16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

209. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja að þeirri till., sem hér liggur fyrir, og þeim ummælum, sem hæstv. ráðh. viðhafði um hana. En eins og hv. þd. er að sjálfsögðu kunnugt, þá fjallar þessi till. okkar í minni hl. iðnn. um það, að framkvæmdir við stækkunina skuli boðnar út og íslenzkum tilboðum tekið, ef þau eru sambærileg að verði og gæðum. Hæstv. ráðh. sagðist mótmæla þessari till. fyrst og fremst á þeim grundvelli, að það væri algjörlega óvenjulegt að setja fyrirtæki skilyrði, eins og það sem fælist í þessari till. Í fyrri ræðu sinni gaf hann í skyn, að hann væri því að vísu efnislega samþykkur, að íslenzkir aðilar yrðu látnir ganga fyrir, eins og till. segir fyrir um, en hins vegar væri alveg útilokað að samþykkja till., vegna þess að það væri ekki neitt dæmi til um slíkt, að fyrirtæki væru sett slík skilyrði. Ég hélt satt að segja, að hæstv. ráðh., sem er nú lögfræðingur, væri ekki svo ófróður í lögum, að hann skyldi halda öðru eins fram og þessu. Því það má benda á fjöldamörg dæmi þess og ekki sízt í fjárlögunum sjálfum, sem hæstv. ráðh. ættu að vera kunnug, að ríkisstj. er veitt heimild til þess eða það er samþykkt að veita þessu eða hinu fyrirtækinu vissa fyrirgreiðslu, styrk, lán eða annað þess háttar gegn því, að fyrirtækið á móti fullnægi ákveðnum skilyrðum. Félagið getur svo að sjálfsögðu valið um það, hvort það vill fullnægja þessum skilyrðum eða ekki, en ef það gerir það ekki, þá nýtur það að sjálfsögðu ekki þeirra hlunninda, sem ríkið mundi ella veita því, hvort heldur um styrk eða lán er að ræða. Og það, sem er hér einfaldlega um að ræða í sambandi við þessa till., er það, ef hún yrði samþ., að Alþ. setur Kísilgúrverksmiðjunni það skilyrði, sem hér um ræðir, fyrir því hlutafjárframlagi, sem fjallað er um í frv.

Það er stefna ríkisins, eða manni skilst það, það hefur a.m.k. komið fram hjá ráðh. við ýmis tækifæri, að þeir vilji stefna að því, að ríkisfyrirtæki framfylgi þeirri reglu, ef það býður út verk, að láta innlendan aðila ganga fyrir að öðru jöfnu. Hæstv. ríkisstj. hefur mjög hælt sér af því í sambandi við Skipaútgerð ríkisins, að strandferðaskipin, sem hún er að láta smíða, væru smíðuð á Akureyri. Og hún hefur lýst því yfir við mörg tækifæri, að hún vilji láta ríkisfyrirtæki framfylgja þessari stefnu. En þá á að sjálfsögðu líka að framfylgja þeirri stefnu af þeim fyrirtækjum, sem ríkið er meiri og minni þátttakandi í. Og nú skilst mér, að í því fyrirtæki, sem hér um ræðir, sé ríkið aðalhluthafinn og ráði þess vegna raunverulega ákvörðunum og stefnu þessa fyrirtækis. Og fyrst það er talið rétt um bein ríkisfyrirtæki, að þau fylgi þeirri reglu, sem felst í þessari till., þá á að sjálfsögðu ekki síður að krefjast þess af hlutafélögum, þar sem ríkið á meira en helming hlutafjárins og er þess vegna aðaleigandi fyrirtækisins. Ef hæstv. ráðh. athugar þetta, hlýtur hann að gera sér fulla grein fyrir því, að það er hrein fjarstæða sem hann var að segja hér áðan, að það væri eitthvert brot gagnvart Kísiliðjunni, ef við samþykkjum till. eins og þessa, vegna þess að við höfum með fjölmörgum öðrum lögum og í mörgum tilfellum í fjárlögum sett svipuð skilyrði og þetta fyrir því, að ríkið leggi fram aðstoð sína, í hvaða formi, sem það er. Og þar sem ríkisstj. telur sig nú hafa markað þá stefnu gagnvart ríkisfyrirtækjum að þau láti íslenzka verktaka ganga fyrir, þá á það að sjálfsögðu ekki síður að gilda um hlutafélag, sem ríkið er aðalhluthafinn í, eins og það fyrirtæki, sem hér um ræðir. Hæstv. ráðh. hlýtur því að gera sér fulla grein fyrir því, ef hann les sín fræði betur, að það var fullkomlega röng staðhæfing hjá honum, að við í minni hl. iðnn. værum að fara inn á einhverja óvenjulega braut með þessari till. sem hér liggur fyrir og með því að setja Kísiliðjunni þetta skilyrði, vegna þess að Alþ. hefur í fjölmörgum hliðstæðum tilfellum sett fyrirtækjum hliðstæð skilyrði.

