30.08.1974
Neðri deild: 9. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þar sem ég óskaði eftir, að frv. þetta fengi skjóta afgreiðslu hér í d., skal ég takmarka þau orð, sem ég hér segi, við svör við þeim fsp., sem varpað var fram af hálfu hv. 2. þm. Austf.

Spurt var í fyrsta lagi, hvort gert væri ráð fyrir því, að hlutaskiptum sjómanna verði breytt með lögum. Það er ekki fyrirhugað.

Í öðru lagi var spurt, hvað gert væri ráð fyrir, að fiskverð gæti hækkað mikið. Fiskverðsákvörðun er nú í höndum yfirnefndar verðlagsráðs sjávarafurða, og tekur hún auðvitað ákvörðun sína á grundvelli þess, sem hún telur reksturinn geta greitt.

Í þriðja lagi var spurt, hvaða reglur giltu um álagningarprósentu verslunar í tengslum við þessa gengishreytingu, og er svarið við því, að sömu reglur munu gilda að þessu leyti og við fyrri gengisbreytingar, þ. á m. við gengisbreytinguna 1972.

Í fjórða lagi var spurt um, hvaða breytingar verði gerðar á innborgunargreiðslum vegna vörukaupa. Þær munu verða felldar niður á tilteknu tímabili, en frekara fyrirkomulag í þeim efnum hefur ekki verið ákveðið.

Í fimmta lagi var spurt, hvort olíuverð yrði greitt niður til fiskiskipaflotans. Það er talið augljóst, að um einhverjar niðurgreiðslur verður að ræða á olíuverði til fiskiskipa áfram, en hve miklar skal ekki fullyrt að svo stöddu. m.a. til þess að gera sér grein fyrir þessu og öðrum atriðum varðandi sjávarútvegsdæmið er tekinn nokkur frestur.

Í sjötta lagi var spurt, hvaða reglur eigi að gilda um kaupgreiðsluvísitöluna. Eins og þingheimi er kunnugt, hafa verið framlengd brbl., en þar er gert ráð fyrir að laun séu greidd samkv. óbreyttri kaupgreiðsluvísitölu til loka sept. Ætlunin er að nota þann tíma til samráðs við aðila vinnumarkaðsins um láglaunabætur og tryggingabætur til þeirra, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, til þess að þeir standi betur að vígi en ella. í dag hef ég í umboði ríkisstj. ritað aðilum vinnumarkaðsins og farið fram á, að þeir tilnefni fulltrúa til viðræðna við ríkisstj. um skipan kjaramála annars vegar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. og í öðru lagi um þær launajöfnunarbætur og tryggingabætur, sem einkum eru ætlaðar láglaunafólki. til þess að það standi betur að vígi að mæta þeim verðhækkunum, sem óneitanlega hafa átt sér stað að undanförnu og verða því miður nú á næstunni. Vænti ég þess, að þær viðræður geti hafist sem allra fyrst, og vill ríkisstj. einmitt taka sér frest til þess að fá fram sjónarmið launþegasamtakanna að þessu leyti.

Í sjöunda lagi var spurt um, hverjar þær sérstöku láglaunabætur yrðu, sem um væri talað. Verður þeirri spurningu ekki svarað fyrr en að höfðu samráði við samtök aðila vinnumarkaðsins, eins og ég gat um áðan.

Loks var svo spurt, hvernig færi með tryggingabætur almannatrygginga. Vil ég taka það fram, að gengið er út frá því, að þær muni breytast í tengslum við launajöfnunarbætur. En það dæmi kemur auðvitað til skoðunar í sambandi við skipan kjaramála nú alveg næstu daga og vikur.