30.08.1974
Neðri deild: 10. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ekki er ég hissa á því, þótt hv. 4. þm. Reykv. kvarti þessa dagana. Það er meira en þetta, sem á hann er lagt og hefur verið lagt hina síðustu og verstu daga hér á Alþ. En það er rétt, sem hann tók fram og kemur reyndar fram í nál. hv. fjh.- og viðskn., að meiri hl. í n., sem er mikill þar, en kannske ekki eins mikill hér í þinginu, að því er virðist á stundum, mælir með því, að frv. verði samþ., en minni hl., ég og 3. þm. Reykn., leggjum til, að það verði fellt.

Það má segja, að það sé nú skammt stórra högga á milli úr hendi hæstv. ríkisstj. til almennings í landinu. Það eru ekki liðnir ýkjamargir dagar síðan ljóst var, að hverju stefndi og hver meiri hl. mundi skapast hér á hv. Alþ. En á þessum skamma tíma, sem liðinn er, er ljóst, að því er virðist, að búið mun að ræna, a.m.k. að því er við best sjáum, sem ekki höfum öll gögn og alla leynisamninga, eins og hér var orðað í gær, um 30% af kaupi almennings í landinu. (Gripið fram í.) Já, það er slæmt, Sverrir Hermannsson.

Það þarf í raun og veru engan að undra, þótt slíkt gerist, þegar til valda í landinu eru komin þau öfl, sem hvað sterkust eru innan þeirra tveggja flokka, sem skipa núv. hæstv. ríkisstj. Það þarf engan að undra, þó að blöð Sjálfstfl. hafi á undanförnum dögum, vikum eða kannske mánuðum reynt að mála svo dökka mynd af þeim vandamálum, sem vissulega eru fyrir hendi og við er að glíma á efnahagssviðinu, að hægt yrði, eftir að búið væri að koma þessum aðilum til valda, að gera þær ráðstafanir svo harkalegar sem raun ber vitni og hér hafa þó að litlum hluta séð dagsins ljós, það sem af er.

Það hefur áður komið fram hér á Alþ., hver væri sú leið, sem SF töldu, að rétt væri að fara, miðað við þann vanda, sem nú er við að glíma. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það frekar. Við vorum andvígir gengisfellingu og erum henni þeim mun andvígari, eftir því sem hún er meiri. Við teljum, að sá vandi, sem við er að glíma, sé ekki á þann veg, að það þurfi eins stórkostlegar aðgerðir og núv. hæstv. ríkisstj. er þegar farin að gera og á eftir að framkvæma, að það sé réttlætanlegt að standa að slíku, og þess vegna greiðum við atkv. á móti þessu frv. og leggjum til, að það verði fellt.