En það kom líka fram í seinni ræðu hæstv. ráðh., eftir að frsm. minni hl. var búinn að vekja athygli hans á því, að það er ekki þetta atriði, sem veldur því, að hann vill ekki láta samþykkja till., heldur það, að það er þegar búið að semja um það við erlendan aðila að vinna mikinn hluta verksins. Og það er það af ýmsu, sem hefur gerzt, ég verð að segja hneykslanlegu í sambandi við þetta fyrirtæki og ég mun kannske víkja að hér á eftir, að þá finnst mér þetta vera langsamlega hneykslanlegast og það af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi af þeirri ástæðu, að mér finnst óeðlilegt, að mál eins og þetta sé lagt fyrir Alþ. eftir að ríkisstj. er búin að ráðstafa því að miklu leyti, hvaða verktaki eigi að annast þessa framkvæmd. Ef hér hefði verið farið rétt að, átti fyrst að leita heimildar Alþ. fyrir framkvæmdinni og síðan bjóða verkið út í samráði við það og á þann hátt, sem Alþ. vildi að því væri ráðstafað, en það átti ekki að vera búið að ganga frá þessu atriði, áður en Alþ. fjallaði um málið.

Þó að stjórn Kísilgúrverksmiðjunnar hafi ríkisstj. með sér í ráðum, er þetta ekki betra fyrir það. En þetta sannar það, sem ég hélt fram hér við fyrri umr. málsins, að það er óvenjulegt, að ráðh. eigi sæti í stjórn fyrirtækja eins og Kísilgúrverksmiðjunnar, því að þeir telja sér þá fært að taka ýmsar ákvarðanir í trausti ráðherravaldsins og ráðherraaðstöðu, sem þeir ella mundu ekki gera og þeir mundu ekki gera öðruvísi en áður væri búið að leita samþykkis Alþ. fyrir málinu. Ég efast um, að þetta hefði átt sér stað, ef hæstv. fjmrh. hefði ekki verið stjórnarformaður í Kísilgúrverksmiðjunni. Ég held, að ef annar formaður hefði verið þar, sem ekki væri ráðh., hefði verið farin sú eðlilega leið að leita fyrst samþykkis Alþ. fyrir stækkuninni og ákveða svo í samráði við það, hvernig útboðum yrði háttað og hvaða verktakar það væru, sem ættu að ganga fyrir um að fá þetta verk.

Það er að verða ákaflega mikil siðvenja í seinni tíð, að ráðh. séu í stjórnum hinna og þessara nefnda, miklu meira en áður tíðkaðist. Ráðh. eru nú farnir að taka að sér formennsku í ýmsum úthlutunarnefndum, sem eiga að ráðstafa hinum og þessum styrkjum. Sjálfur situr hæstv. fjmrh., að ég hygg að sé rétt hjá mér, í stjórn Atvinnubótasjóðs eða er jafnvel formaður hans og hlutast þar til um skiptingu á verulegu fjármagni á milli hinna ýmsu kjördæma í landinu, og nú hefur forsrh. sjálfur tekið að sér að vera í stjórn eða formaður nýrrar úthlutunarnefndar, sem á að úthluta lánum og styrkjum til atvinnuframkvæmda víða um land. Mér finnst, að það sé ákaflega óheilbrigt, að ráðh. séu að taka að sér störf eins og þessi, og hafi líka ákaflega oft óheppileg áhrif og afleiðingar, eins og mér finnst að hafi glöggt komið fram í þessu máli.

