20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Það er ekki ástæða til þess að ræða mikið um það frv. sem hér liggur fyrir, því það er, eins og hæstv. sjútvrh. sagði, flutt til staðfestingar á brbl. þar sem verið var að taka af tvímæli um ákvæði í lögum og leiðrétta nokkur mistök. Ég hygg að enginn ágreiningur sé um efni þessa máls út af fyrir sig.

En ég vil nota þetta tækifæri til þess að ræða hér nokkuð um skylt mál þessu, en það er um stöðuna í okkar landhelgismálum eins og nú er komið. Við vitum öll að samkv. gerðu samkomulagi við Breta eiga veiðiheimildir þeirra innan okkar fiskveiðilandhelgi að falla niður 1. des. n.k. eða eftir einn mánuð og tíu daga þar um bil. Við höfum líka heyrt það að Bretar virðast vera mjög ákafir í að skapa sér aðstöðu til þess að taka upp samninga við okkur á nýjan leik um fiskveiðiheimildir í fiskveiðilandhelgi okkar og ef þeir geri það ekki beint sjálfir, þá geri Efnahagsbandalag Evrópu það fyrir þeirra hönd og þá einnig fyrir bönd annarra ríkja.

Af okkar hálfu hefur það nokkuð komið fram í umr. um þetta mál, að rætt hefur verið um að til greina gætu komið af okkar hálfu samningar við aðrar þjóðir um veiðiheimildir á svonefndum gagnkvæmum grundvelli, þ.e.a.s. að við heimiluðum veiðimönnum frá öðrum löndum að veiða hér í okkar fiskveiðilandhelgi gegn því að okkar fiskimenn fengju sams konar eða hliðstæðan rétt í fiskveiðilandhelgi þeirra.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel að umr. af þessu tagi af okkar hálfu séu mjög óheppilegar og varhugaverðar, eins og staðan er nú. Ég tel að eins og málin liggja nú fyrir, þá sé ekki um neitt slíka samninga að gera. Við vitum að Bretar eða Efnahagsbandalagsþjóðir hafa ekkert fram að færa varðandi veiðiheimildir fyrir okkur sem kemst í neinn samjöfnuð við það sem þeir eru að leita eftir hjá okkur. Þar gæti aðeins verið um það að ræða að bjóða okkur viss réttindi til síldveiða í Norðursjó, en við vitum mætavel að þau réttindi eru sáralítils virði eins og sakir standa, og fyrir slík réttindi getum við ekki veitt neinar veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilandhelgi.

Það hefur komið fram skýrt og greinilega, að verði fiskveiðilandhelgin við Grænland færð út í 200 mílur, þá er sú landhelgi fyrir utan áhrifasvæði Efnahagsbandalagsins. Það getur því ekki boðið ein eða nein réttindi innan þeirrar fiskveiðilandhelgi, enda er sama um það að segja, að veiðiréttindi fyrir okkur í grænlenskri fiskveiðilandhelgi, þó að hún næði út í 200 mílur, Jafnréttindi væru okkur mjög lítils virði, miðað við okkar útgerðarháttu eins og nú standa sakir, enda ástand fiskstofnanna við Grænland jafnvel enn þá verra en ástandið er hér við land.

Það er skoðun mín að eins og þessi mál snúa við nú, þá sé mjög nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld tali skýrt í þessu máli og geri öllum hlutaðeigendum ljóst að samningar af okkar hálfu um veiðiheimildir til handa Bretum eða öðrum Efnahagsbandalagsþjóðum koma ekki til greina eftir að samningar eiga að falla úr gildi nú 1. des. n.k. Ég álít að þetta beri að gera sem allra fyrst, að íslensk stjórnvöld gefi yfirlýsingu um þetta, að viðræður af hálfu Breta eða Efnahagsbandalagsins við okkur um þessi mál séu með öllu gagnslausar, við séum ekki til viðtals um að veita neinar veiðiheimildir eftir 1. des. n.k.

Inn í umr. um þetta mál á að sjálfsögðu ekki að blanda á neinn hátt því sem kann að geta komið upp varðandi þessi mál eftir mörg ár, 5 ár, 10 ár eða eitthvað slíkt. Vissulega getur það komið til greina að við metum okkar stöðu þannig að við léðum máls á einhverjum gagnkvæmum samningum þegar aðstæður væru til þess. En ekkert slíkt liggur fyrir í dag, og því á að taka af allan vafa og ekki að fara að taka þátt í gagnleysisumræðum um þessi mál eða láta flækja okkur í málið á einn eða annan hátt. Ég varpa því þess vegna fram hér, að ég óska eindregið eftir því að hæstv. ríkisstj. gefi yfirlýsingu um það nú sem allra fyrst, einmitt í tilefni af því sem fram er að koma frá hálfu Breta og Efnahagsbandalagsins, að það komi ekki til greina af okkar hálfu að framlengja samkomulagið sem á að renna úr gildi 1. des. n.k., ekki í einu eða neinu formi, og það komi ekki til mála af okkar hálfu að gera samninga um svonefnd gagnkvæm réttindi eins og mál standa nú, eða yfirleitt að veita aðilum Efnahagsbandalagsins eða Bretlands nein veiðiréttindi eftir 1. des. innan okkar fiskveiðilandhelgi.

