30.08.1974
Efri deild: 8. fundur, 95. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

9. mál, ráðstafanir vegna gengis íslenskrar krónu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Enn einu sinni stendur Alþ. að því að fella gengi íslensku krónunnar. Ég hugsa, að á s.l. 30 árum séu slík vinnubrögð orðin svo algeng, að jafnvel almenningur í landinu og nú seinast þm. eru orðnir svo áhugalausir um slík vinnubrögð, að þeir mæta ekki, þótt þeir standi að því, þm. úr stjórnarliðinu, og eiga nú allt undir því, að við í stjórnarandstöðunni sýnum það umburðarlyndi að sitja í stólunum til þess að fá nægilega höfðatölu og einhverjir verði á móti. Þannig er komið ábyrgðartilfinningu þeirra manna, sem bera ábyrgð á stjórn þessa lands næstu mánuðina. Skoðun mín er í stuttu máli sú, að þegar sé mótað með þessum aðgerðum upphaf að endinum og þessi vinnubrögð beri dauðann í för með sér fyrir hæstv. ríkisstj. innan skamms, og má mikið vera, ef hún lifir fram yfir næstu áramót. Ég skal nú færa nánari rök fyrir þessu.

Það ættu margir þm. hér að vita, sem hafa setið áratugum saman á Alþ., að allar gengisfellingar hafa meira og minna mistekist. Ég hef sjálfur staðið að gengisfellingu, og ég hef sjálfur verið í því ásamt öðrum mönnum úr greinum sjávarútvegsins að reyna að fá leiðréttingar í samræmi við vilja og hagsmuni þeirra, sem alltaf er verið að bjarga og alltaf er sagt, að sé verið að bjarga, og enn einu sinni á að vera að bjarga, en það hefur bara ekki borið árangur og það mun enn ekki bera árangur, eins og að þessu er staðið. Það er mín sannfæring, og kemur hér margt til. Það er í fyrsta lagi: Hvað á almenningur í landinu að una því lengi, að sparnaður sé svo freklega brotinn á bak aftur? Mér er ekki kunnugt um, hversu sparnaður landsmanna er mikill, ei ég held, að það sé ekki langt frá lagi, að í sparisjóðsbókum og lífeyrissjóðum séu um 30 milljarðar. Gengi miðað við íslenska krónu hefur nú á rúmu hálfu ári lækkað um 46%. Það er ekkert annað. Rýrnun þessa fjármagns er orðin svona gífurlegt. 6–8 milljarðar hafa farið í súginn hjá fólki, sem á þetta. Og þó er það þetta fólk, sem veitir athafnalífinu möguleika á því að starfa með því að leggja sitt fjármagn fyrir, en eyða því ekki, eins og stór hluti þjóðarinnar hefur gert núna undanfarið, — eyða því ekki þegar í stað í vitleysu. Það er kominn tími til þess, af því að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa staðið að því að fella gengi, að muna eftir þessu fólki og gera þær ráðstafanir, sem draga úr eyðslunni. Gengisfellingar hafa fellt hverja einustu ríkisstj. á Íslandi, sem til hennar hefur gripið, og mun fella þessa. Það er mín sannfæring. Hvað skeður hér? Fólk dregur úr kaupunum núna í bili, 2–4 mánuði. Svo sér fólk, hvað er að ske. Það koma verkföll, það er gífurleg togstreita, og þá byrjar það að eyða um of aftur, vegna þess að forustan á Alþ., hjá öllum stjórnmálaflokkum er ekki meiri en svo, að það hvetur fólk, almenning í landinu, strax aftur, alla þá, sem hafa aðstöðu til þess, að byrja að eyða, og menn sjá fram á næstu gengisfellingu. Spurningin er, hvenær hún kemur: hálft ár, eitt ár eða síðar, fyrr eða síðar kemur að því sama. Og það er þó augljóst mál, að þetta er vonlaust fyrir togaraútgerðina í landinu, algerlega vonlaust. Í hreinskilni hafa margir togaraútgerðarmenn sagt við mig nú undanfarið: Það er engin leið að bjarga togaraflotanum með svona aðgerðum, það er engin leið. — Og fulltrúi stærsta flokksins hér á Alþ. talaði á Sjómannadaginn og lýsti því ákveðið yfir og það mun hann standa við, að það yrði ekki ráðist á kjör háseta á togaraflotanum til þess að bæta aðstöðu togaraflotans. Ef þjóðarbúið tekur of mikið frá þessari atvinnugrein, þá verður að skila því til hennar aftur með öðru móti en gengisfellingu, því að til hvers hækkum við togaraverð um 30–60 millj. á einu bretti? Hann fær það aldrei borgað til baka, aldrei nokkurn tíma, þegar öll aðföng hans munu hækka um helming núna með þessum aðgerðum. Það er algerlega vonlaust. Þetta vita menn mætavel. Þess vegna er hér bara verið að tjalda til skamms tíma.