Ég verð að taka sterklega undir þau ummæli, sem hv. þm. Sveinn Guðmundsson lét falla í Ed. um þetta efni, að það er að mínum dómi algert hneyksli, að íslenzkir verktakar séu útilokaðir frá því að taka verk að sér eins og það sem hér um ræðir, vegna þess að ekki sé með öðrum hætti unnt að útvega fjármagn til framkvæmdanna. Ég held, að það hafi ekki reynt neitt á það í sambandi við þetta mál, hvort það væri ekki hægt að tryggja fjármagn til þessara framkvæmda, þó að íslenzkir verktakar ynnu verkið. Ég held, að öll athugun á því hafi verið fullkomlega vanrækt og það sé þess vegna beint út í loftið, sem hæstv. ráðh. segir hér um það, að það hafi ekki verið hægt að ráðast í þessa framkvæmd öðruvísi en að fá erlent lán til framkvæmdanna með því skilyrði, að erlendur verktaki tæki að sér eins mikinn hluta þess og hægt væri að vinna erlendis. Ég vil a.m.k. spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað var annað gert? Hvar leitaði stjórnin fyrir sér og stjórn Kísilgúrverksmiðjunnar fyrir sér annars staðar um lán, sem hefði gert það mögulegt, að íslenzkur verktaki gæti annazt þetta verk. Var það nokkuð gert? Ég spyr. Hæstv. ráðh. svarar,því hér á eftir, ef það hefur verið gert, það væri fróðlegt að vita um, hvaða viðleitni hefði verið höfð í frammi í þeim efnum. En það hefði eiginlega verið það sjálfsagðasta af öllu sjálfsögðu í þessu máli. Við vitum það, að nú er þannig ástatt með járniðnaðinn í landinu, að hann skortir stórlega verkefni og þar er um mikið atvinnuleysi að ræða. Hér er áreiðanlega um verkefni að ræða, sem íslenzkar járnsmiðjur hefðu getað auðveldlega unnið og þess vegna hefði átt að kappkosta það að útvega lán til þessara framkvæmda með þeim hætti, að íslenzkir verktakar stæðu a.m.k. á jafnréttisgrundvelli við erlenda, hvað það snerti að taka verkið að sér. En það er látið alveg ógert og einhliða snúið sér að því að fela erlendum verktaka að gera þetta, og það skálkaskjól er fundið því til afsökunar, að með öðrum hætti hefði ekki verið hægt að útvega lán til þessara framkvæmda.

Hér er vissulega unnið á allt annan hátt en á að vinna að þessu máli eins og nú er ástatt í landinu, og ég vil þess vegna fullyrða það og staðhæfa það, að það er hreint hneyksli, að ríkisstj. skuli hafa haldið á þessu atriði málsins eins og raun ber vitni um. En það sýnir, ásamt mörgu fleiru, hver er raunveruleg afstaða hæstv. ríkisstj. til iðnaðarins í landinu, og hvað hún gerir til þess að tryggja honum þau verkefni, sem hann á að vinna að í landinu. Ef ríkisstj. hefði borið iðnaðinn fyrir brjósti og ef hún hefði viljað vinna að því að tryggja aukna atvinnu í landinu, hefði hún átt að halda með allt öðrum hætti á þessu máli, eða með þeim hætti að reyna að útvega slíkt lán, að íslenzk iðnfyrirtæki gætu unnið þetta verk. Og ég verð að segja, að ég er ennþá meira hissa, þegar hæstv. fjmrh. upplýsir það, að það sé ekki stjórn Kísilgúrverksmiðjunnar ein, sem ber ábyrgð á þessu, heldur sé ríkisstj. hér með í ráðum. Ég verð að lýsa fyllstu undrun minni yfir því, að t.d. hæstv. iðnmrh. skuli vera hér með í ráðum, því að honum ætti að vera það mætavel kunnugt, hvernig er ástatt um verkefnaskort járniðnaðarins í landinu. Hann hefði því átt að gera sitt til þess, þegar hann sá fram á, að hér voru að skapast verkefni, sem járniðnaðurinn íslenzki hefði getað af hendi leyst, að hann hefði þar forgangsrétt, en erlendur aðili væri ekki látinn vinna þetta verk. En hér eins og oftar hefur hæstv. iðnmrh. brugðizt á verðinum, þegar iðnaðurinn hefur verið annars vegar.