Í öðru lagi tel ég að það eigi að liggja skýrt fyrir að allar aðrar veiðiheimildir, sem leyfðar hafa verið útlendingum, eigi einnig að falla niður svo fljótt sem hægt er, og ég hafði gert ráð fyrir því að þær gætu allar fallið niður 1. des. n.k. Sé þörf á því að segja einhverjum af þeim samningum upp sem gerðir hafa verið um þetta efni, þá þarf að gera það hið fyrsta, en annars sjá um að veiðiheimildir útlendinga falli allar niður.

Það hefur verið minnst á það af ýmsum aðilum, að við getum e.t.v. lítið nokkuð sérstökum augum á aðstöðu Færeyinga varðandi þessi mál. Þá ber að taka það sérstaklega til athugunar, að hvaða marki við treystum okkur til þess að veita þeim hér sérstöðu, og ekki blanda því á neinn hátt saman við annað. Það er sjálfsagt að það verði athugað í samstarfi á milli flokka hvort við treystum okkur til þess, miðað við okkar erfiðu aðstöðu, eða ekki.

Ég legg einnig á það áherslu, að ríkisstj. lýsi því yfir að hún geri ráðstafanir til þess eða hafi þegar gert ráðstafanir til þess að þessar veiðiheimildir annarra falli einnig niður svo fljótt sem hægt er. Ég veit að það þarf ekki að rökstyðja það fyrir hv. alþm. vegna hvers það er nauðsynlegt fyrir okkur að halda á málunum á þennan hátt. Við búum enn þá við það að ástand fiskstofnanna hér við landið er tvímælalaust mjög veikt, hvort sem það er nú jafnsvart og sagt hefur verið af okkar fiskifræðingum eða ekki, það er annað mál. En ég held að það sé enginn vafi á því og ég held að enginn maður efist um það, að staða t.d. þorskstofnsins við landið er mjög veik, ástandið þar sé mjög veikt. Það er greinilegt að á þessu ári verður tekið úr íslenska þorskstofninum mun meira aflamagn en fiskifræðingar höfðu ráðlagt. Ég tek það skýrt fram, að ég ásaka ekki hæstv. sjútvrh.ríkisstj. fyrir að hafa ekki gengið lengra en hún hefur gert eða hann hefur gert til þess að draga úr veiði íslendinga. Ég tel að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af okkar hálfu til þess að draga úr okkar eigin veiði, umtalsverðar ráðstafanir þegar á allt er litið, hafi verið þannig að það hafi ekki verið ástæða til þess að ganga þar lengra og ekki auðvelt að gera það. En hitt er jafnljóst, að því miður hafa útlendingar fengið að taka hér, mestmegnis samkv. samkomulagi, allmiklu meira aflamagn á þessu ári en æskilegt hefði verið. En um það standa auðvitað deilur, eins og við vitum, hvort við hefðum getað losnað við sókn þeirra meira en raun hefur á orðið eða hvort þetta var skásta útkoman eða ekki sem orðið hefur. En það er enginn vafi á því, að það verður veitt úr íslenska þorskstofninum það mikið á þessu ári, það miklum mun meira en fiskifræðingarnir höfðu ráðlagt, að menn eru talsvert hræddir um stöðuna, og við verðum eflaust að halda uppi okkar hömlureglum einnig á næsta ári þó við þurfum virkilega á því að halda að draga meiri afla á land en við höfum „ert. Af þessum ástæðum er það, að við getum ekki undir þessum kringumstæðum — ekki með nokkrum hætti — léð máls á því að fara að semja við útlendinga um hluta af þessum takmarkaða afla okkar. Þar verðum við að nota okkur allan þann rétt sem við höfum, alla þá aðstöðu sem við höfum og megum ekki ljá máls á því að fara að þinga við aðra um að hleypa þeim inn í okkar fiskveiðilandhelgi eftir þann tíma sem hér hefur verið rætt um.

Mér fannst ástæða til að koma þessu hér á framfæri undir þessum dagskrárlið, þó að það falli ekki beint undir það frv. sem hér liggur fyrir. En hér er um skylt mál að ræða og ég taldi heppilegra að segja þessi orð mín hér heldur en taka málið upp sérstaklega utan dagskrár. En ég vil vænta þess að hæstv. ríkisstj. geti fallist á þessi sjónarmið mín og hún láti frá sér heyra alveg á næstunni skýlausar yfirlýsingar í þessa átt, svo að enginn vafi þurfi að vera á því við hverju má búast í þessum efnum, þannig að við séum ekki heldur að þvælast út í samningaviðræður um mál sem við ætlum ekki að semja um og getum ekki samið um. Af því tel ég að yfirlýsingarnar þurfi að vera skýlausar og hreinar, þannig að það leiki enginn vafi á því hvað er meint.