Reynsla annarra þjóða er líka sú, að þær hafa allar séð sig knúnar til þess, þ.e. ríkisvaldið, að greiða niður stofnkostnaðinn vegna mikils stofnkostnaðar í tekjum úr sameiginlegum sjóði borgaranna, þ.e. úr ríkissjóði. Þetta sagði ég í aths. við fjárlagaræðuna hér fyrir áramót, og þá þótti þáv. hæstv. fjmrh. gustmikið að láta svona skoðun í ljós. En þetta er gert alls staðar hér í Evrópu og Kanada líka og mjög víða annars staðar vegna þeirrar einföldu staðreyndar, að tækjabúnaður í þessum skipum er orðinn svo gífurlegur og kröfur um að hafa hann svo gífurlegan, hann lyftir stofnkostnaðarverði þessara skipa svo hátt, að það fæst ekki hreyft tekjuhlutföllum á milli þessa þáttar og hluta áhafna, hvorki hjá okkur né öðrum þjóðum. Þess vegna er svona gengisfelling engin bót, ekki nokkur bót. við eigum þá að taka þennan gengismun og nota hann í beinar niðurgreiðslur. En hvað þýðir þá svona hreyfing? Hún þýðir aukna verðbólgu í landinu, sem hefur fellt hverja einustu ríkisstj., það er alveg nákvæmlega sama, hvernig hún hefur verið samsett. Hún felldi viðreisnarstjórnina, hún felldi síðustu stjórn, og það er spá mín, að hún muni fella þessa fyrr eða síðar fyrir bragðið, af því að svona er að þessu staðið.

Ég man eftir því í vor, að núv. hæstv. forsrh. lagði á það mjög mikla áherslu, að hæstv. þáv. sjútvrh. hefði lofað því um áramótin, að rekstraraðstaða togaraflotans væri ekki rýrð á árinu og olía skyldi niðurgreidd, og um margt fleira tókust þeir á hér í vor eða síðla á þingtíma varðandi loforð hæstv. ríkisstj. þá og hvernig ætti að standa að því að halda atvinnulífi gangandi til sjávarins. Nú hafa skipast veður í lofti, og nú þarf hann að tryggja, að það, sem hann fór fram á hér í vor, nái saman og tryggi snurðulausan rekstur. Og eins og segir í grg. Seðlabankans, að tvíþættan tilgang hefur þessi gengisfelling: að tryggja rekstrarafkomu atvinnuveganna og bæta greiðslustöðuna við útlönd varðandi ríkissjóðinn. Það þarf meira að koma til. Það hafa tugir báta verið í Norðursjó í vetur. Þegar við vorum að deila hér um loðnuskattinn, leitaði ég mjög ákveðið eftir stuðningi frá Sjálfstfl. við að skipta ekki öllum loðnugróðanum upp, eins og hann var hugsaður fyrir fram. Þá reiknuðu spekingar út, miklu klárari en Sölvi Helgason forðum, að það væri minnst 800 millj. nettóþénusta eða jafnvel mun meira, og þessu var öllu deilt upp fyrir fram. Það hlustaði ekki einn einasti maður á það að leggja eitthvað smávegis til hliðar. Öllu skyldi skipt upp fyrir fram og dreift út í þjóðfélagið. Og hvernig stöndum við núna? Þau sömu skip, sem skópu þennan möguleika eingöngu, hafa orðið að sækja mörg þeirra, langflest, núna á erlend mið. Og hver er niðurstaðan? Í nýlegu dreifibréfi frá samtökum þeirra kemur í ljós, að tugir þeirra eru í dúndrandi greiðsluvandræðum. Hefði ekki verið skynsamlegra að eiga örlítinn bita til seinni hluta ársins heldur en reikna aflann svo mikið, áður en hann var seldur, að hann gæfi þjóðarbúinu nærri einn milljarð, sem reyndist svo ekki nema um 100 millj. kr.