En ég vil nú treysta því, að þó að ríkisstj. sé á hinn óheppilegasta hátt búin að binda hendur sínar í þessum efnum, láti stjórnarþingmenn það ekki hafa áhrif á sig, heldur geri það, sem þeir telja rétt í þessum efnum. Það sést þá, a.m.k. við þá atkvgr., sem hér fer fram á eftir, hve mikið er að marka allar yfirlýsingar stjórnarþingmanna og ráðh. um það, að þeir vilji láta íslenzkan iðnað ganga fyrir verkefnum, sem hann getur auðveldlega af hendi leyst.

En það finnst mér að hljóti að vera mikil fjarstæða, að það sé ekki nema einn banki í Ameríku, sem sé fáanlegur til þess að lána til framkvæmda eins og þessara, ef þær eiga að vera eins traustar og arðvænlegar og okkur er sagt og okkur er sýnt með þeim áætlunum, sem hér eru lagðar fram. Ég held a.m.k. að það sé ómaksins vert að leita til fleiri aðila en þessa eina banka í Ameríku og vita, hvort lán er ekki fáanlegt með öðru skilyrði en því, að það af verkinu, sem hægt er að vinna erlendis, skuli unnið þar.

Ég ætla þá að víkja að öðru atriði málsins, sem nokkuð hefur borið á góma í þessum umræðum og mér fannst hæstv. ráðh. svara út í hött. En það var það, hvort Kísilgúrverksmiðjan ætti skaðabótakröfu á hendur hins ameríska fyrirtækis, sem sá um byggingu verksmiðjunnar. Það hefur komið í ljós, eins og hér hefur verið rakið, að þetta verk hefur reynzt meira en lítið illa. Þannig urðu afköst verksmiðjunnar á síðasta ári ekki nema þriðjungur eða fjórðungur af því, sem áætlað var og enn skortir stórkostlega á það, að afköstin séu komin í það magn, sem um var talað og stefnt var að samkv. samningum við þetta ameríska fyrirtæki, þrátt fyrir það að búið sé að leggja í stórfelldan aukakostnað til að bæta kerfi verksmiðjunnar frá því sem áður var.

Þegar þetta mál var á sínum tíma fyrst til umræðu hér á Alþ. skrifaði einn af stjórnarnefndarmönnum í Kísilgúrverksmiðjunni um það í blöðin, að það væri fullkomlega tryggt, að hinn erlendi verktaki, Kaiser, bæri fulla ábyrgð á sínu verki. M.a. hygg ég, að einn stjórnarnefndarmaðurinn, Pétur Pétursson, hafi skrifað um þetta mál ítarlega grein í Fjármálatíðindi og þar tekið það alveg sérstaklega fram, að mjög vel væri frá þessum samningi við ameríska verktakann gengið og hann mundi bera fulla ábyrgð á því, ef verkið reyndist ekki eins og að væri stefnt. Nú liggur það fyrir, að verkið hefur ekki reynzt á þann veg, sem ætlað var, og þá er það jafnframt upplýst, þrátt fyrir allt sem áður var búið að segja um þetta efni, að hinn erlendi verktaki beri ekki ábyrgð á verkinu, eða a.m.k. ekki þá ábyrgð á verkinu, að það sé hægt að gera skaðabótakröfur á hendur hans.

