að ráðast í slíkt verk. Með þessu er hæstv. ráðh. að fara út fyrir það verksvið, sem honum er heimilt. Ég álít þetta stórlega vítavert og vil endurtaka það, þegar hæstv. ráðh. er hér viðstaddur, að ég viðhafði þau orð hér áðan í ræðu minni einnig. Ég gagnrýndi það einnig, að hæstv. ráðh. er búinn að gera bráðabirgðasamning við Export-Import bankann um þetta atriði, hann er búinn að gera bráðabirgðasamning um þá lántöku, sem hann er nú að biðja Alþ. um heimild fyrir. Sú lántaka er bundin því skilyrði af hálfu bankans, að þetta verk sé unnið í Bandaríkjunum. Við fáum ekkert slíkt lán hjá Export-Import bankanum, nema um sé að ræða verkefni, sem unnið sé af bandarískum aðilum. Með þessu er hinn erlendi aðili að kaupa frá okkur vinnu og grafa undan íslenzkum fyrirtækjum. Eins og Sveinn Guðmundsson, hv. alþm., sagði í ræðu sinni í Ed., er þetta stefna, sem þýðir það, að við sem fjárhagslega veikur aðili erum einskis megnugir í samskiptum við stóra aðila.

Ég vék einnig að því áðan og vildi greina hæstv. ráðh. frá því, að við reyndum mikið í iðnn. að fá botn í þau alvarlegu mistök, sem orðið hafa í sambandi við verksmiðjuna hingað til. Það var ekki hægt. Það var ekki hægt að fá botn í það, hvort hinir erlendu verktakar hefðu skilað öðru verki en til var ætlazt. Það var ekki hægt að fá botn í það, hvort samningar hefðu verið svo illa frá gengnir af okkar hálfu. Það var ekki hægt að fá botn í það heldur, hvort rannsóknir af okkar hálfu hefðu ekki verið nægilega góðar. Ég lagði áherzlu á það áðan, að ég skoraði á hæstv. ráðh. að láta framkvæma gagngera rannsókn á þessu öllu, rannsókn, sem falin væri aðilum, sem á engan hátt væru tengdir við þau verk, sem þegar hafa verið unnin, og að niðurstöður þeirrar rannsóknar yrðu síðan birtar opinberlega, bæði til að kanna hvort við eigum skaðabótarétt og eins til þess, að við lærum af mistökym eins og þessum. Ég vil, fyrst hæstv. ráðh. er hér, endurtaka þessa áskorun til hans og raunar skora á hann að svara því úr þessum ræðustóli, hvort hann vill fallast á, að slík rannsókn verði framkvæmd.