Það má segja, að það geti allir verið vitrir eftir á. En reynslan kennir okkur aðeins gegnum 30 ára baráttu eða allt frá stríðsárunum, að sveiflurnar eru svo miklar frá tímabili til tímabils, að það nær ekki nokkurri átt að skipta öllu upp. Þá hefðu gengisfellingarnar orðið færri og þjóðin hefði staðið betur að vígi að lifa sómasamlegu lífi og ekki á bónbjörgum erlendis frá. Það er áreiðanlega ekki vilji almennings að þurfa að haga sér þannig, eins og hann hefur gert, en hann sér sig knúinn til þess, menn sjá sig knúna til þess að slá og útvega fjármagn með öllu mögulegu móti, til þess að forðast það, sem menn eiga alltaf von á eftir ákveðinn tíma, að gengisfall verði, vegna þess að við höfum ekki kjark í okkur, — ég vil segja hver einasti þm., ég dreg mig ekki þar undan, — að ráðast að þeirri meinsemd, sem er að, og fellir hverja einustu ríkisstj. og endar með undanhaldi og einu skrefi niður á við, gengisfalli.

Það hefur verið mikið deilt á samningana í vetur, að þeir hafi komið þessari skyndilegu hreyfingu af stað. Vissir þættir samninganna hjá launþegunum í vetur eiga þátt í þessu. En 40% verðbólga á Íslandi er auðvitað ekki eingöngu þeim að kenna. Hún er líka stjórnleysi að kenna. Það er sagt núna, að það eigi að taka hraustlega á í þessu efni, og kannske verður það gert. Það er líka hægt að spyrna vel við fótum, en það er hægt að gera það með mismunandi hætti. Ég vil beina því eindregið til hæstv. forsrh., sem ég trúi, að a.m.k. persónulega hafi áhuga á að gera það sanngjarnlega, að hann muni eftir ýmsum, sem höllum fæti standa, þótt ekki hafi komið fram í yfirlýsingunni í gær, því að það mun reynast farsælt að muna eftir þeim. Það eru ýmsir, sem hafa þannig aðstöðu, og það fer ekkert leynt, að þeir geta skrifað næstum því þá reikninga, sem þeim dettur í hug, og sleppa billega við. Það væri sannarlega verðugt verkefni bæði fyrir hans flokk og okkur alla að standa saman að því að kanna það svið, sem þessir menn hafa og hversu langt þeir hafa komist í því efni, og ráðast á þá meinsemd.

Svo er annar stór þáttur í þessu, sem ég fjallaði nokkuð um, þegar við vorum að tala um loðnuskattinn og mun koma að núna og skiptir meginmáli. Það er, hvernig menn hafa rekið sín fyrirtæki, bæði við öflun og vinnslu. Ef það verður mjög einhliða gert að færa stórar fúlgur innbyrðis í sjávarútveginum á milli vissra greina og viðurkenna ekki þá, sem spjara sig, heldur hundelta þá sérstaklega, eins og átti að gera í öðrum till., sem ég hef hér í töskunni, þá líst mér illa á þetta. Og þá veit ég, að hæstv. fjmrh. mun fá „varmar kveðjur“ á vissu svæði, þegar hann heimsækir kjósendur sína, og veit ég, að þessi orð munu komast til hans. Hann er nú staddur í d. (Fjmrh.: Það nægir.) Það nægir, já. Hann veit, við hvað ég á. Ég legg á það mikla áherslu, að þeir, sem hafa skipulagt vel sín fyrirtæki og spjarað sig vel í gegnum mismunandi tímabil, því að bæði saltfiskur og skreið hafa átt sína örðugleika og skreiðin hefur t.d. verið óseljanleg í nærri 4 ár, þótt hún hafi séð lít núna, að það verði ekki gengið að þessum atvinnugreinum og höggvið alveg inn að merg með þessum hliðarráðstöfunum og af þeim gengismun, sem hugsanlega verður, því að s.l. vor hækkaði þáv. ríkisstj. gengið og gekk svo hraustlega til verks varðandi þessar starfsgreinar, sem áttu þá allt sitt á lager, að þeir reiknuðu afurðirnar á nýja genginu og lækkuðu þær þá. Ef nú á að breyta til og reikna þær á gamla genginu og hirða mismuninn, þá munu margir verða heitir í okkar umdæmi, hæstv. fjmrh., sem standa í þessum atvinnurekstri. Og ég vil segja það hreint út, að ef slíkt á sér stað, þá er þar um hreina eignaupptöku að ræða. Annað mál er, hvort við tökum úr sameiginlegum sjóði ákveðna upphæð til að greiða ákveðnar sameiginlegar þarfir. En þá verður það að koma öllum bátaflotanum, hvar sem hann stundar veiðar, jafnt til góða, því að togararnir selja líka á erlendum markaði og bátaflotinn að hluta selur líka á erlendum markaði, þó að hann taki ekki olíuna hér heima.