Það hefur verið reynt við umræður hér á Alþ. og eins í iðnn. að fá greinileg svör við þessu, en svörin eru ákaflega óljós, eins og kom á daginn hjá hæstv. ráðh. hér áðan. Hæstv. ráðh. vildi eiginlega helzt slá þessu upp í grín og sagði, að það hefði komið í ljós, að einhvers staðar í Mývatni hefði ekki fundizt eins góður leir og gert hafði verið ráð fyrir og hvort ekki ætti að höfða mál út af þessu og fara í skaðabótamál við einhvern út af þessu. Jú, ef þannig hefði staðið á, að það hefði verið búið að semja við einhvern aðila, sem átti vatnið eða átti þetta land, að hann skilaði leirnum eða efninu í ákveðnu ástandi, hefði að sjálfsögðu átt að fara í mál við hann. En í þessu tilfelli er ekki um neinn slíkan aðila að ræða, og þess vegna er þessi samanburður ráðh. algerlega út í hött. Hér er um ákveðinn aðila að ræða, sem tekur að sér að vinna verkið og skila því í ákveðnu ástandi, en verkið er bara ekki í því ástandi, þegar það er afhent, eins og um var samið. Það er það, sem er aðalatriði þessa máls. Þess vegna verður að fá það upplýst í hverju það liggur, að ekki er hægt að höfða skaðabótamál á hendur þessu fyrirtæki. Er það vegna þess, að sú formúla, sem þeir hafa fengið fyrir verkinu, eins og hæstv. ráðh. er stundum að tala um, hafi ekki verið fullkomlega rétt? Okkur gekk ákaflega illa í iðnn., þar sem voru sérfræðingar frá Kísilgúrverksmiðjunni viðstaddir, að fá það nokkuð nánar skýrt. — Eða stafar þetta af því, að svona illa hefur verið gengið frá samningum við hið ameríska fyrirtæki, að við eigum ekki skaðabótaréttinn, þegar við ætlum að grípa til hans? Við í minni hl. iðnn. leggjum mikla áherzlu á að fá það upplýst til hlítar, af hverju það stafar, að það er ekki hægt að fara í skaðabótamál við Kaiser vegna þessara mistaka þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um það, að þetta fyrirtæki bæri ábyrgð á mistökum, ef þau yrðu einhver við framkvæmd verksins. Við höfum óskað eftir því í n. og berum einnig þær óskir fram hér, að það verði samin glögg og skýr grg. um það, hvað valdi því, að ekki sé hægt að gera skaðabótamál á hendur Kaiser. En mér virðist, að það komi fram hjá hæstv. ráðh. alls konar undanbrögð í því sambandi og hann telji það alveg tilgangslaust, að það sé gert. Vegna hvers? — Ef þetta stafar af því, að þeim sérfræðingum okkar, sem undirbjuggu þetta mál. hafi að einhverju leyti yfirsézt og formúlan, sem þeir gáfu hinum ameríska verktaka, hafi ekki verið alveg rétt, þá er ekkert athugavert við það, að það komi í ljós. Það þarf kannske ekkert sérstaklega að sakfella þá, þó að slíkt hafi átt sér stað, vegna þess að eins og hér hefur margsinnis verið tekið fram, var hér um mjög óvenjulegt verk að ræða. Ef þetta er orsök mistakanna, er ekki neitt við ameríska fyrirtækið að tala um þetta efni. Þá er engin sök hjá því og þá er málið úr sögunni. Ef aftur á móti, eins og virðist hafa komið fram í sambandi við þurrkarana og margt fleira, að verkið er ekki þannig af hendi leyst hjá hinum ameríska verktaka eins og ætlazt var til samkv. samningnum, á að sjálfsögðu að gera skaðabótakröfu á hendur honum, ef samningarnir eru þannig, að það sé talið framkvæmanlegt. Ef samningarnir væru hins vegar það gallaðir, að það sé ekki talið mögulegt og við mundum ekki vinna slíkt mál, er það að sjálfsögðu tilgangslaust að reyna það, en þá vitum við líka, í hverju það liggur. Þá liggur það í því, að okkar samningamönnum hefur mistekizt og þó að ekki verði úr þeim mistökum bætt að sinni, gæti það orðið til þess, að við lærðum af því í framtíðinni og létum ekki slíka skyssu henda okkur aftur.

Af öllum þessum atriðum, sem ég hef nú rakið, er það mjög mikilvægt, að þetta mál sé upplýst til fulls. Ekki til þess að hengja upp einn eða neinn fyrir þau mistök, sem hér hafa átt sér stað, nema ef um hinn erlenda verktaka væri að ræða, heldur til þess að við getum lært af þessu í framtíðinni og haft það til viðvörunar.

Mér finnst, að það hafi komið einmitt fram í sambandi við þetta mál og mörg önnur, að við Íslendingar, eða a.m.k. margir okkar, séum allt of léttúðugir og auðtrúa, þegar við erum að semja við erlenda aðila. Sumir okkar virðast hafa þá skoðun, að það megi eiginlega öllu treysta, sem þessir aðilar segja og lofa, og það sé óhætt fyrir okkur að skrifa undir það. Aðrir vilja hafa hér aðgát á. Og ég gæti trúað því, að ef þetta mál yrði upplýst til fulls, yrði það til þess, að við í framtíðinni færum að með meiri gát í þessum efnum en við höfum gert í þessu tilfelli og í mörgum öðrum, sem ég sé ekki ástæðu til þess að rekja.

Þó svo að það hefði verið ástæða til þess að fara talsvert fleiri orðum um þetta mál og rekja mörg önnur atriði þess, skal ég sleppa því að sinni, en það, sem ég verð að segja að síðustu, er það, að mér þótti það ákaflega slæmar fréttir, ég vil segja ótíðindi, sem hæstv. fjmrh. upplýsti hér áðan, að ríkisstj. öll skuli bera ábyrgð á því, að það skuli vera búið að ráðstafa þessu verki að verulegu leyti til útlendinga, áður en Alþ. fær að fjalla um það. Mér finnst það mikil ótíðindi, að á tímum, þegar atvinnuástandið er ekki betra en það er nú í landinu, skuli ríkisstj. halda þannig á máli eins og þessu. Og ég er ekki aðeins undrandi á fjmrh., heldur einnig á iðnmrh., eins og ég hef áður lýst, og ég verð að segja það, að ég er líka undrandi á hæstv. forsrh., sem hefur tekið það að sér að vera forystumaður í sérstakri atvinnumálanefnd, sem á að vinna að því að tryggja íslenzkum fyrirtækjum sem mest verkefni og þá m.a. það, að íslenzk fyrirtæki sitji fyrir, þegar um er að ræða verkefni eins og þessi, — að hann skuli hafa léð máls á því í ríkisstj., að þessi leið væri hér farin. Þess vegna vil ég biðja þessa aðila að síðustu að endurskoða afstöðu sína með tilliti til alls þess, sem hér hefur verið rakið. Hæstv. fjmrh. segir, að þetta mál sé þannig ennþá, að það sé hægt að hverfa frá þeirri ákvörðun, sem búið sé að taka, um að fela erlendum aðila að vinna þetta verk, og þess vegna vil ég nú skora á hæstv. ríkisstj. að taka þetta atriði málsins alveg sérstaklega til athugunar og athuga það gaumgæfilega, hvort hún treysti sér ekki til að breyta hér um afstöðu og vinna að því í samræmi við aðrar yfirlýsingar hennar, að íslenzkir verktakar fái að sitja fyrir þessu verki, svo framarlega sem þeir bjóða svipuð kjör, hvað snertir verð og gæði.