Gengisbreyting, sem færir á milli í einu vetfangi 34 milljarða, er ekkert grín út af fyrir sig og kallar á mjög margar hliðarráðstafanir. Og það alvarlegasta er, að menn reyna enn einu sinni að koma peningum sínum fyrir í óþarfa eyðslu eða eyðslu, sem er ekki bein nauðsyn fyrir daglegt líf, eingöngu til að tryggja það, að þeir fái þó eitthvað fyrir aurana Menn vilja spyrja mig kannske: Hvað vilt þú, að gert sé? Ég skal segja það sem mína persónulega skoðun. Ég vil í fyrsta lagi hiklaust, að það verði rannsakað gaumgæfilega, hvort ákvæðisvinnukerfið er ekki gersamlega óraunhæft við íslenskar aðstæður. Það má gera það í fullu samráði við þá aðila, sem þar eiga hlut að máli, og það má alveg eins setja lög um þá aðila, því að þeir eru úr öllum pólitískum flokkum, eins og almenning í landinu. Það eru í öðrum þjóðlöndum þau ákvæði í lögum varðandi ákvæðisvinnukerfið, að það skuli aldrei fara í prósentum tali upp fyrir visst hlutfall miðað við gildandi tímakaup. En hér nær það oft mörg hundruð prósentum fram yfir gildandi tímakaup, og nær auðvitað ekki nokkurri átt. Þetta er sú meinsemd, sem við búum við, og ef að henni verður ekki vegið og hún upp skorin, þá heldur þessi ósómi áfram og við náum aldrei jafnvægi í okkar efnahagslífi, aldrei nokkurn tíma. Það er mitt mat.

Annað er það, ef við erum svona illa staddir varðandi stöðu ríkissjóðs og vissa þætti sjávarútvegsins, þá er ekkert óhugsandi að ná láni hér innanlands og jafnvel erlendis til langs tíma og athuga um niðurgreiðslu og tilfærslu, án þess að fella gengið. Þetta lán þyrfti að vera kannske 21/2 milljarðar, en það mundi þá ekki auka verðbólguna í landinu. Og ýmislegt fleira kæmi til greina. Það hafa áður átt sér stað skuldaskil, bæði hjá viðreisnarflokkunum og eins, ef ég man rétt, hjá hv. stjórnarflokkum núna, á þeim skuldum, sem myndast hafa við erfiðar aðstæður á fyrri tímabilum hjá útveginum, og hefur tekist vel til með það.

Ég tel grundvallaratriði, þegar kemur upp, að afurðir seljast treglega, að það sé ekki hlaupið umsvifalaust í gengisfellingu. Ég tel það grundvallaratriði, vegna þess að það eykur svo hvöt hjá almenningi að eyða umfram nauðsyn, og það hefur glögglega komið í ljós núna, hvernig fólk flykkist frá landinu bókstaflega af ótta við það, að hver ferð sé sú síðasta, sem það komist í. Um leið er tvennt, sem skeður: óþarfaeyðsla og minnkandi eftirspurn hér heima, og þeir, sem standa hér í hótelrekstri eða þjónustu við farþega innanlands, eru allir að kikna, af því að fólkið ferðast ekki í sínu eigin landi, heldur erlendis fyrst og fremst. Þar með hefur þetta tvöföld eða jafnvel margföld áhrif, að stefnan skuli vera þannig, að hvötin til að eyða sé númer eitt.

Við ættum að hafa þann sóma á Alþ. að draga úr þessari hvöt og reyna að skapa hér eðlilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En því miður sé ég ekki, að þessar ráðstafanir tryggi það á einn eða annan hátt. Því miður sé ég það ekki.

Það væri freistandi að fara hér út í umr., sem áttu sér stað fyrir 11/2 ári á milli þáv. forsrh. og formanns Sjálfstfl., held ég, að hann hafi verið enn þá, Jóhanns Hafstein, — sem áttu sér stað í sjónvarpinu og ég hef hér afrit af. (Gripið fram í.) Ég á við það, það er líklega betra. Það er nefnilega ekkert hollt að rifja upp það, sem þáv. formaður flokksins sagði í sambandi við gengisfellingar og ýmsa hluti, því að það er of mikill sannleikur í því enn í dag, að svona eigi að standa að því, sem er að ske núna. Ég met mjög heilbrigt sjónarmið, sem kom fram hjá honum, mjög heilbrigt og gott. Hann vill nefnilega, að menn hafi rétt til þess að spara og að verðmæta, sem einstaklingar búa til. fái þeir að njóta og ráðstafa á eðlilegan og góðan hátt án ótta víð, að annar komi og hirði það. En þá hafði vinstri stjórnin einmitt fellt gengið í des. 1972 þrátt fyrir marggefin loforð um að beita öðrum úrræðum. Það er undarlegt, að bankavaldið í landinu er svo sterkt, að það skipar okkur fyrir verkum hér á Alþ., bókstaflega skipar okkur fyrir verkum. Þeir stöðva gjaldeyrissölu um daginn í Seðlabankanum, en ég persónulega tel, að þeir hafi engan rétt á því, ekki nokkurn rétt á því. Ég persónulega tel, að þeir hafi ekki slíkt vald nema í fullu samráði við ríkisstj., og ef ríkisstj. neitar því, þá hafi þeir það ekki. Slíkt er slæmt. Það eykur aðeins á glundroðann og spákaupmennskuna. Það má afhenda Seðlabankanum visst vald til hreyfingar á genginu. En það er allt annað en að gera það, sem þeir gerðu um daginn. Þeir stöðva gjaldeyrissölu í landinu. Það er allt annað, eykur verulega á óvissu og spennu og skapar aðeins erfiðleika fyrir hæstv. ríkisstj.

Reynslan af gengisfellingum er raunar sú og grjóthörð staðreynd, að þrátt fyrir nauðsyn þeirra við vissar aðstæður, þegar er lágt verð á afurðum og aflatregða, — og allt aðrar aðstæður ríkja í dag, þegar þenslan er svo mikil, að menn ráða ekki við það, — þá getur verið rétt og skynsamlegt að grípa til nokkurrar gengisfellingar, en alls ekki við ríkjandi verðþenslu, eins og nú á sér stað, því að hún gerir ekkert annað en vera olía eða bensin á bálið. Hagsmunasamtökin eru það sterk á Íslandi, þau geta sýnt það, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að þau una því ekki, þegar slík kollsteypa á sér stað, að erlendur gjaldeyri hækki á hálfu ári eða rúmlega hálfu ári um 46%. Síðan koma aðrar álögur í viðbót, þannig að öll aðföng hækka um helming, um 50%, á rúmlega hálfu ári. Þetta er gífurlegt álag, og við hljótum að hugleiða það mjög alvarlega, hvort ekki sé til neitt úrræði annað en að hopa undan þessari þróun. Ég trúi ekki öðru en það sé, og ég lét það skýrt koma fram í mínum þingflokki, þegar við sáum þær till., sem frammi lágu, að það hefði verið reiknaður út 5%, 8% og 15% gengisfellingarmöguleiki, að ég stæði ekki að þessum hugmyndum, ef til þess kæmi, að Alþfl. yrði í ríkisstj., þá stæði ég ekki að slíku. Þeir yrðu þá að gera það, hinir. Áhuginn hjá okkur var mjög takmarkaður á að fara þessa leið. Þegar þenslan í landinu er svona gífurleg, eins og við vitum allir, að hún er, þá hljóta að vera önnur úrræði til. Það hlýtur að vera réttlætanlegra en að svipta sparifjáreigendur og marga aðra slíkum óhemjufjárhæðum, eins og verið er að gera núna. Það hlýtur að vera annað til.

Það hefur verið farið fram á það, að þetta mál gæti gengið fljótt fyrir sig. Ég skal verða við þeirri beiðni hæstv. forsrh. En ég vænti þess, að sanngjarnlega og með sómatilfinningu verði staðið að ráðstöfun á gengismismun, sem fram kemur, og einnig þeim öðrum hliðarráðstöfunum, sem óhjákvæmilegar eru, og þá verði munað eftir því fólki, sem hagnast ekki á þessari gengisfellingu. En það eru hins vegar margir, sem eiga stórar eignir og eru líka stórskuldugir, sem fá núna gífurlegar fúlgur á einni nóttu sín megin fyrir lítið, sannarlega lítið. Og þeir, sem hafa talið sér mestan hag í því að kaupa sand og sement og hella þar vatni á og hafa í móti, þéna nú mjög vel og sumir hverjir telja það þegar í milljónum og tugum milljóna. Þetta ættum við að hætta að viðurkenna eða verðlauna hér á Alþ. Hitt þykir mér öllu lélegra, að áhuginn á að koma þessu í gegn hjá hv. stjórnarliði er svo daufur, að við í stjórnarandstöðunni verðum að hjálpa þeim með mótatkv., til þess að frv. nái fram að ganga. En svo verður vist að vera, enda samviskan líklega ekki í góðu lagi hjá þeim öllum.